15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. lýsti því yfir hér í lokin, að hann mundi greiða fyrir, að þetta mál næði fram að ganga fyrir jólafrí, og er ég honum þakklátur fyrir það. Annars hafði hann það helzt við málið að athuga, að hann væri því andvígur, að mál eins og þessi yrðu afgreidd með úrskurði, um þetta ætti að vera samkomulag á millí fiskseljendanna og fiskkaupendanna, og get ég út af fyrir sig verið honum alveg sammála um það, enda gera lögin ráð fyrir, að það verði reynt til þrautar að ná samkomulagi, áður en málinu verði vísað til dóms, og það hefur t.d. fengizt sú reynsla af verðlagningu landbúnaðarafurða, að þrátt fyrir það, þó að gerðardómsákvæði séu í þeim l., þá hefur tiltölulega mjög sjaldan komið til þess. Samkomulag hefur náðst, án þess að til slíks dóms þyrfti að koma, og það sama hefur orðið upp á teningnum hér hvað verðlagsráð sjávarútvegsins snertir, að það hefur líka stundum náðst samkomulag, án þess að málið gengi til úrskurðar eða dóms. Og þó að þetta ákvæði sé haft tiltækt um úrskurðinn, vildi ég vænta þess, að í ýmsum og vonandi flestum tilfellum tækist að fá málin afgreidd á þann hátt. Ég sé bara ekki, hvernig með skuli fara, ef samkomulag næst ekki, öðruvísi en á þann hátt, sem l. gera ráð fyrir.

Þá sagði hv. þm., að hann sæi fyrir, hvernig þetta mundi fara í aðalatriðum. Ef fiskseljendurnir héldu því fram, að þeir þyrftu að fá kannske 5 kr. fyrir kg af fiskinum, en fiskkaupendurnir gætu ekki greitt nema 3 kr., þá væri ekkert eftir skilið fyrir oddamanninn annað en að úrskurða, að verðið skyldi vera mitt á milli eða 4 kr. fyrir kg. Þessu vil ég alveg mótmæla, þessum skilningi. Yfirdómurinn er á engan hátt bundinn af því að taka þarna nákvæmt ákveðið meðaltal. Hann á, og þeir, sem verðið kveða upp, að hafa hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum og svo framleiðslukostnaði þeirra, bæði hjá fiskkaupendunum og hjá fiskseljendunum. Og þetta verður hann að hafa í huga, en er á engan hátt bundinn því að mínu viti að úrskurða neitt meðaltal þarna á milli. Hann getur komizt að allt annarri niðurstöðu, ef honum að athuguðu máli, eftir að hafa athugað málið vel og kynnt sér, sýnist, að það sé réttara að hafa önnur sjónarmið.

Þá minntist hv. þm. í lokin á tilfelli, sem kom fyrir nýlega, að verðið var ákveðið með atkvæði eins manns, þ.e.a.s. oddamannsins í verðlagsdómnum. Það getur einfaldlega komið fyrir á þann hátt, að það, sem oddamaðurinn komst að, að verðið eigi að vera, þyki fiskseljandanum of lágt og fiskkaupandanum of hátt og þess vegna sé ekki unnt að ná saman neinum meiri hluta til þess að koma verðlagningunni á. Og þá hafa menn, a.m.k. sumir, litið þannig á, að það væri ekki annað unnt en að oddamaðurinn kvæði upp um verðið. Hann hefur að vísu minni hlutann á móti sér, sem þykir það of lágt, hann hefur líka annan minni hluta á móti sér, sem þykir það of hátt, en þeir geta ekki gengið saman til að mynda neinn meiri hluta, þannig að það er ekki hægt að komast að neinni niðurstöðu á annan hátt en þennan.

Sem sagt, ég er þakklátur fyrir það, ef hv. þm. og aðrir hv. dm. vilja greiða fyrir afgreiðslu frv., því að eins og hann sagði, þá tel ég það vera til bóta frá núgildandi lögum og gott, að það gæti komið til framkvæmda einmitt við þá verðlagningu, sem nú stendur fyrir dyrum.