07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

Olíugeymar í Hvalfirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér utan dagskrár út af fréttatilkynningu, sem komið hefur frá hæstv. ríkisstj. varðandi nýjan samning, sem gerður hafi verið við NATO eða Atlantshafsbandalagið um nýjar framkvæmdir í Hvalfirði. Með leyfi hæstv. forseta, er fréttatilkynningin þannig:

„Eins og áður hefur verið skýrt frá opinberlega, féllst ríkisstj. á sínum tíma á, að fram færi athugun á byggingu olíugeyma í Hvalfirði ásamt bryggju vegna afnota geymanna og aðstöðu fyrir legufæri skipa samkv. framkvæmdaáætlun Atlantshafsbandalagsins. Í framhaldi af þessari athugun hefur ríkisstj. nú leyft ofangreindar framkvæmdir:

Verða byggðir í Hvalfirði 5 nýir geymar, 4 fyrir olíu og 1 fyrir vatn, auk afgreiðslubryggju og legufæra. Hinir nýju geymar eru nauðsynleg endurnýjun á gömlum geymum, sem fyrir eru í Hvalfirði og verður öll notkun þeirra og mannvirkjanna háð samkomulagi við ríkisstj. Íslands. Skipaferðir um Hvalfjörð breytast ekkert frá því, sem verið hefur, í sambandi við hin nýju mannvirki og tilgangur stöðvarinnar þar verður sá einn að geyma varabirgðir og legufæri, sem nota má, ef til ófriðar kemur eða dregur. Um mannvirkin og framkvæmdirnar í Hvalfirði gilda ákvæði varnarsamningsins frá 8. maí 1951.“

Þannig hljóðar þessi fréttatilkynning frá hæstv. ríkisstj. Ég vil í þessu sambandi koma því enn á framfæri, að Framsfl. er algerlega mótfallinn þessari nýju samningagerð um flotamannvirki í Hvalfirði og í því sambandi leyfi ég mér að lesa eftirfarandi ályktun, sem samþykkt var í framkvæmdastjórn Framsfl., þegar þetta mál fyrst bar á góma opinberlega og ríkisstj. gaf í skyn, að til stæði að gera slíka samninga, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. tilkynningu frá utanrrn., sem lesin var í útvarpsfréttum 7. þ.m.,“ — þetta var samþ. í fyrra í ágústmánuði, — „og viðtali, sem fulltrúar Framsfl. hafa átt við utanrrh., fara nú fram viðræður milli Atlantshafsbandalagsins og ríkisstj. um, að bandalagið byggi stóra olíubirgðastöð í Hvalfirði, hafskipabryggju eða bryggjur og legufæri, sem ætluð eru herskipum. Af hálfu bandalagsins hafa áður verið bornar fram óskir um svipaðar framkvæmdir í Hvalfirði, en þeim hefur verið hafnað. Í tilefni af framangreindum viðræðum Atlantshafsbandalagsins og ríkisstj. lýsir Framsfl. sig andvígan því, að aukinn verði herbúnaður í Hvalfirði með byggingu nýrra flotamannvirkja eða á annan hátt og skorar á ríkisstj. að ljá ekki máls á samningum um slíkt.“

Þessi afstaða var svo margítrekuð við umr., sem áttu sér stað á hv. Alþingi í fyrravetur, og þá sterklega skorað á hæstv. ríkisstj. af hendi Framsfl., að láta ekki verða af slíkum samningum og þung áherzla lögð á, að ekki bæri að koma til greina neitt í því efni, nema málið hefði áður fengið afgreiðslu á Alþingi. En nú hefur hæstv. ríkisstj. þrátt fyrir þetta gert þennan samning og vil ég því ítreka þessa afstöðu Framsfl. og mótmæli gegn samningsgerðinni og fara um þessi efni fáeinum orðum til rökstuðnings því.

