06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan styðja hverja raunhæfa tilraun, sem gerð er til þess að koma í veg fyrir tóbaksneyzlu unglinga, en hún er svo að segja eingöngu vindlingareykingar, eins og mönnum er kunnugt um. Hins vegar verð ég að telja mjög vafasamt, að auglýsingabann eitt út af fyrir sig hafi veruleg áhrif í þessum efnum. Ég held, að það séu ekki sjálfar auglýsingarnar, sem kenna unglingum að reykja, heldur mennirnir, sem eru farnir að reykja og eru unglingunum eldri, unglingarnir taki sér þá til fyrirmyndar.

Það er fyrst og fremst í félagsskap eldri manna, sem unglingarnir venjast á þessa neyzlu, á skemmtunum, ferðalögum og hvers konar samskiptum við sér eldri og meiri félaga. Á því læra þeir fyrst og fremst að reykja. Og þá eru þeir ekki að lesa neinar auglýsingar, svo að það er vafasamt, eins og ég sagði, hvort það sé hægt að kenna tóbaksauglýsingum um mikið í þessu efni. Þó vil ég segja það, að ég tel ekki með öllu árangurslaust að banna tóbaksauglýsingar, ef þær væru þá alfarið bannaðar.

Þær auglýsingar, sem fyrir sjónum unglinga eru, eru nokkurs konar myndasamkeppni tóbaksframleiðenda um tegundir sínar af tóbaki og ég held, að unglingar, sem ekki eru farnir að reykja, setji sig ekki mikið inn í þá hluti, hvað sagt er um þessa eða hina tegundina, sem þeir eru ekki farnir að nota.

En þetta frv., sem hér liggur fyrir, boðar ekki neitt algert bann við tóbaksauglýsingum. Það er öðru nær. Það er að vísu svo, að fyrri málsgrein þessa frv. er all ákveðin: „Tóbaksauglýsingar hvers konar eru bannaðar:` Það vantar ekki. En svo kemur sú næsta: „Þó er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins heimilt að auglýsa verð á tóbaksvörum.“ M.ö.o.: það er sagt í öðru orðinu, að það skuli banna tóbaksauglýsingar og í hinu, að það skuli leyfa þær, og það eru þá lög í lagi þetta — eða hitt þó heldur.

Það hefur komið fram till. um það að vísa þessu frv. til ríkisstj. Ef það yrði ekki gert, mundum við eiga að búa við þetta kákfrv. sem lög, þar sem í öðru orðinu eru bannaðar auglýsingarnar, en í hinu leyfðar. Það segir að vísu, að tóbakseinkasalan megi auglýsa verð á tóbaksvörum. Ég veit ekki, hvernig hægt er að auglýsa verðið nema nefna tegundirnar. Varla verða auglýsingarnar eingöngu tölustafir, þá mundi enginn skilja þær. Nei, það verður að nefna tegundirnar skýrum stöfum, jafnvel myndir með. Og þá held ég, að þetta séu fullkomnar auglýsingar. Hef ég veitt því eftirtekt, að þegar tóbakseinkasalan auglýsir, þá auglýsir hún ekki í smáum stíl, það eru heilar síður. Ég hef séð heila síðu í Morgunblaðinu, ein auglýsing frá Tóbakseinkasölunni og Tímanum og Alþýðublaðinu og víðar. Þetta eru auglýsingar, sem unglingarnir mundu kannske taka eftir, með nöfnum og lýsingu sennilega og verðinu auðvitað, það verður að fylgja, — ef það fylgir, þá er allt í lagi.

Nei, slíkri löggjöf er ég ekki sérstaklega hrifinn af. Þess vegna held ég, að ef þetta frv. yrði samþykkt, þá sæti við það, þá þættust menn góðir, búnir að banna tóbaksauglýsingar, þá þarf ekki meira að gera til þess að verja unglingana frá því að reykja. Er ekki betra að vísa þessu frv. hreinlega til ríkisstj., svo að menn fái þá síðar einhverjar þær aðgerðir, sem gagn er í? En að þessu er ekkert gagn. (Gripíð fram í.) Það held ég, að geti vel verið, því að frv. er frá stuðningsmanni ríkisstj., svo að ég sé ekkert í veginum, að það geti orðið. Nei, svona frv. get ég ekki sætt mig við, af því að það felst ekkert gagnlegt í þessu, ekki nokkur hlutur. Ef því yrði vísað til ríkisstj., þá held ég, að kæmi kannske síðar eitthvað betra frv., en að þessu er ekkert gagn.