08.05.1965
Neðri deild: 86. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

33. mál, Vestfjarðaskip

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að vera margorður um þetta frv. að þessu sinni. Ég gerði all ýtarlega grein fyrir því við 1. umr. málsins. Hv. samgmn. varð ekki sammála, eins og hér hefur réttilega verið sagt frá. Meiri hl. n. vill vísa málinu frá, þ.e. að fella það einu sinni enn, en við hv. 5. landsk. þm. leggjum til, að frv. verði samþ.

Öllum er kunnugt um, að samgöngur eru erfiðar og ófullnægjandi við Vestfirði, ekki aðeins á sjó, heldur líka á landi og í lofti og hefur svo verið lengi. Flugsamgöngurnar tóku allmikilli afturför fyrir alllöngu og þó að nokkuð hafi verið bætt úr, var það ekki neitt til móts við það, sem áður var. Komið hefur til mála öðru hverju að gera þær skipulagsbreytingar á siglingum Skipaútgerðar ríkisins, að eitt skip geti gengið milli Reykjavikur og Vestfjarða, en það hefur verið dauflega tekið undir það og aldrei orðið neitt úr þeim ráðagerðum. Vestfirðingar hafa þó lagt áherzlu á að fá sérstakt skip hliðstætt því, sem byggt var handa Vestmannaeyjum á sínum tíma og það skip, sem byggt var handa Vestmannaeyjum, hefur gefið mjög góða raun og ég ætla, að það hafi borið sig eða því sem næst á undanförnum árum. Það eru miklar líkur til þess, að skip, sem gengi á milli Reykjavíkur og Vestfjarða, gæti líka haft sæmilega góða fjárhagslega afkomu móts við önnur skip Skipaútgerðarinnar.

Á fjórðungsþingum Vestfirðinga á undanförnum árum hafa sífellt verið gerðar áskoranir til Alþ. um að samþykkja frv. um Vestfjarðaskip, en það hefur engan árangur borið. Þetta er fjórða árið, sem við flytjum slíkt frv. og enn er lagt til samkv till. hv. meiri hl. samgmn. að vísa málinu frá. Þó viðurkennir hv. meiri hl., að þörf sé á bættum samgöngum á sjó við Vestfirði. Þeir segja orðrétt, að nauðsyn beri til umbóta á samgöngum á sjó, en bæta hinu við, að þar sem allur rekstur Skipaútgerðar ríkisins sé í athugun, álíti meiri hl. n., að rétt sé að vísa þessu máli til ríkisstj. í trausti þess, að heildarendurskoðun á strandferðum verði lokið hið fyrsta. Það var sagt eitthvað svipað þessu fyrir 4 árum og jafnvel þó að samþykkt verði að vísa þessu máli til ríkisstj. nú, má búast við með sama gangi, að það líði önnur 4 ár, þangað til nokkuð verði gert, eftir reynslunni að undanförnu.

Við, sem skipum minni hl. n., getum ómögulega fallizt á að lýsa yfir neinu trausti á ríkisstj. til þess að hraða þessu máli, því að hinir, sem treystu henni á undanförnum 4 árum, hafa fengið reynsluna af því, hvernig það gafst. Ég held, að enginn geti láð okkur það, þótt við förum ekki að taka nú undir traustsyfirlýsingu eftir 4 ára reynslu í þessum efnum. Við leggjum því eindregið til, að frv. verði samþ. og við væntum þess, að Alþ. láti ekki fimmta árið líða, án þess að nokkuð verði gert í þessum málum.

Ég vil svo óska þess, af því að fáir eru hér viðstaddir, að atkvgr. verði frestað.