19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. biður um orðið utan dagskrár í tilefni af þeim mikla vanda, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins er í, eins og hann segir, þar sem hún getur nú ekki fullnægt lánaþörfum, að mér skilst á hans fsp., og nú séu aðeins afgreidd lægstu lánin. Það væri náttúrlega ástæða til þess að ætla, að stofnlánadeildin væri í miklum vanda stödd, vegna þess að framkvæmdir á því ári, sem nú er að liða, eru miklu meiri, en nokkurn tíma áður og því meiri vandi á höndum að fullnægja fjárþörfinni. En sem betur fer tekst ekki verr til núna en áður. Fjárþörfinni verður fullnægt og til upplýsinga fyrir hv. þm. er þess að geta, að í gærkvöld hafði verið lánað úr stofnlánadeildinni, það sem af er þessu ári, 71.2 millj. kr. Hvað farið hefur út í morgun, skal ég ósagt láta, en það gætu vel verið 10 millj. kr. Það, sem er óafgreitt, eru nokkrir tugir millj. En það er gert ráð fyrir, að þegar afgreiðslunni er lokið núna fyrir, jólin, verði útlánin á þessu ári 110–115 millj., sennilega 115 millj. Þá er þess að geta, að í fyrra urðu útlánin 102 millj., að mig minnir, 1963.

Það kemur mér alveg á óvart, ef hv. 1. þm. Vesturl. er með þá þanka, sem hann hlýtur að vera, úr því að hann gerði þessa fsp., að hann fái ekki afgreiðslu á sínum málum nú, áður en hann fer heim og ég vænti þess, að hv. þm. geti farið glaður heim í jólafríið með það að hafa lokið fyrirgreiðslu sinna umbjóðenda að undanskildum þeim, sem höfðu ekki sótt um lán í tæka tíð. Og út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það, þótt bankinn afgreiði ekki þau lán fyrir áramót, sem ekki var sótt um á tilskildum og auglýstum tíma. En útlánin á þessu ári verða allmiklu hærri en 1963, en 1963 urðu þau langhæst, sem þau hafa nokkurn tíma verið. Þau urðu 1962 70.3 millj., en 1958 voru þau 52 millj., en eins og ég sagði áðan, má reikna með, að þau verði 110, jafnvel 115 millj. kr. á þessu ári.

Ég vænti þess, að hv. þm. nægi þessar upplýsingar og hann fari í Búnaðarbankann á mánudaginn og leiti eftir afgreiðslu sinna mála.