15.03.1965
Neðri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

12. mál, vaxtalækkun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eiginlega hleyp ég hér í skarðið að nokkru leyti fyrir hv. frsm. minni hl., sem er fjarverandi, eins og hv. þm. er kunnugt og er mér málið skylt, þar sem ég er 1. flm. þessa frv. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er þó einkum sú, að hæstv. viðskmrh. deildi nokkuð hvatvíslega á framsóknarmenn í sambandi við þeirra málflutning varðandi þessi efni og hélt því fram, að málflutningur þeirra gæfi villandi hugmynd af þróun þessara mála, þ.e.a.s. lánamálanna, vaxtamálanna og í því sambandi afkomu landsins út á við.

Ég ætla að íhuga hér ofur lítið það, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta efni og minnast fyrst á afkomu landsins út á við á síðustu árum.

Við höfum haldið því fram, að afkoma landsins í heild út á við hafi ekki batnað á þeim árum, sem liðin eru síðan vinstri stjórnin hætti, þ.e.a.s. frá því í árslok 1958, heldur hafi hún þvert á móti versnað mjög verulega. Við höfum bent á, að hæstv, ríkisstj. hefur ætið haldið því fram, að fjárhag landsins út á við hafi þá verið mjög illa komið, skuldir orðnar hættulega miklar og þjóðin þyrfti því að leggja æðihart að sér og taka á sig kjaraskerðingu til þess að lækka erlendu skuldirnar og var beinlínis þannig orðað við fleiri en eitt tækifæri, að það þyrfti að lækka erlendu skuldirnar, sem væru orðnar of miklar.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á nokkrar staðreyndir um þróun þessara mála og þá um leið, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt það fyrirheit að lækka skuldirnar við útlönd, en það sagði hún að væri einn tilgangur þeirra ráðstafana, sem efnt var til, sem hefði í för með sér verulega kjaraskerðingu. Og þá er samanburðurinn þannig og miða ég þá við upplýsingar um gjaldeyrisstöðu bankanna skv. Fjármálatíðindum og um erlend lán einnig samkvæmt upplýsingum Fjármálatíðinda og ársskýrslu Seðlabankans og aðrar áreiðanlegustu heimildir eru hér notaðar. Miða ég fyrst við árslok 1963, vegna þess að fram að þeim tíma eru endanlegar tölur komnar, en ég kem svo síðar að þróuninni á árinu 1964, til þess að heildaryfirlit fáist fram að síðustu áramótum. Og þá standa þessi mál þannig: Gjaldeyrisstaða bankanna hefur batnað á þessu tímabili, frá árslokum 1958 til ársloka 1965, um rúman milljarð króna, en skuldir Íslendinga erlendis hafa á sama tíma hækkað miklu meir, en því nemur eða í kringum hálfan annan milljarð króna eða vel það og þar af eru tæpar 500 milljónir vörukaupalán til stutts tíma og mjög mörg önnur lán einnig til stutts tíma. Þá litur dæmið sem sé þannig út, að skuldir landsins út á við, þ.e.a.s. landsmanna, í árslok 1958, að frádregnum innstæðum bankanna, nema nálega 2 milljörðum eða 1 milljarð og 999 þús. En í árslok 1963 eru skuldir umfram innstæður komnar upp í 2 milljarða 347 milljónir eða hafa hækkað um nálega 350 millj., en ekki lækkað. Skuldaaukningin við útlönd er sem sagt miklu meiri, en innstæðuaukningunni nemur, þannig að sé litið á þessi mál í heild, kemur í ljós, að þessi margumtalaði gjaldeyrisvarasjóður er í raun og veru byggður upp með lántökum erlendis og þ. á m. stórfelldum vörukaupalánum til stutts tíma.

