19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

96. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað það frv., sem hér er til umr., og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um efni þess umfram það, sem kemur fram í ýtarlegri grg., sem frv. fylgir, og enn fremur fylgdi hæstv. menntmrh. því úr hlaði hér í hv. þd. við 1. umr.

Vegna þess að ég hafði ekki áttað mig á breyttum fundartíma, kom ég það seint á þingfund í þessari hv. þd. í gær, að ég missti af 1. umr. um frv. Mér er tjáð, að eftir að hæstv. menntmrh. hafði fylgt því úr hlaði, hafi hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) hreyft því, hvort hugsanlegt varri að bæta inn í frv. ákvæði um stofnun prófessorsembættis í réttarsögu við lagadeild háskólans, þótt það kæmi ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1966, þar sem í fjárlfrv. fyrir næsta ár er ekki ráðgerð fjárveiting vegna slíks embættis. Ég veit, að hv. þm. leiðréttir það, ef þetta er ekki rétt hermt.

Af þessu tilefni kom fram í menntmn. ósk um það, að aflað yrði upplýsinga um afstöðu hæstv. menntmrh. til þessa atriðis, og hæstv. ráðh. tjáði mér, að stofnun slíks embættis væri til athugunar hjá ríkisstj., en hann lagði hins vegar áherzlu á, að þetta frv. yrði afgreitt fyrir jólafrí, eins og það liggur nú fyrir, og það mun reyndar einnig hafa komið fram í ræðu hæstv. ráðh. við 1. umr. málsins ósk um það, að frv. yrði afgr. fyrir jól. Þessar upplýsingar lágu fyrir í n., og voru nm. þá reiðubúnir til að afgreiða málið, og eins og fram kemur í nál, á þskj. 195, mælir n. einróma með, að frv. verði samþ. óbreytt.