08.05.1965
Neðri deild: 86. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

27. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Ég hafði ætlað mér að flytja allýtarlega framsögu fyrir nál. minni hl. í þessu máli, með því að ég tel málið miklu varða, en þar sem mér er kunnugt um, hvernig nú er hagað störfum þingsins, þá verð ég að fallast á það að stytta mál mitt eftir föngum. En ég vil þó ekki láta hjá líða, að fram komi álít okkar, sem skipum minni hl. fjhn., ekki hvað sízt þar sem svo hagar til, að nál. hefur ekki enn þá verið útbýtt og að menn geta þar af leiðandi ekki kynnzt sjónarmiðum okkar með lestri þess.

Þetta frv., sem hér er til umr., er um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, eins og það heitir. Frv. er í tveimur köflum og fyrri kaflinn er um tilgang l. og störf jafnvægisnefndar, Í þeim kafla segir, að stuðla skuli að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknastörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein og hlutfallsleg fólksfækkun hefur orðið undanfarið eða er talin yfirvofandi. Samkv. frv. á Alþ. að kjósa að loknum alþingiskosningum hverju sinni 7 manna n., þ.e.a.s. 7 aðalmenn og 7 varamenn í n., sem kölluð er jafnvægisnefnd. N. á að hafa með höndum framkvæmdir samkv. l. og ráðstöfun þess fjár, sem til þeirra er veitt. Síðari kafli frv. er meginatriðið, en þar er fjallað um jafnvægissjóð. Frv. gerir ráð fyrir því, að til jafnvægissjóðs sé greitt árlega 11/2% af tekjum ríkissjóðs samkv. ríkisreikningi. Hlutverk sjóðsins er þar nánar tilgreint að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í samræmi við tilgang laganna. Gert er ráð fyrir að veita lán úr sjóðnum til hvers konar framkvæmda, sem að dómi jafnvægisnefndar stuðla að jafnvægi í byggð landsins, en heimilt skal einnig að veita beina styrki úr sjóðnum í þessu skyni, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þá á jafnvægisnefnd að vera heimilt, ef sérstaklega stendur á, að gerast fyrir hönd jafnvægissjóðs meðeigandi í atvinnufyrirtæki, sem hún telur nauðsynlegt að koma á fót í samræmi við tilgang l., enda sé ekki mögulegt að stofna fyrirtæki með öðrum hætti. Til þess er ætlazt, að Framkvæmdabanki Íslands annist afgreiðslustörf og reikningshald sjóðsins fyrir hönd jafnvægisnefndar, til þess að minnka tilkostnað eins og mögulegt er og nota þann banka, sem fyrir hendi er og eðlilegast virðist, að um þessi atriði fjalli.

Í grg. með því frv., sem hér er til umr., er greint frá því, hvernig hagar um mannfjölda í einstökum landshlutum árið 1940 annars vegar og árið 1963 hins vegar. En þar kemur fram, að á þessum árum, sem liðin eru frá 1940, hefur orðið bein fólksfækkun í einum landshluta, þ.e.a.s. á Vestfjörðum og hlutfallsleg fækkun fólks á öllum landssvæðum öðrum, en hér í Reykjavík og næsta nágrenni. Flm. frv. og við, sem erum í minni hl. fjhn., teljum, að þessi þróun, eyðing byggðanna af fólki, sé mjög óheillavænleg og við teljum, að það þurfi án tafar að gera ráðstafanir til þess að stöðva áframhald hennar, og þetta viljum við segja að sé sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna. Tíl þess að snúa þessari þróun víð er nauðsynlegt fyrst og fremst að útvega fjármagn til að efla atvinnulífið í þeim landahlutum, sem þannig er ástatt um, að fólkinu fækkar, en þar sem góð atvinnuskilyrði eru fyrir hendi. Vitanlega þarf fleira til að koma, en uppbygging atvinnulífsins eins, en það verður því að teljast grundvallaratriði. Þau fleiri atriði, sem til greina koma í þessu sambandi, eru auðvitað jöfnun aðstöðu til menntunar um allt land og samgöngumálin, sem mjög vega þungt í þessu sambandi. Af því að raforkumál eru mjög ofarlega á dagskrá nú, koma þau upp í hugann sem eitt af þýðingarmestu atriðum í þessu sambandi, þ.e. að rafvæða landið allt og selja raforkuna við sama verði um allt land. Og í sambandi við meðferð þess máls, sem nefnt hefur verið Landsvirkjun, ætti einmitt að gefast sérstakt tilefni til að hugleiða þennan þátt málanna.

