02.03.1965
Neðri deild: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2210)

12. mál, vaxtalækkun

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Vegna veikindaforfalla hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssonar, mun ég leyfa mér að hafa hér nokkra framsögu fyrir nál. minni hl. fjhn. þessarar hv. þd. um það frv., sem hér liggur fyrir til umr., en það er um vaxtalækkun o.fl.

Eins og fram kom af máli hv. síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Norðurl. e., varð ekki samstaða um afstöðu til málsins í n., þar sem meiri hl. leggur til, að frv. sé fellt, en minni hl., þ.e.a.s. hv. 1. þm. Norðurl. v., hv. 5. þm. Austf. og ég, mælir með því, að frv. verði samþ.

Efni frv. er í örstuttu máli það í fyrsta lagi, að útlánsvextir verði lækkaðir, svo að þeir verði ekki hærri en þeir voru um áramótin 1959–60, og í öðru lagi, að bundnar innstæður innlánsstofnana hjá Seðlabankanum verði ekki auknar frá því, sem þær verða við gildistöku l. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem slíku máli er hreyft hér á hv. Alþingi. Það mun vera í fjórða sinn, sem slíkt frv. um vaxtalækkun er borið fram af þm. Framsfl. Á síðasta þingi var málið ekki útrætt, og meiri hl. fjhn. skilaði þá ekki áliti fyrr en á síðustu dögum þingsins. En nú virðist málið ætla að fá þinglega meðferð og þótt nokkur dráttur hafi orðið á nál. meiri hl., ber samt að fagna því, að það skuli koma fram í tæka tíð að þessu sinni, þannig að málið geti fengið eðlilega meðferð.

Í vaxtalækkunarfrv. á síðasta þingi voru m.a. ákvæði um lækkun vaxta af lánum til íbúðabygginga og fulltrúar stjórnarflokkanna lögðu til, að þetta ákvæði yrði að sjálfsögðu fellt eins og önnur ákvæði. Samt sem áður gerðist það aðeins einum mánuði síðar, þ.e. 5. júní 1964, að ríkisstj. samdi um það við verkalýðsfélögin og samtök atvinnurekenda að lækka vexti af lánum frá byggingarsjóði húsnæðismálastofnunar úr 8% í 4%. Þá var það einum mánuði síðar hægt, sem alveg var talið útilokað hér síðustu daga þingsins og óframkvæmanlegt. Ástæðan fyrir þessari breytingu hlýtur að vera sú, að þegar þarna var komið sögu, hafa valdhafarnir verið búnir að sjá það, sem við stjórnarandstæðingar vissum fyrir löngu og höfðum margsinnis bent á hér, að húsnæðiskostnaðurinn er orðinn óviðráðanlegur fyrir mikinn fjölda manna vegna gífurlegrar hækkunar á byggingarkostnaði og óhóflega hárra vaxta. En hinn hái húsnæðiskostnaður er jafnframt stórkostlegur verðbólguvaldur, því að húsnæði er fólki jafnmikil nauðsyn og föt og fæði. Þess vegna hlítur kaupgjald ávallt að miðast við, hvað það kostar að afla þessara óhjákvæmilegu lífsnauðsynja, því að enginn getur sætt sig við minni laun, en dugi til að framfæra sig og sína. Sambandið milli verðlags og vaxtakjara er því sérstaklega augljóst, þegar um íbúðamálin er að ræða. En slíkt samband er vitanlega á því nær öllum sviðum þjóðlífsins, vextirnir vefast þar alls staðar inn í með miklum þunga.

