26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Núgildandi lög um vernd barna og ungmenna voru sett árið 1947 og eru því orðin um 17 ára gömul. Nokkrar breytingar voru gerðar á l. 1955 og 1962, en smávægilegar þó. Lögin, sem í gildi voru fyrir 1947, voru frá árinu 1932 og voru það fyrstu l. um barnavernd hér á landi. Að vísu voru í gildi í öðrum lögum ýmis ákvæði, sem vörðuðu vernd barna og ungmenna, svo sem lagaákvæði um skilorðsbundna refsidóma, lagaákvæði um óskilgetin börn og ákvæði fátækralaga og skólalaga. Urðu Íslendingar verulega á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum varðandi setningu allsherjarlaga um barnavernd, en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku höfðu slík lög verið sett um s.l. aldamót eða þremur áratugum áður en til slíkrar heildarlagasetningar kom hér á landi.

Þótt l. frá 1947 hafi verið vönduð lagaskipan á sínum tíma, er þó tvímælalaust orðið tímabært að endurskoða þau og setja ný heildarlög um þessi efni. Á þeim 16–17 árum, sem þau hafa veríð í gildi, hafa orðið svo gagngerar breytingar á þjóðfélagsháttum hér á landi, að á ýmsum málum barna og ungmenna þarf nú að taka með öðrum hætti, en eðlilegt var og skynsamlegt, fyrir 15–20 árum. Fólksfjölgun hefur orðið mikil og mjög ör þróun frá dreifbýli til þéttbýlis. Hefur þetta í för með sér ýmis félagsleg vandamál, sem nauðsynlegt er að hið opinbera láti til sín taka.

Þess er að vísu að geta og er það raunar ánægjuleg staðreynd, að af opinberum skýrslum barnaverndarnefndar undanfarna áratugi, svo og skýrslum um lögbrot barna og ungmenna, verður ekki dregin sú ályktun, að í kjölfar vaxandi þéttbýlis hér á landi hafi orðið hliðstæð aukning lausungar og lögbrota því, sem átt hefur sér stað í ýmsum nágrannalöndum. Að vísu verður að taka skýrslum um þessi efni með nokkurri varúð. Barnaverndarnefndir fá auðvitað ekki vitneskju um öll þau mál, sem að réttu lagi ættu að verða tilefni barnaverndarráðstafana. Engu að síður er rétt að minnast nokkurra atriða úr skýrslum barnaverndarnefnda og þá fyrst og fremst skýrslum úr Reykjavík. Í síðustu skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur segir, að hún hafi haft afskipti af færri heimilum, en á árinu áður, vegna ófullnægjandi aðbúnaðar barna. Skýrslur um lögbrot barna síðustu áratugi sýna ekki heldur neina aukningu slíkra afbrota að ráði og raunar hlutfallslega fækkun þeirra, ef tekið er tillit til fjölgunar fólks á því aldursskeiði, sem um er að ræða. Tala stúlkna, sem barnaverndarnefndir hafa haft afskipti af, hefur þó farið nokkuð hækkandi, en ekki þó hlutfallslega, þ.e.a.s. miðað við fjölda telpna á því aldursskeiði, sem barnaverndarnefndir hafa afskipti af. Þegar barnaverndarnefndir hafa afskipti af telpum, er það vegna útivistar, flakks og stundum lauslætis. Um brot gegn hegningarlögum er það hins vegar að segja, að þeim hefur fækkað hlutfallslega tvo síðustu áratugi og eru nú færri hlutfallslega, en þau voru síðustu árin fyrir stríð. Skýrsla um börn, sem hafa orðið uppvís að lögbrotum tvívegis eða oftar, sýnir, að hundraðstala þeirra barna, sem tvívegis hafa orðið uppvís að brotum, er nálægt því hin sama nú og á fjórða áratug aldarinnar. En hundraðstala þeirra, sem oftar en tvívegis hafa orðið sek um brot, hefur hins vegar farið verulega lækkandi. Þetta, sem nú var sagt, á við um skýrslur úr Reykjavík, en skýrslur úr hinum kaupstöðunum sýna svipaða þróun.

