02.03.1965
Neðri deild: 49. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2211)

12. mál, vaxtalækkun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða það mál mjög ýtarlega, sem þetta frv. fjallar um og hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni í langri ræðu, sökum þess að þetta mál er þrautrætt, bæði hér á hinu háa Alþ. og í blöðum. Þó tel ég óhjákvæmilegt að víkja mjög stuttlega að tveimur atriðum, sem hann gerði að umtalsefni í ræðu sinni, af því að þar tel ég mjög rangt með farið. Hið fyrra lýtur að þýðingu vaxtanna fyrir útflutningsatvinnuvegina og þá sérstaklega fyrir sjávarútveginn, en hið síðara snertir gjaldeyrisstöðu landsins út á við.

Hv. frsm. minni hl. vék að því hvað eftir annað í ræðu sinni, að þeir vextir, sem útflutningsatvinnuvegirnir nú greiddu, væru þeim sem drápsklyfjar og hefðu úrslitaþýðingu fyrir afkomu útflutningsatvinnuveganna og þá væntanlega fyrst og fremst sjávarútvegsins. Ég athugaði því í skyndingu, hver er nú sú lánsfjárupphæð, sem bundin er í íslenzkum sjávarútvegi og hversu miklum vaxtagjöldum yrði létt af sjávarútveginum, ef þetta frv. yrði að lögum, og niðurstaðan er í örfáum orðum þessi: Um s.l. áramót hafði íslenzkur sjávarútvegur að láni hjá íslenzkum bönkum og sparisjóðum um 1.340 millj. kr. Eftir því sem ég kemst næst, mundu vaxtagjöld af þessum lánum lækka um 16 millj. kr., ef þetta frv. yrði að l. Auk þess ber að geta um fiskveiðasjóðinn og stofnlánadeild sjávarútvegsins, en heildarvaxtatekjur fiskveiðasjóðs og stofnlánadeildar eru milli 35 og 40 millj. kr., og vaxtagjöld sjávarútvegs til fiskveiðasjóðs og stofnlánadeildar mundu væntanlega lækka um sem næst 10 millj. kr., þannig að samþykkt þessa frv. mundi létta 25–30 millj. kr. útgjöldum af íslenzkum sjávarútvegi. Þetta vildi ég undirstrika og biðja hv. þm. að veita þessu sérstaka athygli. Það, sem íslenzkur sjávarútvegur mundi hagnast á samþykkt frv., er einhvers staðar á milli 25 og 30 millj. kr. Getur þá hver hv. þm. dæmt um það með sjálfum sér, hvort rétt sé að kalla slíka byrði drápsklyfjar á íslenzkum sjávarútvegi, hvort rétt sé að viðhafa svo stór orð hér um, eins og hv. þm. hafði í ræðu sinni og raunar hefur verið allt of algengt að sjá í opinberum málflutningi undanfarin ár, vikur og mánuði.

Þegar haft er í huga, að útflutningsverðmæti sjávarútvegsins er sem næst 5 þús. millj. kr., má geta nærri, hvort sá sparnaður, sem hv. framsóknarmenn leggja hér til að látinn sé í té í íslenzkum sjávarútvegi, að upphæð 25–30 millj. kr., mundi ráða úrslitum um gengi eða gengisleysi íslenzks sjávarútvegs.