Því ber að sjálfsögðu mjög að fagna, að hæstv. ríkisstj. hefur látið undan á þessu sviði, enda þótt annað hafi þarna komið í staðinn, þar sem er vísitölubinding vaxtanna, sem getur orðið lántökum háskalegur baggi, ef ekki tekst betur til í baráttunni við verðbólguna, en raun hefur á orðið að undanförnu. Vel má vera, að þeir, sem sömdu við hæstv. ríkisstj. í júní í fyrra, hafi flýtt fyrir því, að þau sinnaskipti urðu, sem ég ræddi áðan um í sambandi við vaxtakjör íbúðalánanna. En breytingin fékkst. Þá fékkst líka fyrirheit um hækkun íbúðalánanna úr 150 þús. í 280 þús. á íbúð og var það ekki sýður nauðsynleg ráðstöfun, þar sem byggingarkostnaðurinn á meðalíbúð hefur síðan 1958 vaxið meira, en allri þessari síðar töldu lánsfjárhæð nemur. Þess vegna spyr nú margur að því, hvernig standi á, að svona lengi skuli dragast að framkvæma þennan hluta júnísamkomulagsins, að ekkert einasta lán hefur enn verið veitt samkv. nýju reglunum og eru þó 8 mánuðir, síðan samkomulagið var gert. Ég hygg, að flestir hafi átt von á því, að frv. um íbúðamálin yrðu með allra fyrstu málum þessa þings og vitað er, að sum atriði, sem lúta að tekjuöfluninni, hafa verið lögfest, svo sem aukning skyldusparnaðarins og ráðstöfun á lánsfé tryggingafélaganna og önnur langt til afgreidd hér á hv. Alþingi, eins og frv. um launaskatt, sem nú mun vera til síðustu umr. í hv. Ed. Sjá þó allir, hve brýna nauðsyn ber til að framkvæma þetta samkomulagsatriði engu síður en önnur, en allur dráttur gerir hækkun lánanna óraunhæfari og húsnæðismálin enn verri viðfangs. Til lausnar þeim vanda þarf skjótar aðgerðir, því að byggingarkostnaðurinn hækkar stöðugt, svo að húsnæðislánin ásamt viðbót duga ekki einu sinni til að hamla á móti þeirri hækkun, sem þegar er orðin, hvað þá því, sem svo að segja daglega bætist við. En með því að þessi mál hljóta að koma hér á dagskrá, áður en þingi lýkur, skal ég ekki segja meira um þau að sinni, en aðeins undirstrika á ný, að með vísitöluákvæðum á húsnæðislán eykst enn þörfin á því að kveða verðbólgudrauginn niður, en til þess er lækkun vaxta ein leiðin.

Breyting vaxtakjara á íbúðalánum er þó aðeins skref í áttina. Síðan þetta frv., sem hér um ræðir, var borið fram í þingbyrjun, hefur annað skref í átt til vætalækkunar verið stigið, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir, því að 29. des. s.l. tilkynnti Seðlabankinn vaxtabreytingu, sem tók gildi i. jan. 1965 og útlánsvextir lækkuðu þar yfirleitt um 1%, svolitið misjafnt eftir tegundum og flokkun lána, sem tekin var upp í fyrsta skipti að verulegu leyti hér, en yfirleitt var lækkunin 1%, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, að undanskildum vöxtum á afurðalánum, sem lækkuðu meira, þ.e.a.s. úr 71/4% í 53/4–61/2%. Þetta er í annað skipti, síðan stökkbreytingin 1960 var gerð, að slakað er þannig á takinu, enda hlýtur reynslan að hafa sýnt, að hinir háu vextir gerðu stórkostlegt ógagn, eins og ég mun síðar víkja lítillega að.

Ég tel, að sérstakt skilningsleysi hafi verið sýnt framleiðsluatvinnuvegunum með hinni stórfelldu vaxtalækkun á afurðalánunum 1960, þar sem vextirnir voru hækkaðir þá í einu stökki úr 51/4% í 91/4%. Það kom líka fljótlega á daginn, að hér var gengið of langt og þess vegna voru strax í des. 1960 eða á sama ári og breytingin var gerð, þessir vextir lækkaðir í 71/4%, eins og þeir hafa verið þar til nú um s.l. áramót, að þeir lækkuðu í 53/4 % til 61/2, eins og ég áðan sagði.

Enn eru þó vextir af flestum tegundum stofnlána og rekstrarlána óhæfilega háir og skal því til skýringar gerður samanburður á núgildandi vöxtum og þeim, sem í gildi voru fyrir daga núv. hæstv. ríkisstj., með því líka að samanburðaryfirlitið í nál. okkar minni hl. á þskj. 73

er ekki lengur alveg rétt eftir vaxtabreytinguna um áramótin. Eftir hana er samanburðurinn á þessa leið: Af lánum til íbúðarbygginga í sveitum nú 6%, áður 31/2%. Af lánum til ræktunar og útihúsabygginga í sveitum nú 61/2 %, áður 4%. Af fasteignaveðslánum frá fiskveiðasjóði nú 8%, áður 51/2%. Af skipakaupalánum frá fiskveiðasjóði 61/2% nú, áður 4%. Og af afurðalánum 53/4–61/2 % nú, en 5—51/2 % áður. Hér er því mikið óunnið og með flutningi frv. er stefnt að því, að vextir af framangreindum lánum og útlánsvextir yfirleitt verði færðir í hið fyrra horf.