Ef við svo íhugum þróun þessara mála s.l. ár samkvæmt upplýsingum, sem Jóhannes Nordal seðlabankastjóri gaf í fréttaauka í útvarpinu, hafa heildarlántökur erlendis, — en það eru allt saman bráðabirgðatölur og geta eitthvað breytzt, — þá hafa lántökur á árinu 1964 numið um 880 millj., en endurgreidd lán um 420 millj., þannig að hækkun á lánum erlendis hefur numið 460 millj., en vörukaupalán hafa lækkað um 78 millj. Nettóhækkun skulda út á við hefur því orðið um 380 millj. rúmar 1964, en gjaldeyriseignin hefur vaxið um 281 millj., og staðan í heild hefur því versnað um 101 millj. Þannig sjáum við, að skuldir landsmanna út á við hafa farið hraðvaxandi á þessum árum, þó að það væri gefið í skyn, að það ætti að leggja á menn kjaraskerðingu til þess að borga þær niður, sem auðvitað var aldrei neitt annað en endaleysa, að slíkt stæði til.

Skuldir við útlönd hafa farið hraðvaxandi á þessu tímabili og vaxið miklu örar, en gjaldeyrisinnstæður hafa myndazt hjá bönkunum. Því er heildarmyndin eins og ég sagði, að aðstaðan út á við er verri, þegar heildarmyndin er skoðuð, en hún var áður.

Það er þess vegna mjög óréttmætt, þegar hæstv. ráðh. er að ásaka okkur fyrir það, að við viljum gefa af þessum málum ranga mynd, því að þetta er sú mynd, sem við höfum brugðið upp, sú sem ég nú hef brugðið upp einu sinni enn og hún er sú rétta. Það er ekki hugsanlegt, að hún geti verið röng, því að þetta er tekið eftir beztu heimildum opinberra stofnana. Það má vera, eins og ég segi, að þetta geti eitthvað breytzt fyrir 1964, því að þessar tölur eru gefnar af seðlabankastjóranum með fyrirvara, en það getur ekki raskað þessari mynd, svo að neinu verulegu nemi.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það bæri að taka þarna með í reikninginn, sem framsóknarmenn vildu aldrei gera, að þó að skuldir hefðu vaxið mikið út á við, þá væri þeim miklu haganlegar fyrir komið nú, en áður og það væri stórkostlegur ávinningur, nú væri miklu minna af stuttum lánum. Og hann lýsti því með sterkum orðum, hvað það hefði verið mikið af hengingarskuldum og stuttum lánum, þegar vinstri stjórnin fór frá, en hversu búið væri að koma þessu nú hagfelldlega fyrir í lengri lánum, þetta væri verulegur ávinningur. Og hann skaut þar inn í setningu t.d. eins og þeirri, að þar að auki hefði lánstraustið vaxið svo mikið, að það væri ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. hefði viljað notfæra sér það og taka talsvert mikið af erlendum lánum. Það er náttúrlega nokkuð annað hljóð í þessum strokk en var, þegar byrjað var, því að þá var talið, að skuldasöfnun landsins í heild væri hættulega mikil og ætti að lækka skuldirnar og leggja á menn byrðar til þess. En látum það nú alveg vera. Athugum aftur hitt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að þessu væri öllu betur og haganlegar fyrir komið, nú en áður. Nú hef ég því miður ekki getað fengið neins staðar í opinberum plöggum, — það má vera, að það sé þó til einhvers staðar, þó að ég hafi ekki getað fundið það, — alveg öruggt yfirlit eða samanburð um það, hvernig ríkislánunum og lánum annarra, en ríkisins líka hefur verið varið, t.d. annars vegar 1958 og hins vegar 1963 eða 1964 í árslokin. Ég hef því ekki öruggan samanburð um, hvort það er meira eða minna núna af stuttum lánum erlendum, en þá var, en ég er nálega alveg viss um, að samanburður á þessu mundi leiða í ljós, að það er miklu meira nú af stuttum lánum, sem Íslendingar skulda erlendis, en var 1958. Í því sambandi má m.a. benda á, að nú eru vörukaupalán, sem eru yfirleitt til nokkurra mánaða, á fimmta hundrað milljónir og hafa vaxið á tímabilinu nálega um þá tölu. Engar sambærilegar skuldir til stutts tíma voru til í árslokin 1958, a.m.k. ekki svo að teljandi sé, á móti þeirri stórkostlegu fjárhæð í lausaverzlunarskuldum, sem safnað hefur verið síðan. Hér er því um stórkostlegar skuldbindingar að ræða til stutts tíma. Þar að auki hygg ég, að lán til skipakaupa, sem eru yfirleitt

til mjög stutts tíma, séu miklum mun hærri núna en þau voru í árslok 1958 og það er raunar ekkert um það að efast, að þau eru miklu hærri núna, en þau voru þá.

