15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

96. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega það frv., sem hér liggur fyrir. Ég hygg, að allir þm. verði sammála um að greiða för þess í gegnum þingið, en það, sem hæstv. menntmrh. sagði í framsöguræðu sinni, gefur mér tilefni til að segja aðeins nokkur orð.

Mér finnst rétt að vekja athygli á því, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að á áratugnum 1940—1950 virðist hafa verið allveruleg gróska í störfum háskólans, þannig að þá hefur verið bætt við allmörgum nýjum deildum, en nú seinasta áratuginn sýnist mér af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að þá hafi ríkt helzt til mikil kyrrstaða í þessum efnum og störf háskálans lítið verið færð út. Af þeim ástæðum ber að fagna því, að nú virðist vera hafin ný sókn til eflingar háskólanum. En það, sem mér fannst koma fram í þeirri skýrslu, sem hæstv. ráðh. flutti hér, var, að í þeirri áætlun, sem gerð hefur verið, virðist vera megináherzla lögð á að efla þær deildir, sem fyrir eru, og það út af fyrir sig er að sjálfsögðu góðra gjalda vert. En hitt hygg ég að sé þó miklu mikilsverðara, bæði með tilliti til þarfa þjóðarinnar og vegna þess að stúdentum mun fara mjög fjölgandi hér á næstu árum, en það er að færa út starfssvið háskólans og bæta við hann nýjum deildum, og þess vegna vildi ég leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að háskólinn og þau stjórnvöld, sem yfir honum ráða, láti sér það ekki eitt nægja að gera áætlun um þær deildir, sem fyrir eru, heldur fyrst og fremst áætlun um aukið verksvið háskólans og um nýjar deildir, sem þurfa að bætast við hann.

Þess saknaði ég líka í þessari áætlun, sem hæstv. menntmrh. las hér, að ef ég hef tekið rétt eftir, er gert ráð fyrir verulegri aukningu á öllu starfsliði allra deildanna nema helzt verkfræðideildarinnar. Ég tók ekki eftir því, að gert væri ráð fyrir, að starfslið hennar væri verulega aukið, en ég hygg, að það sé þó ekki sízt á þeim vettvangi, sem nauðsynlegt sé að auka starfssvið háskólans.