Ég hygg, að öllum megi vera ljóst og ekki þurfi um það að deila, að sú mikla hækkun útlánsvaxta, sem gerð var með efnahagsmálaráðstöfunum hæstv. ríkisstj. í ársbyrjun 1960, hafi átt mikinn þátt í því, með hvílíkum risaskrefum dýrtíðin hefur vaxíð hér á landi á sama tímabili. Dýrtíðin hefur valdið fjölda einstaklinga og atvinnufyrirtækja miklum erfiðleikum. Hún hefur gert það að verkum, að allur tilkostnaður við framleiðslu og hagnýtingu afurðanna í höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði, hefur hækkað og að rekstrarfjárskortur hefur sorfið fast að í þessum atvinnugreinum. Þá hefur dýrtíðin komið ákaflega illa við iðnaðinn, eins og kunnugt er, og hafa að undanförnu birzt opinberlega margs konar lýsingar á því, hvernig komið er fyrir ýmsum iðngreinum nú upp á siðkastið og sumar af þessum lýsingum eru frá mönnum, sem síður, en svo vilja draga skóinn niður af hæstv. ríkisstj. og hafa, eftir því sem ég veit bezt, a.m.k. verið til skamms tíma alveg eindregnir stuðningsmenn hennar. Afleiðing dýrtíðaraukningarinnar er sú, að íslenzkur iðnaður stendur mjög höllum fæti í samkeppninni við útlend iðnfyrirtæki, sem búa við annars konar kjör að því er rekstrarfé og vexti snertir.

Á það hefur oft verið bent, að iðnaðurinn hér á landi ætti að geta staðizt samkeppnina erlendis frá án verndartolla eða óeðlilega hárra aðflutningsgjalda og er það vissulega athugandi sjónarmið, þátt tæplega sé það einhlítt. En því aðeins getum við gert okkur vonir um að ná þessu takmarki, að iðngreinunum sé ekki, jafnframt því sem erlend framleiðsla flæðir inn í landið, íþyngt svo með ónógu og dýru lánsfé, að samkeppnisaðstaða hans verði þegar af þeirri ástæðu gersamlega vonlaus. Hér er því um vandamál að ræða, sem þarf ýtarlegrar athugunar við og gefast væntanlega tækífæri til að ræða nánar síðar hér á hv. Alþingi í sambandi við þáltill., sem nokkrir þm. Framsfl. hafa flutt um sérstaka athugun á erfiðleikum iðnaðarins og skal ég því ekki fjölyrða um það hér nú.

Þá sýnist mér augljósara en svo, að um það þurfi að ræða, hverjum örðugleikum háu vextirnir hafa valdið og valda ungu fólki, sem er að stofna eigin heimili og undirbúa sig undir lífsstarfið, sumt með því að hefja eigin atvinnurekstur. Til slíks þarf ævinlega mikið fjármagn, ekki sízt nú á dögum. En venjulega er lítið um slíkt hjá flestum í upphafi. Því er fangaráðið að leita eftir lánsfé og flestir þykjast heppnir, ef þeim tekst að fá lán. En háir vextir valda þá oft erfiðleikum, sem gleymast í ákafa augnabliksins, en koma þeim mun rækilegar til skila síðar.

