02.03.1965
Efri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm.(Magnús Jónason):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv., og svo sem nál. ber með sér á þskj. 271, leggur n. til, að það verði samþ.

Síðan frv. þetta var flutt, hafa hv. þdm. vafalaust orðið þess varir, að rekin hefur verið allvíðtæk auglýsingaherferð hér í blöðum fyrir tóbaki og notkun þess, sem er óþekkt fyrirbrigði hér á landi, sem betur fer, fyrr en nú um þessar mundir, þannig að ljóst er, að það er full ástæða til þess að lögfesta það bann, sem hér um ræðir og er hliðstætt því banni, sem nú gildir um áfengisauglýsingar. Án þess að ég fari að ræða nákvæmlega um skaðsemi tóbaks, held ég, að það liggi samt nokkurn veginn nægilega ljóst fyrir okkur öllum, að þær upplýsingar, sem um það hafa verið gefnar af hinum sérfróðustu aðilum nú upp á síðkastið, a.m.k. réttlæta síður en svo, að það sé verið andvaralaust í þessu efni og a.m.k. ekki farið að taka upp útbreiðsluaðferðir til aukningar tóbaksnotkun, sem hafa ekki verið tíðkaðar áður.

Ég vil upplýsa það hér, að ég hef fengið persónulega bréf frá borgarlækninum í Reykjavik, eftir að þetta frv. var flutt, þar sem hann lætur í ljós mikla ánægju yfir því, að frv. sé flutt og væntir þess, að það verði lögfest, tekur jafnframt undir það, sem segir í grg. frv., að hér sé ekki nema um einn þátt þessa vandamáls að ræða og e.t.v. sé veigamesti þátturinn í þessum vanda öllum hinar auknu reykingar unglinga. Nú skal ég ekki út í þá sálma fara hér, því að það snertir ekki þetta frv. En það verður að teljast æskilegt og nauðsynlegt, að það mál sé tekið til athugunar í sambandi við frv. það um barnavernd, sem væntanlega kemur hér senn til hv. d. Þær niðurstöður rannsókna, sem borgarlæknir sendi mér afrit af í sambandi við tóbaksreykingar unglinga og barna hér í barnaskólum, eru vissulega svo uggvænlegar, að það er fullkomin ástæða til þess að gera allt, sem verða má, til þess að sporna þar við fótum, því að þær tölur eru sannast sagna miklu alvarlegri, en manni hafði til hugar komið. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, varðar ekki þann þátt málsins. Það verður að gerast með sölubanni á tóbaki til hinna yngstu aldursflokka, að reyna að stuðla á móti tóbaksnotkun þeirra. Enn fremur skal ég geta þess við þessa umr., að borgarlæknir skýrði mér jafnframt frá því, að hann hefði óskað eftir því við heilbrmrn., að bönnuð yrði tóbaksnotkun, þ.e.a.s. reykingar, í langferðabifreiðum, sem hann telur hina mestu óhæfu að skuli tíðkast, þar sem fólk oft og tíðum sé veikt í slíkum bílum og valdi því tóbaksreykingar hinum mestu óþægindum á allan hátt fyrir þetta fólk. En hvorugt það atriði snertir beinlínis þetta vandamál. Ég vildi aðeins skýra frá því hér, af því að það er í grg. þessa frv. vikið að því, að það þurfi að fylgja þessu máli eftir einnig á öðrum vettvangi og kemur þá til álíta fyrir hv. þdm. að taka afstöðu til þess á sínum tíma, hvort hér þurfi frekari aðgerða við.

En herra forseti, ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta frv. Það er mjög einfalt í sniðum, og n. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ., svo sem það liggur fyrir á þskj. 93.