26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2285)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við eina gr. þessa frv., sem ég vildi gjarnan segja á þessu stigi, áður en frv. fer til nefndar. Það er í sambandi við barnavinnuna, 39. gr.

Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að gera okkur ljóst, að þarna er um verulega erfitt og hættulegt þjóðfélagsvandamál að ræða. Mér liggur við að orða það svo, að barnavinna sé orðin smánarblettur á okkar þjóðfélagi og okkar íslenzka þjóðfélag, sem við að mörgu leyti höfum mikla ástæðu til að vera stoltir af, skeri sig úr til hins illa úr flestum þjóðfélögum Evrópu hvað barnavinnuna snertir. Orsökin til þess er sú, að almenningsálítið hér heima er enn þá á því, að barnavinna sé eðlileg. Við vorum bændaþjóð, sjómannaþjóð, þar sem vinna svo að segja allrar fjölskyldunnar var hið eðlilega og erfitt að komast af án hennar. En sú hugmynd, sem skapast á því stigi þjóðfélagsins, heldur áfram að vera sú ráðandi siðferðilega afstaða, eftir að við erum fyrst og fremst að verða iðnaðarþjóð. Breytingin frá bændaþjóð yfir í iðnaðarþjóð hefur orðíð svo ör hjá okkur hér heima, hjá einni einustu kynslóð, að við höfum ekki orðið að heyja samsvarandi baráttu til að breyta almenningsálitinu og við skulum segja næstu nágrannar okkar, Englendingar, hafa orðið að gera. Þar hafa þessar breytingar orðið hjá mörgum kynslóðum og það hefur verið háð harðvítug barátta til þess að banna barnavinnuna, þannig að í meðvitund almennings er það nú löngu komið í Englandi og Norðurlöndum, að hún sé ekki samboðin neinu menningarþjóðfélagi.

Ég álít, að við verðum í sambandi við 29., gr., í n., sem þetta fer til, að taka þetta til mjög rækilegrar athugunar í samráði við hæstv. ríkisstj. Við vitum, hvernig ástandið er hjá okkur núna. 13 ára gamlir drengir slasa sig eða jafnvel deyja af slysförum í sambandi við uppskipun og annað þess háttar. Barnavinnan og ég tala nú ekki um unglingavinnan er orðin svo algeng, að í vissum vinnustöðvum er raunverulega fyrst og fremst a.m.k. um eitt skeið ársins byggt á þessu. Þegar hér er talað um, að ekki megi ráða barn yngra en 15 ára í verksmiðju, þá liggur mér við að spyrja: Hver er skilgreiningin á verksmiðju að álíti hæstv. ráðh.? Eru hraðfrystihús líka verksmiðjur? Það er það eðlilega, því að hraðfrystihúsin eru fiskiðnaður og það hlýtur að verða að telja allt slíkt til verksmiðju. En á þá að undanþiggja höfnina í því sambandi? Á ekki sama bann að gilda um hana, uppskipun og útskipun, þar sem hættan er oft jafnvel enn þá meiri?

Ég rak mig á það fyrir nokkrum árum, það eru víst ein 6–7 ár síðan, hve erfitt er jafnvel hér í þessari hv. deild að fást við hugmyndir manna, þ. á m. hv. þm., um þetta efni. Það var í sambandi við meðhöndlun umferðarlaganna þá. Ég kem þá eiginlega úr öfugri átt, miðað við það, sem hv. 4. þm. Reykn. var að segja áðan. Við fluttum þá tveir þm. Alþb., held ég, brtt., þar sem börnum undir 12 ára aldri var bannað að aka dráttarvélum utan vega í sveit. Þessi till. var kolfelld, ég held með öllum þorra atkv. móti 5, þannig að sem stendur er börnum langt innan 12 ára leyfilegt að aka dráttarvélum úti í sveit, enda ekki ófá slys og jafnvel banaslys, sem af því hafa hlotizt, þannig að sem stendur er hættan meiri, að við séum ekki nógu róttækir í þessum efnum, heldur en við séum of róttækir, þó að bezt sé að gæta meðalhófs.

