18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

96. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er meðmæltur þessu frv., sem hér liggur fyrir, og vil gera mitt til, að það fái greiðan framgang.

Hæstv. menntmrh. hefur yfirleitt sýnt málefnum háskólans mikla vinsemd og skilning, og er það honum til sóma, og ég fyrir mitt leyti er honum þakklátur fyrir það. En af því að ég á ekki sæti í þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, langar mig til með fáeinum orðum að benda á tiltekin atriði til athugunar í sambandi við þetta mál.

Hæstv. menntmrh. gat þess lauslega í framsöguræðu sinni hér áðan, að háskólaráð hefði látið frá sér fara ýtarlega greinargerð um nauðsyn á fjölgun fastra kennara við háskólann á næstu 10 árum og þar hefði verið farið fram á 32 ný prófessorsembætti. Það kann að vera, að ýmsum þyki hér gæta nokkurs stórhugar, en ég hygg þó að þessi málaleitan sé allvel rökstudd og ekki muni af þessu veita, ef háskólinn á að geta haldið til jafns við hliðstæðar stofnanir í öðrum löndum.

En auðvitað verður í þessu sem öðru, hversu æskilegt sem það kann að vera og er að efla háskólann sem mest, að taka tillit til getu og þjóðfélagshátta hér. Þetta er stórkostlega merkilegt mál og náttúrlega ástæða til þess að ræða það hér mjög ýtarlega, og hefði auðvitað verið æskilegt, að hæstv. menntmrh. hefði gert grein fyrir því máli almennt. En hann hefur gilda afsökun í því efni, þar sem tími er nú naumur og ekki er hægt að ræða þau mál almennt, og það ætla ég ekki heldur að gera. En ég ætla aðeins að nefna það, að eftir því sem ég veit bezt um þessa greinargerð, er gert ráð fyrir því í henni, að tvö prófessorsembætti séu þar í efstu röð, jafnrétthá, að ég held, og gert ráð fyrir því, að til þeirra verði stofnað með lögum á þessu ári. Það var þetta prófessorsembætti í læknisfræði, sem hér er lagt til að stofnað sé, og prófessorsembætti í réttarsögu við lagadeild háskólans.

Mér hefur skilizt, að í greinargerð háskólaráðs hafi ekki verið gert upp á milli þessara embætta. Nú hefur hins vegar frv. um aðeins annað verið flutt hér, og er það þá líklega hæstv. ráðh., sem hefur tekið ákvörðun um að láta þetta frv. ganga fyrir. Ég get ekki neitað því, að ég hefði náttúrlega kosið, að þessi tvö prófessorsembætti hefðu fylgzt að, en ef það hefur ekki þótt fært og ef það ekki þykir fært að stofna nú nema annað þeirra, þá skal ég ekki vera með neinn meting í því efni og skal út af fyrir sig ekki gera neina sérstaka athugasemd við það, að þetta prófessorat hefur verið tekið fram yfir.

Eins og hæstv. menntamálaráðherra drap á hér áðan, gera fjárlög næsta árs ekki ráð fyrir nema því embætti, sem hér er um að ræða. Þess vegna vil ég ekki leggja það til nú, að það sé stofnað á næsta ári prófessorsembætti í réttarsögu, þar sem fjárlög koma ekki til með að gera ráð fyrir því. En ég vil leyfa mér að skjóta því til nefndarinnar, sem fær þetta frv. til meðferðar, hvort á því sé ekki hægt að gera þá breytingu að bæta við prófessorsembætti í réttarsögu í lagadeild, þannig að þau verði látin sitja við sama borð, þessi prófessorsembætti, og farið að í því efni í samræmi við óskir háskólaráðs, en þó með því ákvæði, að það embætti verði ekki veitt fyrr en frá 1. jan. 1966, svo að það gefist tækifæri til þess að taka það upp í fjárlög, þannig að brjóti ekki á neinn hátt í bága við fjárlög næsta árs. Ég held, að sú tilhögun gæti líka verið skynsamleg ekki aðeins að því leyti, að þá væri alveg, að ég held, farið eftir óskum háskólaráðs í þess greinargerð, heldur og hinu, að með þeirri skipan gæfist nokkurt svigrúm í þessu efni og þeim manni, sem valinn yrði í þetta embætti, t.d. tími til að undirbúa sig undir það. En ég verð að segja, að ég tel það mjög heppilega tilhögun, þegar um stofnun nýrra háskólakennaraembætta er að ræða, að til þeirra sé stofnað með nokkrum fyrirvara, þannig að mönnum gefist svigrúm til undirbúnings. Ég vildi fyrst og fremst skjóta þessu til n. og biðja hana að taka þetta til athugunar. Og í annan stað vildi ég beina því til hæstv. ráðh., hvort hann telur sig ekki eftir atvikum geta fallizt á þessa skipan, en ef hann gæti það ekki, hvort hann væri þá við því búinn nú að gefa yfirlýsingu um þá ætlun sína, að flutt verði frv. um réttarsöguprófessor á næsta ári.

Ég sé ekki ástæðu til og vil ekki tefja tímann á því að rökstyðja nauðsyn eða æskileik á stofnun prófessorsembættis í réttarsögu. Ég vil aðeins geta þess, sem öllum má vera kunnugt, að á því sviði eigum við Íslendingar merkilega sögu og sú saga er gildur þáttur í okkar menningarsögu. Þar er mikið og margt órannsakað, og rannsóknir í þeim efnum hafa til þessa ekki verið ræktar sem skyldi, þó að við háskólann hafi starfað ágætir réttarsögufræðingar, en þeir hafa ekki getað sinnt þeirri grein sem aðalgrein. Ég held, að það væri mjög æskilegt, að það gæti verið við háskólann einn maður, sem gæti gefið sig við þessu verkefni, og hans embætti væri þá fyrst og fremst rannsóknarembætti frekar en kennsluembætti. Það er nú svo, að á sviðum lögfræðinnar flestum verðum við í háskólanum yfirleitt frekar þiggjendur en gefendur gagnvart öðrum löndum. Við sækjum mjög okkar hugmyndir þangað, en getum því miður lagt lítið þar af mörkum. En ég held, að einmitt á sviði réttarsögu gætum við frekar verið veitendur en þiggjendur, og ég hygg, að ef vel tækist til með val manns í þá stöðu, gæti hann lagt fram mjög þýðingarmikinn skerf, sem gæti verið metinn af öðrum þjóðum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég tek fram, að ég nefni þetta ekki hér til þess á nokkurn hátt að tefja eða torvelda framkvæmd þessa máls, sem hér liggur fyrir, en vildi aðeins koma þessum aths. á framfæri, biðja n. að athuga það og fá að heyra undirtektir ráðh. undir málið. En málið sjálft, efling háskólans og sú grg., sem frá háskólaráði hefur farið um það, er svo merkilegt mál, að náttúrlega væri það í fyllsta máta eðlilegt, að hæstv. menntmrh. gerði hv. Alþingi grein fyrir hugmyndum sínum í því efni við tækifæri. Og ég vil að lokum geta þess, að það gladdi mig sérstaklega að heyra það í framsöguræðu hans áðan, að hann hefði mikinn áhuga á því að koma upp nýjum kennslugreinum við háskólann, og þá fagna ég ekki hvað sízt því, að upp verði tekin þar kennsla í þjóðfélagsvísindum.