Eins og muna má, var því haldið fram í upphafi þessa svonefnda viðreisnartímabils, að hækkun innláns- og útlánsvaxta væri gerð til að koma á jafnvægi í peningamálum innanlands. Í öfugmælapésanum, sem hæstv. ríkisstj. gaf út, þegar hún kom til valda, er þetta orðað þannig, að ráðstafanirnar eigi að tryggja, að áframhaldandi peningaþensla eigi sér ekki stað og eftirspurn eftir lánsfé aukist ekki umfram það, sem aukin þjóðarframleiðsla geri þjóðarbúinu kleift að standa undir. Eða — eins og einhver talsmaður hæstv. ríkisstj. sagði 1960 hér á þessum stað, að ráðstafanirnar ættu að verða til þess, að hægt væri að fullnægja eðlilegri eftirspurn eftir lánsfé án skömmtunar. Enn fremur höfðu höfundar viðreisnarbókarinnar góða von um, að vaxtahækkunin mundi draga úr spákaupmennsku og hamla gegn verðhækkun fasteigna, eins og þar stendur. En hefur nú þetta jafnvægi náðst? Er nú hægt að fullnægja eftirspurn eftir lánsfé án skömmtunar? Þekkist ekki spákaupmennska lengur? Og hafa fasteignir ekki hækkað í verði? Í raun og veru er alveg óþarfi fyrir mig að svara þessum spurningum, það getur hver og einn gert fyrir sig, út frá þeim atriðum, sem hann þekkir bezt. Ég get fyrir mitt leyti t.d. sagt, að ég held, að eftirspurn eftir lánsfé sé alls ekki fullnægt í dag. Þvert á móti vil ég leyfa mér að halda því fram, að þessi eftirspurn hafi aldrei verið meiri en einmitt í dag, a.m.k. ekki þau ár, sem ég hef starfað í peningastofnun. Og sömu sögu hygg ég að starfsbræður mínir í öðrum bönkum og sparisjóðum geti líka sagt, bæði þeir, sem hér eru nú staddir og aðrir eða a.m.k. heyrist mér það á sumum, sem til mín koma, að þeir hafi einnig gengið bónleiðir til búðar annars staðar, enda er það staðreynd, að viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir hafa yfir allt of litlu fjármagni að ráða til þess að rækja það hlutverk, sem þeim er falið.

Það þarf ekki bankastjóra til að segja fólki þetta. Flestir munu hafa sína eigin reynslu fyrir sér og ég hygg, að þeir séu næsta fáir nú, sem hafa ekki sjálfir orðið fyrir því að fá ekki það lán, sem þá hefur vanhagað um, sérstaklega þó þeir, sem einhvers konar atvinnurekstur hafa með höndum. Ófullnægð eftirspurn eftir lánsfé er því að mínum dómi, meiri nú en nokkru sinni fyrr. M.a. stafar þetta ástand af því, að dýrtíðin hefur vaxið svo ofboðslega sem raun ber vitni og þess vegna þarf svo miklu fleiri krónur til að halda í horfinu, en áður var. En eins og menn muna, var háu vöxtunum ekki aðeins ætlað að stuðla að fyrrnefndu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé, heldur skyldu þeir líka draga úr verðbólgunni. Raunin hefur hins vegar ekki orðið sú og ég vil því sérstaklega gera aths. við þau ummæli hv. meiri hl. fjhn. í nál., að vaxtahækkunin hafi átt sinn þátt í því að draga úr verðbólgunni. Ég held, að hún hafi þvert á móti aukið verðbólguna og eigi einn stærsta þáttinn í því ásamt tveimur gengisfellingum, að dýrífðin hefur margfaldazt í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Viðreisnarráðstöfununum og hinum háu vöxtum var líka ætlað að lækka skuldir landsins út á við. Og hv. meiri hl. telur það hafa tekizt ákjósanlega. En þó að erfitt sé að fá sambærilegar tölur frá ári til árs, held ég þó, að þessu sé ekki þannig varið. Ég held, að skuldirnar hafi, þegar á allt er litið, ekki lækkað. En þó að þær hefðu lækkað, held ég, að engum geti fundizt sérstaklega til um það afrek, þegar það er haft í huga, að gjaldeyrisöflun hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar í þjóðarsögunni, verið neitt nálægt því eins mikil og á síðustu árum. Nýlega hefur verið sagt frá því t.d. af opinberum aðilum, að fiskaflinn árið 1964 hafi verið 18% meiri en hann var 1963, en einnig þá var metaflaár, og ekkert árið síðan viðreisnarstjórnin kom til valda hefur aflinn brugðizt, ekki eitt einasta ár. Engar stórframkvæmdir hafa verið gerðar á vegum ríkisins á borð við t.d. sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna á þessu tímabili. Og á sama tíma er það staðreynd, að verðlag á íslenzkum framleiðsluvörum fer hækkandi og berast — ekki kannske daglega, en mjög oft, fregnir af því, að íslenzk framleiðsla hækki í verði og íslenzk skip selji afurðir sínar við því hæsta verði, sem fengizt hefur. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það, að engar stórframkvæmdir hafi verið gerðar, er því nú haldið fram, að landið sé svo fátækt, að það sé ekki hægt að bæta úr eðlilegri rafmagnsþörf án þess að fá til þess erlend lán í stórum stíl og jafnframt, að þau lán sé með engu móti hægt að fá nema tengja þau öðrum málum, stóriðjuframkvæmdum erlendra aðila. Slíkt var þá jafnan hægt áður, og sýnir þetta, að efnahagsstefnan hefur síður en svo leitt til batnandi aðstöðu, að þessu leyti, ef málum er svona komið. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að vaxtalækkun sé allra meina bót, en ég held því fram, að hún sé liður í því að breyta um efnahagsmálastefnu og það er nauðsynlegt.

