07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

Olíugeymar í Hvalfirði

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umr. þeirra hv. þm., 5. landsk. þm. og 1. þm. Austf. sem hér hafa tekið til máls, er hér um að ræða gamalþekkt og þrautrætt mál. Frá þessum ráðagerðum var skýrt í fréttatilkynningu, sem ríkisstj. gaf snemma í ágúst á árinu 1963. Þá þegar hófust um málið miklar umr., bæði með yfirlýsingum beggja stjórnarandstöðuflokkanna og í blöðum. Síðan var málið mjög rækilega rætt hér á hv. Alþingi a.m.k. þrisvar í fyrravetur, fyrst tvisvar sinnum um miðjan október og síðan einnig snemma í desember. Nú hygg ég, að í þessum umr. hafi komið fram öll þau sjónarmið, sem máli skipta, m.a. það, að því var þá þegar lýst af hálfu ríkisstj., að hún teldi sig hafa óyggjandi heimildir til þess að gera slíkan samning, sem nú hefur verið gerður og hún mundi gera samninginn, ef hún teldi það rétt að athugun málsins lokinni. Nú er þeirri athugun lokið og ríkisstj. hefur í samræmi við fyrri yfirlýsingar gert þetta samkomulag.

Því er haldið fram, einkanlega af hv. 5. landsk. þm., að þessi samningsgerð stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er misskilningur hjá hv. 5. landsk. þm., því að ljóst er og ótvírætt með öllu, að heimild til slíkrar samningsgerðar er í varnarsamningnum frá 1951, sem lögfestur hefur verið með lögum nr. 110 19. des. 1951. Þar segir m.a. í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu skyni og með varnir á því svæði, sem Norður–Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.“

Þegar af þessu ákvæði og raunar fleiri ákvæðum samningsins er ótvírætt, að heimild er fyrir hendi til þessarar samningsgerðar, enda játaði hv. þm., að þvílíkir samningar hefðu áður átt sér stað. Og mér skildist hann meira að segja telja og benda á, að vist varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli væri fyrsta dæmi þvílíkrar samningsgerðar af hálfu ríkisstj. Nú má e.t.v. segja, að í varnarsamningnum sjálfum felist a.m.k. óbein heimild fyrir vist varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, eins og hv. þm. raunar drap á, þó að það sé með nokkuð öðrum hætti rökstyðjanlegt, heldur en hann vildi gera og skal ég ekki fara út í þá sálma hér. En þar fyrir utan eru mörg dæmi þess, að óátalið af Alþingi hefur varnarliðið fengið stöðvar til afnota með samþykki ríkisstj. og þetta hlýtur hv. þm. að vera kunnugt, ekki einungis varðandi lóranstöðina á Snæfellsnesi, heldur einnig fleiri atvik, því að hæstv. utanrrh. rakti það rækilega í umr., sem urðu um málið í fyrra.

Þá er fyrst að geta þess, sem hv. þm. hlýtur að vera kunnugt um og hv. 1. þm. Austf. vék nú að, þó að hann færi þar dálítið svipað og köttur kringum heitan graut, að varnarliðið hefur nú þegar og í mörg ár haft svipaða aðstöðu í Hvalfirði og hér er ráðgerð. Hv. 1. þm. Austf. talaði um það, að ef þessi samningsgerð færi fram, ættu menn e.t.v. von á því að sjá varnarstöð við aðalþjóðveginn um Hvalfjarðarströnd. Ég hef nú farið þarna nokkuð mörg undanfarin ár og ég hef séð varnarstöð á þessari leið og mér þykir það mjög furðulegt, ef hv. þm. hefur ekki einnig séð þessa varnarstöð, sem þarna er á leiðinni. Og ég man það, að ég og hv. þm., 1. þm. Austf., vorum saman í ríkisstj. og ég held, að ég fari rétt með það, að hann hafi þá verið fjmrh., þegar ríkið keypti a.m.k. eina jörð í Hvalfirðinum til þess að leggja undir þessa varnarstöð. Og hv. þm. er þá nú á sínum efri árum orðinn léttúðugri um meðferð fjármála en hann var, þegar við vorum saman í ríkisstj., ef hann er búinn að gleyma því, að hann greiddi töluvert fé úr ríkissjóði til þess, að þessari stöð yrði komið upp.