Það segir í tilkynningu hæstv. ríkisstj., að hinir nýju geymar séu nauðsynleg endurnýjun á gömlum geymum, sem fyrir eru í Hvalfirði. Og það hefur verið lögð nokkur áherzla á það í blöðum hæstv. ríkisstj., blöðum stjórnarflokkanna, að hér væri í raun og veru um það eitt að ræða að endurnýja olíugeyma, sem þar væru fyrir og væru farnir að ganga úr sér, því væri í raun og veru ekkert nýtt að gerast í Hvalfirði. En þessi liður tilkynningarinnar frá hæstv. ríkisstj. er villandi og því miður vafalaust gerður í því skyni að villa mönnum sýn í þessu sambandi, en hefði þó verið skylt, að hæstv. ríkisstj. segði mönnum hreinskilnislega, hvað þarna er raunverulega að ske. En málavextir og kjarni málsins er auðvitað þessi: Til þess að byggja nýja geyma í Hvalfirði í stað þeirra, sem fyrir eru, þurfti engin ný hafnarmannvirki í Hvalfirði, bryggjur né bryggju, vatnsbirgðastöðvar né legufæri. Það er hægt að athafna sig viðunandi í firðinum með núverandi mannvirkjum í Hvalfirði til að losa úr flutningaskipum olíu og setja hana aftur í flutningaskip til að flytja hana þaðan á burtu. Þetta hefur verið gert í Hvalfirði og þetta er hægt að gera þar áfram. Bygging á nýrri, stórri bryggju eða hafnarmannvirkjum í Hvalfirði, vatnsbirgðastöðvum og ný legufæri standa því ekki í neinu sambandi við þá nauðsyn, sem á því kynni að vera að endurnýja olíugeyma þá, sem hafa verið í Hvalfirði og halda uppi svipaðri þjónustu og þar hefur verið gert um geymslu á olíu. Þessar framkvæmdir standa ekki í sambandi við slíkt og þess vegna er uppbygging geyma í stað þeirra, sem þar eru nú, vitanlega og öllum augljóslega ekki aðalatriði málsins.

En í Hvalfirði vantar á hinn bóginn aðstöðu til þess að athafna sig með flota, til að taka eldsneyti í flota með sæmilegu móti og aðstöðu til legu, t.d. herskipa, í firðinum. Slík aðstaða er ekki fyrir hendi í Hvalfirði. Í Hvalfirði vantar sem sé, þó að þessi gamla olíustöð sé þar og ein bryggja í sambandi, frumskilyrði flotahafnar. Og það er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru, en að með þessu, sem nú er hugsunin að framkvæma í Hvalfirði, sé ætlunin sú að stiga fyrsta skrefið í þá átt að gera Hvalfjörð raunverulega að flotahöfn, byggja upp flotahöfn í Hvalfirði, bryggjur, vatnsforðabúr og legufæri, en hitt því miður haft á oddinum til þess að leiða athyglina frá þessum aðalkjarna málsins.

Og þetta er auðvitað aðalmergur þessa máls og hefur verið síðustu áratugina, hvort Íslendingar eiga að ljá máls á því, að Hvalfjörður verði byggður upp sem flotastöð. Slíkt hefur áður komið til greina, eins og hér hefur verið frá skýrt, af hendi hinna erlendu aðila að fara fram á slíkt. Það hefur verið af hendi þeirra farið fram á slíkt áður. Það hefur komið til greina frá þeirra hendi að bera fram slíkar óskir, eins og margsinnis hefur verið upplýst. En þeim hefur alltaf verið synjað. Allar ríkisstj., sem hér hafa setið undanfarna áratugi, hafa synjað um leyfi fyrir nýjum framkvæmdum í Hvalfirði, vegna þess að stefna þeirra ríkisstj. hefur verið sú að gera Hvalfjörð ekki að flotastöð. En nú er einmitt sú stóra hætta fyrir hendi, þegar ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um að breyta þessari stefnu og leyfa þessar framkvæmdir, að nú verði gengið á lagið og reynt að þrýsta í framkvæmd enn frekari mannvirkjagerð í framhaldi af þessu. Komið verður með eitt í dag og annað á morgun. Það er sú hætta, sem við stöndum frammi fyrir nú, þegar ríkisstj. hefur breytt stefnunni og léð máls á því, sem allar ríkisstj. áður hafa synjað um.

Við í Framsfl. teljum, að það hefði átt að halda við þá stefnu, sem áður hefur verið framfylgt í þessu efni, alveg skilyrðislaust og alls ekki átt að leyfa nýjar framkvæmdir af því tagi, sem þarna eru ráðgerðar. Við teljum auk þess, að horfur í heiminum yfirleitt í friðarmálum séu þannig, að það sé nú enn síður ástæða, en áður til að leyfa aukinn búnað frá því, sem verið hefur. Og batnandi friðarhorfur í heiminum hefðu átt að vera aukin hvöt fyrir núv. ríkisstj. til að halda þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. hafa haft í þessu, sem sé þeirri að fallast ekki á nýjar framkvæmdir eða frekari framkvæmdir í Hvalfirði en þær, sem þar áttu sér stað á styrjaldarárunum.

Ég vil taka það skýrt fram nú, eins og svo oft áður, að Framsfl. er fylgjandi þátttöku Íslands í samstarfi vestrænna þjóða og þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. En ég vil leggja áherzlu á, að okkur ber engin skylda til, hvorki lagalega né „móralskt“, að hafa hér her né annan varnarbúnað umfram það, sem við sjálfir teljum nauðsynlegt og skynsamlegt, og er þetta sjónarmið margviðurkennt af samstarfsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu. Og einmitt út frá þessu sjónarmiði nær að okkar dómi engri átt að leyfa nú ný og aukin flotamannvirki í Hvalfirði.