Því hefur verið haldið fram og er haldið fram, að háir innlánsvextir séu nauðsynlegir til þess að tryggja hag sparifjáreigenda og örva sparnað í landinu og það er vissulega rétt, að þeirra hlutur hefur verið slæmur og það er þarft verk og fallegt að rétta hann. Í stöðugu verðlagi eru vextirnir ráðandi afl, algerlega ráðandi afl um sparifjármyndun, og þeir draga úr áhuga manna á fjárfestingu og eyðslu. En við höfum bara því miður ekki búið við stöðugt verðlag á Íslandi að undanförnu. Sú gífurlega dýrtíðaraukning. sem orðið hefur í tíð hæstv. ríkisstj., hefur komið ákaflega illa við sparifjáreigendur. Á þeim 5 árum, sem liðin eru, síðan vaxtahækkunin kom til framkvæmda, hefur ekki aðeins vaxtahækkunin, sem sparifjáreigendur fengu, heldur allir vextirnir af sparifénu og talsverður hluti af höfuðstólnum að auki brunnið í verðbólgueldinum. Reynslan hefur sannað, að hagsmunum sparifjáreigenda verður ekki borgið með háum vöxtum, þegar verðgildisrýrnun peninganna er svo stórkostleg sem hún hefur orðið síðustu árin. Um þann spádóm, að úr verðhækkun fasteigna mundi draga, er þarflaust að fjölyrða. Samkv. vísitölu byggingarkostnaðar hefur 375 rúmmetra íbúð hækkað um 332 þús. kr. frá 1. júní 1958 til 1. júní 1964, eða um 77%, og fullvíst er, að söluverð í Reykjavík hefur hækkað mun meira. Um það þekki ég mörg dæmi, sem ég hirði ekki um að rekja hér. Og það er alveg víst, að spákaupmennska hefur fyllilega haldið hlut sínum í þjóðfélaginu þrátt fyrir þreytta efnahagsmálastefnu. Ég tel raunar þarflaust að fjölyrða um þetta, en ég fullyrði, að hvar sem drepið er niður og málin könnuð, muni það sýna sig, að hinir háu vextir hafi hvergi borið þann árangur, sem talað var um í öndverðu og jafnframt, að þeir hafi valdið stórkostlegum erfiðleikum á athafna- og viðskiptasviðinu. Því er það skoðun okkar í minni hl. fjhn., að tafarlaust beri að hverfa frá þeim og færa vextina í það horf, sem þeir voru fyrir viðreisn, eins og ráðgert er í því frv., sem hér liggur fyrir.

