01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. um vernd barna og ungmenna var vísað til menntmn. snemma á þessu þingi. N. hefur haft frv. til ýtarlegrar athugunar, hefur rætt við n. þá, sem samdi það og ýmsa aðra sérfróða menn, hefur leitað umsagnar hjá fjöldamörgum samtökum og stofnunum og aflað ýmissa annarra gagna.

Endurskoðun barnaverndarlaganna hefur leitt í ljós mikinn áhuga á þeim málum og vaxandi áhyggjur út af þeim. Þjóðfélag okkar, sérstaklega þéttbýlið á suðvestanverðu landinu, virðist vera að ná þeirri stærð og taka öðrum þeim stakkaskiptum, að búast megi við auknum vandamálum barna og ungmenna, sem af einhverjum ástæðum fá ekki notið eðlilegs uppeldis. Af þessum ástæðum er augljóst, að þjóðfélag okkar verður að gera mun meiri ráðstafanir á sviði barnaverndar í framtíðinni, en hingað til hefur verið gert. Það þarf að fá fleira sérmenntað fólk til þeirra starfa og skapa því þá aðstöðu, að vænta megi árangurs af starfinu. Hver einstaklingur, sem hægt er að forða frá skaðlegu uppeldi eða bjarga af glapstigum, mun reynast þjóðinni ómetanlegur.

Hinn mikli áhugi, sem er á þessum málum, hefur komið fram í því, að fjöldamörg samtök hafa látið í ljós óskir við menntmn. um að fá að ræða við hana um þetta mál eða hafa sent henni brtt. við þetta frv. með ýmiss konar nýjum og gömlum hugmyndum. Niðurstaðan hefur orðið sú, að menntmn. er sammála um brtt., sem prentaðar eru á þskj. 268 og eru 29 samtals, en milli 45 og 50, ef undirliðir eru meðtaldir. Nm. áskilja sér að sjálfsögðu rétt til að flytja eða fylgja frekari brtt., ef ástæða verður til.

Till. þessar eru margar, en fjöldi þeirra fjallar um formsatriði. Ég get nefnt sem dæmi, að n., sem samdi frv., fékk eftirþanka af því, að hún notaði orðið „hæli“ á allmörgum stöðum og skrifaði menntmn. með ósk um, að því yrði breytt í orðið „heimili“. Þá hefur menntmn. á ýmsum stöðum breytt orðalagi, venjulega í þá átt að gera það skýrara og ákveðnara. Þar er um nokkra, en ekki alvarlega efnisbreytingu að ræða.

Ég mun nú fara fljótlega yfir brtt. og gera grein fyrir þeim, en ræða þær síðan frekar, ef tilefni verður gefið í umr.

Við 1. gr. frv. eru 3 brtt. 1. brtt. er breyting á orðinu „barnahæli“ í „barnaheimili“. — 2. brtt. er á þá lund að láta gæzluleikvelli bætast við þær stofnanir, sem barnavernd samkvæmt þessum lögum nær yfir. — 3. brtt. er á þá lund, að í staðinn fyrir 5. tölulið gr. komi tveir töluliðir, og er þarna skilið á milli barna, sem þurfa aðstoðar við, vegna þess að þau eru sjúk, líkamlega eða andlega og hins vegar barna, sem þurfa afskipta barnaverndarnefndar, af því að þau eru á einhvern hátt siðferðilega miður sín, hafa framið afbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. N. þykir ekki rétt að setja þetta allt undir einn hatt, eins og sams konar vandamál væru og hefur því lagt til, að þarna yrði skilið á milli.

Við 2. gr. ern þrjár brtt. Má segja, að þar sé um orðalagsbreytingar að ræða, sem þó ganga í þá átt að gera orðalag skýrara og ákveðnara.

Við 4. gr. er efnisleg brtt. Greinin er á þá lund, að barnaverndarnefnd skuli vera í hverjum kaupstað og hverjum hreppi landsins. Menntmn. leggur til, að hafa megi sameiginlegar barnaverndarnefndir fyrir fleiri en einn hrepp, þar sem þeir eru fámennir.

Brtt. við 6. gr. er framhald af þessari till. og í sambandi við hana.

