07.05.1965
Sameinað þing: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1965

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Um leið og gerð er grein fyrir fjáröflunar- og framkvæmdaáætlun ríkisstj. fyrir árið 1965, er ástæða til að gera stutta og almenna grein fyrir þróun þjóðarbúskaparins á fyrra helmingi þess tímabils, sem þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963—1966 náði yfir.

Sú þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem lögð var fram fyrir rúmum tveim árum, var mikilvægt nýtt hagstjórnartæki í íslenzkum efnahagsmálum. Öllum, sem að henni stóðu, var hins vegar ljóst, að mörg mikilvæg skilyrði skorti hér á landi, til þess að áætlanagerð næði til fulls þeim árangri, sem æskilegt væri. Ég vil nefna hér fjögur atriði, sem sérstaklega valda vandkvæðum varðandi gerð og framkvæmd þjóðhagsáætlana hér á landi.

Í fyrsta lagi ber að nefna þá sérstöku óvissu, sem ætíð hlýtur að vera um framleiðsluþróun í landi, þar sem aðalatvinnuvegurinn er háður mikilli óvissu um aflabrögð og ytri skilyrði, eins og hér á sér stað um sjávarútveginn. Hlýtur þetta að skapa miklu meiri óvissu, um þróunina frá ári til árs, heldur en í löndum, sem byggja á stöðugri iðnrekstri. En þetta er að sjálfsögðu á engan hátt röksemd gegn áætlanagerð, en veldur því á hinn bóginn, að sérstök ástæða er til að ætla, að sú breyting aðstæðna geti átt sér stað á áætlunartímabilinu, sem geri mikil frávik frá áætluninni, jafnvel í veigamiklum atriðum, bæði eðlileg og óhjákvæmileg.

Í öðru lagi er það meginforsenda sæmilega öruggrar áætlunargerðar, að jafnvægi haldist í efnahagsmálum. Verði veruleg röskun á tekjum, verðlagi og hlutfallinu milli heildareftirspurnar og framboðs í þjóðfélaginu, hlýtur það að koma fram í hlutfallslegum breytingum á þeim meginþáttum, svo sem einkaneyzlu, fjárfestingu og samneyzlu, sem í áætluninni felast. Í þessum efnum og þá sérstaklega verðlagsmálum hefur þróunin orðið á annan veg, einkum á árinu 1963, heldur en ríkisstj. hefði helzt kosið og hún gerði ráð fyrir í þjóðhags- og framkvæmdaáætluninni. Á því ári átti sér stað mikil röskun kaupgjalds og verðlags, sem víðtæk áhrif hafði bæði á einkaneyzlu og einkafjárfestingu. Nokkrum tökum tókst þó að ná á þessari þróun, áður en í óefni var komið, fyrst með ráðstöfunum í lánsfjármálum haustið 1963 og síðan með hinu almenna launasamkomulagi, sem gert var í júní 1964.

Í þriðja lagi hlýtur það að takmarka áhrifavald áætlunargerðar hér á landi, að ríkisstj. hefur ekki bein áhrif á framkvæmdaákvarðanir nema á takmörkuðu sviði efnahagskerfisins. Um fastar áætlanir, sem örugglega sé hægt að framfylgja, getur varla orðið að ræða nema á því sviði ríkisbúskaparins, sem framkvæmdavaldið ræður yfir. Í meginhluta hagkerfisins ráða einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök ákvörðunum og framkvæmdum, en áhrif ríkisins hljóta að verða einskorðuð við almennár efnahagslegar ráðstafanir. Í sama hópi má að verulegu leyti telja sveitarfélögin, en áhrif ríkisvaldsins á framkvæmd þeirra eru tiltölulega lítil og óbein. Þrátt fyrir þessar takmarkanir á áhrifavaldi ríkisins, er enginn vafi á almennri gagnsemi áætlanagerðar fyrir stjórn efnahagsmála. Hún getur orðið mikilvæg leiðbeining um þá raunverulegu möguleika, sem um er að velja í stjórn efnahagsmála og skapað skipulegan ramma, er tryggi innbyrðis samræmi milli ákvarðana. Ríkisstj. telur þessa gagnsemi áætlanagerða hafa komið greinilega fram á þeim tveimur árum, sem nú eru liðin af áætlunartímabilinu.