Um hitt aðalatriði frv., innstæðubindinguna, vil ég einnig leyfa mér að segja örfá orð. Eins og kunnugt er, hefur innlánsstofnunum, bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga, verið fyrirskipað að leggja á bundinn reikning í Seðlabankanum allt frá árinu 1960 tiltekinn hluta af sparifjáraukningunni, svolitið mismunandi háan hluta, en lengst af um 30%. Á þennan hátt hafa um 1.200 millj. kr. verið teknar undan ráðstöfunarvaldi peningastofnananna og fengnar ríkisstj. Er vissulega mál að linni slíkum fjárkröfum á hendur innlánsstofnunum um allt land, þar sem skortur á lánsfé stendur í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og atvinnurekstri og mjög víða skortir lánsfé til að koma við nýjungum í rekstri atvinnufyrirtækja og auka framleiðslu þeirra. Vinnutíminn hér á landi er allt of langur. Flestir verða að leggja á sig mikla aukavinnu til að sjá sér og sínum farborða. Slíkt ástand getur ekki og má ekki vara til lengdar og vinnutímanum verður að koma í eðlilegt horf og það verður að gerast án þess, að því fylgi tilfinnanlegur tekjumissir. En forsenda fyrir því. að það megi takast, er að unnt sé að auka framleiðsluna með aukinni tækni, bættu skipulagi og meiri hagræðingu. Þar þarf margt til að koma, svo sem bætt tæknimenntun í landinu, aukin leiðbeiningastarfsemi á sviði iðnaðar og mikið fjármagn til aukningar og endurbóta á tæknibúnaði þjóðarinnar. Þessar endurbætur hljóta að taka töluverðan tíma og er því brýn nauðsyn að hefjast strax handa. Jafnframt er sjáanlegt, að það hljóti að kosta mikið fé og að í þessu skyni muni þjóðin þurfa á öllu sínu sparifé að halda a.m.k. Því sýnist sjálfsagt að hætta að draga hluta af því inn í Seðlabankann, en gera skipulegar áætlanir um ráðstöfun þess í framangreinda átt.

Með innlánsbindingunni, þessum 1.200 millj. kr., sem ég minntist á hér áðan, er þó engan veginn talið allt það fjármagn, sem tekið er af bönkum og sparisjóðum. Fleiri aðgerðir hafa veríð framkvæmdar, sem hafa sömu áhrif. Árið 1963 voru teknir upp samningar við bankana og nokkra af stærstu sparisjóðunum um, að þeir verðu 10% af sparifjáraukningu sinni til þess að kaupa ríkisskuldabréf eða ríkistryggð skuldabréf, eftir nánari ákvörðun hæstv. ríkisstj., til þess að framkvæma hluta af framkvæmdaáætlun, sem gerð var 1964. Og árið 1964 voru þessir samningar við bankana enn framlengdir, þannig að á því ári var einnig 10% af sparifjáraukningunni flutt til með þessum hætti. Ég hef ekki við höndina upplýsingar um það, hversu háar fjárhæðir var hér um að ræða, en ég held, að það muni láta nærri, að sparifjáraukningin hjá þessum stofnunum, sem í hlut eiga, hafi numið um 700 millj. hvort ár og þá væru 10% á þessum tveimur árum um 140 millj. kr., sem teknar hefðu verið þannig undan ráðstöfunarrétti bankanna.

Þá er þess enn fremur að geta, að í des. s.l. voru samþ. hér lög á hv. Alþ., sem heimiluðu ríkissjóði að selja ríkisskuldabréf fyrir 75 millj. kr. Þessi bréf voru með ákveðinni vísitöluviðmiðun og því þannig úr garði gerð, að þau hljóta að hækka óðfluga í verði með þeirri dýrtíðaraukningu, sem fyrirsjáanleg er, enda seldust þau upp á nokkrum dögum. Þessar 75 millj. kr. koma vitanlega fyrst og fremst nálega eingöngu úr innlánsstofnunum og er því engin goðgá að telja þau með í því fjármagni, sem með stjórnvaldaráðstöfunum hefur verið tekið undan ráðstöfunarrétti lánastofnananna.

Í fjórða lagi ber að hafa í huga, að í maí í fyrra voru hér á hv. Alþ. samþ. lög, sem veittu Seðlabankanum heimild til að gefa út gengistryggð skuldabréf í ótakmörkuðum mæli og þótt sú heimild hafi enn ekki verið notuð, er hún þó fyrir hendi og því ekki lengur á valdi Alþ. að ákveða neitt um það framvegis, að óbreyttum lögum, hvenær einn banki í landinu hefur samkeppni um fjármagnið við aðrar innlánsstofnanir með svo stórkostlegum forréttindum.