Engar skuldbindingar okkar við NATO, ekkert, sem sagt hefur verið af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, svo að mér sé kunnugt, við NATO eða forsvarsmenn NATO, bindur Íslendinga á einn eða annan hátt til að leyfa slíkt, og ekkert bindur okkur samningslega til að ganga inn á slíkt og ekkert bindur okkur til þess á nokkurn hátt „móralskt“ séð, því að okkar fyrirvarar hafa ævinlega verið þannig í sambandi við þátttöku í NATO, að það eitt kæmi í eðlilegu framhaldi af þeim, að synjað væri um þessar framkvæmdir á sama hátt og gert hefur verið áratugum saman um hliðstæðar framkvæmdir. Það hefði verið í beinu framhaldi af þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið varðandi Hvalfjörð, að haldið hefði verið áfram að synja um slíkt.

Það var skýrt og greinilega tekið fram af þeim aðilum, sem ræddu við Íslendinga um þátttöku þeirra í Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma, að þátttaka Íslendinga í bandalaginu væri mikilsverð fyrir bandalagsþjóðirnar og bandalagið sjálft, enda þótt hér yrðu ekki leyfðar neinar herstöðvar á friðartímum né neinn erlendur her. Það var lögð mikil áherzla á það af hálfu forráðamanna Atlantshafsbandalagsins þá, að það hefði verulega þýðingu fyrir þjóðir Atlantshafsbandalagsins, að Íslendingar væru með, þó að þessi fyrirvari fylgdi. Og hann var látinn fylgja. Og þeir í NATO gátu því alls ekki og hafa aldrei getað búizt við öðru en því, að þeirri stefnu yrði framfylgt, sem þá var lýst yfir af Íslands hendi. Það var fyllilega gerð grein fyrir því af Íslands hendi þá, að ekki mætti gera ráð fyrir því, að hér yrðu varanlegar herstöðvar eða varnarherstöðvar í landinu.

Ég endurtek því, að Íslendingum ber engin skylda til þess, hvorki samkv. Atlantshafssáttmálanum sjálfum né því, sem á milli hefur farið um þessi efni og ekki heldur móralskt, miðað við fyrirvara og þá afstöðu alla, sem uppi hefur verið látin, að leyfa hér auknar hernaðarframkvæmdir eða ný flotamannvirki.

Það er eitt þýðingarmesta atriðið í utanríkismálum Íslendinga og fullveldismálum, að Íslendingar haldi hjá sér sjálfum og einum ákvörðunarréttinum um, hvað leyft er hér af hernaðarmannvirkjum eða hvað leyft er hér af mannvirkjum eins og þeim, sem hér eru til umr. Og á þetta var einnig megináherzla lögð í sambandi við þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Þetta sjónarmið og það sjónarmið, sem ég var að rekja hér áðan varðandi framlag Íslands til varnanna yfir höfuð, var fullkomlega viðurkennt af bandalagsþjóðunum og er það áreiðanlega enn, ef því er fram haldið eins og eðlilegt er.

Ég vænti, að margir hljóti að sjá, að með því, sem nú er verið að gera, með þeirri stefnubreytingu er innleidd veruleg hætta, ekki sízt á því, að haldið verði áfram að ganga á lagið um að auka búnaðinn í Hvalfirði, síðan kæmi sjálfsagt í framhaldi af því krafan um að hafa varnarlið í þeim stöðvum og þá gæti auðveldlega svo farið með því að halda á þennan hátt á málunum, að áður en langt um liði væri komin þar í Hvalfirði önnur herstöð eða varnarstöð hliðstæð Keflavíkurstöðinni, sem gæti orðið álíka og a.m.k. ekki minna vandamál í landinu, en Keflavíkurstöðin, hefur vitanlega ævinlega verið. Og væri þá ekki vel komið málefnum, ef slík stöð yrði byggð upp á aðalþjóðleiðinni umhverfis landið í Hvalfirði.

Með þessum orðum tel ég mig hafa rökstutt þá afstöðu, sem ég hef nú enn greint frá — afstöðu Framsfl. Ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár til að ítreka enn einu sinni andstöðu Framsfl. gegn því að gera þennan samning um flotamannvirkin í Hvalfirði og til að gagnrýna það og mótmæla því, að samningur um svo mikilsvert mál sé gerður, án þess að málið sé borið undir Alþingi. Ég tel, að hér sé um svo þýðingarmikið mál að ræða, að þennan samning hefði ekki átt að gera, án þess að hann væri borinn undir Alþingi, þar sem fullkomlega var tóm til þess á allan hátt, því að strax í fyrravetur var þetta málefni rætt og þá virtist málið liggja þannig fyrir, að það hefði verið hægt að taka þá stefnuna í málinu. Og ég vil láta það verða mín síðustu orð að beina því til hæstv. ríkisstj. að skora á hana að leggja mál þetta fyrir hv. Alþingi til samþykktar eða synjunar.