17.11.1964
Neðri deild: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

66. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins bæta nokkrum orðum við þessa ýtarlegu framsöguræðu, sem hér hefur verið flutt um það frv., sem fyrir liggur.

Ég held, að það sé komið í ljós, að það var mjög miður, að þetta frv. skyldi ekki ná fram að ganga á seinasta þingi, en það var fyrst flutt þá. Þeir, sem hafa fylgzt með fréttum blaða og útvarps að undanförnu, hafa ekki komizt hjá að verða þess varir, að varðskipin hafa tekið allmarga togara að ólöglegum veiðum að undanförnu og er þó vafalaust, að það eru fleiri, sem hafa komizt undan. En það, sem á tvímælalaust mikinn þátt í því, að erlendir togarar halda nú svo mjög uppi ólöglegum veiðum og að því er virðist í vaxandi mæli, stafar af því, hve refsingar eru orðnar lágar fyrir þessi brot, sérstaklega þegar miðað er við stærð skipanna, eins og kom fram hjá hv. flm.

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að öll þau þrjú meginatriði, sem felast í þessu frv., séu til mikilla bóta í þessum efnum og dragi úr áhuga erlendra veiðimanna fyrir að gerast brotlegir hér við land í sambandi viið veiðar, og e.t.v. er það atriði þó einna þýðingarmest í frv., að það er kveðið skýrt á um það, að eigi megi selja eða láta af hendi upptæk veiðarfæri fyrr en a.m.k. mánuður er liðinn frá uppkvaðningu dóms. Ég hygg, að ef þetta atriði yrði lögfest, mundi það eiga góðan þátt í því, að veiðiþjófar yrðu ragari við sína iðju en ella, því að þetta atriði er að sjálfsögðu mikil refsing til viðbótar hinni beinu sekt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta. Ég vildi aðeins, vegna þess að málið hefur verið svo ýtarlega rætt af flm., leggja áherzlu á, að þetta mál sæti nú ekki sömu meðferð og á siðasta þingi og að sú hv. nefnd, sem fær það til meðferðar, skili um það álíti og greiði fyrir því, að það komist nú í gegnum þingið.