01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar aths. við frv. og benti á nokkur atriði, sem ég taldi nauðsynlegt að athuga betur í n. M. a. gerði ég vinnuvernd barna að umræðunefni og lýsti þeirri skoðun minni, að nauðsyn bæri til að setja strangari reglur um vinnu barna og unglinga, en almennt tíðkast hér á landi. Ég sé, að hv. menntmn, hefur tekið undir aths. mínar um þetta atriði og sýnist mér sem brtt. n. við 39. gr. séu til verulegra bóta. Ég geri mér vonir um það, að slík hófleg, en þó herðandi ákvæði verði til þess að breyta því almenningsálíti, sem hér virðist ríkja gagnvart barnavinnu. En sannleikurinn er sá, að hér á landi tíðkast sá ósiður, sem er löngu lögbannaður í öðrum menningarlöndum, að þræla börnum út í óhollri og erfiðri verksmiðjuvinnu. Þessi ósiður Íslendinga er þeim mun verri, að engin efnaleg nauðsyn rekur á eftir og uppeldislega séð er barnavinna af þessu tagi stórhættuleg og auk þess heilsuspillandi. Venjur okkar í þessum efnum ráðast af peningalegum sjónarmiðum og eru því síður en svo af góðu sprottnar. Ég er ekki á móti því, að börn sinni hollri vinnu og létti undir með foreldrum sínum eða nánum vandamönnum, slíkt er uppeldisleg nauðsyn. En erfiðisvinna barna á opinberum vinnumarkaði og í luktum verksmiðjum er hið mesta vandamál og ber að takmarka sem framast má verða og helzt banna.

Þegar frv. var til 1. umr., benti ég einnig á, að þar væru engin ákvæði um skoðun og eftirlit með sjónvarpskvikmyndum. Ég benti á þetta af tvennum sökum. Í fyrsta lagi með tilliti til þess, að fyrirhugað er að hefja íslenzka sjónvarpsstarfsemi á næstu árum og í öðru lagi og ekki sízt vegna þess, að ríkisstj. hefur leyft erlendum aðilum sjónvarpsstarfsemi á íslenzku landi. Ég gerði þá fsp. til hæstv. menntmrh., hvort íslenzka kvikmyndaeftirlitið næði til sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, en af svari hæstv. ráðh. mátti ráða, að svo væri ekki, enda er það ekki. Íslenzkt kvikmyndaeftirlit nær ekki til ameríska sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli. Samt er það staðreynd, að ameríska sjónvarpið er einn öflugasti kvikmyndasýnandi á Íslandi. Það sýnir sennilega fleiri kvikmyndir, en nokkurt kvikmyndahús í landinu og á beinan aðgang að 5–10 þús. heimilum í landinu.

Ég benti á þetta atriði við 1. umr. málsins og gerði mér vonir um, að hv. menntmn. athugaði málið og gerði ákveðnar till. til úrbóta í samráði við hæstv. ríkisstj., en sú von mín hefur algerlega brugðizt. Stækkun sjónvarpsstöðvar Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli var ærið hæpin ráðstöfun, að ekki sé meira sagt. En hitt er fullkomið hneyksli, að undanskilja hana íslenzkum lágmarksreglum um kvikmyndasýningar. Ég verð að segja það, að svo lítið traust sem ég ber til núv. ríkisstj., gat ég gert mér vonir um, að hv. menntmn. og ekki sízt formaður hennar tæki myndarlega á þessu atriði og beitti áhrifum sínum til þess að finna viðunanlega lausn á þessu vandræðamáli. Ég vænti þess raunar enn þrátt fyrir þær brtt., sem frá n. hafa komið, að hv. menntmn. taki þetta mál til athugunar að nýju með það fyrir augum að leysa málið með sæmilegum hætti. En auðvitað er sá einn háttur sæmilegur, að íslenzkt kvikmyndaeftirlit nái til sjónvarpskvikmynda, sem sjónvarpað er frá Keflavíkurflugvelli. Keflavíkurflugvöllur er þó enn íslenzkt land, þó að stundum líti út fyrir, að íslenzkir ráðamenn hafi gleymt, að svo sé. Auk þess geri ég ráð fyrir, a. m. k. að óreyndu, að yfirstjórn varnarliðsins tæki vel óskum af okkar hálfu um það, að sjónvarpskvikmyndir á vegum hersins lúti íslenzku kvikmyndaeftirliti. En ég býst við, að íslenzka ríkisstj. verði að ríða á vaðið og hefja umr. um það mál. Ég leyfi mér að skora á hæstv. menntmrh. að hafa frumkvæði í málinu og skýt því einnig til hv. form. menntmn. að beita áhrifum sínum að þessu leyti, því að núverandi ástand þessa máls tel ég ósæmilegt.