Við 8. gr. gerir menntmn. brtt. Í frv. er ákveðið, að ekki megi kjósa í barnaverndarnefnd eldra fólk, en 66 ára gamalt og er þar reiknað með, að það hafi lokið störfum 70 ára. Þeir, sem frv. sömdu, töldu, að ekki ætti að vera mikið af gömlu fólki í störfum við barnavernd, heldur ungt fólk með nýjar hugmyndir og er vissulega ástæða til þess að taka undir það. En menntmn. þykir ekki ástæða til að útiloka fólk eftir 66 ára aldur. Vel má vera, að með því sé útilokað, að margir mjög góðir starfskraftar nýtist. Verður að treysta stjórnum sveitarfélaga til að kjósa bezta fólk, sem fáanlegt er, í þessar nefndir, án tillits til aldurs.

12. gr. fjallar um skipun barnaverndarráðs og hefur menntmn. lagt þar til allmikla breytingu. Hingað til hefur barnaverndarráð verið skipað samkv. tilnefningu nokkurra samtaka: Prestafélags Íslands, Sambands ísl. barnakennara, Læknafélags Íslands o.s.frv. Nú hafa komið til greina ýmsar nýjar starfs– og fræðigreinar, sem eru á þessu sviði. Við höfum eignazt sérfræðinga í fleiri greinum, sem hafa sín samtök og gætu átt kröfu á að tilnefna menn í barnaverndarráð jafnt og þau samtök, sem fyrir eru. Niðurstaða menntmn. er sú að leggja til, að ráðherra skipi barnaverndarráð án tilnefningar nokkurra samtaka og virðist það raunar vera eina hugsanlega lausnin á þessu máli, nema barnaverndarráð væri stækkað verulega til að ganga til móts við ýmsa, sem vilja hafa af ráðinu afskipti. Hins vegar er því haldið, sem er í frv., að formaður ráðsins skuli vera embættisgengur lögfræðingur, og virðist það eðlilegt vegna þess, að barnaverndarráð er að ýmsu leyti dómstóll og þarf að taka ákvarðanir, sem hafa mjög alvarleg áhrif á líf og örlög þeirra barna og þeirra fjölskyldna, sem í hlut eiga. Fram komu till. um að taka fram, að konur skyldu vera í barnaverndarráði og barnaverndarnefndu, og sum samtök óskuðu beinlínis eftir því, að þær skyldu vera mæður. Menntmn. hefur ekki séð ástæðu til að fallast á þessa till., vegna þess að svo verður að líta á, að við höfum náð því þroskastigi, að konur og karlar verði skipuð í þessar stofnanir jöfnum höndum. Reynsla hefur þegar sýnt í barnaverndarnefndum, sem eru hér nærri okkur, að þar er mikill meiri hluti konur. Virðist vera sjálfsagt að hagnýta þá sérstöku reynslu, sem kvenþjóðin hefur oft fram yfir karlmenn, vegna þess að hún hefur meira með börn og uppeldi að gera, en ástæðulaust að setja sérstök ákvæði um skiptingu þessara stofnana á milli kynja. Brtt. 7, við 13. gr., er nánast leiðrétting.

Brtt. 8, við 16. gr., er ein af þeim till., þar sem orðalag er gert sterkara. Greinin fjallar um það, að barnaverndarnefnd beri að forðast að sundra systkinahópi, ef leysa þarf upp heimili. Í frv. stendur, að það eigi að forðast „eftir föngum“, en menntmn. vill taka þau orð út og verður orðalagið þá töluvert sterkara á eftir og sýnir þar af leiðandi áherzlu, sem lögð er á, að barna- og systkinahópi sé ekki sundrað, svo framarlega sem nokkur leið er að komast hjá því.

9. brtt. er við 18. gr., og er þar bætt inn í hjúkrunarkonum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum, þar sem rætt er um ýmsa stéttahópa, sem sérstaklega hafa með þessi mál að gera og skylt er að gera barnaverndarnefndum viðvart, ef þeir verða í starfa sínum varir við misfellur á uppeldi og aðbúð barna og ungmenna.

12. brtt. er við 26. gr. Þar er orðið „eiturlyfjanautn“. Er lagt til, að þar sé bætt við: „ofnotkun deyfilyfja“, en þar hafa verið taldir upp þeir annmarkar á uppeldi barns og ungmennis, sem gefa barnaverndarnefnd tilefni til afskipta.

