19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra, að það skuli eiga að afgreiða öll þau lán, sem lofað var á s.l. vori, að fjárhagur bankans sé það góður, að þess er auðið. En einkennilegt hefur verið, að það hefur verið ákaflega mikil tregða að fá lán, af hvaða ástæðu sem það hefur stafað, og afgreiðsla lána hefur verið allmiklu seinni en nokkurn tíma áður. Venjulega hefur afgreiðsla verið búin um þetta leyti, enda mikið annað að gera fyrir starfsfólk bankans, þegar líður að áramótum og ég hygg, að það sé ekki að ófyrirsynju, að það sé spurt um þessa hluti nú, þar sem aldrei hefur verið jafnáliðið, þegar lokið hefur verið við afgreiðslu lána. Og á annað vil ég minna líka, að bændur hafa verið skattlagðir sérstaklega í því skyni að tryggja fjárhag stofnlánadeildarinnar og því eðillegt, að þeir geri meiri kröfur, en áður var til þeirrar deildar.