17.11.1964
Neðri deild: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

66. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að gerðar verði þrjár breytingar á gildandi lögum um bann við botnvörpuveiðum í landhelgi. Í fyrsta lagi er lagt til, að sektir fyrir landhelgisbrot verði hækkaðar allverulega. Í öðru lagi er lagt til, að bannað verði að láta af hendi eða selja upptæk veiðarfæri þeirra, sem sekir hafa reynzt um botnvörpuveiðar í landhelgi, fyrr en í fyrsta lagi einum mánuði eftir að sektardómur hefur verið kveðinn upp. Og í þriðja lagi er lagt til, að sett verði ótvíræð ákvæði í l. um það, að náist ekki í sekan skipstjóra á veiðiskipi, sem tekið hefur verið að ólöglegum veiðum, sé heimilt að dæma útgerðarfyrirtæki skipsins og gera það á allan hátt ábyrgt fyrir landhelgisbrotinu. Þessar eru aðalbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir samkv. þessu frv. að gera á gildandi l. um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi. Ég skal nú fara örfáum orðum um hverja þessa breytingu um sig.

Sektarákvæði varðandi landhelgisbrot eru í l. frá árinu 1951. Þau eru þar ákveðin að vísu í gullkrónum og sektarfjárhæðin hefur því breytzt á þessum tíma til samræmis við breytingar á gengi íslenzkrar krónu. En þó að sektirnar hafi á þennan hátt hækkað nokkuð, fer fjarri því, að þær hafi hækkað til samræmis við önnur meginatriði, sem á að leggja til grundvallar í sambandi við slík brot sem hér er um að ræða. Verðmæti þeirra skipa, sem nú stunda yfirleitt veiðar hér við land og gera sig helzt sek um að brjóta þessa löggjöf, hefur breytzt miklum mun meira, en sem nemur breytingum á okkar gjaldmiðli. En það er vitanlega eðlilegt, að brot þessara skipa við löggjöfina séu metin að verulegu leyti með tilliti til þess, hve þau tæki eru dýr, sem hér eiga hlut að máli. Ég hygg, að verðmæti þeirra togara, sem stunda veiðar við Ísland nú, sé algengast að vera í kringum 40–50 millj. kr. fyrir skipið, reikna þar með verðmæti nýrra skipa. Sú upphæð hefur, sem sagt breytzt gífurlega mikið frá því, sem var, þegar sektarákvæðin voru sett í lög árið 1951. Af þessum ástæðum í fyrsta lagi tel ég, að það sé kominn tími til þess að hækka sektir fyrir landhelgisbrot allverulega frá því, sem nú er í gildi. Annað atriði kemur hér einnig til greina, en það er verðmæti þess afla, sem leitað er eftir, m.a. með því að brjóta landhelgislöggjöfina. Það er enginn vafi á því, að verðmæti aflans hefur líka breytzt á þessu tímabili um meira, en sem nemur breytingu á gildi íslenzkrar krónu. Það er því enginn vafi á því, að verðmæti aflans er miklum mun meira nú hlutfallslega, en það var, þegar sektarákvæðin voru sett í lög árið 1951, og það er því einnig af þeim ástæðum kominn tími til þess að breyta sektarfjárhæðinni. Nú munu sektir fyrir landhelgisbrot vera algengastar 240–260 þús. kr. Þegar þessi fjárhæð er borin saman við verðgildi skipanna og við verð á meðalfiskfarmi þeirra skipa, sem hér er átt við, þá ætla ég, að allir geti orðið sammála um það, að þessi sektarfjárhæð, 240–260 þús. kr., sé orðin harla litil. Það er líka mín skoðun, að þau mjög svo tíðu landhelgisbrot, sem menn hafa heyrt frá að undanförnu, standi í nánu sambandi við það, hvað landhelgissektirnar séu í raun og veru orðnar lágar, borið saman við verð aflans og verð skipanna, sem þessar veiðar stunda.