28. gr. er á vissan hátt sama efnis, en þar er um tilefni þess, að barnaverndarnefnd geti haft afskipti af barni eða unglingi, bætt við: „útivist á óleyfilegum tíma“, ef mikið er um slíkt.

Í 30. gr. er talað um kennslu eftir skyldunám fyrir unglinga, sem eru á vegum barnaverndarnefnda. Er þar gert ráð fyrir, að kostnaður af slíkri kennslu greiðist hlutfallslega af ríkissjóði og sveitarsjóðum, skv. fræðslulögum, eins og segir í frv.: „séu foreldrar eða framfærendur ekki aflögufærir“. Menntmn. leggur til, að þessi síðasta setning verði felld niður og unglingurinn eigi sama rétt á, að ríki og sveitarfélag kosti fræðslu hans, hvernig sem efnahag foreldranna er hagað, og ekki sé lögð sú kvöð, að kanna skuli efnahag einstaklinga allt of nákvæmlega, enda mundi unglingurinn ekki fá annað, en heilbrigðir unglingar fá skv. núgildandi fræðslulögum.

Á eftir 31. gr. í frumvarpinu kemur gr., sem heitir 31. gr. a. Og síðar í frumvarpinu kemur þetta sama fyrir á tveim stöðum, að tvær greinar hafa sömu raðtölu, en seinni greinin er merkt með a. Það munu vera til fordæmi fyrir slíkri greinatalningu, en þó við sérstakar aðstæður. Menntmn. hefur ekki séð ástæðu til að hafa þennan hátt á hér og leggur til, að greinaröðin breytist, án þess að um neinar a-greinar eða aukagreinar sé að ræða.

16. brtt. er við 35. gr. Eru þar nokkrir liðir, þar sem orðið „heimili“ kemur í stað orðsins „hæli“.

Í 37. gr. eru fyrstu tvær tillögur einnig um það að breyta orðinu hæli í heimilí, en e-liður er efnisleg tillaga, sem rétt er að vekja nokkra athygli á. Þar er lagt til, að við 1. málsgr. bætist eftirfarandi og er þetta skv. tillögu, sem nefndinni barst frá kennarasamtökunum: „Einnig er ríkisstj. skylt að setja á stofn og reka heimili og skólastofnanir, er annist uppeldi og fræðslu barna og ungmenna, sem eru frá heimilum, er vanrækja svo mjög uppeldishlutverk sitt, að varhugavert er fyrir börnin að dveljast þar, gáfnasljórra barna, andlega vanþroska barna og ungmenna, barna, sem sækja ekki skóla á viðunandi hátt, barna, sem að dómi kennara og skólastjóra spilla góðri reglu í skólunum og eru miður heppilegt fordæmi öðrum börnum, barna, sem að dómi kennara, skólastjóra og skólalæknis hafa eigi heilsu eða önnur líkamleg skilyrði til að stunda venjulegt barnaskólanám. Kostnaður skiptist skv. fræðslulögum.“

Sú staðreynd, að kennarasamtökin leggja mikla áherzlu á þessa tillögu, er enn ein sönnun þess, að hér á landi eru að koma fram ýmis vandamál með vaxandi íbúafjölda og þar af leiðandi vaxandi fjölda barna og unglinga í skólum. Virðist vera eðlilegt, að einhvers konar skólastofnunum sé komið upp, þar sem hægt væri að veita þeim börnum, sem þarna eru tiltekin, sérstaka kennslu víð þeirra hæfi og gera skólunum kleift að hafa samstillta bekki, án þess að þurfa að hafa slík börn innan um önnur, þegar það er talið óæskilegt. Menntmn. hugsar sér, að þessar stofnanir yrðu á allan hátt hliðstæðar við skóla og kostnaður við byggingu þeirra skiptist skv. fræðslulögum og á sama hátt. Væri þá, þegar nánari tillögur væru um það gerðar, hægt að ákveða byggingu þeirra með fjárveitingum til þeirra eins og til skólanna.

17. till. d. er nánast leiðrétting og sama má segja um e.

