05.02.1965
Sameinað þing: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

Stóriðjunefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við Alþb-.menn erum ekki að biðja um neina náð í þessu sambandi, heldur erum við að heimta okkar rétt. Það er okkar réttur að fá að hafa mann í nefnd, sem skipuð er 7 alþm. og það er aðeins krókaleið til þess að komast hjá því, ef það á að fara að skipa það þannig, að það séu skipaðir af hálfu ríkisstj. 6 menn og svo einn ráðh. sem oddamaður. Það er satt að segja hálfundarlegt að vera að halda því fram, að það, hvaða skoðanir menn hafi á þessum málum, eigi að ráða því, hvernig sé skipað í nefnd eða ekki. Það er fyrir Alþingi og þjóðina í heild nauðsynlegt, að þessi mál séu athuguð í nefnd frá öllum hliðum og þeir menn, sem eru á móti því, að erlent auðvald nái tökum hér á Íslandi, þeir eigi fulltrúa í slíkri nefnd líka, en að aðrir, sem álíta, að slíkt væri heppilegt, séu þar ekki einir. Það er þess vegna alveg tvímælalaust, að frá hagsmunum þjóðarinnar séð og frá heiðri Alþingis séð á að skipa svona nefnd fulltrúum Alþingis án tillits til þess, hvaða skoðanir þeir hafa. Ef það á að fara að taka upp einhverjar utangarðsreglur að nýju, þá hefur það aldrei reynzt Alþingi vel fram að þessu og ég held, að það reynist ekki heldur núna. Ég held, að það sé bezt fyrir hæstv. ríkisstj. að athuga undireins sinn gang í þessu.

Hæstv. forsrh. sagði, að hér ætti ekki neinu að leyna. Ég skal þá gefa smáupplýsingar, af því að það vill þannig til, að ég á sæti í nokkrum nefndum, sem hafa með vissa hluta af þessu máli að gera, bæði fyrir hönd ríkisstj., Alþingis og Reykjavíkurborgar. Og ég sé ekki betur, en það sé ýmislegt á ferðum, sem eigi að leyna þjóðina. Ég er fulltrúi í Sogsvirkjuninni fyrir Reykjavíkurbæ. Það hefur ekki verið haldinn fundur í henni, sem ætti þó að láta það nokkuð varða sig, um Búrfellsvirkjun og annað slíkt í allmarga mánuði, ef ekki meir en ár. Ég er fulltrúi Alþingis í raforkumálanefnd, þar sem talað var um fyrir nokkru að fara að ræða þetta mál og síðan hafa engir fundir verið haldnir þar. Ég var skipaður í sumar af hálfu hæstv. ríkisstj. í sérstaka landsvirkjunarnefnd, 10 manna, þar sem átti að ræða um landsvirkjun hjá Búrfelli og menn geta haft mismunandi skoðanir á Búrfelli og virkjuninni þar, hvort sem menn eru með eða móti útlendu auðvaldi, þannig að það mál kemur alveg jafnt til kasta manna, hvaða skoðanir sem menn hafa á slíku.