Hitt atriðið í ræðu hv. frsm. minni hl., sem ég tel óhjákvæmilegt að víkja að örfáum orðum, eru staðhæfingar hans um, að gjaldeyrisstaða landsins hefði á undanförnum árum raunverulega versnað og þetta hefði gerzt þrátt fyrir það, að hér hefði orðið uppgripaafli, gjaldeyristekjur aldrei orðið meiri, en gjaldeyrinum hefði sem sagt öllum verið ráðstafað og þó hefði, eins og hann margundirstrikaði í ræðu sinni, ekki verið ráðizt hér í neinar stórframkvæmdir á undanförnum árum, eins og gert hefði verið á valdaskeiði ríkisstj. Hermanns Jónassonar. Hér er mjög hallað réttu máli og er hér í raun og veru um að ræða staðhæfingar, sem marghraktar hafa verið opinberlega undanfarin ár og undanfarna mánuði. En það er eins og ekkert bitni á málsvörum hv. Framsfl. Kinnroðalaust endurtaka þeir ósannar og alrangar staðhæfingar æ ofan í æ, hversu oft sem á það er bent opinberlega, ég vildi segja sannað opinberlega, að staðhæfingarnar séu rangar. Það, sem hv. þm. á við, þegar hann talar um, að gjaldeyrisstaða landsins hafi raunverulega versnað undanfarin ár, er það og það eitt, að heildarupphæð fastra lána Íslendinga erlendis til langs tíma var um s.l. áramót hærri, en hún var um áramótin 1959–1960. Kemur það engum að sjálfsögðu á óvart. Engum viti bornum manni getur komið það á óvart, þó að heildarupphæð fastra lána til langs tíma hækki samhliða því, sem gjaldeyristekjur og þjóðarframleiðsla vex jafnmjög og verið hefur hér undanfarin ár. Sannleikurinn er sá, að um áramótin 1959–1960 var heildarupphæð fastra lána erlendis til langs tíma orðin óeðlilega lág, hún var orðin hættulega lág, beinlínis vegna þess, að Íslendingar höfðu verið að glata lánstrausti sínu mörg undanfarin ár. Þeir áttu ekki kost á því að fá þau föst erlend lán til langs tíma, sem þeir hefðu þó með hægu móti getað notað til arðbærra framkvæmda á Íslandi og hefðu áreiðanlega notað, ef þeir hefðu getað fengið föstu lánin erlendis. Allir vita, hvílík umskipti hafa orðið í þessum efnum einmitt á undanförnum 4–5 árum. Íslendingum hefur tekizt með skynsamlegri og gætilegri stjórn sinni á gjaldeyris- og peningamálum að endurreisa lánstraust sitt erlendis. Hvað er þá eðlilegra en þeir hagnýti þetta lánstraust erlendis og taki hagkvæm erlend lán til langs tíma ? Þetta hafa þeir gert á undanförnum árum.

Það, sem var höfuðannmarkinn í íslenzkum gjaldeyrismálum og íslenzkum lánamálum erlendis um áramótin 1959–1960, var, hversu mikill hluti af erlendum skuldbindingum þjóðarinnar var til skamms tíma, ekki í sjálfu sér, að þær væru óeðlilega miklar, þannig að Íslendingar gætu ekki staðið undir slíkri lánabyrði erlendis í sjálfu sér, heldur var annmarkinn í því fólginn, að lánin, sem tekin höfðu verið, höfðu verið tekin til allt of skamms tíma, af því að þau höfðu ekki fengizt til lengri tíma, og svo langt var gengið, að fyrirsjáanlegt var, að á árinu 1961 mundi svonefnd greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum, þ.e. sú upphæð, sem árlega þarf að greiða í afborganir og vexti af erlendum lánum, nema hvorki meira né minna en 11% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Það var þetta ástand, sem var orðið alveg sérstaklega varhugavert. Það var í þessum efnum, sem beinlínis mikil hætta var á ferðum. Þetta var raunar ein höfuðástæðan fyrir því, að núv. stjórnarflokkar töldu sér nauðsynlegt að gerbreyta um stefnu í efnahagsmálum frá því, sem verið hafði á undanförnum áratugum. Tilgangurinn var ekki sá að draga úr erlendum lánum í sjálfu sér, heldur að tryggja, að erlendu lánin gætu verið til lengri tíma og með hagstæðari kjörum, en stuttu erlendu lánin hljóta að vera og það er þetta, sem hefur tekizt. Það hefur tekizt að stytta meðallánstíma lánanna mjög verulega. Í kjölfar batnandi lánstrausts erlendis sigldi svo auðvitað það, að meiri lán voru tekin til arðbærra framkvæmda í landinu. Það er því fullkomið öfugmæli, þegar því er haldið fram af mönnum, sem maður skyldi halda að vissu betur, að það sé árásarefni á ríkisstj., að föst erlend lán til langs tíma skuli hafa aukizt á hennar valdatíma. Það er þvert á móti ein af mörgum sönnunum þess, að stefnan í efnahags- og gjaldeyrismálum hefur verið rétt, að það skuli hafa tekizt að auka lán þjóðarinnar erlendis til langs tíma, lán sem fengizt hafa með mjög hagstæðum kjörum, í samanburði við það, sem áður átti sér stað, þegar þjóðin var neydd til þess að taka lán til stutts tíma, sem höfðu í för með sér mjög háa greiðslubyrði og voru raunverulega miklu ódýrari en þau lán, sem tekin hafa verið á undanförnum árum.

