26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að það hefur komið fram í ræðum þeirra 4 hv. þm., sem um málið hafa talað, að þeir telja allir, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, sem nauðsynlegt sé og sjálfsagt að Alþingi taki til hinnar rækilegustu meðferðar.

Eins og kom fram í orðum mínum í upphafi, er ég sömu skoðunar. Í því felst auðvitað ekki, að ég eða ríkisstj. hljóti í einu og öllu að vera sammála hverri grein eða hverri setningu, sem í frv. þessu stendur. Þó að ég sé að vísu þeirrar skoðunar, að n., sem það samdi, hafi unnið ágætt verk og í heild felist í frv. tvímælalaust framfaraspor, þá er það að sjálfsögðu ekki alfullkomið, frekar en önnur mannanna verk og ýmislegt í frv. gæti eflaust enn staðið til bóta og þess vegna vil ég einnig undirstrika þá skoðun, sem komið hefur fram, að nauðsynlegt sé, að n. þessarar hv. d. taki þetta frv. til rækilegustu meðferðar.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) beindi til mín þeirri fsp., hversu mikið fé hefði verið veitt á fjárlögum til byggingar vistheimilis fyrir stúlkur. Siðan á fjárl. 1959 hafa árlega verið veittar 300 þús. kr. til byggingar vistheimilis fyrir stúlkur, þannig að Alþingi hefur fram til þessa árs veitt 1 1/2 millj. kr. til að koma upp vistheimili fyrir stúlkur. Öllum er þó áreiðanlega ljóst, að hálf önnur millj. kr. nægir ekki til að koma á fót sómasamlegu vistheimili fyrir stúlkur og er reynslan af byggingarkostnaði vistheimilisins fyrir pilta í Breiðuvík þar órækur vitnisburður um, en til byggingar þess heimilis hefur verið varið miklu meiri fjárhæðum samkv. fjárveitingum frá hinu háa Alþingi.

En sökum þess, að ekki er fyrir hendi nema 11/2 millj. kr. í þessu skyni, hefur ekki enn verið fært að hefja neinar byggingarframkvæmdir á vegum ríkisins á þessu sviði. Úr þeim vanda, sem verið hefur í þessum efnum, hefur hins vegar verið reynt að bæta með þeim hætti, að fengizt hefur samkomulag við yfirvöld í Danmörku, sem hafa forráð vistheimila stúlkna þar í landi, um það að taka við til vistunar héðan af Íslandi nokkrum stúlkum árlega og hefur það verið gert flest árin undanfarið. Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að á vegum barnaverndarnefndar hafi ekki verið vandamál í þessum efnum, sem hefur ekki tekizt að leysa fyrir góðviljaða aðstoð og samvinnu yfirvalda í Danmörku með þeim hætti, að völ hefur verið á vist fyrir slíkar stúlkur þar í landi.

Það kom annað atriði fram í ræðu hv. 4. þm. Reykn., sem ég tel ástæðu til að gera að umtalsefni með örfáum orðum. Það er misskilningur af hans hálfu, að í 39. gr. þessa frv., sem fjallar um barna- og unglingavinnu eða vinnuvernd á sviði barna- og unglingavinnu, sé lagt bann við því, að unglingar innan 18 ára aldurs stjórni vinnuvélum í sveit, t.d. dráttarvélum. Um þetta efni er ekki annað sagt í 39. gr. en það, að rétt sé ráðh. að setja reglugerð varðandi þessi efni. Í gr. er ekkert fram tekið um, að í þeirri reglugerð skuli vera ákvæði, er banni unglingum t.d. í sveit að stjórna t.d. vinnuvélum, svo sem dráttarvélum, fyrr en þeir hafi náð 18 ára aldri. Hitt er rétt, að ef lögin verða samþykkt, þá verður skylt að setja reglugerð um þessi efni, og mun þá auðvitað koma til athugunar, við hvaða aldursmark ætti að miða í þessum efnum.