Í fjórða lagi er það skilyrði traustrar framkvæmdar allra áætlana, að áætlunargerðin taki til alls framkvæmda- og ákvörðunarkerfis ríkisins. Heildaráætlanir eru því aðeins raunhæfar, að gerðar séu undiráætlanir fyrir hvert einstakt framkvæmdasvið og ráðstafanir gerðar til þess að tryggja, að áætlanirnar verði raunverulega framkvæmdar. Mjög hefur verið unnið að því undanfarin tvö ár að skapa slíkan grundvöll áætlunargerða. Hefur verið lögð mikil vinna í einstakar áætlanir, svo sem vegáætlunina, áætlun fyrir Vestfirði, áætlanir í virkjunarmálum, skólamálum, sjúkrahúsamálum og mörgu fleira. Í þessum efnum er enn mikið verk óunnið. En það, sem þegar hefur áunnizt, er mikils virði og líklegt til þess að skapa sterkari grundvöll raunhæfrar áætlunargerðar á Íslandi í framtíðinni.

Skal nú í megindráttum rakin þróun þjóðarbúskaparins fyrstu tvö ár áætlunartímabilsins, þ.e.a.s. árin 1963 og 1964. Þjóðarframleiðslan jókst bæði þessi ár meira, en gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhagsáætluninni. Aukningin var bæði árin aðallega borin uppi af sjávarútvegi, ásamt vinnslu sjávarafurða, iðnaði fyrir innlendan markað, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Á árinu 1963 var framleiðsluaukningin 7%, og átti þá aukin mannvirkjagerð mikinn þátt í aukningunni. Árið 1964 var aukningin nokkru minni eða um 51/2% og byggðist hún þá í nokkru meira mæli, en fyrra árið á aukningu sjávarafla og vinnslu hans, en minna á auknum framkvæmdum. Þar sem nokkur aukning varð á aukavinnu, einkum á árinu 1963, varð framleiðsluaukningin á vinnustund ekki að ráði meiri en gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhags- og framkvæmdaáætluninni í upphafi. Er því ekki sérstök ástæða til að ætla, að aukning þjóðarframleiðslunnar fari næstu árin verulega fram úr því, sem þjóðhagsáætlunin gerði ráð fyrir.

Í þjóðhagsáætluninni var ekki talið fært að reikna með neinni bót viðskiptakjara á áætlunartímabilinu. Reyndist það að mestu rétt á árinu 1963, en árið 1964 varð mjög veruleg hækkun á útflutningsverðlagi og er áætlað, að viðskiptakjör hafi batnað um nær 6%. Þjóðartekjur jukust því nokkru meir, en þjóðarframleiðslan eða um nær 7.5%, sem er svipað hlutfall og árið áður.

Sé nú lítið á hina hlið þjóðhagsreikninga, þ.e.a.s. ráðstöfun þeirra verðmæta, sem þjóðarbúið hafði yfir að ráða, kemur í ljós, að verðmætaráðstöfun í heild jókst á árinu 1963 miklu örar en þjóðartekjurnar, eða um rúm 12% á móti 7% aukningu þjóðartekna. Á árinu 1964 hneigðist þetta hins vegar aftur til jafnvægis, svo að verðmætaráðstöfun varð mjög svipuð aukningu þjóðartekna í heild. Hin mikla aukning verðmætaráðstöfunar bæði til neyzlu og fjárfestingar á árinu 1963 umfram aukningu þjóðartekna varð svo til þess, að greiðslujöfnuðurinn við útlönd snerist úr verulegum greiðsluafgangi á árinu 1962 í 220 millj. kr. halla á árinu 1963. Viðskiptahallinn varð svo aftur svipaður á árinu 1964. Talsverður hluti innflutnings þessi tvö ár var skip og flugvélar, sem greitt var með lengri lánum og hafði því ekki áhrif á gjaldeyrissölu bankanna, og hélt því gjaldeyrisstaðan áfram að batna.

