07.12.1964
Efri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

Olíugeymar í Hvalfirði

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur Guðmundur Í. Guðmundsson, hæstv. utanrrh., verið á sjúkrahúsi að undanförnu og þó að hann hafi nú fengið leyfi til að fara heim, er heilsa hans ekki talin þannig, að hann geti sinnt störfum fyrst um sinn a.m.k. Hv. þd. verður því að gera sér að góðu, að ég svari þessu, sem hér hefur verið flutt utan dagskrár, nokkrum orðum, þó að ég vitaskuld sé ekki málinu jafnkunnugur og hæstv. utanrrh. En ýmislegu því viðkomandi, a.m.k. öllu því, sem hefur verið borið undir ríkisstj. alla, hef ég fylgzt með og þekki þess vegna nokkuð.

Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi eða flm. þessa máls utan dagskrár sagði, að þetta er ekki spánnýtt mál. Það hefur verið hér til umr. áður á hv. Alþingi og rætt mjög, a.m.k. tvisvar. Það var haustið 1963, sem hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, flutti fsp. vegna fréttatilkynningar, sem birzt hafði um þetta mál og var birt 7. ágúst 1963 og hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarið hafa farið fram umr. um, að Atlantshafsbandalagið endurnýjaði og fjölgaði olíugeymum í Hvalfirði og bætti afgreiðsluskilyrði þar. Athuganir eru nú að hefjast um staðsetningu nýrra geyma, ef til framkvæmda kemur.“

Þessa fréttatilkynningu sendi ríkisstj. frá sér um málið 7. ágúst í fyrra. Af því tilefni spurði svo hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, eins og ég sagði, um máli, og það var mjög ýtarlega rætt og hæstv. utanrrh. gerði þá mjög nákvæma grein fyrir málinu öllu. Síðar eða í desembermánuði 1963, var rædd till., sem fram hafði verið borin um það, ef ég man rétt, að ekkert yrði í þessum málum gert, án þess að samþykkis Alþingis yrði leitað og einnig þá gerði ráðh. mjög ýtarlega grein fyrir málinu. Svörin við þessum aths., sem hér hafa komið fram utan dagskrár, er því að langmestu leyti að finna í þessum tveim ræðum hæstv. utanrrh., sem hann flutti í október og desember 1963. Þessar upplýsingar, sem hann flutti þá, voru í fyrsta lagi um það, hvað hefði verið farið fram á af hálfu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins og í öðru lagi, hvað samþykkt hefði verið að ræða sem möguleika. Og það, sem samþykkt var að ræða sem möguleika, var þetta, sem nú hefur verið samþykkt að gera, að heimila Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu að byggja olíugeyma í Hvalfirði ásamt bryggju vegna afnota geymanna og aðstöðu fyrir legufæri skipa samkv. framkvæmdaáætlun Atlantshafsbandalagsins. Í þessari tilkynningu felst það, að það hefur verið orðið við þeirri beiðni, sem fram hefur komið um að endurnýja þann olíugeymakost, sem nú er í Hvalfirði og er í eigu Olíufélagsins h/f. en hefur verið leigður Atlantshafsbandalaginu eða Bandaríkjunum til þess að hafa þar birgðastöð fyrir varabirgðir sínar.

Þessir geymar, sem þarna eru í Hvalfirði, voru flestir byggðir árin 1942 og 1943 og eru þess vegna orðnir yfir 20 ára gamlir. Í stríðslok voru þeir seldir Olíufélaginu og fram til 1950–1951 voru þeir notaðir til birgðageymslu fyrir landsmenn, en þá voru þeir teknir á leigu til birgðageymslu fyrir Atlantshafsbandalagið. Það hefur bæði í umr. 1963, í fyrra og núna komið fram eða verið haft mjög á oddi, að þessi leyfisveiting, sem nú hefur verið gerð, væri óheimil, án þess að til kasta Alþingis kæmi og Alþingi tæki þá málið til meðferðar, annaðhvort til samþykktar eða synjunar. Ríkisstj. hefur hins vegar bent á það, að samkv. samningnum, sem gerður var 1951 við Bandaríkin, séu þau ákvæði, sem heimili, að ríkisstj. veiti aðstöðu til mannvirkjagerðar, eftir því sem samkomulag verður um milli ríkisstj. og bandarísku stjórnarinnar. Málið hefur þess vegna verið borið undir Alþingi og Alþingi hefur samþykkt þennan samning, sem gerður var 1951 og ber í sér þá heimild, sem fullkomlega nægir til þess að veita þau leyfi, sem hér hefur verið farið fram á. Þetta er líka samhljóða þeim praxis, sem verið hefur um þessi mál á síðustu 12–13 árum, frá því að samningurinn við Bandaríkin var gerður 1951. Það var ekki leitað samþykkis Alþingis, þegar lóranstöðin var reist á Gufuskálum. Og hún var fyrst og fremst rökstudd sem fjarskiptatæki fyrir Atlantshafsbandalagið, þó að hins vegar hafi hún einnig orðið að miklu gagni fyrir landsmenn sjálfa. Það var ekki heldur leitað samþykkis Alþingis, þegar radarstöðvarnar voru reistar á Straumnesi, Hlíðarfjalli og Stokkanesi. Á öllum þessum stöðum settust varnarliðsmenn að og land var látið í té undir þessi mannvirki, án þess að leitað væri til Alþingis. Þetta sýnir, hvernig menn hafa allan þann tíma, sem liðinn er, síðan þessi samningur var gerður, trúað því og raunar vitað það, að þetta var heimilt, án þess að leitað yrði eftir nýrri samþykkt frá Alþingi. Benda má á það einnig, að þegar Olíufélagið leigði Atlantshafsbandalaginu eða Bandaríkjunum geyma sína í Hvalfirði, var ekki leitað til Alþingis um það, að þeir fengju þá aðstöðu þar, sem þeir nú hafa.

