05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Það er mín skoðun, að hér sé á ferðinni gott mál. Það er upplýst, að tóbaksreykingar eru hættulegar heilsu manna og þetta er staðfest af vísindalegum rannsóknum. Þess vegna er ekki nema gott eitt um að segja hverjar þær ráðstafanir, sem hníga í þá átt að takmarka tóbaksnotkun. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að auglýsingabann það, sem setja á samkv. 1. gr. þessa frv., sé of víðtækt, þar sem það nái ekki að öllu leyti tilgangi sínum, ef það er haft óbreytt eins og það er í 1. gr. frv. Ég tel sjálfsagt að banna tóbaksauglýsingar í kvikmyndahúsum, útvarpi og sjónvarpi, þegar þar að kemur. En ég álít, að það sé tilgangslaust að banna tóbaksauglýsingar í innlendum blöðum og tímaritum, á sama tíma og það eru flutt inn í landið hömlulaust erlend blöð og tímarit með aragrúa af skrautlegum og áberandi tóbaksauglýsingum.

Ég álít einnig, að fleira þurfi að athuga í sambandi við þetta mál. Það hefur heyrzt í fréttum ekki alls fyrir löngu, að til stæði að taka upp sums staðar í mestu tóbaksframleiðslulöndum heims merkingar á tóbaksumbúðum, þar sem neytendur séu varaðir við skaðsemi tóbaks. Ég álít, að slíkar merkingar þurfi einnig að taka upp hér og athuga þurfi, hvernig koma eigi þeim fyrir.

En með tilliti til þess, að tími er mjög naumur til að flytja brtt., vil ég með hliðsjón af þessu, sem ég hef nú sagt, leggja til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj., og flyt ég þá till. einnig fyrir hönd hv. 8. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vesturl. Við leggjum þetta til í trausti þess, að málið verði betur athugað, en tími hefur gefizt til, í þinginu, að þessu sinni.