Hin mikla aukning eftirspurnar árin 1963 og 1964 beindist að mjög stórum hluta að auknum innflutningi og hafði því í för með sér minni röskun innanlands en ella hefði orðið. Á árinu 1963 varð þó aukning almennrar eftirspurnar verklegra framkvæmda og vinnuaflsnotkunar svo ör, að til alvarlegrar jafnvægisröskunar stefndi. Úr þessu rættist þó verulega á árinu 1964. Sé litið á einstaka þætti verðmætaráðstöfunarinnar, er sérstaklega vert að nefna eftirfarandi:

Um einkaneyzlu er það að segja, að hún jókst mun örar 1963, en gert hafði verið ráð fyrir, eða um tæp 7%, en á árinu 1964 virðist aukningin hafa verið allmiklu minni. Hefur einkaneyzlan aukizt hægar, en þjóðartekjur, eins og áætlunin reyndar gerði ráð fyrir. En sé reiknað á verðlagi hvers árs fyrir sig, hefur hlutfall einkaneyzlunnar numið um 65% af þjóðartekjum öll þrjú árin 1962–1964.

Annar þáttur verðmætaráðstöfunarinnar er samneyzlan, en svo nefnist kostnaður af þjónustu ríkis og sveitarfélaga við borgarana, en þróun hans hefur verið svo að segja alveg í samræmi við þjóðhagsáætlunina, ef reiknað er á föstu verðlagi.

Vegna launahækkunar opinberra starfsmanna hefur hlutfall samneyzlunnar þó hækkað nokkuð frá miðju ári 1963, ef reiknað er með verðlagi þess árs. Hlutdeild samneyzlunnar í verðmætaráðstöfuninni liggur á milli 8 og 9%.

Þá er komið að síðasta þætti verðmætaráðstöfunarinnar, fjárfestingunni, en það er hún, sem mestri þenslu hefur valdið.

Á árinu 1963 jókst fjárfestingin um 29%, og var það um 9% meira, en áætlunin hafði gert ráð fyrir. Þótt aukningin yrði mest í vélum og tækjum af öllu tagi, varð aukning í mannvirkjagerð um 20% og hafði hún í för með sér tilsvarandi kröfur um aukinn mannafla og vinnuálag.

Á árinu 1964 varð aukningin hóflegri eða um 13% eftir bráðabirgðatölum að dæma. Mestur hluti aukningarinnar varð nú á skipum og flugvélum, en byggingar og önnur mannvirki jukust um 7%, og átti þar m.a. þátt í betra jafnvægi á árinu. Hlutfall fjárfestingar í verðmætaráðstöfuninni í heild hefur aukizt verulega undanfarin tvö ár og varð 29% árið 1963 og tæp 31% árið 1964. Hlutfallið er nokkru lægra, ef reiknað er á verðlagi hvors árs fyrir sig.

Skal nú að lokum drepið á skiptingu fjárfestingarinnar í eftirfarandi meginþætti: atvinnuvegina, íbúðarhúsabyggingar og mannvirki og byggingar hins opinbera.

Atvinnuvegirnir juku fjárfestingu sína mest af þessum þremur höfuðgreinum og fóru lengst fram úr þeim áætlunum, sem gerðar höfðu verið. Á árinu 1964 nam fjárfesting atvinnuveganna 64% meira, en árið 1964. Mest varð aukningin á þessu tímabili í flutningatækjum 166%, en þar komu fram áhrif hinna miklu flugvélakaupa Loftleiða á árinu 1964. Fjárfesting í fiskiskipum jókst um 140% og fjárfesting í ýmiss konar vélum og tækjum um 81%. Í landbúnaði var aukningin um 18%, iðnaði rúm 13% og byggingu verzlunar-, skrifstofu- og gistihúsa 26%.