Þá kemur að 38. gr., en þar er rætt um meðlög með þeim börnum, sem barnaverndarnefndir þurfa af einhverjum ástæðum að koma fyrir á öðrum heimilum í fóstur. Í 38. gr., eins og hún stendur í frv., er gert ráð fyrir því, að sveitarstjórn og viðkomandi aðilar skuli semja um greiðslur með þessum börnum. Það er ekki ýkjalangt síðan föðurlaus börn voru nánast á uppboði fyrir lægstbjóðendur. Ég hygg, að það ástand sé svo nærri okkur, sem hér erum inni, að við mundum gjarnan vilja sameinast um að þurrka öll merki um slíka meðferð úr íslenzkri löggjöf. Þess vegna hefur menntmn. lagt til, að það skuli ekki vera samningsatriði, hvað borgað sé með þeim ógæfusömu börnum, sem barnaverndarnefndir þurfa að koma fyrir í fóstur eða á annan hátt samkv. þessum lögum. Er lagt til, að Tryggingastofnun ríkisins greiði hreinlega með börnunum og upphæðirnar verði ákveðnar í lögunum, þannig að börn innan 7 ára aldurs skuli fá þrefaldan barnalífeyri, en eldri en 7 ára skuli þau fá tvöfaldan barnalífeyri.

Spyrja má, af hverju þessi börn eigi að fá meiri lífeyri en önnur börn, sem koma undir tryggingalöggjöfina. Má svara því á þann hátt, að þjóðfélagið sé þannig að reyna að bæta þeim upp þær uppeldisaðstæður, sem börnunum eru í flestum tilfellum ekki sjálfráðar, en valda því, að þau fá ekki eðlilegt uppeldi á heimili foreldra sinna, eins og allur þorri annarra barna.

Það fé, sem Tryggingastofnunin mundi þurfa að greiða á þann hátt, skal endurgreiðast af framfærslusveit barns og er því grundvallaratriði breytt, að framfærslusveitin beri þennan kostnað. Samningamakk um þessa hluti viljum við þurrka út með öllu.

39. gr. frv. er um vinnuvernd barna og unglinga, ein vandasamasta og erfiðasta greinin í þessum bálki. Æskilegt væri, að um þetta efni væri sett sérstök löggjöf, en á meðan það er ekki gert, hefur menntmn. talið óhjákvæmilegt að breyta nokkuð ákvæðum greinarinnar og herða á þeim. Þó hygg ég, að segja megi, að nefndin gangi engan veginn eins langt og hún hefði sjálf óskað, vegna þess að vinna barna er vandamál, sem verður ekki leyst á einni nóttu. Þarf að koma til töluverð breyting á hugsunarhætti og þess vegna verðum við að sætta okkur við að stíga skref fyrir skref í þessum málum. Þess vegna hefur menntmn. aðeins gert mjög hóflegar breytingar. Í gildandi lögum stendur, að börn innan 15 ára megi ekki vinna í verksmiðjum. Þetta hlýtur að þýða, að þau megi ekki vinna í frystihúsum, en þetta ákvæði hefur verið og er þverbrotið um land allt. Menntmn. hefur þó ekki viljað skilgreina þetta nánar, en hún bætir þarna á eftir við tveimur atriðum, að það megi ekki ráða börn innan 15 ára til upp- og útskipunarvinnu eða byggingarvinnu. Ætti ekki að þurfa að rökstyðja þetta nánar? Það er ekki ýkjalangt síðan íslenzk blöð færðu þjóðinni þær fréttir, að börn um og innan við fermingaraldur hafi látið lífið í skipum við uppskipunarvinnu við Reykjavíkurhöfn.

Þá eru sett inn nokkur ákvæði um hámarks vinnutíma barna. Er miðað við, hvað viðkemur börnum undir 14 ára aldri, að hámarksvinnutími þeirra skuli vera hálf áratala aldurs þeirra, þ.e.a.s. fyrir 14 ára barn 7 stundir á dag, fyrir 13 ára 61/2 stund á dag, fyrir 12 ára barn 6 stundir á dag o.s.frv.

Þar sem unnin eru átta stunda vinnutímabil, skulu jafnan koma tveir vinnuhópar barna á móti einum vinnuhóp fullorðinna, þannig að 4–5 stundir vinni hvor barnahópurinn.

Þá er ákvæði um, að alger hámarksvinnutími barna 14–16 ára skuli vera 8 stundir, án undantekningar.

