07.12.1964
Neðri deild: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

Olíugeymar í Hvalfirði

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má auðvitað endalaust deila um, hvaða heiti menn vilja velja þessum framkvæmdum, sem nú eru ráðgerðar í Hvalfirði, hvort menn vilja kalla það flotastöð eða eitthvað annað, alveg eins og endalaust má deila um, hvort það sé réttnefni, sem ýmsir hafa kallað þá aðstöðu, sem varnarliðið hefur nú í Hvalfirði. Sú aðstaða hefur verið kölluð flotastöð. Þó að hv. þm. Austf. séu nú ekki alltaf sammála um allt, þeir sem hér hafa talað, þá virðast þeir nú báðir vera í bili sammála um, að það, sem nú eigi að gera, sé flotastöð, en hitt hafi ekki verið flotastöð. Ég veit ekki, hvort þeir hafa sjálfir verið í göngu, sem var frá Hvalfirði fyrir eitthvað 2–3 árum, að því er ég hygg, en a.m.k. hef ég heyrt af flokksmönnum beggja í göngu frá Hvalfirði til Reykjavíkur, sem voru að mótmæla þeirri flotastöð, sem þeir fullyrtu, að þá þegar væri í Hvalfirði. Og hvort sem um þetta mál verður talað langt eða skammt, er enginn eðlismunur á þeim framkvæmdum, sem nú eru ráðgerðar, og þeim, sem þar hafa átt sér stað að undanförnu og verið í skjóli ríkisstj. með þegjandi samþykki Alþingis og ekki síður hv. þm. Framsfl., heldur kannske fremur þeirra, en flestra annarra. Þetta liggur í augum uppi. Það verður auðvitað ekki frekar flotastöð eða hættulegt fyrir framtíð þjóðarinnar að geyma olíu í tönkum í Hvalfirði, þó að það sé ekki Olíufélagið h/f eða eitthvert dótturfélag þess, sem eigi tankana, heldur séu það aðrir aðilar, né heldur er hægt að segja, að það sé stórhættulegt fyrir tilveru Íslands, þó að geymt sé vatn í einum tank í Hvalfirði. Er þá farið að leggjast lítið fyrir kappann, þegar slíkt á að vera höfuðsönnun fyrir því, að nú séum við að leggja Ísland í stórhættu og taka upp nýja stefnu í þessum málum. Það, sem þarna er um að ræða, er að koma þessum mannvirkjum, sem þarna hafa verið notuð, í nýtízku horf og þannig, að þau verði að því gagni, sem þeim hefur verið ætlað að vera, allt frá því að varnarliðið fékk þessa aðstöðu og mun nú vera nokkuð komið á annan áratug, síðan það varð.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að þræta hér almennt um afstöðu manna í varnarmálum eða viðhorf í heimsmálum utan dagskrár. Það er eðlilegt, að það sé rætt með þinglegum hætti og skal ég því halda mér frá frekari almennum bollaleggingum um þessi efni. Ég vek þó athygli á því, að hv. 5. þm. Austf. gerði í sinni ræðu glöggan greinarmun annars vegar á lagaheimild ríkisstj. og hins vegar skyldu hennar til þess að hafa samráð við þingið um meiri háttar mál, sem hann virtist telja siðferðilega skyldu, en ég vil þó fremur kalla pólitísk hyggindi eða hvernig sem við viljum á það líta. Nú má auðvitað deila um það, hvort þetta sé sérstaklega mikilvægt mál eða ekki, — sú endurnýjun á olíutönkum og annarri aðstöðu, sem hér er ráðgerð, — en það er þó ljóst og varð ljóst þegar í fyrra, að þetta mál veldur miklum pólitískum ágreiningi. Það sannaðist strax og fréttatilkynningin var gefin út í ágúst 1963 og af hinum löngu og ítrekuðu umr., sem áttu sér stað fyrir rúmu ári á Alþingi. Þess vegna var það, að þó að lagaheimild ríkisstj. væri og sé með öllu ótvíræð til samningsgerðarinnar, þá hefur ríkisstj. auðvitað kynnt sér viðhorf þingsins til þessa máls, eins og til annarra mála, sem líklegt er, að verulega pólitíska þýðingu hafi. Það lá fyrir frá því í ágúst í fyrra og frá umr. í fyrrahaust alveg ljóst, hver afstaða hv. Framsfl. og hv. Alþb. í málinu er. Ríkisstj. þurfti ekki að spyrja þá aðila frekar. Þær yfirlýsingar voru skýrar. Þær hafa nú verið ítrekaðar. Hins vegar hefur ríkisstj., vegna þess að hún vildi hafa vaðið fyrir neðan sig, að sjálfsögðu haft samráð við sína menn um, hvort afstaða þeirra væri hin sama og áður og það hefur komið fram í viðræðum innan flokka, eins og tíðkanlegt er, að svo er. Á undirbúningi málsins hefur því verið hafður venjulegur, þingræðislegur háttur, eins og tíðkanlegt er um málefni, sem stjórnmálaþýðingu geta haft og Alþingi síður en svo sýnd nokkur lítilsvirðing, vegna þess að skoðanir þingsins voru kunnar frá því í fyrra, skoðanir þingflokkanna allra. Við höfum að vísu nú einungis talað við okkar eigin menn. Við bjuggumst við, að hinir mundu halda fast við sína andstöðu. Ef þeir vilja breyta til og nú fallast á rétt mál, þá sýnist, að við höfum verið of svartsýnir. Við gerðum ráð fyrir því, að þeir mundu halda áfram á sínum villigötum, en við tryggðum okkur, að við höfum engu að síður, þrátt fyrir þeirra blindu, stuðning meiri hluta þings fyrir þessari samningsgerð.