Hv. meiri hl. fjhn. hefur ekki viljað fallast á það með okkur hinum að mæla með samþykkt þessa frv., heldur borið fram rökstudda dagskrá, þar sem segir, að d. telji ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. og taki fyrir næsta mál á dagskrá, eins og þar segir. En rökstuðningurinn er sá, að fram hafi komið í skýrslu ríkisstj. á þskj. 635, að ákveðið sé að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til l. um framkvæmdasjóð strjálbýlisins, þá sé ekki ástæða til að samþykkja nú þetta frv. Þessu er ég algerlega and. vígur og ósammála.

Á bls. 12 í skýrslu ríkisstj. segir svo, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af staðsetningu hugsanlegrar alúminíumbræðslu hér á landi og vegna þess, hve mikilvægt ríkisstj. telur, að jafnvægis sé gætt milli byggðarlaganna, hefur hún ákveðið að undirbúa frv. o.s.frv. eins og þar segir.

Af þessu tel ég að augljóslega komi í ljós, að það sé fyrst og fremst, sem fyrir ríkisstj. vakir, að rétta þann skakka, sem yrði af því, ef úr því yrði, að alúminíumbræðsla yrði reist á Suðvesturlandi. Rökstuðningurinn hnígur í þá átt. En ég held því fram og ég held, að það verði ekki um það deilt, að mikið misræmi sé nú þegar fyrir hendi í þessu máli, sem nauðsynlegt sé að bæta úr og hefði átt að vera búið að bæta úr fyrir lifandi löngu, enda hafa hér fyrir hv. Alþ. mörg undanfarin ár, fleiri en ég man að telja, legið frv. um sérstakan jafnvægissjóð frá þm. Framsfl., sem jafnan hefur fengið ýmist neikvæða afgreiðslu eða alls enga. Þess vegna tel ég, að þrátt fyrir góðan ásetning hæstv. ríkisstj. í því að bæta upp það misræmi, sem hún skapar með staðsetningu alúminíumverksmiðju á Suðvesturlandi, beri Alþ. skylda tiI þess að vinna að lausn þess máls og þess misræmis, sem orðið er og það er einmitt það, sem þetta frv., sem hér er til umr., fjallar um.

Ég hygg, að ekki þurfi að eyða löngu máli af dýrmætum tíma hv. Alþ. nú til þess að sanna, hvert misræmi sé nú þegar í byggð landsins. Svo virðist sem loksins séu augu manna almennt að opnast fyrir því, að þetta vandamál sé fyrir hendi og meira að segja Sjálfstfl. er farinn að álykta um þetta mál á landsfundum sínum og í forustugrein Morgunblaðsins í dag er skrifað um þetta mál af meiri skilningi, en þaðan hefur verið að mæta, ég vil segja bæði fyrr og síðar. En til frekari rökstuðnings þess og til að undirstrika vandamálið vil ég leyfa mér að vitna til bréfs frá Búnaðarfélagi Íslands, sem Alþ. hefur borizt og fjallar um þetta mál, en það er svona, með leyfi hæstv. forseta: „Búnaðarþing skorar á Alþ. að gera ákveðnar og raunhæfar ráðstafanir til þess að efla byggð og treysta búsetu fólks um land allt. Þingið vill vekja athygli á fordæmi Norðmanna í þessu efni og telur æskilegt, að sérstakri stofnun verði hér falið það verkefni að beina fjármagni til framkvæmda í þá landshluta, þar sem byggð vex ekki eðlilega, og að ákveða staðsetningu þjónustustofnana ríkisins, skóla og annarra ríkisstofnana og atvinnufyrirtækja svo, að þau styðji að eðlilegri og jafnari fólksfjölgun um land allt. Stofnuninni verði séð fyrir föstum tekjum, sem haldi gildi sínu, þótt verðfall verði á peningagildi í landinu:

Í þessu bréfi er sérstaklega vakin athygli á fordæmi Norðmanna. Þeir hafa haft verulega mikið af þessu vandamáli að segja og þeir hafa mætt því með mjög raunhæfum ráðstöfunum og varið til þess miklu fjármagni. Hv. alþm. var fyrr í vetur gefinn kostur á því að hlýða á erindi, sem norskur sérfræðingur, sem hingað til lands kom, hélt um þetta mál hér í næsta húsi, og ég veit, að það voru margir okkar, sem notfærðu sér þetta boð og fengu glögga yfirsýn af þessu erindi um það, hversu stórt vandamál þetta er talið í Noregi og hversu miklu fjármagni varið er þar til þess að mæta því og bæta úr því. En það er víðar, en í Noregi, sem þessu vandamáli er mætt með opnum augum. Þegar ég ásamt hv. 5. þm. Vesturl. var á ferð í Bretlandi fyrir nokkrum vikum, fengum við sérstaklega að kynnast því, að þar í landi er þetta vandamál talið mjög mikilvægt og það eru miklar ráðstafanir gerðar af hálfu stjórnarvalda til þess að mæta því. Ég skal tímans vegna sleppa að greina frá því, í hverju þær eru fólgnar, en minni á það, að hv. 5. þm. Vesturl. hefur skrifað um það ágæta grein í Alþýðublaðið fyrir nokkrum vikum og ég vil hvetja menn til þess að kynna sér það til þess að sjá, að þar er þessu vandamáli mætt af fullum skilningi og mikið lagt í sölurnar til þess að bæta úr því.

