18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

96. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var þar samþykkt samhljóða í gær, eftir að menntmn. hafði einróma mælt með samþykkt þess.

Í frv. er lagt til, að stofnað sé nýtt prófessorsembætti við Háskóla Íslands í lífeðlisfræði, en nú annast sami prófessor kennslu og rannsóknir í lífeðlis- og lífefnafræði, en það er talið nauðsynlegt að skipta þessu embætti, þannig að sinn hvor prófessorinn annist kennslu og rannsóknir í hvorri greininni um sig.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1965 er gert ráð fyrir launum til þess að launa prófessor, sem skipaður yrði, ef þessi lög verða samþykkt, og enn fremur er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir fjárveitingu til stofnkostnaðar lífeðlisfræðideildar við læknadeildina.

Þetta frv. er flutt í samræmi við áætlun, sem háskólinn hefur gert um fjölgun kennara við stofnunina næstu tíu árin, en ráð er fyrir því gert, að mikil fjölgun verði á stúdentum við háskólann á næstu áratugum. Hefur verið áætlað, að tala stúdenta muni a.m.k. þrefaldast á næstu tveim áratugum.

Meginatriði þeirrar áætlunar, sem háskólinn hefur gert um kennarafjölgun við stofnunina, eru þau, að á næstu tíu árum verði stofnuð 32 ný prófessorsembætti við háskólann. Skiptast þau þannig á deildir: 2 við guðfræðideild, 7 í læknadeild, 3 í lagadeild, 1 við viðskiptadeild, 4 í heimspekideild, og 15 í verkfræðideild, eða samtals 32. Gert er ráð fyrir að fjölga öðrum kennurum, þ.e.a.s. dósentum og lektorum, um 49, og skiptast þau þannig á deildirnar: 33 í læknadeild, 5 í lagadeild, 2 í viðskiptadeild, 4 í heimspekideild og 5 í verkfræðideild. Gerir háskólinn þannig ráð fyrir þörf á 81 nýjum kennara á næstu tíu árum.

Í sambandi við þetta ber þess að geta, að þessi kennarafjölgun er ráðgerð eingöngu við þær deildir, sem nú starfa við háskólann, en uppi eru ráðagerðir um að auka verksvið háskólans á ýmsum sviðum, bæði að því er snertir kennslu og rannsóknarstörf. Í því sambandi er rétt að láta þess fyrst og fremst getið, að undanfarin ár hefur verið unnið að undirbúningi þess, að allir þeir, sem vilja gerast framhaldsskólakennarar, geti sótt fullgilda háskólamenntun við Háskóla Íslands, bæði á sviði tungumála og annarra hugvísinda og á sviði raunvísinda, þannig að sú menntun verði fyllilega sambærileg þeirri, sem krafizt er af framhaldsskólakennurum í nálægum löndum. En ég tel sjálfsagt að stefna að því, að allir framhaldsskólakennarar við íslenzka skóla verði háskólamenntaðir menn, sem hafi átt þess kost að hljóta menntun sína í Háskóla Íslands. Virðist þetta ekki hvað sízt sjálfsagt, eftir að verksvið kennaraskólans var aukið og hann gerður að stúdentaskóla, auk þess sem hann heldur áfram að mennta kennara fyrir barnaskólana. En jafnframt því sem háskólinn tæki að sér að sjá framhaldsskólakennurum fyrir menntun, framhaldsskólunum fyrir háskólamenntuðum kennurum, ætti kennaraskólinn að hafa aðstöðu til þess að veita þeim, sem eru starfandi eða setla að starfa við barnaskólana, framhaldsmenntun í sérgreinum kennarastarfsins, þ.e. framhaldsmenntun á kennaraháskólastiginu.

Þá tel ég rétt að geta þess, að ég tel nauðsynlegt, áður en langt um líður, að taka upp kennslu og rannsóknir í náttúrufræði t.d. og í almennum þjóðfélagsvísindum við háskólann.

Ég held, að þessar hugmyndir um vöxt og eflingu háskólans séu ekki aðeins raunhæfar, heldur einnig mjög gagnlegar, og tel, að þeim muni verða vel tekið. Þessu hefur raunar verið mjög vel tekið í hv. Nd., og ég vona, að hið sama verði upp á teningnum hér í hv. Ed.

Þá legg ég til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.