Um byggingu íbúðarhúsa er það að segja, að hún jókst mjög ört á árinu 1963, en nokkru hægar á árinu 1964. Það ár voru byggingar íbúðarhúsa 37% meiri, en á árinu 1962. Að magni til svöruðu byggingarframkvæmdir ársins 1963 því, að lokið væri 1.400 íbúðum af meðalstærð og árið 1964 samsvöruðu þær 1.500 íbúðum á ári, en höfðu verið um 1.100 árið 1962. Vegna þess, hve ráðizt var í margar nýjar íbúðabyggingar á þessum tveimur árum, sem ólokið var í árslok 1964, kom þessi mikla aukning ekki að fullu fram í meira framboði á nýjum íbúðum.

Þá er komið að síðasta þættinum, mannvirkjum og byggingum hins opinbera. Í heild voru þau í samræmi við áætlunina, enda þótt veruleg frávik væru í einstökum greinum. Sérstaklega hafa framkvæmdir sveitarfélaga aukizt meira, en áætlað hafði verið. Framkvæmdir ríkisins jukust því í raun og veru heldur minna á árunum 1963 og 1964, en áætlað hafði verið, en það stafar að nokkru leyti af því, að veruleg útgjöld til virkjanaframkvæmda hafa frestazt nokkru lengur, en upphaflega hafði verið áætlað. Í heild bera tölurnar um þróun opinberra framkvæmda það með sér, að orsakir þeirrar ofþenslu, sem verið hefur í framkvæmdum undanfarin tvö ár, eigi ekki rætur sínar að rekja til aðgerða ríkisins í þeim efnum.

Fyrir árið 1965 hefur sem að undanförnu verið gerð sérstök framkvæmda- og fjáröflunaráætlun og skal nú nánar vikið að henni.

Ríkisstj: hefur rætt og samþ. skýrslur og till. um alla málefnaflokka áætlunarinnar og einnig þá fjáröflunaráætlun, sem mætir samanlagðri fjárþörf. Áætluninni er ekki rígskorðaður rammi um framkvæmdir ríkisins og þær framkvæmdir aðrar, opinberar eða einkaframkvæmdir, sem hún fjallar um. Frekar ber að líta á hana sem viðmiðun, er sýni fyrirætlanir ríkisstj., þegar lítið er annars vegar til þeirra margvíslegu þarfa, sem að kalla og hins vegar til þess, að fé er af skornum skammti til þess að mæta þessum þörfum.

Áætlunin nær ekki til allra framkvæmda hins opinbera. T.d. er ekki gerð grein fyrir framkvæmdum á vegum sveitarfélaga nema að því leyti, þar sem um náin tengsl við fjármál ríkisins er að ræða, svo sem skóla, hafnir o.fl. Nokkrum framkvæmdaflokkum hjá ríkinu sjálfu er einnig sleppt og eru ástæður fyrir því margvíslegar, þ. á m. að ekki hefur verið um sérstök fjáröflunarvandamál að ræða.

Skv. þeirri þjóðhagsáætlun, sem Efnahagsstofnunin hefur gert fyrir árið 1965, má áætla alla fjárfestingu ársins um 5 milljarða króna. Segja má, að áætlun ríkisstj. nái til um þriðja hluta þessarar heildarfjárfestingar eða um 1.722 millj. Upp í þetta eru til ráðstöfunar 1.250 millj. kr. eigið fé og framlög hins opinbera, tryggt lánsfé nemur um 92 millj., þannig að um 380 millj. kr. þurfti að útvega með sérstakri fjáröflun. Ríkisstj. hefur samþ., að þessi fjáröflun verði þannig:

1. Ónotað fé, aflað vegna áætlunar 1964, 40 millj.

