05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

Stóriðjunefnd

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Í fréttatilkynningu í Alþýðublaðinu, sem birtist í dag, er skýrt frá því, að ríkisstj. hafi nú nýlega skipað 7 alþm. í nefnd í svonefndum stóriðjumálum til þess að athuga sérstaklega um hugsanlega stórvirkjun og byggingu alúminíumverksmiðju í því sambandi. Í þessari fréttatilkynningu er frá því skýrt, að samkv. ósk ríkisstj., eins og segir í blaðinu, hafi lýðræðisflokkarnir þrír, Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl., fengið tækifæri til þess að skipa menn í þessa nefnd. Mér var vel kunnugt um, að það var á döfinni, að slík n. sem þessi yrði skipuð. Hæstv. iðnmrh. hafði haft samband við mig fyrir hönd okkar Alþb.-manna nokkuð um þetta mál og sagt okkur þá m.a. frá því, að í ráði væri, að skipa slíka nefnd sem þessa. Við höfðum í tilefni af því sett fram eindregna ósk og ákveðna kröfu um það, að menn frá þingflokki Alþb. ættu þarna jafnan rétt á við þm. úr öðrum þingflokkum, til þess að eiga sæti í þessari n., sem ynni að athugun fyrir Alþingi í jafnmikilvægu máli og hér er um að ræða. Og ráðh. tók málið til nánari athugunar. En þessi fréttatilkynning, sem hér er nú birt í Alþýðublaðinu, virðist vera staðfesting á því, að ríkisstj. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að það ætti að ganga fram hjá einum þingflokknum í þessu máli, það ætti að synja þeim flokki um rétt til þess að fylgjast með undirbúningi þessa stórmáls. Ég hlýt því að mótmæla með hinum hörðustu orðum slíkum vinnubrögðum sem þessum og það því fremur sem um jafnstórt og veigamikið mál er að ræða eins og það, sem hér er um að ræða.

Fyrir Alþingi hefur legið þáltill, um það, að Alþingi kysi 7 manna nefnd til þess að kynna sér öll gögn þessa máls og fá að fylgjast með framhaldsundirbúningi málsins. Og það hafa komið hér fram á Alþingi hvað eftir annað óskir um það frá alþm., að Alþingi fengi að fylgjast betur með þessu máli, en raun hefur verið á. Ríkisstj. hefur haft málið í sínum höndum eða í höndum sérstakrar nefndar, sem hún hafði valið, í 31/2 ár, hygg ég. En nú er sem sagt orðið við þessum kröfum, en þá á þennan hátt, að þáltill., sem hér liggur fyrir Álþingi, er ekki afgreidd, heldur látin liggja, en ríkisstj. bregður á það ráð að skipa 7 manna nefnd til þess að koma í veg fyrir það, að sá þingflokkur, sem á tvímælalaust þingræðislegan rétt til þess að eiga mann í 7 manna nefndum, geti fengið að fylgjast með jafnþýðingarmiklu máli eins og hér er um að ræða. Hæstv. forsrh. hefur tilkynnt það hér í ræðu, sem hann hefur haldið, þar sem hann hefur drepið á þessi mál, að hann teldi einmitt, að þessi mál væru langsamlega veigamestu málin, sem Alþingi það, sem nú situr, þyrfti um að fjalla. Og ég býst við því, að það sé nokkuð nærri lagi. Við vitum, að hér er um það að ræða, hvort Íslendingar eigi að ráðast í stærri raforkuvirkjun, en hér hefur verið rætt um að ráðast í áður, — virkjun, sem talið er, að muni kosta 1100–1200 millj. kr. og mundi að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á það, hvernig verður í framtíðinni með raforkuverð. En það hefur einnig mikið að segja í þessum efnum, hvernig á að fara með þessa raforku, hvort það á að gera einhvern fyrirfram samning um ráðstöfun á henni til lengri eða skemmri tíma. Í slíkum málum sem þessum, eru að jafnaði lögð fram löng og mikil álít sérfræðinga, sem hafa unnið að athugun málsins um langan tíma. Slíkt álít er vitanlega ekki hægt að kynna sér til neinnar hlítar í stuttri þingmeðferð á málum, en það er að jafnaði gert einmitt í slíkum undirbúningsnefndum eins og þeirri, sem hér er verið að skipa. Það er líka skiljanlegt, að við undirbúning slíkra mála sem þessara þarf að yfirheyra sérfræðinga, spyrja þá um marga hluti og hlusta á þeirra svör. Það er því beinlínis að ganga á hlut þm. og þingflokka, þegar þannig er á málum haldið í slíkum stórmálum sem þessu, að þeim er ekki gefinn kostur á því eftir eindreginni ósk, að fá að eiga mann í slíkri undirbúningsnefnd sem þessari.