Þegar þetta er nú lagt saman, verður niðurstaðan sú, að með einum og öðrum hætti hafa verið fluttar frá bönkum og sparisjóðum og innlánsdeildum yfir 1.400 millj. kr. á 5 árum, auk þess sem skapaðir hafa verið möguleikar fyrir tilflutningi, sem enginn getur sagt til um, hversu mikill verður í reynd. Þótt ég telji þannig haga til hér hjá okkur, að þjóðin þurfi á öllu sínu sparifé að halda til þeirrar uppbyggingar, sem til þarf að koma og ég áðan drap á, get ég vel viðurkennt, að nokkur binding sparifjáraukningar geti átt við rök að styðjast. En fyrir því tel ég eina algera forsendu og það er, að um raunverulega sparifjáraukningu sé að ræða í landinu. En sparifjáraukning, sem verður vegna gengisfellingar og dýrtíðaraukningar, er óraunveruleg, og þau fyrirbæri kalla á stóraukið rekstrarfé og krefjast þess að sjálfsögðu, að miklu fleiri krónur séu í umferð til þess að halda sama viðskiptamagni og áður, meðan verðlag var lægra.

Þeir, sem bönkunum stjórna, verða að fara með um það bil heiminginn af allri sparifjáraukningu í þessa stofnun, í Seðlabankann og hafa engan ráðstöfunarrétt á því fjármagni. En samtímis koma svo þeirra viðskiptamenn í bankana með rekstrarreikninga sína, sem bera það með sér, að allur tilkostnaður hefur tvöfaldazt á skömmum tíma. Afleiðingin er sú, að dæmið gengur ekki upp, sá hluti sparifjáraukningarinnar, sem eftir verður hjá viðskiptabönkunum, nægir ekki til þeirrar auknu fyrirgreiðslu, sem fyrirtækin og einstaklingarnir geta tölulega sannað að þeir þurfi að fá til að halda í horfinu, miðað við óbreytt viðskipti frá því, sem áður var. Ég held, að það sé því alveg ljóst, að sú feikna blóðtaka, sem sparifjárbindingin með hliðarráðstöfunum er fyrir bankakerfið, sé því alveg um megn og hún skapar stórkostlega eftirspurn eftir lánsfé umfram það, sem hægt er að sinna og lamar getu bankanna til þess að gegna hlutverki sínu.

Allir íslenzkir bankar starfa samkv. sérstökum lögum og eru falin sérstök verkefni, sem þeir eiga að rækja. Sparisjóðirnir hafa að vísu ekki lögákveðin verkefni, en hafa þó allir verið geysilega þýðingarmiklir fyrir byggðarlög sín, og sparisjóðirnir hér í Reykjavík og nágrenni, a.m.k. þar sem ég þekki bezt til, hafa allir hjálpað verulega til þess, að fólkið á viðkomandi svæðum hafi getað leyst húsnæðismál sín og er engin vanþörf á. Ég tel, að ekki megi skerða möguleika þessara þýðingarmiklu stofnana til fyrirgreiðslu og hjálpar meira en orðið er og ég tel það meira að segja beinlínis hlutverk Alþ. að sjá til þess, að þeim sé gert kleift að valda því verkefni, sem Alþ. með sérstökum l. hefur falið þeim að rækja. Þess vegna ber nú að mínum dómi að fella áframhaldandi bindingu niður, eins og hér er lagt til.

Hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hafa mjög lagzt gegn því hér á hv. Alþ., að frv. um lækkun vaxta nái fram að ganga, og talið þá stefnu óframkvæmanlega, sem þar er boðuð. Engu að síður hafa þeir þó verið að breyta vöxtum til lækkunar að undanförnu, eins og hér hefur verið bent á. Hæstv. ríkisstj. er því á undanhaldi í þessu vaxtamáli og ég held, að það sé af því, að hún hefur rekið sig á það, að það er hennar stefna, sem er óframkvæmanleg, þegar til lengdar lætur og það er vel, að þeir sjái það, því að batnandi mönnum er bezt að lifa.

Við, sem stöndum að því frv., sem hér er til umr., munum því ekki láta það á okkur fá sérstaklega, þótt það verði nú fellt í fjórða sinn, heldur halda áfram að berjast fyrir því, unz fullnaðarsigur er unninn, í þeirri öruggu vissu, að sú stund geti ekki verið langt undan. Vaxtakjörin, eins og þau hafa verið, sliga atvinnureksturinn og auka verðbólguna og verka þannig mjög óheillavænlega á íslenzkt efnahagslíf og sparifjárbindingin dregur úr möguleikum lánastofnananna til eðlilegrar fyrirgreiðslu á fjármálasviðinu og hindrar þannig nauðsynlega uppbyggingu atvinnulífsins. Þessu þarf að breyta og því leggur minni hl. fjhn. til, að frv. á þskj. 12 verði samþykkt.