2. Innlent ríkislán 75 millj.

3. Innlend lán frá bönkum 75 millj.

4. Mótvirðisfé 20 millj.

5. PL–480–lán 60 millj.

6. Aðrar lántökur 110 millj., en verulegur

hluti af þessum 110 millj, mun verða tekinn

að láni erlendis.

Samtals eru þetta 380 millj. kr.

Á þeim töflum, sem útbýtt hefur verið meðal hv. alþm., er heildaryfirlit yfir þá fjárfestingarlánasjóði og fyrirtæki og þær opinberar framkvæmdir, sem áætlunin fjallar um og skal nú gerð nánari grein fyrir einstökum liðum áætlunarinnar.

Fiskiðnaður: Í janúar s.l. var undirritaður samningur milli Seðlabankans, Landsbankans og útvegsbankans um, að það fjármagn frá þessum bönkum, sem nú er bundið í útlánum stofnlánadeildarinnar, verði að verulegu leyti látið ganga til nýrra lána, eftir því sem það losnar. Hér er um að ræða 100 millj, kr. sem framlagsfé bankanna, en 235 millj. kr. sem lán til 25 ára. Á þessu ári ætti að vera hægt að lána úr deildinni a.m.k. 40 millj., auk þess sem stofnlánadeildin mun hafa með höndum útlán til dráttarbrauta og fær til þess 15 millj. kr. viðbótarfé umfram þær 40 millj., sem áður er getið. Útlán annarra fjárfestingarlánastofnana til fiskiðnaðar árið 1964 voru samtals rúm 41 millj. kr., en eru áætluð 56 millj. kr. á þessu ári. Heildarútlán til fiskiðnaðar á árinu 1965 verða því um 96 millj. kr. og eru eingöngu veitt af eigin fé viðkomandi stofnana.

Fiskveiðasjóður: Í greiðsluáætlun fyrir 1965 er gert ráð fyrir, að útlán fiskveiðasjóðs innanlands nemi samtals 80 millj. kr., en auk þess nema þegar umsamdar endurgreiðslur lána vegna innflutnings fiskiskipa um 98 millj. kr. Auðvelt verður fyrir sjóðinn að standa undir þessum greiðslum án þess að ganga nema lítið eitt á handbært fé sitt.

Dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar: Stefnt verður að því að ljúka við a.m.k. 5 dráttarbrautir á næstu 2–3 árum. Samtals er hér um að ræða um 80–90 millj. kr. fjárfestingu. Gert er ráð fyrir, að nýtt innlent lánsfé á þessu ári til slíkra framkvæmda þurfi að nema um 15 millj, kr. og er þá gert ráð fyrir, að hafizt verði handa um smíði þriggja nýrra dráttarbrauta. Unníð verður áfram að heildarathugun á þörf fyrir dráttarbrautir og þörf fyrir skipasmiðastöðvar til smíði stálskipa.

Iðnlánasjóður: Útlán iðnlánasjóðs 1964 námu rúmlega 50 millj. kr. Skv. greiðsluáætlun sjóðsins fyrir árið 1965 verður ráðstöfunarfé um 37 millj., en hins vegar er talin þörf á, að útlán sjóðsins geti orðið a.m.k. 55 millj., og nemur fjárvöntun sjóðsins því um 18 millj. kr., sem ákveðið er að afla sérstaklega.

Stofnlánadeild landbúnaðarins: Útlán stofnlánadeildar landbúnaðarins urðu á árinu 1964 þau sömu og árið áður, eða um 103 millj. kr. Áætlað er, að um 120 millj. þurfi til þess að mæta útlánaþörf á árinu 1965, að óbreyttum lánareglum til annarra framkvæmda, en íbúðarhúsa. Lán til íbúðarhúsa mundu geta hækkað til samræmis við íbúðarlán húsnæðismálastjórnar. Enn fremur ætti að vera hægt að lána um 10 millj. kr. til vinnslustöðva. Ráðstöfunarfé er áætlað 71 millj., og þarf sérstök fjáröflun vegna deildarinnar þannig að nema um 49 millj.