Bara þetta tvennt er nægilegt til að sýna, að fullyrðingar hæstv. ráðh. um þetta eru algerlega úr lausu lofti gripnar og sennilega öfugmæli. En til viðbótar vil ég svo, til þess að upplýsa dálítið nánar um lántökustefnuna núna þessi árin, svona eins og sýnishorn, rifja hér upp um erlendu lántökurnar árið 1963, en frá þeim er greint í Fjármálatíðindum á bls. 55 og áfram í 1. hefti 1964.

Þar segir þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Hér á eftir verður getið helztu lána, sem samið var um á árinu 1963. Framkvæmdabanki Íslands gekk 14. marz 1963 frá lánssamningi við Export-Import-bankann í Washington um PL —- 480 lán, en það er hliðstætt lán og bankinn hefur veitt undanfarin ár til eflingar efnahagsþróunar á Íslandi. Lánið, sem er að upphæð 61 millj. kr., endurgreiðist í íslenzkum krónum með 35 hálfs. árslegum greiðslum og fer fyrsta greiðsla fram þremur árum eftir að byrjað er að nota lánið. Vextir eru 4%, og af láninu var notuð 21 millj. kr. á árinu 1963.“ Þetta er fyrsta lánið, sem þarna er talið og þetta er til sæmilega langs tíma, en síðan segir: „Framkvæmdabankinn tók lán að upphæð 247.500 dollarar (eða nálega 10 millj.) hjá Banque Lambert í Brüssel í Belgíu. Lánið, sem ætlað er til byggingar ullarverksmiðju, var allt endurlánað Álafossi og notað á árinu. Lánið endurgreiðist á fjórum árum og ber 71/4% vexti. Loks tók Framkvæmdabankinn lán hjá Société Generale í London í maímánuði 1963. Lánið, sem er 500 þús. dollarar (þ.e.a.s. um 20 millj.), er í formi víxils til 6 mánaða með vilyrði um framlengingu. Vextir eru nú 5%, en geta breytzt.“ Þarna eru komin tvö lán, annað er til fjögurra ára og telst vitanlega mjög stutt lán, hitt er víxill með vilyrðum um framlengingu. Svo segir: „Landsbanki Íslands tók þriðja árið í röð lán hjá bönkum í Noregi. Lánið er, eins og hin tvö lánin, tekið vegna fiskveiðasjóðs og ætlað til framlengingar á afborgunartíma fiskibátalána. Lánið var að upphæð 1 millj. 407 þús. norskar kr. (þ.e.a.s. 8–9 millj. ísl. kr.), og var allt notað á árinu. Endurgreiðsla þess fer fram á árunum 1965– 1967.“ Það er þriggja ára lán, vextir eru 51/2 %. Síðan kemur: „Póstur og sími tóku á árinu lán hjá L. M. Ericsson til byggingar sjálfvirkra símstöðva að upphæð sænskar kr. 2.015.200 (þ.e.a.s. 12–13 millj. ísl. kr.). Lánið endurgreiðist á tveimur árum með 5% vöxtum.“ Síðan segir: „Fjmrn. tök tvö erlend lán á árinu, sem bæði voru notuð til viðgerða á Þorsteini þorskabít. Annað lánið var að upphæð 42.810 sterlingspund og endurgreiðist á 3 árum með 6% vöxtum, en hitt lánið var 173.760 þýzk mörk og endurgreitt á 2 árum.“ Þ.e.a.s. annars vegar á 3 árum og hins vegar á 2 árum. Síðan segir: „Strætisvagnar Reykjavíkur tóku lán bæði í sænskum kr. og þýzkum mörkum til strætisvagnakaupa, samtals að upphæð 31/2 millj. kr. Þessi lán endurgreiðast á næstu 3 árum. Loks samdi Rafveita Vestmannaeyja um lán til kaupa á spennustöðvum hjá Sterling Cable Co. í Englandi. Lánið er að upphæð 40.100 sterlingspund og umsamdir vextir 7%. Endurgreiðsla þess fer fram á árunum 1965– 1968," þ.e.a.s. á 4 árum. Þetta eru sem sé löngu lánin. Síðan kemur: „Aðrar erlendar lántökur opinberra aðila til lengri tíma en eins árs,“ — það er sem sé gefið í skyn, að það sé eitthvað af lánum hjá opinberum aðilum til styttri tíma en eins árs, — „er ekki vitað um á árinu 1963.“