Varðandi lagahliðina ræddi ég hana alveg skýrt áðan. Ég get ekki gefið hv. 5. landsk. þm. skilning, það er annar mér miklu öflugri og æðri, sem ræður þeim skilningi, sem hverjum einum er gefinn, svo að ég skal ekki fara að reyna að gera það, sem mér er ómegnugt. (Gripið fram í.) Jú, jú, röksemdir bíta á þá, sem rök skilja, en ekki á þá, sem fyrir fram hafa lokað sínum skilningi eða hafa hann ekki. En ég skal ekki fara að þræta við hv. þm. frekar um þetta. Ákvæðin eru alveg ljós í sjálfum samningnum, sem fékk lagagildi 1951, og um framkvæmd hans hefur skapazt alveg ótvíræð og hingað til óumdeild venja, þannig að lagalega þarf ekki um þetta að deila.

Hitt er svo allt annað mál, að menn geta haft um þetta og hafa um þetta með eðlilegum hætti, vil ég segja, misjafnar skoðanir, hvað skynsamlegt sé að gera. Við því er ekkert að segja. Það er eðlilegt, að sumir menn séu svo íhaldssamir og langt á eftir sinni samtíð, að þeir haldi, að hið gamaldags hlutleysi sé fullnægjandi. Þannig eru alltaf vissir steingervingar til í öllum þjóðfélögum og við Íslendingar getum ekki vænzt þess fremur, en aðrir, að vera lausir við slík fyrirbæri.

Heimild ríkisstj. er sem sagt ótvíræð og þarf ég þess vegna ekki að svara frekar þeim spurningum, sem hv. 5. landsk. bar fram til mín. Það eru engin rök á móti þeirri heimild, þó að hægt sé að segja, að það mundi þá líka vera heimilt fyrir ríkisstj. að ganga svo langt í beitingu heimildarinnar, að um augljósa misnotkun væri að ræða. Svo er um allar heimildir, að það er auðvitað hugsanlegt, að þeim sé misbeitt, en á þessu ber ríkisstj. ábyrgð, þinglega ábyrgð, stjórnmálalega ábyrgð og ef hún misfer með vald sitt, getur Alþingi tekið í taumana. Og þannig stendur á varðandi þessar framkvæmdir, að ef Alþingi er á annarri skoðun raunverulega, er engu til hætt, því að hægt er að stöðva framkvæmdir með því að segja varnarsamningnum upp. Þá er ljóst, að í þær mundi ekki verða ráðizt, og Alþingi hefur heimild til þess, ef það kýs að hafa þann hátt á.