Ferðamálasjóður: Hann var stofnaður með lögum nr. 29 frá 1964 og er hlutverk sjóðsins m.a. að stuðla að byggingu gisti- og veitinga- húsa í landinu. Tekjur sjóðsins eru árlegt framlag ríkissjóðs, sem eigi er lægra en 1 millj. kr., en einnig hefur ferðamálasjóði verið veitt heimild til þess að taka lán allt að 20 millj. kr. Á þessu ári er gert ráð fyrir, að notaður verði helmingur af lántökuheimild sjóðsins eða 10 millj. kr.

Íbúðarlán. Veðlánakerfið. Gert er ráð fyrir, að útlán húsnæðismálastjórnar muni nema um 248 millj. kr. á árinu 1965. Þar af er nú búið að úthluta 78 millj., en auk þess verður um 65 millj. úthlutað fyrir mitt ár í samræmi við þau fyrirheit júnísamkomulagsins frá 1964, að samtals 250 millj. kr. skyldu lánaðar vegna umsókna, sem lágu óafgreiddar hinn 1. apríl 1964. Loks er gert ráð fyrir, að í haust verði veitt lán út á 750 íbúðir, alls 105 millj. kr. Fjáröflun til að mæta þessum útlánum er launaskattur 60 millj., skyldusparnaður 50 millj., framlag ríkissjóðs 40 millj., frá atvinnuleysistryggingasjóði 38 millj., tolltekjur 10 millj. og frá tryggingarfélögunum 5 millj. Samtals er hér um að ræða 203 millj. Afgangurinn, um 45 millj. kr., er eigið fé sjóðsins. Lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, sem veitt eru gegn jafnháu framlagi bæjar- og sveitarfélaga, eru áætluð um 20 millj. kr., og heildarútlán veðlánakerfisins eru þannig áætluð samtals um 268 millj.

Verkamannabústaðir: Gert er ráð fyrir um 30 millj. kr. lánsfjáröflun til verkamannabústaða og verði um 20 millj. kr. af þessari fjárhæð varið til að hækka lán vegna þeirra íbúða, sem eru í byggingu, úr 300 þús. kr. á íbúð í 450 þús. kr., en að um 10 millj. kr. gangi til nýrra íbúða. Annað fjármagn, sem deildin hefur til útlána á árinu, mun vera um 10 millj. kr.

Kísilgúrverksmiðjan: Heildarkostnaður væntanlegrar kísilgúrverksmiðju við Mývatn er áætlaður 146 millj. kr., en gert er ráð fyrir, að verksmiðjan verði reist á árunum 1965—1967. Fjárþörfin verður mest 1966 og 1967. Framkvæmdir á þessu ári mundu verða lagning fyrsta áfanga vegar og bygging dælustöðvar og leðjuþróa, en kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður alls 25 millj. Gert er ráð fyrir, að um 5 millj. kr. erlent lán fáist í sambandi við vélakaup og mundi því nauðsynleg fjáröflun til framkvæmdanna á þessu ári vera um 20 millj, kr.

Raforku- og jarðhitamál: Ákveðið hefur verið að verja um 104 millj. til framkvæmda og til rannsókna á þessu sviði. Fé þessu sé skipt þannig, að til virkjanarannsókna fara 16 millj. kr., til jarðhitamála 27 millj. og til framkvæmda rafmagnsveitna ríkisins um 61 millj., en af því fé eru 21.5 millj. kr. ætlaðar sveitaveitunum, en 39.6 millj. öðrum framkvæmdum. Um 30 millj. kr. þarf að afla með sérstakri fjáröflun. Raforkuframkvæmdir á vegum annarra aðila en ríkisins eru áætlaðar rúmlega 76 millj. Til þess að mæta lánsfjárþörf þessara framkvæmda hefur verið ákveðið að afla sérstaklega 15 millj. kr. Heildarlánsfjáröflun til raforku- og jarðhitamála er þannig í heild áætluð 45 millj.