Nei, það er vissulega engin ný bóla, að þarna sé nokkur varnarstöð í Hvalfirði, bæði með beinni íhlutan og samþykki ríkisins, auk þess sem tiltekinn félagsskapur hefur leigt varnarliðinu mjög sambærilega aðstöðu og notkun á olíugeymum og nú er ráðgert, að það komi sér sjálft upp. Þetta er engin nýjung. Þetta hefur öllum landslýð verið kunnugt nú töluvert á annan áratug. Alþingi hefur um þetta vitað. Sumir hafa verið óánægðir með þetta frá fyrstu tíð, eins og hv. flokksmenn hv. 5. landsk þm., og það er þess vegna sízt óeðlilegt, að hann sé óánægður og hans félagar séu óánægðir með, að þessari ráðstöfun skuli haldið áfram, þótt í nokkuð breyttri mynd sé. Hinu hljóta menn að furða sig mjög á, að hv. 1. þm. Austf, skuli nú láta svo sem honum sé með öllu ókunnugt um þá aðstöðu, sem varnarliðið hefur haft í Hvalfirði langan tíma með beinu samþykki, beinni íhlutun ríkisstj. og með mikils háttar fyrirgreiðslu — að vísu ekki alveg ókeypis — alþekkts félagsskapar, sem ég veit, að hv. 1. þm. Austf. einnig kannast við.

En það er ekki einungis þessi aðstaða í Hvalfirði, sem hér kemur til álíta, heldur minntí hæstv. utanrrh. á það í umr. í fyrra, að þrjár radarstöðvar, sem eru undir hergæzlu, hefðu verið leyfðar af ríkisstj. á mismunandi tímum, frá því að varnarsamningurinn var gerður og án þess að það væri leitað til Alþingis um samþykki á þeim leyfum. Þarna er um að ræða tvær stöðvar, sem ég hygg að enn séu í notkun, önnur nærri Hornafirði, hin á Langanes, og ein var á Vestfjörðum, þótt hún sé nú niður lögð. Þessu til viðbótar kemur svo lóranstöðin á Snæfellsnesi, sem hv. 5. þm. landsk. sjálfur minnti á.

Það er þess vegna ekki um það að villast, að bæði orðalag varnarsamningsins, sjálft efni hans allt saman og óslitin framkvæmd, allt frá því að hann var gerður, heimilar slíka samningsgerð eins og nú hefur verið ákveðin af ríkisstj. (Gripið fram í.) Það táknar þann aðila, sem með þessi mál fer að hálfu íslenzka ríkisins. Alþingi hefur þegar með 1. gr. varnarsamningsins og varnarsamningnum í heild samþykkt að veita þá aðstöðu, sem nauðsynleg er og síðan er það á mati ríkisstj. að kveða á um, hversu mikil og hvers eðlis sú aðstaða skuli vera hverju sinni.

Um þetta verður ekki deilt, þó að hitt sé svo eðlilegt, að menn greini á um það, hvort ríkisstj. haldi rétt á valdi sínu í þessu efni eins og ótalmörgum öðrum. Það orkar allt tvímælis þá gert er og það er ósköp skiljanlegt, að þeir, sem eru sannfærðir um það, að varnir séu hér óþarfar og beinlínis skaðlegar, eins og hv. 5. þm. landsk. telur, að þeir eru auðvitað á móti því, að varnir séu í skaplegu horfi. Það er eðlilegt. Þeir vilja varnirnar burtu. Þeir eru á móti öllum þeim ráðstöfunum, sem til þess horfa, að þær komi að notum.

Hitt verður að telja merkilegra, að þeir menn, sem að meginstefnu segja, að þeir séu vörnum samþykkir, lýsi því yfir, að þeir séu þessari ákveðnu ráðstöfun ósamþykkir.

Nú er ég algerlega sammála hv. 1. þm. Austf. um það, að það er algerlega á valdi Íslendinga sjálfra, hvort þessi samningur er gerður, hvort þetta leyfi er veitt. Það er auðvitað ekki nein herforingjasamkunda suður í París eða neinir aðrir aðilar, sem um þetta eiga að ákveða, heldur eru það rétt íslenzk stjórnarvöld, í þessu tilfelli ríkisstj. í samráði við sína fylgismenn á Alþingi, meiri hluta þm., sem hún vitanlega fullvissar sig um, að séu henni sammála í þýðingarmiklum málum, jafnt þessu sem öðru. Það er ríkisstj. að kveða á um þetta. Ef Alþingi telur, að ríkisstj. hafi misfarið með sitt vald, þá getur það veitt henni vantraust, látið hana hverfa frá störfum. Það má segja, að ríkisstj. hafi gert samning, sem sé bindandi og þess vegna illviðunandi fyrir Ísland, að slíkt sé gert. Hættan því samfara er þó sáralítil, vegna þess að ef Alþingi veitti ríkisstj. vantraust af þessum sökum og vildi losna við samningsgerðina, væri það einfalt mál að segja varnarsamningnum upp, svipað og ráðgert var að gera hér 1956, en raunar varð þá minna úr, en stóru orðin stóðu til.

Alþingi hefur því endanlega þetta mál í hendi sér, ef það vill og vitanlega mundi ekki verða farið að reisa þessa nýju olíugeyma í Hvalfirði, ef það lægi fyrir, að meiri hluti Alþingis vildi, að varnarsamningurinn missti sitt gildi. Þá mundu þær framkvæmdir verða látnar eiga sig, svipað og var um ýmsar framkvæmdir á árinu 1956 og ég man þá, að t.d. Tíminn taldi það óvinskaparbragð af hálfu þáverandi ráðamanna varnarliðsins eða í Washington, þegar ákveðið var að draga úr varnarframkvæmdum hér á landi vorið 1956, eftir að samþykktin hafði verið gerð í marz og mátti af því marka, að ekki hefur nú alltaf verið talið, að þessar varnarframkvæmdir væru Íslendingum til óþurftar, úr því að talið var, að það væri beinlínis fjandskaparbragð að draga úr þeim.

