15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram hér, að almenn dómsköp mæli svo fyrir eða þær reglur hafi alltaf gilt í gerðardómi, að það geti komið til þess, að einn maður eða oddamaður kveði þar einn upp hinn endanlega úrskurð, og bent er á, að í rauninni sé ekki önnur leið fær til þess að komast að niðurstöðu. Við þetta er það að athuga, sýnist mér, í fyrsta lagi, að þá ætti orðalagið á lagagreininni, sem í er vitnað, ekki að vera eins og það er, því að orðalagið í lagagr. segir allt annað, því að þar er beinlínis sagt, að það skuli vera meiri hluti atkv., sem ræður þar úrslitum. Ég sé ekki, að það sé nein þörf á því að láta standa í lagagr. allt annað en ætlunin er að hafa í framkvæmdinni, og ég leit svo á, að menn væru bundnir af orðalagi lagagr. Allt annað hefur verið um að ræða, ar sem lög hafa verið sett um gerðardóma. Í þessum lögum er hvergi minnzt út af fyrir sig á gerðardóm. Þar hefur verið ákveðið, að sá gerðardómur, sem skipaður var, skyldi kveða upp dóm í málinu. En einmitt þar sem menn hafa hallazt að hinni skoðuninni, að það ætti að halda sér við þá meiningu, sem ég tel að komi fram í orðalagi greinarinnar, að leggja meiri hl. atkv. til grundvallar, þar hafa menn unnið á allt annað hátt en gert var í þessu tilfelli að því að komast að niðurstöðu. Þar hafa menn unnið þannig að þessu, eins og í rauninni lögin gefa algerlega tilefni til, að oddamaðurinn vinnur að því að komast að niðurstöðu, að hann ber hina ýmsu liði málsins undir atkv., og þeir verða að ákvarðast hver og einn af meiri hl, atkv. í dómnum. Þegar síðan er búið að ganga á röðina og samþykkja alla þá liði, sem raunverulega standa að hinum endanlega úrskurði á þennan hátt, þá er dómurinn fenginn. Þannig hefur verið haldið á þessu í sambandi við ákvörðun á verði landbúnaðarafurða. Þar hefur oddamaðurinn samþ. þennan liðinn með þessum aðilanum og hinn liðinn með hinum aðilanum, og þannig hefur verið komizt að endanlegri niðurstöðu. Svona var einnig unnið að þessu í verðlagsráðinu eða yfirnefndinni, þar til í eitt skipti brá svo við, að oddamaðurinn tók sér allt valdið. Hann þurfti ekki að bera þessa liði undir einn eða neinn, því að hann gat bara sjálfur ákveðið einn og ofan í alla hina, hver skyldi verða niðurstaðan. Um þetta var ágreiningurinn, og um þetta er ágreiningurinn, hvort þannig er hægt að halda á málinu. Eins og gert er nú ráð fyrir, að þessi lög verði samkv. þessu frv., á að leggja til grundvallar við fiskverðsákvörðunina annars vegar framleiðslukostnaðarverðið á fiski, en þar er um marga kostnaðarliði að ræða, sem þarf að taka ákvörðun um, og þannig verður fundið út með því að bera það undir atkv. í dómnum, hvert sé framleiðslukostnaðarverð á fiski, og hins vegar á svo að leggja til grundvallar kostnaðarvarðið við að vinna vöruna og selja hana og það markaðsverð, sem er á hverjum tíma. Þar koma líka til margir kostnaðarliðir, sem eiga að berast upp í yfirdómnum, og þannig hefur verið á þessu haldið, og þegar búið er að ákvarða þá, þá er komið út úr dæminu, hvað kaupandinn getur gefið mikið fyrir fiskinn, og í hinu tilfellinu, hvað framleiðandinn þarf að fá fyrir fiskinn. Þegar á þennan hátt hefur verið unnið að málinu, eins og allajafna var áður, þá er einmitt þetta komið upp, sem ég sagði og hæstv. sjútvmrh. vildi ekki heldur viðurkenna að væri, en þannig er það að mínum dómi alveg hiklaust, að yfirdómurinn getur ekki gert neitt annað, eftir að svona hefur verið unnið að málinu, samkv. l., en taka jafnmikið tillit til beggja aðila, framleiðenda og kaupenda í þessu tilfelli, og verður að ákveða verðið þar mitt á milli, mitt á milli þess, sem búið er að ákveða sem grundvöll að framleiðslukostnaðarverði og að sölu og vinnsluverði.

Ég fyrir mitt leyti álit, að það sé mjög stórt atriði, hvernig á raunverulega að vinna í þessum yfirdómi, því að sé meiningin, að þannig eigi að vinna í yfirdómnum, að oddamaðurinn, í þessu tilfelli forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, á að hlusta á aðila, hvernig þeir flytja þar mál sitt sem seljendur annars vegar og kaupendur hins vegar, skoða þeirra reikninga, en síðan á hann einn að kveða upp dóminn, þá spái ég því, ef þannig á að halda á málunum, að þessi löggjöf verði ekki langlíf. Það hygg ég líka, að menn hafi rekið sig á í þetta eina skipti, sem svona var haldið á málunum. Það gat ekki staðizt og getur ekki staðizt. Og einmitt út frá þessu sjónarmiði álit ég, að það eigi að leggja til grundvallar ákvæðið í 9. gr. 1., sem segir: „Og ræður meiri hl. atkv. úrslitum“ — og það eigi að taka þetta orðalag alvarlega og fara eftir því, en ekki koma með einhverja almenna túlkun um dómsköp og segja, að þau miði við allt annað í framkvæmd, þau gefi þessum oddamanni alræðisvald í þessum efnum. Ég verð því að lýsa yfir vonbrigðum mínum á þeirri túlkun, sem hefur komið fram hjá tveimur hæstv. ráðh. á þessu atriði, og vænti nú, að annaðhvort fáist breytingar til þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum á lagagr. eða þá a.m.k. verði séð um það, að framkvæmdin á þessu verði ekki á þá lund, að þessi oddamaður eigi svo að segja einn að ráða öllu.