07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

Olíugeymar í Hvalfirði

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. sagði í byrjun ræðu sinnar áðan, að þáltill., sem hann flutti á síðasta þingi, hefði verið „kæfð“ með forsetavaldi og að forseti sameinaðs þings hefði „setzt“ á málið, eins og hann orðaði það, meðan ríkisstj. hefði staðið í leynisamningum um herstöðvar í Hvalfirði. Ég vil fara um þessa fullyrðingu nokkrum orðum.

Þáltill. um framkvæmdir á vegum Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði frá hv. 5. landsk. þm. var útbýtt hinn 15. okt. 1963. Þann 16. s.m. var ákveðin ein umr. um málið. Till. var síðan tekin á dagskrá í sameinuðu þingi 30. okt., 13. nóv. og 20. nóv. 1963, en tekin út af dagskrá í þau skipti. Hinn 4. des. 1963 fóru fram umr. um þáltill. og eftir það var hún á dagskrá 11, des. 1963, 19. febr. 1964 og 8. apríl, 24. apríl og 6. maí s.l. Umr., sem urðu um till., eru 68 vélritaðar blaðsíður. Auk þess fóru fram umr. um þetta sama mál utan dagskrár í sameinuðu þingi 16. okt. og 24. okt. 1963 og er sá umræðupartur 78 vélritaðar síður eða umr. samtals um málið 146 vélritaðar síður.

Virðist mér af þessu augljóst, að hv. flm. till. og aðrir hv. þm., sem láta sig þetta mál varða, hafa á síðasta þingi fengið mjög rúman tíma til þess að túlka sjónarmið sín og það svo, að í þessum umr. upp á 146 vélritaðar síður eru sömu skoðanirnar endurteknar í belg og biðu. Getur því naumast hjá því farið, að hv. alþm. hafi áttað sig til hlítar á máli því, sem hér er um að ræða, enda þótt það hafi ekki komið til atkvæða í þinginu.

En hverjum er það þá að kenna, að þáltill. hv. 5. landsk. þm. komst ekki af umræðustigi á síðasta þingi? Hv. þm. vill kenna þetta forseta sameinaðs þings. Ég vísa þeirri ásökun til föðurhúsanna. Till. var 11 sinnum á dagskrá og tvisvar sinnum rædd utan dagskrár, sbr. það, sem ég rakti áðan og í þau skipti, sem hún var tekin út af dagskrá, mun það nokkrum sinnum hafa verið að beiðni flm. sjálfs, en í önnur skipti einfaldlega vegna málgleði hv. þm. um önnur mál. Það er nú einu sinni svo, að hv. þm. ráða því að verulegu leyti sjálfir, hvort málin komast til nefndar og hljóta þar afgreiðslu. Ef umr. um einstök mál í Sþ. eða deildum dragast úr hófi fram, getur það leitt til þess, að málin komist ekki til nefndar og hljóti þar ekki afgreiðslu og komi þar af leiðandi ekki til atkvæða í þinginu. Þannig var um þetta mál. En það er ekkert einstakt, eins og hv. alþm. sjálfum er bezt kunnugt. Þeir geta rifjað þetta upp fyrir sér með því að líta á úrslit þingmála, bæði frá síðasta þingi og öðrum þingum.