Þótt ástand í þessum efnum sé, sem betur fer, áreiðanlega ekki eins slæmt og ýmsir virðast stundum álíta og hafi ekki heldur farið versnandi, þá er engu að síður hafið yfir allan vafa, að aukinna aðgerða í þessum efnum er þörf frá því, sem verið hefur og brýn þörf á átaki til að bæta starfsaðstöðu barnaverndaryfirvalda, svo og að koma á fót ýmsum stofnunum í þágu barnaverndar og starfrækja þær. Næstum tveggja áratuga gömul löggjöf um þessi mikilvægu efni hlýtur að vera orðin úrelt að ýmsu leyti. Þess vegna skipaði ég árið 1961 nefnd manna til þess að endurskoða gildandi lög um vernd barna og ungmenna. Í n. áttu sæti Sveinbjörn Jónsson hrl., formaður barnaverndarráðs, og var hann skipaður formaður n., Ármann Snævarr háskólarektor, Guðmundur Vignir Jósefsson héraðsdómslögmaður, þáv. formaður barnaverndarnefndar Reykjavikur, séra Gunnar Árnason barnaverndarráðsmaður, dr. Gunnlaugur Þórðarson, varaformaður barnaverndarráðs, Magnús Sigurðsson skólastjóri og barnaverndarráðsmaður og próf. Símon Jóh. Ágústsson, sérfræðingur barnaverndarráðs. Hefur n. að mestu orðið sammála um frv. það, sem hér er flutt og hefur samið grg þá, sem því fylgir.

Atriði þau, sem n. hefur lagt sérstaklega áherzlu á, eru fyrst og fremst þessi:

1) Bæta þarf starfsaðstöðu barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs, sérstaklega að því er snertir húsnæði og sérmenntað starfslið.

2) Í gildandi lögum er ákvæði um, að koma skuli upp ýmsum stofnunum í þágu barnaverndaryfirvalda, svo sem athugunarstöð og vistheimili fyrir drengi og stúlkur. Eina athugunarstöðin, sem til er, er gersamlega ófullnægjandi að dómi n. Vistheimili það, sem starfrækt er í Breiðuvík fyrir drengi, fullnægir ekki þörfinni, þótt n. telji, að þar hafi verið unnið nytsamlegt og þakkarvert starf. Hliðstætt vistheimili fyrir stúlkur hefur hins vegar ekki verið stofnsett enn.

3) N. undirstrikar sérstaklega nauðsyn þess, að barnaverndarnefndir hafi í þjónustu sinni sérmenntað fólk, einkum og sér í lagi í öllum stærri kaupstöðum. Telur n. þurfa að hefjast handa um að styrkja fólk til að sérmenntast á þessu sviði og bendir á, að efna þurfi til nokkurrar kennslu í þessum fræðum hér á landi, t.d. í tengslum við háskólann, kennaraskólann eða fóstruskólann.

4) N. bendir einnig á, að barnaverndarráð þurfi mjög á fleiri sérmenntuðum starfsmönnum og ráðunautum að halda.

5) Meiri hl. n. telur, að rétt sé að fjölga meðlimum barnaverndarráðs um tvo og tryggja, að þar eigi ávallt sæti sálfræðingur, læknir, lögfræðingur, auk prests og kennara.

6) N. bendir á, að svo mikið vald sé lagt í hendur barnaverndaryfirvalda, að nauðsyn sé að tryggja betur, en nú er gert, vandaðri meðferð mála og rökstuddar úrlausnir og treysta með öðrum hætti réttaröryggi á þessu mikilvæga sviði.

7) N. hefur tekið til sérstakrar athugunar ýmis atriði í starfsháttum barnaverndarnefnda og tengslum þeirra við barnaverndarráð, sem og löggæzlu og dómsvald.

8) N. gerir till. um breytingu á ákvæði gildandi laga um fóstur barna.

9) N. hefur endurskoðað gildandi lagaákvæði um vinnuvernd barna og ungmenna og um kvikmyndaeftirlit, jafnframt því sem hún gerir till. um nýmæli varðandi vegabréf unglinga.

10) N. bendir á, að í nágrannalöndum sé fjallað um barnaverndarmál í félmrn., en ekki í menntmrn., eins og hér er gert, en gerir þó ekki till. um breytingar í því efni.

Það mundi verða of langt mál að rekja allar þær breyt., sem n. hefur gert á gildandi barnaverndarl. í þessu frv., og er það raunar óþarfi sökum þess, hversu ýtarleg grg. fylgir frv. Um nokkur atriði vil ég þó fara fáeinum orðum.

