02.11.1964
Efri deild: 9. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

Athugasemdir um þingstörf

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að blanda sér mikið inn í þessar umr., en ég vil þó taka undir það, sem hér hefur komið fram af gagnrýni í þessa átt. Yfirleitt hefur það verið svo, að það eru eingöngu þau mál, sem hæstv. fjmrh. hefur flutt, sem hafa verið lögð fram í Ed., en öll önnur mál verið lögð fram í Nd. af hálfu ríkisstj. Þetta er ekkert sérstakt nú. Þetta hefur oft gerzt áður. Að vísu hef ég ekki skoðað, hvernig það dæmi lítur út. En það er eitt, sem er ástæða til fyrir Ed.-menn að gagnrýna, ekki eingöngu út af því, að vinnubrögð verði með óeðlilegum hætti á þennan hátt, heldur einnig annað, að yfirleitt vill það brenna mjög við, að þegar lögð eru fram meiri háttar frv., þá flytja ráðh. um þau ýtarlegar framsöguræður, en það vill æðioft brenna við, að framsöguræður fyrir þeim í seinni d. séu miklu viðaminni og þá oft látið nægja jafnvel að vísa til þess, sem sagt er í fyrri d. Þetta hlýtur að leiða til þess, ef það yrði að staðaldri haft þannig, að frv. yrðu lögð fyrir aðra deildina, að það væri þá jafnvel ætlazt til þess, að þm. hinnar d. ættu að fylgjast með umr. í Nd., sem ég tel ekki sérstakan virðingarauka fyrir Ed., að við þurfum að gera, þó að ekki beri að lasta þá ágætu Nd.

En í byrjun þings finnst mér það ákaflega óviðkunnanlegt a.m.k. að þurfa að halda þingfund á þann veg, að þurfa að taka fyrir mál með afbrigðum. Ég veit, að hæstv. forseti mun ræða þetta mál við sina kollega og einnig veit ég og er vel kunnugt um það, að hæstv. fjmrh., sem hér á sæti í þessari d. og einnig hæstv. utanrrh., þeir muni taka það til athugunar við sína meðráðh., að það verði reynt að finna á þessu eðlilegri skipan upp á starfshætti þingsins alla. En ég vil mega leggja til á þessu stigi, af því að mér finnst það óeðlilegt að þurfa í byrjun þings að fara að taka til 1. umr. mál með afbrigðum, nema það sé mál, sem af sérstökum ástæðum þurfi að hraða gegnum þingið, að þá yrði þetta mál nú tekið út af dagskrá.