11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Vertíðinni er að ljúka, það vitum við. En niðurstaða af aflabrögðum og afkomu hefur ekki legið að fullu fyrir enn sem komið er. Það er að vísu rétt, að sums staðar hefur veiðin gengið treglega og aflabrögðin verið minni, en æskilegt hefði verið. Hins vegar er líka vitað, að annars staðar hefur veiðin gengið mjög sæmilega og sums staðar vel, en sem sagt, skýrsla um þetta er ekki fyrir hendi. En ég get hins vegar sagt, að það hafa ekki heldur borizt frá aðilunum neinar óskir sérstaklega í þessu sambandi enn sem komið er, en verða auðvitað, ef þær koma fram, teknar til athugunar. Hins vegar get ég skýrt frá því, að það hefur verið sótt um frest á afborgunum af stofnlánum báta á Vestfjörðum og Norðurlandi, aðallega þeim, sem línuveiðar hafa stundað og hafa haft mjög lélega afkomu. Í það mál var sett nefnd og rætt við aðallega fiskveiðasjóðinn, sem hefur mest af þessum lánum og var þar tekið vel á þessari málaleitun útvegsmanna að norðan og frá Vestfjörðum, sem harðast hafa orðið úti, með því að fresta afborgunum af lánunum, sem áttu að greiðast á árunum 1963 og 1964. En sem sagt, það hefur ekki enn borizt í mínar hendur nein málaleitun fyrir vertíðina í ár,og þess vegna hefur engin afstaða verið tekin til þess máls enn, en verður að sjálfsögðu athugað, ef hún liggur fyrir.