Hafnir: Hafnarframkvæmdir eru áætlaðar um 130 millj. á árinu. Elgið fé hafnanna nemur um 38 millj., en lánsfé, sem þegar hefur verið samið um, nemur um 33 millj., þannig að um 59 millj. kr. þarf að útvega sérstaklega. Á s.l. ári voru miklar framkvæmdir við landshafnirnar í Rifi og Keflavík-Njarðvík. Rifshöfn er nú fyllilega nothæf fyrir báta. Reiknað er með frekar litlum framkvæmdum í ár, en hins vegar með því; að greiddar verði upp lausaskuldir frá fyrra ári. Í landshöfninni í Keflavík-Njarðvík er gert ráð fyrir, að lokið verði gerð innri hafnargarðs, og höfnin mun þá koma að verulegu gagni,þótt enn vanti mikið á, að framkvæmdum þar sé lokið. Fjáröflun til Þorlákshafnar er áætluð um 16 millj. og af því mun um 13 millj. kr. verða varið til framkvæmda, en afganginum til greiðslu lausaskulda. Miklar framkvæmdir voru við Þorlákshöfn árið 1964, en nokkru minni í ár, eða um 121/2 millj. kr. óotaðar eru um 4 millj. af því 45 millj. kr. erlenda láni, sem hafði verið aflað til þessarar hafnargerðar. Verður því að afla á þessu ári sérstaklega um 8.5 millj: kr. Áætlað er, að unnið verði fyrir um 92 millj. kr. á árinu 1965 við aðrar hafnir,en þessar þrjár og er það nokkur hækkun frá árinu 1964. Eigið fé hafnanna að meðtöldu ríkisframlagi til framkvæmda nemur um 38 millj. Auk þess er reiknað með tæplega 20 millj. kr. láni úr atvinnuleysistryggingasjóði og sérstöku láni, um 81/2 millj., úr viðreisnarsjóði Evrópu til hafnargerða á Vestfjörðum. Lánsfjárþörf vegna almennra hafnargerða nemur því um 25 millj. kr.

Vegir: Áætlað er, að varið verði alls um 365 millj, kr. til vegamála á árinu 1965. Á töflu þeirri, sem útbýtt hefur verið, eru þó aðeins tilfærðar þær nýbyggingarframkvæmdir, sem ríkið greiðir að öllu leyti og eru þar með taldar skuldir, er nema um 33 millj. kr. og greiða þarf á árinu. Upphæðin í töflunni er því 226 millj. Framkvæmdir við Reykjanesbraut eru áætlaðar 99 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir því, að vegurinn verði allur steyptur á þessu ári. Þar sem eigið fé til ríkisframkvæmda nemur aðeins um 92 millj., þarf að afla aukalega 134 millj. Um 17 millj. eru þegar tryggðar, eftir verða þá 117 millj., sem afla þarf sérstaklega.

Flugmál: Um 28.4 millj. verður varið til flugmálaframkvæmda á árinu 1965 og gert er ráð fyrir um 2.7 millj. kr. skuldagreiðslu af umráðafé ársins. Þar sem eigið fé nemur alls um 12.6 millj., vantar um 15.8 millj. Um 5.8 millj. fást af láni, sem tekið er til flugvallargerðar á Patreksfirði hjá viðreisnarsjóði Evrópu. Sérstök fjáröflun þarf því að vera um 10 millj.