Þetta er nú stefna hæstv. ríkisstj. í framkvæmd, sem ráðherra taldi vera að taka helzt ekki nema löng lán og breyta til frá því, sem áður var. Af opinberu lánunum, sem eru talin upp, er aðeins eitt einasta langt lán, hitt eru allt saman stutt lán og sumt hengingarlán.

Mér kæmi ekkert á óvart, þó að eitthvað svipað kæmi út, ef athugaðar væru lántökurnar 1962 og 1961 o.s.frv., en ég hef ekki haft aðstöðu eða tíma til þess að íhuga það. Þetta var um opinberu lánin.

Síðan kemur: „Ný lán einkaaðila, sem samið var um 1963, námu 431.8 millj., en þar af voru 318 millj. notaðar á árinu. Verulegur hluti þessarar upphæðar var vegna innflutnings á fiskibátum eða 184.6 millj: Það eru allt saman mjög stutt lán og líklega verulegur hluti af hinum einkalánunum líka.

Ég verð að segja, að ég er alveg steinhissa á málflutningi hæstv. viðskmrh. í þessu sambandi. Ég held, að þetta hljóti að vera byggt á einhverjum óskaplegum misskilningi hjá hæstv. ráðh. og sagt í fljótræði, því að það er alveg augljóst af því, sem ég nú hef upplýst, að því fer alls fjarri, að stefnunni hafi verið breytt í þá átt að forðast stutt lán, taka minna af stuttum lánum en áður, en leggja sig á hinn bóginn fram um það að hafa lánin löng. En hæstv. ráðh. lagði svo mikið undir í sambandi við þetta, að ég gat ekki heyrt annað en hann teldi, að stjórnin hefði gengið fram í því að breyta hengingarlánum, sem hann taldi að hefðu verið tekin, í löng lán og svo náttúrlega að varast stuttu lánin við nýju lántökurnar.

Hæstv. viðskmrh. sagði líka, að skuldirnar væru nú ekki eins hættulegar og það væri eðlilegt, að lán hefðu verið tekin, þegar menn hefðu átt svo miklu greiðari aðgang að góðum lánum, þ.e.a.s. hagstæðum lánum, heldur en áður með lágum vöxtum. Hann sagði, að vextirnir af lánunum væru yfirleitt nú miklu lægri en áður. Ég hafði það á tilfinningunni, þegar hæstv. ráðh. sagði þetta, að þetta mundi ekki heldur vera rétt. Ég fór svo að rifja upp þær upplýsingar, sem mig minnti að hefðu komið í Fjármálatíðindum um þessi efni. Ég hef hér fyrir framan mig töflu eða yfirlit um þetta í Fjármálatíðindum og þar eru þessar upplýsingar, með leyfi hæstv. forseta:

1957 er sagt, að meðalvextir af opinberum lánum hafi verið 2.65%, en af einkalánum 5.40%. Og 1958 er sagt í töflunni, að meðalvextir af opinberum lánum hafi verið 2.48%, en af einkalánum 4.52%. En meðalvextir af erlendum lánum í heild, bæði opinberra aðila og annarra, hafa þá verið 3.23% 1957 og 2.87% 1958. En þetta eru vinstristjórnarárin, sem hæstv. ráðh. vildi bera saman við. Síðan er sagt í þessari töflu, að 1962 hafi meðalvextir af opinberum lánum verið komnir upp í 3.75% og enn fremur er sagt, að þá hafi meðalvextir af einkalánum verið komnir í 6.58% og árið eftir eða 1963 er sagt, að vextir :af opinberum lánum hafi enn hækkað upp í 4.06%, en á einkalánum séu meðalvextirnir þá 6.03%. En meðalvextir á öllum lánum eru taldir 1962 4.4%, en 1963 4.5%, á móti 2.8% og 3.6% 1957 og 1958. M.ö.o.: samkv. þessu, sem hér liggur fyrir, hafa vextir af opinberum lánum og einkalánum hækkað stórlega frá því, sem þeir voru, svo að eitthvað, skýtur þetta meira en lítið skökku við það, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta.

