09.11.1964
Neðri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

33. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Samgöngumál Vestfjarða hefur oft borið á góma hér í hv. d. og mun svo verða á þessu þingi líka og ekki að ástæðulausu.

Jafnvægið í samgöngumálum er harla bágborið enn. Meðan ekki gætir meiri skilnings hér á hv. Alþingi í verki, en orðið er til úrbóta í þessum efnum, er ekki um annað að ræða, en halda áfram baráttu, fyrir endurbótum á þessum samgöngumálum. 5 ár eru nú liðin frá því, að við framsóknarmenn fluttum till. til þál. um Vestfjarðaskip og síðan höfum við ásamt hv. 5. þm. Vestf. flutt frv. um slíkt skip þing eftir þing. Fjórðungssamband Vestfjarða hefur á þingum sínum, hverju á fætur öðru, samþykkt óskir til ríkisstj. og Alþingis um þessar strandferðir og síðasta áskorun í þessu efni, sem ég hef í höndum, er frá sýslunefnd Vestur-Barðastrandarsýslu, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslunefnd ítrekar fyrri samþykktir sínar um samgöngur á sjó á sérstöku Vestfjarðaskipi milli Vestfjarða og Reykjavikur og skorar á þm. Vestfjarðakjördæmis að vinna að framgangi þessa máls með festu og alvöru.“ — Samþykkt samhljóða.

En ekkert af þessu hefur borið neinn árangur enn þá. Skoðanir þeirra, sem fella eða svæfa allar till. um endurbætur í þessum efnum, hljóta því að vera á þann veg, að samgöngur á sjó við Vestfirði séu nægjanlegar og óskir Vestfirðinga um sérstakt skip séu ástæðulausar. Ef þetta væri svo, væru líka kröfur fjórðungssambands,

sýslunefnda og einstaklinga, sem gerðar hafa verið, með öllu ástæðulausar. En mikið mega þessum fulltrúum vera mislagðar hendur, fulltrúum, sem kosnir eru t.d. á fjórðungsþing Vestfjarða af öllum sýslunefndum Vestfjarða og bæjarstjórn Ísafjarðar, ef þessar óskir allar eru út í loftið. En þessu er ekki þannig varið. Þessir vestfirzku fulltrúar, sem borið hafa fram fyrrnefndar óskir, skilja út í æsar þörfina fyrir sérstakt Vestfjarðaskip og þeir munu treysta því í lengstu lög að, að því komi, að þessum óskum verði fullnægt.

Þar sem þetta mál hefur verið rætt hér á hv. Alþingi þing eftir þing, sýnist mér vera minni nauðsyn á því að fjölyrða mjög um það nú. Ég skal þó nefna fátt eitt. Samgöngur á landi milli Vestfjarða og annarra landshluta liggja allar niðri frá því á haustnóttum ár hvert og fram í maí eða júnímánuð næsta ár. Fjöll og heiðar lokast í fyrstu snjóum og þar með er vegasambandið rofið. Flutningar á landi koma því Vestfirðingum ekki að gagni nema 4–5 mánuði jafnaðarlega á ári, þótt einstakar undantekningar séu frá þessu í sérstöku góðæri. Flugsamgöngum var haldið uppi lengi vel með sjóflugvélum. En svo féllu þær með öllu úr sögunni. Síðan var komið upp flugvelli á Ísafirði fyrir venjulegar farþegaflugvélar og þar með opnað áætlunarflug þangað. Að þessu varð veruleg samgöngubót fyrir Ísafjörð og næsta nágrenni. En það nær ekki víðar en svo, að t.d. íbúarnir í næsta firði, Önundarfirði, geta ekki notað sér þessar flugsamgöngur að vetri til, af því að yfir heiði er að fara, sem er lokuð allan veturinn. Og hvað þá um fólk, sem fjær Ísafirði býr? Flugferðir Björns Pálssonar, með hinum litlu vélum, hafa að sjálfsögðu komið í góðar þarfir. En þær eru aðeins til örfárra staða og miklum annmörkum háðar í vetrarveðrum.

Sem dæmi um þörfina fyrir sérstakt Vestfjarðaskip má nefna það, að einn af mestu athafnamönnum Vestfjarða hefur ekki getað sætt sig við þá þjónustu, sem Skipaútgerð ríkisins hefur veitt og hefur því árum saman haldið uppi vöruflutningum milli Reykjavikur og Vestfjarða á eigin skipi. Enginn veit, hversu lengi það helzt og augljóst er, að það er ekki nein framtíðarlausn á samgöngumálum Vestfjarða.

Með frv. þessu, sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Vestf., er lagt til, að Vestfjarðaskip verði um 600–700 brúttórúmlestir að stærð. Við áætlum, að byggingarkostnaðurinn kunni að verða um 25 millj. og við leggjum til, að heimilað verði að taka upphæð þessa að láni. Þá leggjum við einnig til, að rekstur skipsins verði falinn Skipaútgerð ríkisins, en þó heimilt að fela reksturinn einhverjum öðrum aðila, sem treysta má til góðrar þjónustu. Með þessu er gengið til móts við skoðanir manna, sem ógjarnan vilja fela Skipaútgerðinni rekstur slíks skips. Þá má enn bæta því við, að um Vestfjarðaskip væntanlegt má hið sama segja og Vestmannaeyjaskip, sem gekk mjög fljótt og vel að fá samþykkt hér á hv. Alþingi og rekstur þess mun hafa gengið með ágætum. Við Vestfirðingar sjáum ekki, hvers vegna það á að þurfa áralanga baráttu hér á hv. Alþingi til að fá samþ. frv. um Vestfjarðaskip, ef það er borið saman við afgreiðslu á máli Vestmanneyinga á sínum tíma.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta mál, þar sem það hefur verið svo ýtarlega rætt á mörgum undanfarandi þingum. Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.