Í gildandi 1. er miðað við það, að sektum fyrir landhelgisbrot sé skipt í tvo meginflokka, þ.e.a.s. miklum mun lægri sektir fyrir skip, sem eru að stærð undir 200 rúmlestum, en svo allmiklu hærri sektir eða þær, sem ég var að nefna áðan, 240–260 þús., fyrir skip, sem eru yfir 200 rúmlestir að stærð. En í þessu frv., sem ég legg hér fram, er gert ráð fyrir því að hafa á þessu nokkuð annað fyrirkomulag eða skipta þessum sektarflokkum í þrjá mismunandi flokka, þ.e.a.s. fyrir skip undir 200 rúml., í öðru lagi fyrir skip, sem eru af stærðinni frá 200–600 rúml., og svo í þriðja lagi fyrir skip, sem eru yfir 600 rúml. En það er einmitt ein breytingin, sem átt hefur sér stað hin síðari ár, að skipin hafa stækkað verulega og nú er orðið um allverulegan fjölda af veiðiskipum að ræða, sem eru stærri en 600 rúml., en þau voru tiltölulega fá árið 1951. Samkv. þeim till., sem gerðar eru í þessu frv., er gert ráð fyrir því, að sektir fyrir skip, sem eru að stærð 200–600 rúml., gætu orðið 390–780 þús. kr. Hér er því lagt til að gera allverulega hækkun frá því, sem verið hefur, en samkv. ákvæðum frv. er gert ráð fyrir því, að sektir skipa, sem eru yfir 600 rúml., geti orðið 780–1965 þús. kr. Og yrði hækkunin auðvitað hjá þessum stærstu skipum þar af leiðandi enn þá meiri, en hjá hinum. Ég held. að það megi ekki dragast öllu lengur að breyta þessum sektarákvæðum, sem í gildi eru nú, ef það á að stugga eitthvað verulega við landhelgisbrjótunum og fá þá til þess að forða sér frá því að brjóta lögin, svo að um muni.

Þá er annað atriðið í þessum breytingum, það að taka skýrt fram í l., að óheimilt sé að selja veiðarfæri þeirra skipa, sem tekin hafa verið að ólöglegum veiðum í landhelgi, fyrr en í fyrsta lagi mánuður er liðinn frá því, að dómur hafi verið kveðinn upp um landhelgisbrotið. En nú er almennt hafður á sá háttur, að veiðarfærin eru að vísu gerð upptæk, en það má heita aðeins að nafninu til, vegna þess að um leið og dómur hefur verið upp kveðinn, fær veiðiþjófurinn venjulega veiðarfæri sín afhent með tiltölulega lítilli tryggingu og getur farið út með þau veiðarfæri og byrjað á iðju sinni aftur án nokkurra verulegra tafa. En ég álít, að það þurfi að gera ákvæði l. í þessum efnum miklu ótvíræðari, en þau eru nú og taka það beinlínis skýrt fram, að þegar veiðarfæri hafa verið gerð upptæk með dómi, þá sé óheimilt að láta þau aftur af hendi eða selja þau, fyrr en a.m.k. einn mánuður er liðinn frá uppkvaðningu dómsins. Þetta mundi í flestum tilfellum verða til þess, að veiðiþjófurinn yrði nauðbeygður til þess að hætta viðkomandi veiðitúr og halda til síns heimalands aftur, en það er jafnvel meiri refsing fyrir hann heldur en nokkurn tíma sektarfjárhæðin sjálf. Ég álít því, að hér sé um mjög mikilvægt atriði að ræða og það eigi að breyta um framkvæmd í þessum efnum. En það held ég að verði ekki gert, nema tekin séu af öll tvímæli í l. sjálfum.

Þá er þriðja breytingin, sem felst í frv., en hún er um að gera útgerðarfélag skipsins meira ábyrgt í sambandi við sektardóma, en er samkv. gildandi lögum. Nú er yfirleitt við það miðað, að það sé skipstjórinn á skipinu, sem sé hinn seki. Hann er dreginn til dóms og hann hlýtur sektardóminn. En takist nú svo til með einhverjum hætti, að skipstjórinn náist ekki eða smjúgi úr greipum landhelgislögreglunnar, eins og dæmi eru til um, þá virðast okkar lagaákvæði vera mjög óákveðin og óljós um það, hvaða möguleikar séu þá til þess að koma sektardómi á þann, sem skipið gerir út. Ég veit, að allir hv. alþm. kannast vel við dæmið af enska togaranum Milwood, sem hér var tekinn fyrir ekki alllöngu og þar sem einmitt slíkt atvik sem þetta kom fyrir, þar sem hinn seki skipstjóri hafði sloppið, en skipið sjálft var tekið og flutt hingað til hafnar, en það lék lengi mikill vafi á því, hvernig með málíð ætti að fara. Ég legg því til, að það séu sett í l. alveg skýr ákvæði um það, að náist ekki í hinn seka skipstjóra eða sleppi hann með einhverjum hætti, þá sé samkv. íslenzkum lögum leyfilegt að ákæra eiganda skipsins eða útgerðaraðila, sem eigi þá að þola sektardóm og alla refsingu. Ég held, að reynslan hafi sýnt, að það sé alveg óhjákvæmilegt að breyta gildandi lögum um þetta efni, því að Milwooddæmið er ekki og verður ekki einasta dæmið í þessum efnum. Það er alveg augljóst, að svona tilvik geta orðið í mörgum tilfellum.

Þessi atriði, sem ég hef hér gert nokkra grein fyrir, eru meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir. Ég flutti á síðasta þingi frv. um sama efni og þetta og sé því ekki ástæðu til þess að orðlengja hér frekar um málið. Ég vænti þess, að málið fái afgreiðslu nú á þessu þingi og legg til, að málinu að þessari umr. lokinni verði vísað til 2. umr. og sjútvn.