Loks sagði hæstv. ráðh., að það væri mjög ámælisvert, þegar framsóknarmenn væru að benda á, að þrátt fyrir þessar miklu hækkanir á erlendu lánunum hefðu engin stórvirki verið framkvæmd á borð við Sogsvirkjunina og áburðarverksmiðjuna, því að fjárfesting hefði veríð meiri í heild með jöfnu verði, en hún var á árunum 1956–1958. En ég sé ekki, að það sé nein ósanngirni í því að benda á þetta, vegna þess að það eru einmitt stórvirki á borð við Sogsvirkjun og áburðarverksmiðjuna, sem kalla á erlendu lántökurnar fyrst og fremst. Smærri verkunum getum víð miklu frekar komið upp sjálfir með eigin fjármagni og tiltölulega minni lántökum, jafnvel þó að það dragi sig verulega saman, þegar á heildina er litið og allt er lagt saman. Það eru vítanlega þessi stóru einstöku átök, sem fyrst og fremst eiga að kalla á erlendu lántökurnar. Það er vitanlega heppilegast, að erlendu lántökurnar geti orðið til þess að hrinda slíkum stórvirkjum í framkvæmd, en aftur á móti æskilegast, að sem minnst þurfi að taka af erlendum lánum til að hrinda í framkvæmd öðrum smærri verkum. Þetta vona ég, að við hæstv. ráðh. séum alveg sammála um. Þess vegna er það stórkostlega athyglisvert einmitt, að það skuli hafa safnazt svona gífurlegar erlendar skuldir út á við í beztu árum, sem þjóðin nokkru sinni hefur lifað hvað framleiðslu og verðlag snertir erlendis, án þess að nokkur slík stórvirki hafi verið gerð, einstök stórvirki eins og Sogsvirkjunin og áburðarverksmiðjan voru á sínum tíma.

Hæstv. ráðh. var svo í leiðinni, að því er mér fannst, að koma því að, að í raun og veru hefðu Sogsvirkjun og áburðarverksmiðja ekki verið svo óskaplega mikil stórvirki, því að þessi verk mundu núna ekki kosta nema eitthvað um 450 millj. Þetta var tónninn í því, sem hæstv. ráðh. sagði.

En ég vil benda á, að þetta voru svo stórkostleg verk, sem þarna voru unnin, að samanlagt kosta þau, að því er ég fæ bezt skilið, ef hæstv. ráðh. gizkar rétt á verðlagið, álíka mikið og þessi stóra Búrfellsvirkjun, sem verið er að bollaleggja og á að vera, ef til kæmi, bæði fyrir landsmenn og til alúminíumverksmiðjunnar. Og nú er manni sagt, að eiginlega sé alls ekki um það að ræða, að Ísland geti fengið lán til að koma slíkum stórvirkjum í framkvæmd nema með því að tengja þau við samninga við erlenda aðila varðandi raforkusölu og annað slíkt. M.ö.o.: því er haldið fram, að til þess að koma í framkvæmd verki, sem er álíka stórfellt og Sogsvirkjun og áburðarverksmiðja samanlagt, þurfi að gera sérstakar ráðstafanir. Íslandi mundi tæplega vera trúað fyrir svo miklu lánsfé framar til framkvæmda, svo að slíkt væri hægt að gera öðruvísi. Auðvitað legg ég ekki trúnað á, að þannig sé ástatt.