Það voru haldnir fundir í sumar, 2–3, í þessari nefnd og síðan hefur það verið stöðvað. Og af hverju hefur það verið stöðvað? Af því að tæknilega séð liggur það nú þegar fyrir, að Búrfellsvirkjunin er hreinasta vitleysa, að leggja í, án frekari rannsókna. Og af því hafa þeir menn, sem þarna eiga sæti og hafa þarna forustu og þar með hæstv. fjmrh. sem formaður n., þeir hafa ekki treyst sér til þess að kalla saman fund í þessari nefnd aftur. Það mundi þá hafa verið óskað eftir því, að þeir menn, sem hæstv. ríkisstj. fékk til þess að athuga hér ýmislegt viðvíkjandi ísalögum og öðru slíku í sambandi við okkar fallvötn, norskir sérfræðingar, sem hingað komu og rannsökuðu þessi mál í haust, — það mundi hafa verið óskað eftir því, að þeir yrðu látnir segja sínar skoðanir á þessu, vegna þess að það er vitað, að þeir hafa þegar lýst því yfir, að Búrfellsvirkjun sé dýrasta virkjun, sem Ísland getur lagt í. En það á að leyna þjóðina þessum hlutum, því að það er verið að fara með menn út í hreina vitleysu þarna. Það á að reyna að útiloka alla þá, sem eru með opin augun og vilja gagnrýna þetta, frá því að geta komið þarna nærri og frá því að geta sett fram sínar spurningar. Síðan á að marka þessi mál innan þröngra vébanda og koma með þau sem fullgerðan hlut fram fyrir Alþingi. Ég þekki allt of vel af langri reynslu meðferð slíkra mála, til þess að ég noti ekki tækifærið til þess að vara bæði Alþingi og þjóðina við því, sem þarna er að gerast. Þau myrkraverk, sem tæknilega séð er þarna verið að undirbúa og menn ætla að vera komnir svo langt með, að búið sé að semja um þau erlendis, áður en Alþingi fær raunverulega nokkuð að segja, — þau verður að afhjúpa, og þess vegna er nauðsynlegt að ræða þessi mál í tíma.

Ég skora ekki sízt á hæstv. raforkumálaráðh. að koma hér með yfirlýsingar frá þeim sérfræðingum, sem hérna voru, um útlit fyrir virkjun í Búrfelli og leggja þær fram. Það er ekki til neins að eiga að vera trúnaðarmaður ríkisstj., Alþingis og Reykjavíkurborgar í mismunandi nefndum og horfa síðan upp á það, að öll störf allra þessara nefnda eru stöðvuð, þegar málið er komið á þetta stig, sem núna er, af því að það er verið að reyna að pína þarna fram ákvarðanir á bak við tjöldin, án þess að þær fáist ræddar opinberlega.

Svo verð ég að segja það og það datt mér satt að segja ekki í hug fyrr en í dag, að mig fór að gruna margt, þegar ég sá Alþýðublaðið í morgun, þegar það var allt í einu komið upp, að sú gamla afturganga, lýðræðisflokkarnir þrír, eru nú farnir að setja menn í að athuga sérstaklega undirbúning að því að fá erlent auðvald inn í landið. Hvað þýðir: lýðræðisflokkarnir þrír? Hvað dettur manni í hug, undir eins og minnzt er á þetta? Jú, manni dettur í hug hernám, hermang, sölunefnd setuliðseigna, allt þess háttar svínarí, sem þolir ekki dagsljósið, það, hvernig menn skipta á milli sín bak við tjöldin hinum og þessum gróða, sem hvergi kemur fram til skatts og láta hann renna eftir ýmsum brautum til hernámsflokkanna þriggja. Ég hef sjálfur flutt hér áður till. um að rannsaka starfsemi sölunefndar setuliðseigna, en aldrei fengizt neitt í gegn. Á þessi n., sem nú á að skipa, að verða eitthvað í þá áttina, að það fáist ekki einu sinni rannsókn á því, hvernig hennar undirbúningur hafi verið í sambandi við samningana og annað slíkt? Eða á þetta að merkja, að það sé verið að undirbúa að koma upp nýjum Keflavíkurvelli? Á að fara að koma upp nýjum Keflavíkurvelli hérna rétt í nánd við Reykjavík, einhverju sérréttindasvæði hentugu fyrir smygl eða eitthvað þess háttar, sem á að undirbúa? Það er bezt, að hlutirnir fari að koma alveg fram í dagsljósið, þegar farið er að vinna svona að þessum málum. Er það eitthvert samkomulag eins og Aðalverktakar eða eitthvað þess háttar? Þegar við heyrum talað um þetta, samstarf lýðræðisflokkanna þriggja og þeir eigi að vera þarna, þá vitum við fyrir fram, að það er eitthvert svínarí, sem á að fara að gera.