Jafnvel þótt erlend lán til langa tíma og með hagstæðari kjörum, en áður þekktust hafi vaxið miðað við áramótin 1959–1960, er það samt sem áður ekki svo, að niðurstaðan af gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar í heild hafi ekki verið hagstæð á undanförnum árum. Það liggja að vísu ekki fyrir endanlegar tölur enn fyrir árið 1964, en ég hef tölur og gat mjög fljótlega náð til þeirra, meðan hv. ræðumaður var að tala áðan, um heildargjaldeyrisafkomu þjóðarinnar á árunum 1960–1963, á 4 ára tímabilinu 1960–1963, að báðum árum meðtöldum. Á þessu 4 ára skeiði, batnaði gjaldeyrisstaða bankanna, en það er sú tala, sem með öllum þjóðum er talin vera sú, sem gleggsta hugmynd gefi um heildargjaldeyrisstöðu þjóðar út á við, vegna þess að hún táknar gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar, þann gjaldeyrisvarasjóð, sem þjóðin getur hvenær sem er gripið til, til þess að jafna eðlilegar eða óeðlilegar sveiflur í gjaldeyrisviðskiptum sínum, — gjaldeyrisstaða bankanna batnaði á árunum 1960–1963 um 1.456 millj. kr. Á þessum 4 árum námu lántökur til lengri tíma, en eins árs 675 millj. kr., en stutt vörukaupalán voru á þessum árum tekin að upphæð 441 millj. kr. Ef lántökurnar til lengri tíma og stuttu vörukaupalánin eru lögð saman, kemur í ljós, að niðurstaðan þar er 1.116 millj. kr., en gjaldeyrisstaða bankanna batnaði um 1.455 millj. kr. eða m.ö.o. batnaði hún um 339 millj. kr. meira, en lántökur bæði til langs og stutts tíma námu á sama tímabili. Þetta tekur vitanlega af öll tvímæli um það, hvaða dóm skynsamir menn eiga að fella um gjaldeyrisafkomu þjóðarbúsins síðan í ársbyrjun 1960 eða þeir menn, sem kæra sig um að hafa það, sem satt er og rétt í þessum efnum. Ef við tökum annað 4 ára tímabil til samanburðar, tímabilið 1955–1958, sem svo oft er vitnað til af hálfu málsvara hv. Framsfl., þá er það að segja, að á þessum 4 árum, 1955–1958, versnaði gjaldeyrisstaða bankanna um 407 millj. kr. og lántökur til lengri tíma en eins árs námu á þessum árum 1.177 millj. kr., en meginparturinn af þessu voru þó stutt lán, eins og þau eru venjulega kölluð. Heildargjaldeyrisstaða þjóðarbúsins versnaði því á árunum 1955–1958 um hvorki meira né minna en 1.684 millj. kr. Það þarf því í engar grafgötur að fara um það, hvílík geysibreyting hefur orðið á gjaldeyrisafkomu þjóðarbúsins í heild á þessum áratug, miðað við það, sem er einkenni gjaldeyrisafkomunnar á áratugnum á undan.