Ég tel þess vegna, að sú athugasemd, að ekki hafi verið heimilt að gera þetta samkomulag án samþykkis Alþingis nú, hafa ekki við nein rök að styðjast.

Þá vaknar spurningin um það, hvort þessi framkvæmd sé nauðsynleg. Bandaríkjamenn hafa haldið því fram, að þessir geymar, sem byggðir voru fyrir rúmum 2 árum og byggðir þá úr lélegu efni, eins og tíðkaðist mjög á styrjaldarárunum, séu nú orðnir ónýtir og þeir geti ekki haft full not af þeim lengur. Þetta hefur ríkisstj. fallizt á og það er ein aðalástæðan til þess, að endurnýjun hefur verið leyfð. Og ég sé nú sannast sagna ekki mikinn mun á því, hvort eitthvert félag hér á Íslandi leigir Atlantshafsbandalaginu eða Bandaríkjunum þá aðstöðu, sem þeir þurfa í Hvalfirði fyrir skipakomur og annað slíkt í því sambandi eða hvort þeir fá aðstöðu til þess að gera þetta sjálfir. Í öðru tilfellinu er það að vísu innlent félag, sem er nokkurs konar leppur fyrir starfsemina, en í hinu tilfellinu eiga þeir mannvirkin sjálfir og samkv. samningnum frá 1951 erum við skuldbundnir til að veita þeim þá aðstöðu, sem við teljum nauðsynlega til þess að sinna því hlutverki, sem þeir eru hér kallaðir til að gegna. M.ö.o.: ég sé ekki neina ástæðu til þess, að við höfum nein sérstök óþægindi af því frekar, hvort Bandaríkjamenn sjálfir byggja þessa geyma eða hvort einhver og einhver hér á Íslandi ljær þeim þá til afnota í alveg nákvæmlega sama augnamiði.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði: Er málið svo stórt, að Alþingi beri um það að fjalla, eða er það svo smátt, að það sé ekki þess vert að bera það fram hér á Alþingi? Út af þessu vil ég aðeins segja það, að af þeim orðum, sem ég nú sagt, get ég ekki litið á þetta sem stórmál, því að munurinn á stöðinni í Hvalfirði eins og hún var og eins og hún verður, er eftir mínu viti nánast enginn. Það verður í báðum tilfellunum höfð hér birgðageymsla, varabirgðageymsla fyrir herskipaflota Atlantshafsbandalagsins, til þess að geta gripið til á styrjaldar- eða hættutímum og þannig verður þetta áfram, að þessi birgðageymsla verður hér aðeins í öðru formi.

Hv. þm. sagði, að hér yrði að gæta fyllstu varfærni og ég er alveg sammála honum um það. Það er nauðsynlegt og það er sjálfsagt og það tel ég, að ríkisstj. hafi gert, sem m.a. kemur fram í því, að hún hefur ekki tekið til greina allar óskir, sem fram hafa komið í þessu máli, hvorki fyrr né síðar og í öðru lagi, að í samkomulaginu, sem nú er gert, er greinilega tekið fram, að öll afnot þessara tækja og þessarar aðstöðu séu háð samþykki íslenzku ríkisstj.

Hvað býr þá hér á bak við? spyr hv. þm. Og raunar fann hann ekki nema eitt svar við því, hvað hér byggi á bak við. Það væri að svipta Olíufélagið gróða. Nú veit ég að vísu, að Olíufélagið hefur haft allmikinn hagnað af þessari starfsemi, en ég hygg, að það komi engum til hugar, að þessar ráðstafanir sé verið að gera, hvorki af hálfu Bandaríkjanna né af íslenzku ríkisstj., sérstaklega í því augnamiði að koma í veg fyrir, að Olíufélagið geti haft einhvern hagnað af sinni geymaeign þarna á staðnum. En annað hef ég ekki heyrt, að á bak við þessa ráðstöfun byggi. Ráðstöfunina tel ég eðlilega, vegna þess að hér er eingöngu um endurnýjun að ræða og ekkert annað.

Þá sagði hv. þm. í lokin, að sér þætti það ískyggilegt, að hér væri verið að stofna til nýrra herstöðva, þegar friðarhorfur í heiminum eru vaxandi. Nú skal ég út af fyrir sig ekki dæma um það, hvort friðarhorfur eru vaxandi eða ekki. Það má vel vera, að þær séu það og við skulum vona, að þær séu það. En af hverju eru þær vaxandi? Þær eru þá fyrst og fremst vaxandi vegna þess, að Atlantshafsbandalagið hefur sýnt sig sem það sterkan varnaraðila, að á meðan það hefur aðstöðu til þess að gegna því hlutverki að verja þau lönd, sem að bandalaginu standa, muni það koma í veg fyrir styrjaldarhættu. Og ég tel, að einmitt þessi aðgerð, sem hér er verið að hefja í Hvalfirði, sé einn liðurinn í því að gera Atlantshafsbandalaginu fært að sinna sínu hlutverki og uppfylla þannig, að friðarhorfur í heiminum geti farið vaxandi.

Ég held, að ég hafi þá ekki fleira um þetta að segja. Ég vísa alveg á bug, að hér sé um nokkurt stjórnarskrárbrot að ræða, eins og hv. þm. vildi láta liggja að, heldur sé þessi samningsgerð eða þetta samkomulag fullkomlega heimilt samkv. þeim samningi, sem Alþingi samþykkti árið 1951.