En það er rétt að gera sér grein fyrir því, að bygging Sogsvirkjunarinnar og áburðarverkamiðjunnar voru stórkostleg átök á sinni tíð og það fékkst líka mikill stuðningur til þeirra framkvæmda erlendis og þ. á m. mikil lán. Og það er mjög athyglisvert, að svona stórkostleg skuldaaukning skuli hafa orðið við útlönd frá því 1958, enda þótt slíkar einatakar stórframkvæmdir hafi alls ekki komið til á þessu tímabili.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið flutt ár eftir ár og því hefur ævinlega verið vísað frá, það hefur ekki fengið fylgi stjórnarflokkanna eða stjórnarmeirihl. En frv. er um að lækka vextina niður í það, sem þeir voru fyrir viðreisn, sem kölluð er eða kölluð var og hætta að draga inn í Seðlabankann hluta af sparifjáraukningunni. Enda þótt þetta frv. hafi ekki verið samþ., hefur baráttan fyrir því og þeim málstað, sem það hefur að geyma, borið verulegan árangur. Fyrst, þegar hæstv. ríkisstj. neyddist til þess að lækka vextina strax um áramótin 1960–1961 og með því byrjaði hún í raun og veru að játa, að mistök hefðu orðið stórkostleg með þessari fruntalegu vaxtahækkun. Þá var auðvitað engin slík breyting komin á í efnahagslífinu, að hún gæfi nokkurt tilefni til þess að breyta vöxtunum aftur, heldur byrjaði ríkisstj. þá ofur lítið strax að hala í land og bogna undan þeirri baráttu, sem strax var tekin upp gegn þessum óeðlilega háu vöxtum, sem hlutu að setja hér allt úr skorðum. Og þannig var látið undan strax dálítið.

Í hvert skipti, sem þessu frv. hefur síðan verið hreyft, hefur það verið sagt úr herbúðum stjórnarinnar, að það væri fullkomið ábyrgðarleysi að lækka vextina. Af því hlyti að verða mikil aukning á verðbólgunni, eins og það hefur verið kallað og það væru ábyrgðarlausar till. stjórnarandstöðunnar að lækka vextina. Síðast í fyrravetur var þetta látið dynja úr herbúðum stjórnarinnar.

Ég benti þeim þá á það einu sinni enn, hvernig horfurnar væru og hvernig þeim litist á það, sem fram undan væri, á hvað þeir stefndu, hvernig mönnum dytti í hug, að hægt væri að halda vöxtunum á íbúðalánunum eins og þeir voru og eins og stjórnin hafði í mörg ár talið lífsnauðsynlegt að þeir væru, þegar þannig var komið málum, að vaxtabyrðin ein af andvirði lítillar íbúðar var orðin bróðurparturinn af verkamannakaupinu. Ég spurði þá að því, hvernig þeir héldu, að það mundi ganga að ná kjarasamningum, ef þetta viðhorf ætti að verða áfram. Þessi vaxtapólitík væri óframkvæmanleg til lengdar, hún væri þegar búin að gera stórkostlegt tjón í dýrtíðarvextinum og búsifjum fyrir framleiðsluna og þetta gæti ekki staðizt. Þá var þetta kallað ábyrgðarleysi einu sinni enn. En hvað gerðist? S.l. vor ráku þeir sig á vegginn, ráku sig á, að það var ekki hugsanlegt að koma saman kjarasamningum í eitt skipti enn án þess að breyta vaxtapólitíkinni. Ætli það hefði ekki verið nær fyrir hæstv. ríkisstj. að fara fyrr að beygja sig fyrir staðreyndum og fara fyrr eftir því, sem við lögðum til í þessu efni og höfum ráðlagt öll þessi ár? En loksins urðu þeir að beygja sig fyrir því, að það var óhugsandi að koma saman nokkrum kjarasamningum án þess að breyta vaxtapólitíkinni. Þá kom það allt í einu í ljós, að þetta var ekkert ábyrgðarleysi, sem við höfðum haldið fram og við höfðum bent stjórninni á, heldur óhjákvæmileg nauðsyn, sem jafnvel þeir urðu að beygja sig fyrir, sem höfðu árum saman kallað þetta ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar. Svona geta staðreyndirnar verið miskunnarlausar og svona getur það hefnt sín að þykjast ekki sjá og vilja ekkí taka skynsamlegum uppástungum, ef þær koma frá öðrum.