Loks er bætt hér inn þessu ákvæði: „Stefna skal að því, að börn skuli ekki vinna frá því að þau hefja skólagöngu að hausti og þar til skólagöngu lýkur að vori.“ Þarna er vægt á hlutunum tekið, af því að vissulega væri ástæða til þess að útiloka, að börn vinni a.m.k. nema alveg sérstaklega létt störf og helzt engin, á meðan þau stunda skóla. Mun það vera skoðun lækna, að skólanámið sé að jafnaði ærið nóg álag á börnin, en þó gengur n. ekki lengra en að leggja til þetta orðalag: „stefna skal að því” — og ber að skilja það í samhengi við síðara ákvæði í greininni um, að gefa skuli út reglugerðir um efni þessarar greinar. Gæti þá viðkomandi rn. reynt að þoka málum nokkuð í rétta átt með reglugerðum um þetta atriði sérstaklega.

Það er viðurkennt, að barnavinna hér á Íslandi tíðkast með þeim hætti, að öðrum þjóðum, sem eru komnar á hátt félagslegt þroskastig, eins og við þykjumst vera líka, blöskrar að sjá, hvernig það ástand er. Hins vegar eru bæði sögulegar og atvinnulegar ástæður fyrir því, að ástandið er svona. Þess vegna verður að gera tilraun til úrbóta skref fyrir skref og er án efa tilgangslaust að reyna að taka of stór stökk í löggjöf.

Í 40. gr. er lagt fyrir barnaverndarnefndir að vinna gegn áfengisneyzlu barna og unglinga og er lagt til, að þessu verði breytt í „áfengis- og tóbaksneyzlu“.

Í 42. gr. eru ákvæði um útivist barna og lagt til, að ráðh. gefi út um það reglugerðir. Í c-lið till. er sagt, að samræmi skuli vera í reglugerðum um land allt. Till. um þetta barst frá því fólki, sem starfar við barnavernd hér í Reykjavík og þekkir þessi mál bezt. Nú þegar eru risin upp vandamál þess eðlis, að skemmtistaðir, sjoppur, rísa upp í hreppum, þar sem engar reglur eru um útivist barna og hefur e.t.v. ekki þótt ástæða til að gefa út slíkar reglur. Nú er mikið um bíla og börn og unglíngar nota þá á þeim aldri, sem þessi lög ná til. Hafa þau gert töluvert að því að aka út fyrir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og skemmta sér í nágrannahreppum. Ekki veit ég, hvort brögð eru að þessu annars staðar á landinu, en hættan er augljós og af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að hafa samræmi í þeim reglum, sem gilda í hinum ýmsu sveitarfélögum um útivist barna.

22. till. er við 45. gr. og þarfnast fyrri liðurinn ekki skýringar, en orðið „mikil“ fellur niður á tveimur stöðum í 45. og 46. gr. Þar er talað um refsingar, sem beita má aðila, sem misbjóða barni eða ungling, þannig að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé „mikil hætta búin”, stendur í frv., en n. leggur til, að orðið „mikil” falli burt, þannig að orðalagið verði, að „líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin” og er þarna hert á orðalagi.

25. brtt. er við 49. gr. og er þar lagt til, að barnaverndarráð skuli leita álíts sérfræðinga utan ráðsins, þegar ástæða þykir til. Má líta á þetta ákvæði í samhengi við það, að hin ýmsu samtök: læknar, prestar og aðrir, eiga nú ekki lengur að tilnefna menn í barnaverndarráð. Þeir sérfræðingar, sem voru fyrir í ráðinu, verða nú e.t.v. ekki þar, þó að vel geti farið svo, að þar séu bæði læknar og sálfræðingar og aðrir sérmenntaðir menn.

56. gr. fjallar um skoðun kvikmynda. Menntmn. ræddi þetta mál ýtarlega við núv. skoðunarmenn kvikmynda og hlýddi á till. þeirra og hefur gert nokkrar brtt. Í frv. er gert ráð fyrir því, að skipa skuli 3–5 sérstaklega hæfa menn til kvikmyndaeftirlits, en menntmn. leggur til, að engin ákveðin tala verði tilgreind.