Vitanlega er það svo matsatriði, hvaða framkvæmdir hverju sinni eru nauðsynlegar og æskilegar. En ég hygg, að þegar á það er litið, að þessir olíugeymar, sem nú eru í notkun handa varnarliðinu og þar sem geymdur er forði handa flota Atlantshafsbandalagsins, ef í hart fer, — þar sem þessir geymar eru nú meira, en 20 ára gamlir og öll aðstaða umhverfis þá miðuð við það, sem þá tíðkaðist, þá sé engan veginn óeðlilegt, heldur einungis mjög skiljanlegt, að þessi mannvirki þurfi endurnýjunar við ekki síðu,r en önnur mannanna verk og á þetta hljóti þeir að fallast, sem á annað borð telja, að það sé til góðs, að varnir séu á Íslandi.

Hv. ræðumenn minntust annars báðir á það, að nú væri ófriðarhætta mun minni í heiminum, en oft áður. Það er rétt, að á yfirborði horfir friðvænlegar, en stundum áður. En af hverju kemur það? Það kemur fyrst og fremst af því, að Atlantshafsbandalagið hefur í þessum heimshluta komið á svo sterkum og öruggum vörnum, að hér hefur ekki nú lengi komið til stórátaka og menn vona, að svo muni enn haldast. Hins vegar þarf ekki annað, en að líta til Suður-Asíu, svo að við sleppum Afríku, svo að við sleppum bollaleggingum um, hvað býr í huga Kínverja, hvað verður ofan á í öðru stórveldi Kína ekki fjarri, — okkur nægir að líta á þann ófrið, sem þegar er í heiminum, til þess að sjá, hversu fjarri því fer, að enn sé kominn á sá Fróðafriður, sem við óskum. Enn er því miður fullkomin óvissa um, hvað verða vill og það er styrkleikinn einn, styrkleiki lýðræðisaflanna einn, sem hingað til hefur tryggt friðinn og nægir þá að minna á átökin út af Kúbu haustið 1962. Sá friður, sem í skjóli þessa styrkleika og þessarar einbeitni býr, helzt því aðeins, að ekki sé slakað á, þangað til aðrar öruggari stoðir fyrir friðnum fást. Og ég tel, að íslendingar eigi ekki síður en aðrir að leggja sitt af mörkum til þess að reyna að koma í veg fyrir, að á ný horfi ófriðlegar í heiminum, að á ný verði vegna vangæzlu, vegna þess að menn vilji láta aðra taka á sig óþægindi, en skjóta sér undan sjálfir, verði vakin von árásaraðila um, að þeir þrátt fyrir allt séu ekki fyrir fram vonlausir um sigur, ef þeir leggi í ævintýri.

Um friðarvarnir má segja nokkuð svipað og um eldvarnir, að það er of seint að grípa til þeirra eða fara að smíða þær — réttara sagt að safna þeim saman, eftir að eldsvoðinn hefur brotizt út. Það verður að hafa slökkviliðið til áður, það verður að vera viðbúið til þess að geta kæft eldinn strax í byrjun, ef eldvarnirnar eiga að koma að gagni. Með sama hætti verður vitanlega að búast við því fyrir fram að geta staðið á móti árás, ef hún brýzt út, vegna þess að það er eina vonin til þess, að af slíku glapræði verði látið. Og ég hygg, að með því litla framlagi, sem hér er ætlazt til, að af hálfu íslands verði unnið, sé sízt of mikið fram á farið við Íslendinga. Enda kom það glögglega fram hjá báðum hv. þm., að þeir viðurkenndu, að hér væri einungis um smáræði að tala, þetta væri í sjálfu sér lítilvægt. Þeir óttuðust, að eitthvað annað, meira og verra, kæmi á eftir. Ég veit ekki, hvað þeir hafa í huga í þeim efnum. Ég veit það eitt, að þessi samningsgerð af hálfu ríkisstj. er hrein og skýr. Hér hefur ekki verið farið dult með neitt, eins og sést af því, að það var þegar skýrt frá aðalatriðum þessa máls fyrir meir en ári og allir, sem fylgzt hafa með og vilja fylgjast með, hafa vitað, að síðan hefur málið verið í undirbúningi og ríkisstjórnin hefur talið, að þessa aðstöðu ætti að veita, ef athugun sýndi, að hún gæti orðið veitt án þess að valda Íslendingum verulegum trafala, en þó komið að gagni til þess, sem mikið er á sig leggjandi fyrir og það er að styrkja friðarvonir mannkynsins.