Við höfum líka árum saman bent á, að það væri óhugsandi, að íslenzk framleiðslustarfsemi gæti til lengdar starfað og greitt þá háu vexti, sem hér voru settir á og eru miklu hærri en í nokkru öðru nálægu landi og alveg ósambærilegir við það, sem þeir framleiðendur verða að borga í öðrum löndum, sem keppa við okkar framleiðslu á erlendum mörkuðum. En hæstv. ríkisstj. hefur barið höfðinu við steininn í mörg ár, einnig í þessu tilliti sagt, að þetta væri ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar að leggja til lægri vexti fyrir framleiðsluna og óframkvæmanlegt, vextirnir væru svo lítill hluti af kostnaðinum við framleiðsluna. Og hæstv. viðskmrh. hefur hér á hverju einasta ári mætt með þetta sama dæmi, sem hann mætti með enn nú um daginn, telur saman bankaskuldir útvegsins, rekstrarlánin, sleppir auðvitað stofnlánunum o.s.frv. Kemur þá út hjá honum, að útflutningsframleiðsluna muni ekkert um vextina. Það sé í raun og veru alveg sama fyrir útflutningsframleiðsluna, hvort vextirnir séu 5% eða 10%, það skipti engu máli. Og þennan málflutning hefur okkur verið boðið hér upp á ár eftir ár og enn núna um daginn af hendi hæstv. viðskmrh.

Nú hlýtur hæstv. viðskmrh. og aðrir, sem hér eiga hlut að máli, að vita, að vextirnir eru stórkostlegur liður í útgjöldum framleiðslunnar, bæði útflutningsframleiðslunnar og iðnaðarins og ég hef haft með höndum verðlagningardæmi eða vinnsludæmi fyrir frystan fisk frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Að vísu eru það orðin nokkuð gömul dæmi, þau munu vera frá 1961 eða þar í kring og hlutfallið er náttúrlega breytt nú frá því, sem það var þá. Þessi dæmi gerðu ráð fyrir, að vaxtakostnaðurinn, auðvitað stofnlánavextir með, væri sem allra næst 40% af kaupgjaldskostnaðinum. Þetta voru þau vinnsludæmi, verðmyndunardæmi, sem gerð voru á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1961. Þessi mál voru algerlega krufin til mergjar í sambandi við þá miklu deilu, sem varð 1961 út af gengislækkuninni þá og kauphækkuninni. Þá var ýtarlega farið ofan í þetta og þetta allt saman ómótmælanlega sýnt.

Nú hefur þetta hlutfall breytzt, en samt sem áður er það vitanlega þannig, að vextirnir eru stórkostlegur liður í framleiðslukostnaðinum. Og hvað hefur nú komið í ljós varðandi vextina, framleiðslukostnaðinn og útflutningsatvinnuvegina? Það hefur komið í ljós nokkurn veginn það sama og kom í ljós í sambandi við kjarasamningana og vextina af íbúðalánunum, að hæstv. ríkisstj. kom ekki saman verðlagsdæmi eða framleiðsludæmi sjávarútvegsins nú í vetur nema með því að lækka vextina, nema með því að taka ráð hinnar óábyrgu stjórnarandstöðu, sem hún hefur fordæmt öll þessi ár. Hæstv. ríkisstj. neyddist til þess að lækka vextina, fyrst og fremst til þess að hægt væri að koma saman rekstrardæmi hraðfrystihúsanna og samkv. kröfu forráðamanna sjávarútvegsins, sem öll þessi ár hafa verið sammála okkur í stjórnarandstöðunni um, að þessi vaxtapólitík hæstv. ríkisstj. næði engri átt og væri myllusteinn um háls útflutningsframleiðslunnar.

Það hefur aldrei borið neitt á milli stjórnarandstöðunnar og útflutningsframleiðendanna varðandi skoðanir í þessum málum. Og þetta hefur ekki verið byggt á neinu ábyrgðarleysi, heldur á bláköldum staðreyndum og á þeirri vitneskju, sem hefur legið fyrir og reynslu varðandi þessi efni.

