05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

Stóriðjunefnd

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég harma það, að hv. 5. þm. Austf. skuli ekki hafa haft samband við hæstv. iðnmrh., svo að hann gæti fengið upplýsingar hjá honum um málið, hvort heldur hér á fundinum eða utan fundar. Það er síður en svo ætlun ríkisstj. að halda nokkurri launung yfir þessu máli eða reyna að koma í veg fyrir það, að Alþb. fái að fylgjast með því, sem í því hefur gerzt og kann að gerast. Og hæstv. iðnmrh. hefur einmitt átt tal við hv. þm., fyrirspyrjanda, um það, hvernig bezt væri að koma því við, að Alþb. fylgdist með málinu. Það mun vera rétt, að hv. þm. lét uppi ósk um það, að flokkur hans fengi fulltrúa í þessari n. En hann var að því spurður, hvort það gæti komið til greina, að hans flokkur yrði með því að samþykkja samningsgerð við erlenda aðila um alúminíumverksmiðju hér. Og hv. þm. mun hafa lýst því yfir við hæstv, iðnmrh., að það kæmi ekki til neinna álíta, að þingflokkur hans yrði með þessu, um það væri ekki að ræða.

Nú er þessi sérstaka nefndarskipun ætluð til að kanna það mál, hvort þingflokkur geti á það fallizt, að slíkur samningur verði gerður. Enginn þingflokkur hefur tekið ákvörðun um slíka samningsgerð, en þrír þingflokkar hafa talið málið þess vert, að það væri skoðað ofan í kjölinn, hvort þvílíkan samning ætti að gera. Fjórði þingflokkurinn hefur hins vegar nú þegar tekið ákvörðun um það að verða með öllu á móti málinu. Hann hefur því fyrir fram klofið sig frá þeirri athugun, sem nú á að fara fram. Ég get ekki séð, að það sé eðlilegt, að hann taki þátt í þeirri athugun, ef það er rétt, sem hæstv. iðnmrh. skildist á hv. 5. þm. Austf., að Alþb. væri þegar staðráðið í því að vera undir öllum kringumstæðum og hvað sem upplýstist í málinu á móti því, að þessi samningur yrði gerður. Þá er hans afstaða slík, eins og þegar búið er að kljúfa nefnd, þá starfa nefndarhlutar ekki saman. Byggt á þessu virtist okkur það eðlilegasta vera, að Alþb. tilnefndi fulltrúa til þess að fylgjast með málinu og eiga um það viðræður við hæstv. iðnmrh. jafnóðum og fá upplýsingar um allt, sem gerðist, þannig að engu væri fyrir þeim haldið leyndu og þeir ættu kost á því, eins og ég segi, jafnóðum að fá upplýsingar, sem fram koma. En það mundi einungis verða til tafar og að engu gagni, að þeir tækju þátt í að athuga þá ákvörðun, sem þeir þegar eru búnir að taka. Ef þetta er misskilningur og þeir hafa enn opinn huga í málinu og vilja taka þátt í efnisathugun þess, þá horfir málið öðruvísi við. En það verður þá að liggja fyrir, að þeir hafi opinn hug og séu ekki fyrir fram ákveðnir. Ef þeir eru búnir að taka sína ákvörðun, er þýðingarlaust fyrir þá að skipa menn til þess að rannsaka málið og komast að niðurstöðu, sem þeir þegar hafa fundið.

Nú hafði iðnaðarmrh. ætlað sér að tala um þessa málsmeðferð við hv. þm., áður en störf væru tekin upp að málinu og ríkisstj. á engan þátt í þeirri birtingu fréttar, sem er í Alþýðublaðinu og ég hef ekki séð hana. Það er engin fréttatilkynning komin frá ríkisstj. um málið, og ætlun okkar var, að málsmeðferð yrði rædd við formann Alþb. eða formann þingflokks Alþb., áður en störfin hæfust. En ég held, að það hljóti allir að vera sammála um, að það sé þýðingarlaust fyrir þá að taka þátt í störfum að athugun, sem þeir þegar hafa framkvæmt og eru komnir að óhagganlegri ákvörðun um, eftir því sem iðnmrh. skildi hv. þm.