15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í þessu frv. felast tvær breytingar á núgildandi lögum um verðlagsráð sjávarútvegsins.

Hin fyrri lýtur að sjálfri verðákvörðun fisksins og eftir hvaða reglum skuli um þá verðlagningu farið. Í núgildandi lögum um þetta efni segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ákvarðanir verðlagsráðs um lágmarksverð á sjávarafla skulu byggðar á markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum.“ Þetta hefur reynzt þannig í framkvæmd, að sérstaklega fiskseljendur, bæði útgerðarmenn og sjómenn, hafa verið óánægðir með þetta orðalag á greininni og telja, að með því og ákvörðun verðlagsráðsins, sem byggð er á þessu orðalagi, hafi ekki verið sinnt þeirra hagsmunum eins og vera bæri. Þeir hafa talið, að þar væri ekki lagt neitt til grundvallar eða ekki einu sinni höfð hliðsjón af því, hver tilkostnaðurinn væri við öflun fisksins, en eingöngu miðað við það markaðsverð, sem fáanlegt væri fyrir fullunnu vöruna, og þó tekið tillit til vinnslukostnaðarins sérstaklega. Þetta hefur gengið svo langt, að á síðasta ári lá við borð, að störf verðlagsráðsins yrðu að leggjast niður, vegna þess að fulltrúar fiskseljenda vildu ekki ganga til dómsákvörðunar, á meðan þetta lagaákvæði væri óbreytt.

Þetta var síðan rætt við þá allýtarlega, og ríkisstj. hét því þá að flytja um þetta brtt. á þessu þingi. Um þessar breytingar og hvernig þær yrðu markaðar hefur svo verið rætt við aðilana, og hafa fulltrúar fiskseljenda, bæði útgerðarmenn og sjómenn, fallizt á það orðalag, sem í 1. gr. frv. felst. Hins vegar hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem líka hefur verið rætt við um þetta, tjáð sig mótfallna þessari breytingu. En orðalag greinarinnar, eins og hv. þm. sjá, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Verðlagsráð skal við ákvarðanir sínar um lágmarksverð á sjávarafla m.a. hafa hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum og af framleiðslukostnaði hans.“ Þannig er opnaður möguleiki til þess, að við verðákvörðunina verði tekið hóflegt tillit til þarfa og óska beggja aðilanna, bæði fiskkaupenda og fiskseljenda, en ekki eingöngu miðað, eins og í núgildandi lögum er gert, við þarfir fiskkaupendanna, í tengslum við það markaðsverð, sem fáanlegt er á erlendum markaði.

Þetta er önnur breytingin, sem frv, gerir ráð fyrir. Hinu breytingin er svo um skipun oddamanns í verðlagsdóm, ef til hans kemur. Í núgildandi lögum um verðlagsráð segir, að verðlagsráðsmenn skuli leitast við að koma sér saman um oddamann, og ef þeim tekst það ekki innan tiltekins tíma, sem ákveðinn er í lögunum, þá skal hæstiréttur tilnefna manninn.

Nú hefur oltið á ýmsu um þetta. Stundum hefur samkomulag tekizt um mann, stundum ekki, og hefur þá hæstiréttur orðið að úrskurða. Þetta hefur orðið til þess, að oddamaðurinn hefur ekki verið sá sami, og þess vegna ekki tekizt að fá samhengi í störf dómsins, þannig að þegar nýr maður er til kvaddur, þá hefur hann kannske annað sjónarmið en fyrirrennari hans, og verður þess vegna samhengið í verðlagsákvörðuninni ekki eins gott og það þyrfti að vera.

Í lögunum um verðlagningu landbúnaðarafurða er fastur embættismaður, sem lögin ákveða sem oddamann, þar sem er hagstofustjóri, og hann skipar þá oddasætið í dómnum, þegar til hans þarf að koma.

Það hefur þess vegna orðið ofan á samkvæmt tillögum fiskseljendanna, bæði sjómanna og útgerðarmanna, að þessari skipan yrði breytt, þannig að fastur oddamaður skipaði forsæti dómsins, þegar til hans þarf að koma. Þeir lögðu til, að þessi oddamaður yrði formaður Efnahagsstofnunar ríkisins, sem nú er Jónas Haralz, en annars bundið við embættið, alveg eins og oddamaðurinn í verðlagsráði landbúnaðarins. Hann hefur fallizt á að taka þetta að sér, ef ríkisstj. óskaði eftir því, og þetta er sem sagt ósk fiskseljendanna. Um þetta atriði hefur ekki verið rætt við fiskkaupendurna, þannig að ég veit ekki þeirra afstöðu til málsins, en ég get ekki ímyndað mér, að þeir hafi neitt sérstakt á móti því, að þessi háttur verði hafður á.

Þetta eru þær tvær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er, eins og ég sagði, flutt í fullu samkomulagi við fiskseljendurna. Kaupendurnir eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur tjáð sig ósamþykka þessari breytingu, um fyrra atriðið. Um seinna atriðið hefur ekki verið rætt, en ég tel, að ef ekki næst samkomulag um það við fiskseljendurna að fá orðalaginu um verðákvörðunina breytt í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, þá muni störf verðlagsráðsins vera í hættu og hæpið, að það geti haldið áfram að starfa, heldur verði óvirkt.

Nú líður að því, að það þarf að koma til verðlagsákvörðunar á afla næstkomandi vertíðar, og þess vegna er mjög nauðsynlegt, að þetta frv. nái fram að ganga sem allra fyrst fyrir jólafrí. Ég játa, að það er seint fram komið, en það er af ýmsum ástæðum. Það hefur gengið á milli ýmissa aðila og þess vegna ekki verið hægt að leggja það fram fyrr.

Ég vildi þess vegna heita á hv. alþm. að greiða fyrir því, að frv. gæti náð fram að ganga fyrir þinghlé, svo að hin nýja skipun gæti tekið til þeirrar verðákvörðunar, sem nú fer í hönd.

Ég vildi einnig leyfa mér að fara þess á leit við þá hv. n., sem fær frv. til meðferðar og væntanlega verður sjútvn., að hún gæti skilað nál. um þetta hið allra fyrsta og helzt á morgun, ef mögulegt er, til þess að hafa von um, að frv. nái fram að ganga.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.