Hæstv. ríkisstj. gaf að vísu út þá tilkynningu um áramótin, að vextirnir hefðu verið lækkaðir vegna þess, að það væri orðið meira jafnvægi í efnahagsmálum. Að þessu hlógu allir. Þetta þótti bara eins og hver annar brandari, því að það vissu náttúrlega allir, að jafnvægisleysið í efnahagsmálunum hafði aldrei verið meira, en einmitt um þessar mundir. Biðraðirnar við bankana hafa aldrei verið lengri en nú, þær ná langt út á götu á hverjum morgni. Ég ímynda mér, að þeir skipti hundruðum, sem standa í biðröðum við bankadyrnar á morgnana, vegna þess að eftirspurnin eftir lánsfé er svo margfalt meiri, en hægt er að fullnægja. En hæstv. ríkisstj. gaf út tilkynningu um áramótin: Vextir eru lækkaðir vegna þess, að það hefur þokazt í jafnvægisátt.

Það er svo saga út af fyrir sig, að þegar hæstv. ríkisstj. innleiddi háu vextina, átti það að vera til þess, að það kæmist á jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á lánsfé, — ég vil biðja menn að taka eftir því: eftirspurnar og framboðs á lánsfé. Þá var sagt: Ef við hækkum svona vextina, kemur jafnvægi af sjálfu sér. Afleiðingin verður jafnvægi. Sparnaðurinn eykst mikið. Löngun manna til að taka lán minnkar líka mikið. Og það verður alveg jafnvægi í framboði og eftirspurn á lánsfé. — En við sjáum, hvernig farið hefur. Jafnvægisleysið hefur aldrei verið ferlegra, en síðan háu vextirnir voru innleiddir og það er náttúrlega m.a. vegna þess, að allt var gert í senn, innleidd stórkostleg gengisbreyting, sem reisti gífurlega dýrtíðaröldu, vaxtahækkuninni bætt við, sem hækkaði enn meir risið á þeirri öldu og nýjar álögur innleiddar. Aldan hlaut að brotna yfir landsmenn, eins og líka reynslan hefur sýnt, því að síðan þetta var gert, hefur bókstaflega ekki ráðizt við neitt, nákvæmlega eins og við sögðum fyrir þegar í upphafi. Þessar ráðstafanir væru svo stórkostlegar og mundu raska svo gífurlega allri verðlagsmyndun í landinu, að það yrði ekki við neitt ráðið að óbreyttum aðstæðum.

Ég hygg, að það væri bezt fyrir ríkisstj. að vera ekki að láta pressa sig til þess að gera það, sem óhjákvæmilega verður að gera, þ.e.a.s. að breyta vöxtunum enn, þ. á m. stofnlánavöxtum landbúnaðarins til samræmis við vextina á íbúðalánunum o.s.frv., að láta ekki pressa sig á þá lund, sem gert hefur verið, heldur horfast í augu við staðreyndirnar og fallast á þetta frv., því að hún verður pressuð til þess, ekki bara af stjórnarandstöðunni, heldur líka af rás viðburðanna, verður pressuð til að halda áfram á þeirri braut, sem í þessu frv. felst, að sínu leyti eins og hún hefur neyðzt til að gera á þann hátt, sem ég hef hér verið að lýsa.

Svipað er hér að segja um þá aðferð hæstv. ríkisstj. til þess að hafa vald á verðbólgunni að loka inni hluta af sparifjáraukningunni. Þetta hefur alls ekki orðið til þess að draga úr verðbólgunni, síður en svo. Það hefur aldrei logað glaðara, verðbólgubálið, en síðan þessi háttur var upp tekinn. En þetta hefur orðið til þess að raska verulega íslenzkum þjóðarbúskap og hefur valdið gífurlegum vandkvæðum fyrir framleiðsluna vegna skorts á eðlilegum rekstrarlánum og fyrir almenning, vegna þess að menn hafa ekki getað fengið lán til nauðsynlegustu framkvæmda. En þetta hefur ekki skapað jafnvægi í landinu. Verðbólguframkvæmdirnar duna áfram, en lánapólitíkin hefur í reyndinni aðeins orðið til þess, að þeir, sem hafa mestu fjármagni yfir að ráða sjálfir, hafa getað komið sínum framkvæmdum fram fyrir aðrar.