Póstur og sími: í hinni upphaflegu áætlun póst- og símamálastjórnarinnar var gert ráð fyrir um 111 millj. kr. framlagi til framkvæmda á árinu 1965. Þar af var áætlað að verja til nýrra húsa og til lóðakaupa um 30 millj. kr. Í samræmi við þá ákvörðun að fresta til ársins 1966 20% af framlögum til verklegra framkvæmda ríkisins var ákveðið, að framkvæmdaáætlun Pósts og síma skyldi lækka í sama hlutfalli. Gert er ráð fyrir og talið æskilegt, að þessi lækkun komi fyrst og fremst niður á byggingum og lóðakaupum, en þeir liðir eru, eins og áður er nefnt, áætlaðir um 30 millj. kr.

Skólar: Undanfarið hefur menntmrn. í samráði við Efnahagsstofnunina, fræðslumálaskrifstofuna og fjármálaeftirlit skóla unnið að undirbúningi framkvæmdaáætlunar um skólabyggingar í því skyni, að þær byggingar verði látnar sitja fyrir, sem þörfin er mest á og til þess að byggingartími styttist verulega frá því, sem verið hefur.

Ríkisstj. hefur nú samþykkt framkvæmdaáætlun, þar sem tekið er tillit til þess 20% niðurskurðar á framkvæmdafé, sem ákveðinn hefur verið. Framkvæmdir eru áætlaðar alls um 170 millj. á árinu 1965. Fé til þessara framkvæmda fæst þannig, að heildarfjárveiting til skólabygginga í fjárl. þessa árs að frádregnum 20% nemur um 111.5 millj., að auki eru 15.3 millj. geymt fé fyrri ára til ráðstöfunar, og reiknað er með um 42.8 millj. kr. framlagi sveitarfélaganna til þeirra bygginga, sem á framkvæmdaáætluninni eru.

Á framkvæmdaáætlunina hafa verið teknar allar þær skólabyggingar, sem veitt er fé til í fjárl. og fyrirsjáanlegt er, að unnt sé að ljúka að fullu eða koma að einhverju leyti í nothæft ástand á árunum 1965 og 1966, miðað við það fé, sem til ráðstöfunar er.

Sýningar- og íþróttahús í Laugadal og umferðarmiðstöð: Fjármál þessara framkvæmda eru ekki endanlega frágengin og nokkur óvissa ríkir um áframhald. Hins vegar hefur verið reiknað með sérstakri fjáröflun að upphæð 5 millj. kr. vegna sýninga- og íþróttahúss í Laugardal og 2 millj. vegna umferðarmiðstöðvar.

Sjúkrahús: Rétt þótti að nefna sjúkrahúsin á framkvæmdaáætlun vegna mikilvægis þessara framkvæmda, en um eiginlega framkvæmdaáætlun fyrir 1965 sem lið í langtímaáætlun til þess að leysa sjúkrahúsavandamál þjóðarinnar er þó ekki að ræða. Áætlaðar eru framkvæmdir fyrir um 75 millj. kr., og eru þá ekki taldar með framkvæmdir við Borgarsjúkrahúsið í Reykjavík. Tryggð framlög nema um 63 millj. kr. til ríkisspítalanna og til sjúkrahúsbygginga sveitarfélaga annarra en Borgarsjúkrahúss í Reykjavík, en tryggð lán um 12 millj. kr. Um sérstaka fjáröflun vegna sjúkrahúsa er því ekki að ræða.

Útbýtt hefur verið til hv. alþm. yfirlitstöflum og tel ég því ekki þörf á að lesa þær tölur allar, sem þar eru taldar upp. Þar er gerð grein fyrir: a) fjárfestingarlánasjóðum og fyrirtækjum og að hve miklu leyti er um eigið fé og skattfé að ræða; b) þegar tryggðu lánsfé, sérstakri fjáröflun og hver upphæðin er samtals, en heildarupphæðin vegna fjárfestingarlánasjóða og fyrirtækja er 807 millj. Í öðru lagi er rætt um opinberar framkvæmdir og heildarupphæðin til þeirra er 915 millj. Niðurstöðutölur þessara tveggja heildarliða eru því, eins og hér var áður getið, 1.722 millj. kr.