Þá er að síðustu að geta þeirrar margendurteknu staðhæfingar af hálfu hv. Framsfl., að á undanförnum árum, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, hafi ekki verið ráðizt í neitt, sem þeir kalla stórframkvæmdir og nefna þá alltaf áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju. Ég hef oftar en einu sinni bent á það opinberlega, hversu rangt sé hér með farið, mig minnir, að ég hafi líka gert það hér á hinu háa Alþingi og samt sem áður verður maður að hlusta á það einu sinni enn hér af hálfu mæts fulltrúa hv. Framsfl. í þessari hv. d., að þessar staðhæfingar séu endurteknar, en þær eru í hróplegri andstöðu við opinberar skýrslur, sem þó eru öllum mönnum og ekki hvað sízt þm. mjög auðveldlega aðgengilegar. Á árunum 1955–1958, svo að ég nefni tölur, sem standa í öllum hagskýrslum og allir menn geta flett upp, sem nenna að leggja á sig að rýna í tölur í hagskýrslum, — á árunum 1955-1958 nam innflutningur skipa og flugvéla 778 millj. kr. En hagskýrslur áranna 1960–1963 segja, að á þessum árum hafi innflutningur skipa og flugvéla numið 1.446 millj. kr. eða m.ö.o. næstum helmingi hærri upphæð. (BP: Hvað minnkaði verðgildi krónunnar á þessum tíma?) Það er rétt. Nú skal ég einmitt víkja að því til þess að sýna fram á, að ég hef líka hugsað fyrir því, sem hv. þm. af sinni glöggskyggni tók fram, að auðvitað þarf líka að hugsa fyrir þeirri breytingu, sem orðið hefur á verðgildi krónunnar. Nú hef ég ekki lagt í og enginn raunar heldur talið rétt að gera það að breyta innflutningstölunni um skip og flugvélar í sambærilega krónuupphæð. En annað hefur verið gert, sem er miklu áreiðanlegra og miklu víðtækara en það, þó að menn gerðu tilraun til þess að breyta innflutningstölum um skip og flugvélar í sambærilega tölu fyrir árin 1955– 1958 annars vegar og hins vegar 1960–1963. Það hefur verið gerð áætlun eða skýrsla um heildarfjárfestingu áranna 1955–1959 annars vegar og 1960–1963 hins vegar. Þessar áætlanir hafa verið gerðar í skýrslum Efnahagsstofnunarinnar, áður Framkvæmdabankans, um þjóðarframleiðsluna og skiptingu hennar á atvinnuvegi og skiptingu hennar í fjárfestingu og ráðstöfunarfé til neyzlu. Þessar skýrslur liggja líka fyrir. Ég veit ekki betur, en þær hafi komið á borð hvers einasta þm. og meira að segja ekki fyrir löngu. Allir þm. eiga að þekkja þessar skýrslur. Ef þeir trúa þeim ekki, eiga þeir að segja, að þeir trúi þeim ekki, að þeir telji þær rangar. Og ef þeir telja þær rangar, eiga þeir að leiða einhver skynsamleg rök að því, að þær séu rangar. En meðan menn hafa skýrslur opinberrar hagstofnunar fyrir framan sig á borðinu, skýrslur, sem segja eitt, eiga menn ekki að leyfa sér í ræðum að segja allt annað, en það hendir nú því miður hv. málsvara Framsfl. hvað eftir annað. En hvað segja skýrslur Framkvæmdabankans og Efnahagsstofnunarinnar um heildarfjárfestingu áranna 1955–1958 annars vegar og heildarfjárfestingu áranna 1960–1963 hins vegar? Nú er auðvitað tekið tillit til þess, sem sá glöggi þm., hv. 5. þm. Norðurl. v., benti á að þyrfti að gera og ætti að gera, þ.e. að miða tölurnar við sama verðlag og við verðlag ársins 1960 er miðað í þessum skýrslum. Hvað skyldi þá koma í ljós? Heildarfjárfesting áranna 1955–1958 nam á verðlagi ársins 1960 8.327 millj. kr. En heildarfjárfesting áranna 1960–1963 á sama verðlagi nam 9.654 millj. kr. M.ö.o.: heildarfjárfesting áranna 1960–1963 var á sambærilegu verðlagi hvorki meira né minna, en um 1.300 millj. kr. meiri en hún var á árunum 1955–1958, reiknað í verðmæti 1960, sem mundi náttúrlega gefa miklu hærri tölur, ef reiknað væri með verðlagi dagsins í dag. Þetta tekur því líka af öll tvímæli um það, að allt, sem hér var áðan sagt um þessi efni, er fullkomlega úr lausu lofti gripið.

Hvað þá um Sogsvirkjunina og sementsverksmiðjuna, þessar stórframkvæmdir, sem alltaf er verið að vitna til að ríkisstj. Hermanns Jónassonar hafi hrundið í framkvæmd og var ágætt að hún hratt í framkvæmd, mjög lofsvert, — verið að vitna til, að slík stórvirki hafi þessi afturhaldsstjórn ekki haft manndóm í sér til þess að framkvæma? Þetta er sónninn, sem er rauði þráðurinn í ræðum hv. framsóknarmanna um þessi efni. Hvað halda nú hv. þm., að Sogsvirkjunin og sementsverksmiðjan hafi kostað? Nú skal ég ekki nota gamlar tölur og úreltar, heldur miða við verðlag dagsins í dag. Kostnaðarverð þeirra, miðað við núgildandi gengi og framleiðslukostnað, er talið af fróðum mönnum vera einhvers staðar á milli 450 og 500 millj. kr. Þetta eru þá þau óskaplegu stórvirki, sem ríkisstj. Hermanns Jónassonar hratt í framkvæmd og núv. ríkisstj. hefur engan manndóm haft í sér til þess að gera neitt í áttina, neitt þessu líkt. En þá bara kemur í ljós, að miðað við verðlag ársins 1960 er aukning fjárfestingarinnar á 4 árum, á tíma núv. ríkisstj., næstum þrisvar sinnum meiri, en heildarstofnkostnaður Sogsvirkjunar og sementsverksmiðju, miðað við kostnað dagsins í dag. Ég held, að ekki þurfi fleiri orðum um það að fara, að allur kjarninn, bókstaflega allur kjarninn í málflutningi hv. framsóknarmanna í þetta skipti, eins og öll önnur skipti um þessi mál, er gersamlega úr lausu lofti gripinn.