Ég hlýt því hér við þetta tækifæri að mótmæla því harðlega, að svona er á málunum haldið. Auk þessa koma svo jafnveigamiklir þættir inn í þetta mál eins og samningar við erlenda aðila um atvinnuréttindi og aðstöðu í því sambandi í landinu, svo að full ástæða er einnig til, að allir þingflokkar fái að koma sínum sjónarmiðum að í sambandi við undirbúning málsins. Þá ber vitanlega að hafa það í huga, að í þessum efnum hefur Alþingi enn enga ákvörðun tekið. Alþingi hefur enn enga ákvörðun tekið um það, hvorki hvort í þessar framkvæmdir skuli ráðast né hvernig. Sú nefnd, sem því er skipuð nú, er undirbúningsnefnd í málinu og geta eðlilega öll sjónarmið komið fram. En það eru vitanlega engin rök að halda því fram: Þessi mun verða á móti málinu, af því hefur hann ekkert inn í nefndina að gera. Slíkt eru vitanlega óþingræðisleg vinnubrögð í mesta máta. Og ef þannig á að halda á þessu máli, mun það hefna sín grimmilega í sambandi við afgreiðslu annarra mála á Alþingi. Ef á að reyna að troða þannig á þingmannsréttindum heilla þingflokka, þá verður það ekki þolað með þögninni.

Ég vil nú alveg sérstaklega í tilefni af því, sem þegar hefur gerzt í þessu máli í sambandi við þessa frétt, sem birzt hefur í Alþýðublaðinu, leyfa mér að skora alveg sérstaklega á hæstv. forsrh., að hann hlutist til um það, hafi þessi ákvörðun verið tekin, að hún verði tekin til endurskoðunar og þingmannsréttur okkar Alþb.-manna verði ekki brotinn á jafn herfilegan hátt eins og hér er sýnilega stefnt að, því að það er ekkert um það að villast, það þýðir ekki að vera með nein undanskot í máli eins og þessu, að hér sé aðeins um að ræða n., sem

ríkisstj. er að skipa. Hún er að skipa hér n. alþm. til þess að fjalla um mál, sem Alþingi á eftir að taka ákvörðun um og till. hafa legið hér fyrir Alþ. um það, að Alþ. kysi þessa sérstöku n. og hefði Alþ. kosið n., áttum við hér fullan þingræðislegan rétt á því að eiga mann í n. Ég verð að segja, að það er einkennilegt pukur, sem virðist þurfa að vera í sambandi við þetta mál, ef það þarf að vinna þannig að undirbúningi þess, að það þarf að halda ákveðnum hópi alþm. þar fyrir utan, ef dagsljósið má ekki skína á þetta mál.

Ég ítreka svo og þarf ekki að hafa mitt mál lengra að þessu sinni, — ítreka svo óskir mínar til hæstv. forsrh. sem forustumanns í ríkisstj., að hann sjái um það, hafi þessi ákvörðun verið tekin, sem Alþýðublaðið skýrir frá, á þennan hátt, þá verði hún tekin til endurskoðunar og réttur okkar Alþb.-manna verði ekki fyrir borð borinn á þann hátt, sem hér hefur verið greinilega stefnt að.