Hæstv. dómsmrh. gerði ákvæði 39. gr. a. um vegabréfaskyldu unglinga upp að 18 ára aldri, að umtalsefni. Ég veit, að þeim mönnum, sem sömdu þetta frv., var að sjálfsögðu kunnugt um þau lagaákvæði, sem nú eru í gildi um heimild til þess að skylda til vegabréfanotkunar og eru þau ákvæði raunar miklu víðtækari, en gert er ráð fyrir að hér verði lögtekið. N. hefur og án efa verið kunnugt um þær umr., sem fram fóru á s.l. ári í sambandi við till. um breyt. á áfengislöggjöfinni og vegabréfaskyldu í því sambandi, þar sem einn af þeim mönnum, sem sömdu þetta frv., prófessor Símon Jóhannes Ágústsson, átti einnig sæti í þeirri n., sem gerði till. um breyt. á áfengislögunum, þ.e.a.s. nefndinni, sem fékk það úrlausnarefni að rannsaka þá atburði, sem áttu sér stað í Þjórsárdal um næstsíðustu hvítasunnuhelgi. En frv., sem hæstv. dómsmrh. gerði að umtalsefni, var einmitt ein af niðurstöðum þeirrar nefndar, sem prófessorinn átti einnig sæti í.

Mér er kunnugt um það, að n. leggur enga áherzlu á það, að ákvæðin um vegabréfaskyldu séu í barnaverndarlögum. En hún taldi hins vegar rétt að hafa till. um slíkar reglur hér, á meðan ekki væru hliðstæð ákvæði í öðrum lögum eða ákvörðun hefði verið tekin um að setja sérstök lög um vegabréfaskyldu. En það veit ég, að n. hefur ekki á móti því, að slík löggjöf sé sett, og raunar telur fleiri hætti geta komið til greina í þessum efnum en þann, sem þarna er gerð ákveðin till. um. Þykist ég því vita, að höfundar þessa frv. mundu verða til umr. við hv. þingnefnd um aðra skipun á þessum efnum, en þarna er gert ráð fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) gerði barna- og unglingavinnu, sem nú á sér stað, allrækilega að umræðuefni. Ég er honum alveg sammála um, að brýna nauðsyn ber til að gera hvort tveggja; alvarlegt átak til að breyta hugsunarhætti almennings og þá fyrst og fremst fullorðins fólks, en ekki barnanna sjálfra, í þessum efnum og jafnframt að setja aukin lagaákvæði og þá fyrst og fremst fyllri reglugerðarákvæði, en nú eru í gildi um þetta efni. Hann kvaðst ekki vita, hvort nokkur allsherjar reglugerð hefði verið sett til útfyllingar á þeim lagaákvæðum, sem nú eru í gildi um barna- og unglingavinnu. Ég skal upplýsa, að slík reglugerð hefur aldrei verið sett, og hefur þó verið heimild til setningar hennar allt frá því, að núgildandi barnaverndarlög voru sett og samþ. á sínum tíma eða 1947. Hins végar geta einstakar sveitarstjórnir sett reglugerðir um barna- og unglingavinnu og hafa nokkrar sveitarstjórnir sett slíkar reglur og fengið þær staðfestar af menntmrn. í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga.

Varðandi þá spurningu 5. þm. Norðurl. e. (IG), hvort kvikmyndaeftirlit á Íslandi eigi að taka til íslenzks sjónvarps, vildi ég segja það, að ég teldi eðlilegt, að kvikmyndaeftirlit tæki til þeirra kvikmynda, sem sýndar eru í sjónvarpi, eins og þeirra kvikmynda, sem sýndar eru í kvikmyndahúsum. Varðandi ummæli hans um sjónvarp vallarins í Keflavik er það að segja, að mér er ekki kunnugt um það, að þar hafi nokkurn tíma verið sýnd nokkur kvikmynd, sem íslenzkt kvikmyndaeftirlit hefði bannað.