Hv. 5. landsk. spurði mig einnig um það, hvenær í þessar framkvæmdir yrði ráðizt. Það mun verða komið undir nánari samningum milli ríkisstj. íslenzku og Bandaríkjastjórnarinnar, sem þessi samningur er gerður við. Og kem ég þá að því, sem hv. 5. þm. Reykv. spurði um, hvort samningurinn væri gerður við Bandaríkjastjórn eða varnarliðið eða við Atlantshafsbandalagið. Hann er gerður við Bandaríkjastjórn. Það má segja, að hann sé eins og sjálfur varnarsamningurinn gerður við Bandaríkjastjórn fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins. Þessar framkvæmdir eru í samræmi við framkvæmdaáætlun Atlantshafsbandalagsins, þannig að önnur aðildarríki standa að verulegu leyti undir kostnaði við þessa framkvæmd, vegna þess að talið er, að það séu allsherjar not og allsherjar þörf fyrir þessa framkvæmd ýmsum öðrum fremur. Íslendingar hafa hins vegar ekki viljað taka á sig nein útgjöld af þessari framkvæmd fremur en öðrum. Bandaríkin hafa tekið að sér varnir landsins og þar með á sig skuldbindinguna til að standa undir þessum útgjöldum eins og öðrum, sem eru af vörnum landsins og þar af leiðandi er þessi tiltekna samningsgerð við Bandaríkin gerð, en segja má, að þau komi þar beinlínis fram fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins, eins og þau gerðu raunar varðandi sjálfan varnarsamninginn 1951. Það var gott, að þessi spurning kom fram frá hv. 5. þm. Reykv., vegna þess að það var ljóst, að hann taldi, að lögmæti samningsins mundi velta á því og er þá ljóst eftir það, sem hér er upplýst, að hann er ekki sammála hv. 5. þm. Austf. um, að þessi samningsgerð sé út af fyrir sig ólögmæt, eins og til hennar sé stofnað. Hitt er svo allt annað mál, að menn geta verið á móti samningnum vegna þess, að þeir telji, að hann sé ástæðulaus eða óhyggilegur.

Þá er vitnað til þess, að einkennilegt sé, að slíkur samningur sé gerður hér, samtímis því sem verið sé að leggja niður erlendar herstöðvar víðs vegar. Þá er á það að líta, að við höfum sjálfir ekki neinar eigin varnir og þegar menn t.d. bera saman aðstöðu okkar og aðstöðu Norðmanna, skulum við hafa það í huga, að Norðmenn hafa sínar eigin varnir og leggja á sig mjög verulegan kostnað til þess að halda uppi vörnum. Við aftur á móti höfum engar eigin varnir. Ef við aftur á móti hefðum einhverjar eigin varnir, er vafalaust, að framkvæmd slík sem þessi varúðarráðstöfun, miðuð við, að ófriður kynni skyndilega að brjótast út og til að gera það ólíklegra, að svo yrði, og án þess að í því felist nokkur ögrun við neinn annan aðila eða möguleiki til árásar á hann, — slik framkvæmd mundi vafalaust vera ein sú fyrsta, e.t.v. sú allra fyrsta, sem við sjálfir réðumst í, ekki sízt þar sem það er ljóst, að svo mikil áherzla er á það lögð af okkar bandamönnum, að þessi framkvæmd sé gerð, að hún er á þeirra allsherjar framkvæmdaáætlun, ekki þannig, að þeir geti ákveðið það fyrir okkar hönd, það erum við, sem höfum úrslitaráðin, en þeir hafa sannfært okkur um, að eftir atvikum er þessi endurnýjun tankanna nauðsynleg og eðlileg, til þess að hægt sé að segja, að varnir Íslands séu í skaplegu horfi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. Það er rétt, að það er margrætt. Í því hefur ekkert nýtt komið fram í þessum umr. umfram það, sem kom fram í umr. á síðasta hv. Alþingi. Ef menn vilja færa frekar sakir á ríkisstj. fyrir þessa samningsgerð, koma fram á henni ábyrgð, er hægurinn hjá að gera það með þinglegum hætti, hvort sem menn vilja með vantrauststill. eða sjálfstæðri yfirlýsingu af þingsins hálfu og ég skal til að fyrirbyggja allan misskilning um það beita mér fyrir og reyna að hafa áhrif á, að slík till. fái skjótan framgang í þinginu, þannig að um hana verði greidd umsvifalaust atkv., þegar þá hv. flm. og fylgjendur málsins hafa lokið sínum ræðum til að skýra sitt mál, svo ósennilegt sem það er órökstutt.