Í gildandi lögum eru ekki ákvæði um það, að barnaverndarnefnd skuli starfa í hverju hreppsfélagi og gegnir skólanefnd störfum barnaverndarnefndar, ef slík n. er ekki kosin. Þessu er breytt í frv. og gert skylt, að barnaverndarnefnd sé kosin í sérhverju hreppsfélagi. Þá er veitt fyllri heimild, en í núgildandi lögum, til ráðningar sérhæfðs starfsliðs.

Sú breyting er gerð á skipan barnaverndarráðs, að ráðsmönnum er fjölgað úr 3 í 5 og þarf formaður að vera lögfræðingur. Skylt skal vera, að barnaverndarráð ráði í þjónustu sína sérfróðan mann um uppeldismál, er annist framkvæmdir og eftirlit á vegum þess og enn fremur annað starfsfólk við hæfi. Einn nm. var þó andvígur hugmyndinni um fjölgun ráðsmanna. Í frv. er gert ráð fyrir, að sú skipan haldist óbreytt, að einn ráðsmaður sé skipaður samkv. tilnefningu Prestafélags Íslands og annar að till. samtaka ísl. barnakennara. Hins vegar er því bætt við, að einn skuli skipa samkv. till. Læknafélags Íslands og annan að till. Félags ísl. sálfræðinga, en hinn fimmta skuli ráðh. skipa og sé hann embættisgengur lögfræðingur.

Til þess að auka réttaröryggi í sambandi við meðferð barnaverndarmála er gert ráð fyrir því, að eigi embættisgengur lögfræðingur ekki sæti í barnaverndarnefnd, skuli héraðsdómari eða í Reykjavík borgardómari taka sæti í n. sem meðlimur hennar með fullum réttindum og skyldum, ef fjalla á um töku barns af heimili, sviptingu foreldravalds, kröfu um, að barn skuli flutt frá fósturforeldrum eða kröfu um, að felldur sé niður úrskurður um töku barns af heimili með sviptingu foreldravalds.

Aldurstakmark þeirra unglinga, sem barnaverndarnefnd hefur eftirlit með, er hækkað upp í 18 ár, ef ungmenni eru líkamlega, andlega eða siðferðilega miður sín. Er löggæzlumanni og dómara skylt að tilkynna það þegar í stað barnaverndarnefnd, ef brot eru framin, sem börn eða ungmenni innan við 18 ára eru við riðin og ber þá að veita henni kost á að fylgjast með rannsókn máls og láta nm. fulltrúa eða annan starfsmann vera viðstaddan yfirheyrslu.

Þá er í frv. lagt til, að settar verði allýtarlegar reglur um eftirlit með því, þegar börnum er ráðstafað til fósturs. Er áskilið, að enginn geti tekið barn til fósturs, nema leyfi barnaverndarnefndar komi til og hins vegar lagt bann við því, að handhafi foreldravalds ráðstafi barni til fósturs nema til aðila, er fengið hefur leyfi barnaverndarnefndar í þessu skyni. Eru þessi ákvæði nýmæli í íslenzkum rétti.

Þá er í frv. barnaverndarnefndum gert að skyldu að hafa eftirlit með sumardvalarheimilum í umdæmi sínu. Slíkum heimilum fjölgar mjög og hefur reynsla sýnt, að eftirlit með þeim er nauðsynlegt.

Í gildandi lögum eru ákvæði, þar sem boðað er, að ríkisstj. skuli koma á fót og starfrækja athugunarstöð eða stöðvar að fengnum till. barnaverndarráðs. Á annan áratug hefur slík athugunarstöð verið rekin í Elliðahvammi, en hún er lítil og húsnæði óhaganlegt. Í þessu frv. er lagt til, að skylda ríkisstj. til að stofnsetja og reka slíkar stöðvar sé gerð fortakslausari, en nú er.

Í gildandi l. er einnig rætt um stofnanir fyrir börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Er boðað að setja slíkar stofnanir á fót, þegar fé sé veitt til þess í fjárl. Svo sem hv. alþm. er kunnugt, hefur slíkt vistheimili verið starfrækt fyrir drengi í Breiðuvík, en enn þá hefur slíku heimili fyrir stúlkur ekki verið komið á fót. Í frv. eru ákvæði um skyldu til þess að reka slík heimili gerð fortakslausari en nú er.