Þá er ákvæði um það, að barn eða unglingur, sem er á þeim aldri, að hann má ekki horfa á kvikmynd skv. úrskurði kvikmyndaeftirlits, skuli ekki mega horfa á myndina, þó að hann komi til kvikmyndahússins í fylgd með foreldrum eða öðrum fullorðnum. Mun hafa viðgengizt í stórum stíl, að börnum sé hleypt inn í kvikmyndahús til að horfa á myndir, sem þau mega ekki sjá, aldurs vegna, ef aðeins einhver fullorðinn heldur í höndina á þeim. Nú mun kvikmyndaeftirlitið byggjast á þeim forsendum að reyna að forða börnum frá því að horfa á myndir, sem þau verða hrædd við, þó að fullorðinn sitji við hliðina á barninu og er því sjálfsagt að herða á þessu ákvæði.

Skoðunarmenn kvikmynda kvarta mjög undan þeirri starfsaðstöðu, sem þeir hafa haft. Hingað til munu kvikmyndahúsin, sem flytja inn kvikmyndir, kalla á skoðunarmenn og segja þeim að mæta, þegar kvikmyndahúsinu þóknast, til þess að skoða nýja kvikmynd og er það ekki góð aðstaða, að skoðunarmenn skuli þurfa að hlýða þannig, hvernig sem á stendur. Æskilegast væri, að kvikmyndaskoðunin hefði sína eigin aðstöðu, en gera má ráð fyrir, að það sé ofrausn að ætla, að við gætum komið slíkri aðstöðu upp strax. Hins vegar er hugsanlegt, að kvikmyndaeftirlitið gæti leigt sér aðstöðu í kvikmyndahúsunum og skoðað myndir skipulega á ákveðnum tíma, eins og eðlilegast virðist vera og er því lagt til, að í lögunum standi, að tryggja skuli skoðunarmönnum viðunandi aðstöðu til starfa.

Þá er heimild fyrir ráðh. til að ákveða, að skoðun kvikmynda geti farið fram utan Reykjavíkur, þar sem aðstaða er til fyrir slíka skoðun. Kvikmyndir munu nú vera fluttar inn í Reykjavík og Hafnarfirði aðallega, einstaka mynd í Kópavogi og á Akureyri. Hugsanlegt er, að fleiri kvikmyndahús utan Reykjavíkur fái myndir beint frá útlöndum og er því sjálfsagt að hafa ákvæði um, að hægt sé að láta skoða myndir annars staðar, en í Reykjavík.

Loks er síðasta ákvæðið í þessari brtt. um sjónvarp. Innan skamms hefst íslenzkt sjónvarp og verður þá sjónvarpað miklum fjölda af kvikmyndum. Virðist vera sjálfsagt, að um þær kvikmyndir, sem berast inn á heimili manna, gildi sömu reglur og um aðrar kvikmyndir, en hér er lagt til, að ríkisútvarpinu skuli falið að annast skoðun þeirra kvikmynda, sem það sjónvarpar, m.ö.o. að það berí ábyrgð á því efni, sem er sjónvarpað, eftir anda og ákvæðum þessara laga.

29. og síðasta brtt. er við 58. gr., þar sem gert er ráð fyrir ýmiss konar fræðslustarfi fyrir þá, sem eru í barnaverndarnefndum eða hafa með barnaverndarstörf að gera og hefur menntmn. heldur aukið og fært út þá grein með till. a og b við 58. gr.

Ég hef þá farið í stórum dráttum yfir þessar brtt. Ég vil ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að fram hefur komið mikill áhugi á þessu máli. Þetta er mjög mikilsvert svið uppeldis, þar sem við megum eiga von á hraðvaxandi vandamálum á næstunni, vandamálum, sem sigla í kjölfar íbúafjölgunar og meira bæjar- og borgarlífs.

