04.05.1965
Neðri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

66. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 565 ber með sér, varð ekki samkomulag um það í sjútvn. að afgreiða frv. mitt á þskj. 74, um breyt. á 1. um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi, með öðrum hætti en þeim, sem fram kemur í þessu nál., þ.e.a.s. lagt er til, að málinu verði vísað til ríkisstj., en þó með vinsamlegum undirtektum og það tekið fram, að það sé ætlazt til þess, að um leið og endurskoðun fer fram á l., verði tekið tillit til þeirra atriða, sem frv. fjallar um. Ég tel, að þessu máli sé þokað nokkuð áleiðis með þessari afgreiðslu, og geri mér vonir um það, að þegar hæstv. ríkisstj. tekur að sér að láta framkvæma endurskoðun á þessari löggjöf, muni sú endurskoðun leiða til þess, að meginefni þessa frv. verði tekið í lög, því að ég held, að það sé enginn vafi á því, að það er orðin brýn þörf á því að gera þær breytingar, sem þetta frv. fjallar um. En lengra var ekki hægt að þoka málinu áleiðis hér að þessu sinni og taldi ég því rétt að fallast á þá afgreiðslu, sem er mörkuð með þessu nál.