Ég veit, að almenningsálitið um, að börn og unglingar hafi gott af því að vinna, er svo ríkt enn þá, að jafnvel þegar verkstjórar reka 12–14 ára börn úr vinnu eftír venjulega dagvinnu, þá er það til, að forráðamenn rífist við verkstjórana út af því, að börnin fái ekki eftirvinnu.

Við vitum, að í þessum efnum eigum við, við að stríða almenningsálit, sem stafar frá gömlum tímum hér, var ef til vill eðlilegt og óhjákvæmilegt á þeim tímum, en á ekki við í okkar nútíma þjóðfélagi. Þarna þarf þess vegna mjög alvarleg átök, ekki aðeins af hálfu þess opinbera með löggjöf, heldur bókstaflega af hálfu þeirra, sem skapa almenningsálitið, þ. á m. stjórnmálaflokkanna og blaðanna. Ég held, að ég muni jafnvel eftir, að það hafi komið í blöðum myndir af börnum 8, 9, 10 ára og þar í kring og staðið undir: Þessi börn voru að vinna við að bjarga aflanum, vinna í hraðfrystihúsum. — Þau voru ákaflega dugleg og mega vera stolt af því, hvað þau eru dugleg. Nú vitum við það, að okkar þjóð er ákaflega dugleg þjóð. Dugnaðinum hefur hún þurft á að halda til þess að geta lifað í okkar erfiða landi. En við það iðnaðarþjóðfélag, sem hér er að koma upp, þurfa á vissan hátt þessar hugmyndir að breytast, ekki kannske í ódugnað og leti, en yfir í það að kunna sér nokkurt hóf í þessum efnum. Þess eru dæmi nú þegar, að 13–14 ára gamlir piltar séu farnir að bogna í baki af erfiði og það er vafalaust ekki vegna þess, að þeir hafi verið reknir til vinnunnar. Börnin á þessum aldri eru eitthvað áhugasamasta fólk, sem maður kynnist, þannig að það þarf yfirleitt að halda aftur af þeim, að þau ofbjóði sér ekki í slíkum hlutum, frekar en hitt. Ástandið í þessum efnum er þess vegna mjög alvarlegt. Ég veit, að hér í hraðfrystihúsunum í Reykjavík er ástandið þannig, að þegar útlenda gesti ber að garði, forðast forráðamenn að sýna þeim hraðfrystihús, svo að þeir sjái ekki, hve mikið af unglingum og jafnvel börnum vinnur þar, vegna þess að forráðamenn bæja vita, að útlendingar líta allt öðrum og svartari augum á þessa vinnu, en við Íslendingar gerum.

Mér er líka kunnugt um það, eins og okkur öllum, að mjög mokið af þessari vinnu er svo nauðsynlegt í augnablikinu, að það lægi við, að það mundi stöðvast hálfar eða heilar atvinnugreinar, ef barna- og unglingavinnunni væri kippt burt þarna. Og þetta er eitt af mörgu, sem sýnir það, hve óhjákvæmileg er, ekki sú hagræðing vinnu í verksmiðjum, sem ákaflega mikið er talað um núna, heldur hagræðing sjálfs atvinnulífsins, hagræðing verksmiðjanna, þannig að það sé komið upp nokkurn veginn stórum og myndarlegum hraðfrystihúsum og verksmiðjum, þar sem hægt sé að koma við nútímastarfsháttum í iðnaði, en að skipulagslaus og stjórnlaus fjárfesting í iðnaði, hraðfrystihúsum og slíku sé ekki við haldið, eins og nú er, með forkastanlegri barna- og unglingavinnu.