Framsfl. — það er ekkert undarlegt, að hann komi þarna inn. Að vísu var hann að gefa ákaflega fagrar yfirlýsingar fyrir nokkru og sérstaklega formaður hans og einu sinni datt mér í hug að treysta þeim, að sá flokkur væri á móti því að vera að fá erlent fjármagn inn í landið. Hins vegar hefur maður þá reynslu, að sá flokkur er alltaf á uppboði, svo að ég býst við, að það muni vera búið að bjarga honum núna með þessa hluti og ég óska ríkisstj. til hamingju með það og allt það þokkalega, sem í sambandi við það stendur. Mér skilst, að það sé búið að kaupa Framsfl. til þess að vera með í þessu. Og það er náttúrlega ákaflega ánægjulegt fyrir okkur, að það skuli ekki aðrir eiga að vera í svona nefnd en þeir, sem sé hægt að kaupa. En hvort það sé jafnheppilegt fyrir þjóðina, það gegnir aftur á móti öðru málí. Mér sýnist sem sé verið að undirbúa þarna eina nefndina enn þá, sem muni ekki þola að sjá dagsljósið.

En það er annað, sem er vert að menn geri sér alveg ljóst í þessu sambandi. Um hvað á að semja þarna? Það á að semja um að fá erlendan auðhring hér inn í landið, sem á að koma upp stærsta og ríkasta fyrirtæki, sem til verði í landinu. Það á að fá erlendan auðhring hingað, sem ef framhald verður á þessu kemur til með einn saman að eiga meira í fyrirtækjum á Íslandi, heldur en allir íslenzkir atvinnurekendur í sjávarútvegi til samans. Það á að semja við einn atvinnurekanda, sem verður ekki aðeins ríkastur allra atvinnurekenda á Íslandi, heldur ríkari, en allir aðrir til samans. Það á að semja á þeim grundvelli við þennan aðila, að hann á að fá sérréttindi eins og aðalsmenn í Frakklandi í gamla daga, sérréttindi fram yfir alla íslenzka atvinnurekendur. Ég efast ekki um, að hann eigi að fá raunverulegt skattfrelsi. Ég gæti trúað, að hann ætti líka að fá raunverulegt tollfrelsi og ég gæti trúað, að það ætti að tryggja honum allmörg fleiri sérréttindi. Á kannske að fara að semja við þennan erlenda auðhring eins og hann væri erlent ríki? Á að fara að veita honum með einhverjum milliríkjasamningi rétt til þess, að hann verði ekki skattlagður í framtíðinni á sama máta og aðrir atvinnurekendur á Íslandi? Á að fara að gera milliríkjasamning við eitt erlent félag eins og það væri eitthvert erlent ríki, sem í hlut ætti? Það er bezt að við spyrjum og það væri æskilegt, að það væri svarað einhverju, þegar svona hlutir eru að gerast. Og má ég þá spyrja: Er meiningin að semja við þennan erlenda atvinnurekanda þannig, að hann kannske fyrir utan visst skattfrelsi og visst tollfrelsi og viss sérréttindi fram yfir alla atvinnurekendur á Íslandi eigi líka að fá sérstök réttindi gagnvart íslenzkri verkalýðshreyfingu, þannig að þessi maður eða þessi hluthafi, þetta hlutafélag heyri ekki undir íslenzka vinnulöggjöf? Á að semja þannig, að allur sá réttur, sem íslenzkur verkalýður hefur áunnið til þess að heyja sína kaupgjaldsbaráttu og til þess að knýja fram í samningum við atvinnurekendur ýmsa hluti, sem knúðir hafa verið fram á undanförnum árum, það komi ekki þessum atvinnurekanda við? Á að semja þannig við þennan atvinnurekanda, að ef verkalýðshreyfingin semur við íslenzka atvinnurekendur um, að það skuli greiða 6%, 7%, 10% í orlof, þá skuli hann ekki heyra þar undir? Á að semja við hann um það, að ef íslenzk verkalýðshreyfing semur við íslenzka atvinnurekendur um, að það skuli leggja á launaskatt og ríkisstj. undirskrifar það, þá skuli hann vera undanþeginn honum? Á að semja við þennan aðila um það, að allt, sem íslenzk verkalýðshreyfing kann að gera á næstu 25 árum í samkomulagi við íslenzka atvinnurekendur og íslenzka ríkisstj., það skuli ekki gilda fyrir hann, ríkasta atvinnurekandann á Íslandi? Ef hæstv. ríkisstj. og sá nýi meiri hluti Alþingis hugsar sér, að hægt sé að gera einhverja þess háttar samninga, án þess að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar komi þar nærri og gera það bak við þá og útiloka þá fyrir fram frá því að reyna að koma í veg fyrir svona hluti, þá eru menn orðnir blindaðri, en ég hélt.

