08.05.1965
Sameinað þing: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

Breyting á ríkisstjórninni

Á 50. fundi í Sþ., 8. maí, var tekin á dagskrá:

Tilkynning frá ríkisstjórninni.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Nú fyrir hádegið í dag var haldinn ríkisráðsfundur og bar ég þá svo hljóðandi tillögu upp fyrir forseta Íslands:

„Gunnar Thoroddsen fjmrh. mun takast á hendur sendiherraembætti í Danmörku og hefur því beiðzt lausnar frá ráðherraembætti. Leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til, að þér, herra forseti, fallizt á lausnarbeiðni ráðherrans. Jafnframt leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til, að Magnús Jónsson alþm. verði skipaður ráðherra í stað Gunnars Thoroddsens með sama verksvið og hann hafði.

Leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja fyrir yður, herra forseti, bréf um lausn Gunnars Thoroddsens frá ráðherraembætti, skipunarbréf handa Magnúsi Jónssyni alþm. til þess að vera ráðherra í ríkisstj. Íslands og enn fremur úrskurð um breyt. á forsetaúrskurði, nr. 64 1959, um skipun og skipting starfa ráðherra o.fl.“

Á þessar till. féllst forsetinn og hefur samkv. því Magnús Jónsson tekið við störfum fjármálaráðherra. Leyfi ég mér að bjóða hann velkominn til síns vandasama starfs, jafnframt því sem ég þakka fyrrv. hæstv. fjmrh., Gunnari Thoroddsen, fyrir hans frábæra starf í ríkisstj., ágætt samstarf við okkur, sem með honum höfum unnið og persónulega fyrir okkar langa samstarf í stjórnmálum og að öðrum efnum.

Gunnar Thoroddsen hefur nú setið á Alþ. lengst af allt frá því 1934. Ég hygg, að hann hafi verið kosinn á þing yngri, en nokkur annar og þó að hann sé enn á bezta aldri, á hann að baki sér lengri þingferil en flestir, sem á þingi hafa setið og veit ég, að allir alþm. taka undir með mér, þegar ég þakka honum hans ágætu störf á þingi. Við óskum honum allir gæfu og gengis í framtíðinni.