Þannig hygg ég, að það verði ekki um það deilt, að vandamálið sé fyrir hendi hér og við eins og aðrir þurfum að mæta því. Og ég tel, að það frv., sem hér er til umr., beri að samþykkja. Ég tel raunar, að sams konar frv. hefði átt að samþykkja fyrir mörgum árum, þegar þau voru hér fyrr á ferðinni. Ef svo hefði verið gert, eru allar líkur til þess, að við værum betur á vegi staddir í þessum málum, en raun ber vitni í dag. En með því að það hefur ekki orðið, er þó betra seint en aldrei og ég tel, að þrátt fyrir þá yfirlýsingu, sem er að finna í skýrslu ríkisstj, um byggingu á alúminíumverksmiðju á Íslandi, eigi sú hugmynd, sem hér er hreyft um sérstakan jafnvægissjóð, fullan rétt á sér, ekki sízt þar sem mér virðist, að hugmynd hæstv. ríkisstj. sé bundin við viss atriði, sem alls óvíst er að nokkuð verði úr og hvort sem úr þeim verður eða ekki, er sýnilegt, að þau sjálf auka svo á þetta vandamál, að það margfaldast.

Það eru mörg atriði, sem koma til greina í sambandi við lausn þessa máls og víðast hvar hefur þessu verið mætt, eins og ég sagði áðan, með því að veita fjármagn til nýrra atvinnugreina á þessum stöðum. Fleiri leiðir eru vissulega hugsanlegar. Mér dettur t.d. í hug til viðbótar við það, sem ég nefndi áðan, að jafna aðstöðu fyrirtækja í sköttum eða gjöldum, t.d. á þann hátt, að aðstöðugjöld verði í þessum landshlutum a.m.k. ekki hærri en þau eru annars staðar eða jafnvel lægri eða þessi fyrirtæki fengju ívilnanir í opinberum gjöldum í stað beins fjárstyrks. Þessi leið hefur ekki verið valin í því frv.; sem hér er til umr., en ég geri ráð fyrir því, að þó að það yrði samþ., sé það engin allsherjarlausn, heldur séu ýmis atriði önnur, sem þyrfti að taka upp við hliðina á því til þess að ná verulegum árangri í þessu mikilsverða máli. Enda þótt hér sé talað um það, að byggð megi ekki eyðast og það sé þjóðfélagslegt vandamál, hve fólkinu fækkar á vissum landssvæðum, því er verr, er það þó ekki tilgangur okkar eða þeirra, sem beita sér fyrir framgangi þessa máls, að búseta skuli haldast á hverju einstöku býli, sem byggt hefur verið að undanförnu. Okkur er ljóst, að þær kröfur eru of hátt fram settar. Hitt er aðalmarkmiðið, að koma í veg fyrir, að góðar sveitir og sjávarþorp, þar sem álítleg framleiðsluskilyrði eru. leggist í auðn.

Sú stefna er mörkuð í þessu frv., að gæði landsins og fiskimið umhverfis landið verði nýtt, hvar sem þau eru, að svo miklu leyti sem mögulegt er og öll byggileg landssvæði skuli setin. Þetta verður gert með því að auka ræktun landsins og einnig með því að efla atvinnulíf í sjávarþorpum og kauptúnum, sem fyrir eru og koma upp nýjum þéttbýlisstöðvum í ýmsum héruðum, sem gætu orðið miðstöðvar viðskipta og iðnaðar fyrir nálægar byggðir. Það fé, sem veitt verður til slíkrar uppbyggingar, mun skila sér aftur með vöxtum og vaxtavöxtum í vaxandi framleiðslu og þjóðartekjum til hagsbóta fyrir alla íbúa landsins, ekki bara þá, sem á umræddum landssvæðum búa, heldur einnig okkur hina, sem búum í þessu svokallaða þéttbýli.