Í gildandi l. eru nokkur ákvæði um vinnuvernd barna og unglinga. Annars staðar eru þó slík ákvæði yfirleitt ekki í barnaverndarlögum, heldur í heildarlögum um vinnuvernd. Hér á landi hefur ekki enn verið sett heildarlöggjöf um vinnuvernd. Þess vegna hefur n., sem þetta frv. samdi, talið eðlilegt að halda ákvæðum um vinnuvernd barna og ungmenna í barnaverndarlögum, þótt hún telji barnaverndarnefndir að vísu hafa örðuga aðstöðu til þess að fylgjast með því, að farið sé eftir slíkum ákvæðum. N. hefur talið óráðlegt og raunar ógerlegt að setja víðtæk ákvæði um þetta efni í sjálfan lagatextann. Hún hefur talið hyggilegra að hafa almenn ákvæði í l. og setja síðan reglugerð til fyllingar þessum ákvæðum. Ýmsar breytingar eru þó gerðar á gildandi lagaákvæðum. Í fyrsta lagi er heimilað að leggja bann við því, að börn og unglingar vinni með tækjum eða umgangist tæki, sem slysahætta stafar af. Sama gildir um vinnu, sem hefur á annan hátt slysahættu í för með sér. Telur n., að þau hörmulegu slys, sem orðið hafa á síðustu árum fyrir það, að börn eða ungmenni hafi unnið með tækjum, sem sérstök slysahætta stafar af, geri það mjög brýnt að setja bannákvæði sem þessi. Í öðru lagi leggur n. til, að reglugerðarheimildin verði einnig látin ná til ákvæða, sem sporni við yfirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu barna og ungmenna og kveðið á um, að læknisskoðun fari eftir atvikum fram til úrlausnar um það fyrir fram, að vinna sé ekki barni eða ungmenni um megn. Í þriðja lagi er lagt til, að sett verði ákvæði um heimild til setningar reglugerðar um störf, sem siðferði barna getur stafað hætta af. Þá er gerð nokkur breyting á gildandi ákvæðum um ráðningu ungmenna til starfa á skipum og bannað að ráða karlmann yngri en 15 ára og konu yngri en 18 ára til starfa í loftfari.

Þá gerir n. ráð fyrir því, að ráðh. sé heimilt að mæla svo fyrir, að hverju barni eða ungmenni á aldursskeiði 12–18 ára sé skylt að bera vegabréf og sýna það, sé þess krafizt af löggæzlumönnum og eftirlitsmönnum, svo sem dyravörðum. Má binda notkun slíkra vegabréfa við einstök umdæmi og er ráðh. skylt að mæla fyrir um vegabréfaskyldu í umdæmum, ef barnaverndarnefnd og sveitarstjórn æskja þess.

Þá gerir n. ráð fyrir gagngerum breytingum á kvikmyndaeftirliti. Er gert ráð fyrir, að 3–5 hæfir skoðunarmenn séu skipaðir til 5 ára í senn til þess að framkvæma skoðun kvikmynda. Er gert ráð fyrir því, að kvikmyndaskoðun fari fram í Reykjavík, og gilda úrskurðir skoðunarmanna hvarvetna á landinu. Eru barnaverndarnefndir þá bundnar við úrskurði skoðunarmanna í Reykjavík. Er skoðunarmönnum ætlað að meta, hvort mynd geti haft skaðleg áhrif á siðferði barna eða sálarlíf eða skaðleg áhrif á annan hátt. Skal meta sér í lagi, hvort mynd sé hæf til sýningar fyrir börn innan 12 ára og í annan stað, ef hún reynist óhæf, hvort hún sé þá hæf til sýningar börnum á aldursskeiði 12–16 ára. Tekið skal fram, að engu máli skal skipta í þessu sambandi, hvort barn er í fylgd með fullorðnum á sýningu. Ef myndin er talin óhæf til sýningar barni á tilteknu aldursskeiði, er þar með fyrir það girt, að barn hafi leyfi til að sjá myndina.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir nokkrum helztu breytingum, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér í gildandi barnaverndarlöggjöf og framkvæmd hennar. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. deildarinnar.