Menntmn. mælir með því, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef nú gert grein fyrir. Ingvar Gíslason: Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar aths. við frv. og benti á nokkur atriði, sem ég taldi nauðsynlegt að athuga betur í n. M.a. gerði ég vinnuvernd barna að umræðunefni og lýsti þeirri skoðun minni, að nauðsyn bæri til að setja strangari reglur um vinnu barna og unglinga, en almennt tíðkast hér á landi. Ég sé, að hv. menntmn, hefur tekið undir aths. mínar um þetta atriði og sýnist mér sem brtt. n. við 39. gr. séu til verulegra bóta. Ég geri mér vonir um það, að slík hófleg, en þó herðandi ákvæði verði til þess að breyta því almenningsálíti, sem hér virðist ríkja gagnvart barnavinnu. En sannleikurinn er sá, að hér á landi tíðkast sá ósiður, sem er löngu lögbannaður í öðrum menningarlöndum, að þræla börnum út í óhollri og erfiðri verksmiðjuvinnu. Þessi ósiður Íslendinga er þeim mun verri, að engin efnaleg nauðsyn rekur á eftir og uppeldislega séð er barnavinna af þessu tagi stórhættuleg og auk þess heilsuspillandi. Venjur okkar í þessum efnum ráðast af peningalegum sjónarmiðum og eru því síður en svo af góðu sprottnar. Ég er ekki á móti því, að börn sinni hollri vinnu og létti undir með foreldrum sínum eða nánum vandamönnum, slíkt er uppeldisleg nauðsyn. En erfiðisvinna barna á opinberum vinnumarkaði og í luktum verksmiðjum er hið mesta vandamál og ber að takmarka sem framast má verða og helzt banna.

Þegar frv. var til 1. umr., benti ég einnig á, að þar væru engin ákvæði um skoðun og eftirlit með sjónvarpskvikmyndum. Ég benti á þetta af tvennum sökum. Í fyrsta lagi með tilliti til þess, að fyrirhugað er að hefja íslenzka sjónvarpsstarfsemi á næstu árum og í öðru lagi og ekki sízt vegna þess, að ríkisstj. hefur leyft erlendum aðilum sjónvarpsstarfsemi á íslenzku landi. Ég gerði þá fsp. til hæstv. menntmrh., hvort íslenzka kvikmyndaeftirlitið næði til sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, en af svari hæstv. ráðh. mátti ráða, að svo væri ekki, enda er það ekki. Íslenzkt kvikmyndaeftirlit nær ekki til ameríska sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli. Samt er það staðreynd, að ameríska sjónvarpið er einn öflugasti kvikmyndasýnandi á Íslandi. Það sýnir sennilega fleiri kvikmyndir, en nokkurt kvikmyndahús í landinu og á beinan aðgang að 5–10 þús. heimilum í landinu.

Ég benti á þetta atriði við 1. umr. málsins og gerði mér vonir um, að hv. menntmn. athugaði málið og gerði ákveðnar till. til úrbóta í samráði við hæstv. ríkisstj., en sú von mín hefur algerlega brugðizt. Stækkun sjónvarpsstöðvar Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli var ærið hæpin ráðstöfun, að ekki sé meira sagt. En hitt er fullkomið hneyksli, að undanskilja hana íslenzkum lágmarksreglum um kvikmyndasýningar. Ég verð að segja það, að svo lítið traust sem ég ber til núv. ríkisstj., gat ég gert mér vonir um, að hv. menntmn. og ekki sízt formaður hennar tæki myndarlega á þessu atriði og beitti áhrifum sínum til þess að finna viðunanlega lausn á þessu vandræðamáli. Ég vænti þess raunar enn þrátt fyrir þær brtt., sem frá n. hafa komið, að hv. menntmn. taki þetta mál til athugunar að nýju með það fyrir augum að leysa málið með sæmilegum hætti. En auðvitað er sá einn háttur sæmilegur, að íslenzkt kvikmyndaeftirlit nái til sjónvarpskvikmynda, sem sjónvarpað er frá Keflavíkurflugvelli. Keflavíkurflugvöllur er þó enn íslenzkt land, þó að stundum líti út fyrir, að íslenzkir ráðamenn hafi gleymt, að svo sé. Auk þess geri ég ráð fyrir, a.m.k. að óreyndu, að yfirstjórn varnarliðsins tæki vel óskum af okkar hálfu um það, að sjónvarpskvikmyndir á vegum hersins lúti íslenzku kvikmyndaeftirliti. En ég býst við, að íslenzka ríkisstj. verði að ríða á vaðið og hefja umr. um það mál. Ég leyfi mér að skora á hæstv. menntmrh. að hafa frumkvæði í málinu og skýt því einnig til hv. form. menntmn. að beita áhrifum sínum að þessu leyti, því að núverandi ástand þessa máls tel ég ósæmilegt.