Við verðum að horfast í augu við, að við verðum að breyta alveg um í þessum efnum, ef við ætlum að skapa slíkt þjóðfélag, t.d. hvað barna- og unglingavinnuna snertir, að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það. Ég vil vekja athygli á því, að það er svo í mörgum skólum í Reykjavik nú, að börn á skólaskyldualdri vinna mjög mikið — ýmis þeirra — utan skólatímans, jafnvel sums staðar svo, að þau hafa ekki tíma til þess að lesa heima lexíurnar sínar og það án þess að það sé fjárhagsleg nauðsyn á heimilunum, að börnin vinni svona, heldur einungis út frá þessu sjónarmiði, að það þyki svo sjálfsagt, að á meðan vinnueftirspurn er eins mikil og nú, þá fái unglingar tækifæri til að vinna sér inn aura. Og á sama tíma er svo þétt skipað í skólana, tví- og þrísett, að börn, sem ættu raunverulega að hafa tækifæri til þess, ef til vill undir umsjá kennara, að lesa í skólastofunum undir lexíurnar sínar, af því að þau hafa kannske erfiðar aðstæður heima, þau geta ekki komizt að til þess vegna tví- og þrísetningar í skólanum. Svona er ástandið í okkar menningarþjóðfélagi, í okkar þjóðfélagi með eins hátt lífsstig og við að mörgu leyti stöndum á.

Við þurfum þess vegna að láta verða alvarlega breytingu í þessum efnum. Það sem þarf, eru mjög samræmd átök bæði löggjafans og þeirra, sem skapa almenningsálítið. Minnumst t.d. á eitt lítið atriði í þessu, sem kemur stjórnmálaflokkunum við, því að þeir standa að útgáfu flestra blaða á landinu. Útburður blaðanna er mestmegnis ræktur af börnum hér í Reykjavík. Það mundi t.d. í Kaupmannahöfn vera algerlega bannað og þekkist þar ekki. Sala blaðanna er að mestu leyti rekin af börnum. Slíkt mundi vera bannað í stórborgum erlendis. Ef til vill hefur stundum verið reynt að koma á samstarfi milli blaðanna um útburð og fá þá jafnvel einhvern einn aðila til að annast slíkt. Meira að segja slíkri skipulagningu hefur ekki verið hægt að koma á og í staðinn er þetta ástand, að börnum er þrengt í þetta og í hvert skipti. sem skólarnir byrja, þá er kreppa hjá öllum blöðunum vegna þess, að þau fá ekki börnin í þessa barnavinnu. Ég nefni þetta aðeins vegna þess, að þetta er mál, sem kemur okkur öllum saman jafnt við, sem hér erum fulltrúar stjórnmálaflokkanna.

Ég vildi aðeins minnast á þetta, áður en þetta mál fer til nefndar. Það liggur hér fyrir frv. frá hv. 5. þm. Vestf. um vinnuvernd, þar sem eru í IV. kafla sérstök ákvæði um vinnuvernd barna og unglinga og meðan ekki eru a.m.k. sérstök lög samþykkt, sem mjög væri æskilegt og nauðsynlegt, um vinnuvernd almennt, þá er að mínu álíti mjög nauðsynlegt, að einmitt þessi vísir, sem þarna felst í 39. gr., sé endurbættur, gerður ákveðnari og geti kannske tekið til þess, sem lagt er til í þessu frv., sem ég gat um. Og í þessu sambandi vil ég minna á það, þegar verið er að tala um reglugerðir í þessu sambandi, að það er eins og mig minni, að í þeim barnaverndarlögum, sem nú gilda, séu ákvæði um reglugerð, þar sem heimild sé til ýmiss konar róttækra ráðstafana, en sú reglugerð hafi annaðhvort aldrei verið gefin út eða ekki þá a.m.k. fyrr en alllöngu eftir, eða þá bara alveg nýlega, ef hún er þá til. Þó skal ég ekki fullyrða um þetta, en það er eins og mig minni það.

Ég vil vonast til þess, að milli hv. nefndar og hæstv. ríkisstj. geti tekizt samstarf um það að reyna að stíga stærri spor fram á við hvað snertir þessa grein, heldur en ætlazt er til með henni, eins og hún nú er orðuð og það gæti orðið gert stórvirki í þá átt að breyta ekki aðeins þeim aðstæðum, heldur líka þeim hugsunarhætti, sem enn gildir í okkar þjóðfélagi viðvíkjandi barnavinnu.