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi, en sem svo, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið í sambandi við þá nýju hernámsstefnu, sem nú skal upp taka og kannske yrði kennd við Straumsvík í staðinn fyrir Keflavík, að hún hafi ákveðið að kasta hanzkanum til íslenzkrar verkalýðshreyfingar, íslenzk verkalýðshreyfing skuli líta svo á héðan af, að hún skuli vera utan garðs.

Ég hef satt að segja hingað til haft þá trú á skynsemi manna í stjórnarflokkunum og þeim tilvonandi stjórnarflokki, Framsfl., að það þýddi eitthvað að tala við þessa menn með rökum og þegar verið væri að athuga mál í n. eins og 7 manna n. frá Alþingi, skipaðri alþm., þá þýddi það eitthvað að koma fram með rök, þótt menn væru á móti útlendu auðvaldi, þá væri hægt að sýna mönnum fram á t.d., að eitthvað væri rangt í Búrfellsvirkjun eða vitlaust væri að gefa útlendu auðvaldi þessi og þessi stórkostlegu sérréttindi á Íslandi. Og ég hef haldið, að það hefði einhver áhrif, að menn, sem hafa opin augu fyrir slíku, en loka þeim ekki, ættu fulltrúa í slíkri nefnd, til þess að reyna að koma viti fyrir þá menn, sem eru að láta blindast. En það verður náttúrlega hæstv. ríkisstj, sjálf að ákveða, hvað henni finnst. Íslenzk verkalýðshreyfing mun náttúrlega taka afleiðingunum af því. Það er greinilegt, að hverju er stefnt. Það hefur áður verið reynt á Alþingi og það af þeim þrem lýðræðisflokkum, sem nú eiga að skipa þessa nefnd, að setja verkalýðshreyfinguna utangarðs á Alþingi og því lauk svo, að það var sú ríkisstj. og sú stjórnarsamsteypa, sem að því stóð, sem varð að fara, en ekki verkalýðshreyfingin.

Fyrir mér er þetta hitamál, vegna þess að ég veit m.a., að hér hefur verið dreift meðal þm. plöggum, þar sem eru mjög villandi og einhliða upplýsingar og áróður frá hálfu þeirra manna, sem vinna að því að reyna að fá útlent auðvald hér inn í landið og það í svo ríkum mæli, að það yfirgnæfi alla íslenzka atvinnurekendur. Og mér er það fyllilega Ijóst, svo harðvítuglega sem við, sem nú erum í Alþb., börðumst gegn því að fá hernámið hér yfir landið, þá er innrás þessa útlenda auðvalds enn þá hættulegri fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands og íslenzkt þjóðerni, heldur en nokkurn tíma hernámið hefur reynzt. Þess vegna er bezt, að menn frá upphafi geri sér alveg ljóst, hve harðvítuglega muni verða um þetta mál barizt. Við vitum það ósköp vel, og ég vona, að það sé ekki leyndardómur hér fyrir neinn, að það er meiningin skv. þessum samningi að stórhækka allt rafmagn til allra neytenda á Íslandi og ég hef séð því haldið fram í sumum blöðum í blekkingarskyni, að það ætti að tryggja með þessu eitthvað ódýrara rafmagn en ella. Það er nauðsynlegt, að þetta mál verði rætt og það nú þegar, ekki sízt ef það á að fara að stíla upp á svona undirbúning að því. Þegar lýðræðisflokkarnir þrír, þegar hernámsflokkarnir þrír ætla að fara að sameinast um það að innleiða nýtt efnahagslegt hernám yfir landið, nýja spillingu og allt, sem því fylgir, allt það, sem þolir ekki dagsins ljós, þá er bezt, að baráttan út af því sé tekin upp nú þegar.