01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að hv. menntmn. hafi unnið hér mikið og gott verk í sambandi við athugun á þessu frv. og frá henni komi hér ýmsar till., sem séu mjög athyglisverðar. Það er ein till. hennar, sem ég vildi gera örlítið að umtalsefni, ein af þeim, sem ég hygg að muni valda hér hvað mestu umtali, þegar menn hafa farið að átta sig á því, hvað í till felst. en það er sú till., sem fjallar um vinnu barna og ungmenna.

Það er ekkert um það að efast, að nú á síðustu árum hefur barnavinna færzt stórlega í aukana um allt land og svo mjög, að langt hefur farið fram úr öllu hófi, a.m.k. í mjög mörgum tilfellum. En það er nú svo, að þegar svo hefur til tekizt og það á nokkru tímabili, getur orðið ærinn vandi á höndum að ætla að kippa þessu í lag snögglega. Og mér er nær að halda, að það muni verða fullerfitt að standa að því að framkvæma þær till., sem hv. menntmn. gerir hér um þessi efni, nema þá að það verði betur búið um hnútana, en gert hefur verið hvað það varðar að sjá um framkvæmd slíkra ákvæða. Mér skilst, að áfram eigi það svo að vera, að það eigi að vera verkefni barnaverndarnefndanna á hinum ýmsu stöðum að hafa eftirlit með þessum ákvæðum. En það er nú svo, að barnaverndarnefndir hafa ekki verið mjög starfsamar til þessa og flestar sveitarstjórnir hafa litið svo á, að aðalverkefni barnaverndarnefnda ætti að vera að fást við sérstök vandræðaverkefni, sem oft eru kölluð, sem upp koma við alveg sérstakar aðstæður á einstaka heimilum. En ef verkefni barnaverndarnefnda á að verða m.a. það að fylgjast með því, hvernig vinnutíma barna er háttað og annað þess háttar, er ég hræddur um, að það þurfi að gera betur við barnaverndarnefndir og starfsaðstöðu þeirra alla, en nú er, ef þetta á ekki að verða dauður bókstafur. Og ég held, að menn verði líka að gera sér fulla grein fyrir því, að það er ekki hægt að vænta þess, að góður árangur verði af því að setja slíkar hömlur á vinnu barna og unglinga sem þarna er gert og ég út af fyrir sig er sammála, nema vissar aðrar ráðstafanir fylgi þar líka með.

Ég tel fyrir mitt leyti, að það sé ekki hægt að setja reglur um það, að unglingar, 14 og 15 ára gamlir, skuli ekki mega vinna, eins og nú er almennt unnið á Íslandi, í meira en 8 stundir, það sé fortakslaust bannað, nema þá það séu gerðar ráðstafanir til þess að bæta nokkuð félagslega aðstöðu þessara ungmenna á þeim öðrum tíma sólarhringsins, sem þeir hljóta að vera í fullu fjöri og vilja vera að einhvers konar störfum. Það þarf að skapa aukna og bætta aðstöðu og það í stórum stíl, t.d. til íþróttaiðkunar og annars þess háttar og það verður að breyta okkar skipulagsformum í þessum efnum frá því, sem verið hefur um skeið. Við vitum, að þessu hefur verið þannig fyrir komið, að þegar skólar yfirleitt slíta störfum á vorin, fara kennarar í frí í maímánuði og nemendurnir líka, og nemendunum er þá sleppt í næstu 4–5 mánuði og kennararnir eru þá að litlum störfum í sambandi við eftirlit með börnum. En ég held, að það verði að skipta þannig um, ef á að reyna að koma í veg fyrir þessa miklu vinnu, sem nú á sér stað hjá unglingum á þessum aldri, að ríkið og sveitarfélögin verði að taka verulegan þátt í kostnaði af því að sinna verkefnum þessara ungmenna, sem þá er bannað að taka þátt í störfum á vinnumarkaðinum. Það er verið að leggja fram talsvert mikið fé, bæði af ríki og sveitarfélögum, til þess að búa í haginn í þessum efnum og það þyrfti einnig að gera ráðstafanir til þess, að t.d. kennararnir í landinu fylgi ungmennunum eftir og hjálpi til við félagsstörf þeirra á þessum langa tíma. Ég hef sem sagt ekki mikla trú á því að setja ákvæði sem þessi varðandi vinnu barna og ungmenna, án þess að slíkar ráðstafanir sem þessar fylgi með. Annars held ég í stuttu máli, að við fáum ekkert annað, en heilan flokk af félögum og kraftmiklum ungum börnum og unglingum, sem dragist þá út í ýmiss konar starfsemi, sem ekki verður almennt talin æskileg.

Það var þetta, sem ég vildi aðallega segja um þessa reglu, sem ég tel að sé nauðsynlegt að setja, eins og nú er komið. Það má lengi deila um það, hversu reglurnar eiga að vera strangar, þegar fyrst er tekið á þessu vandamáli. Út af fyrir sig er ég þessum till. samþykkur, en ég held, að þetta tvennt verði að fylgja með, það þurfi að bæta verulega frá því, sem verið hefur, starfsaðstöðu og starfsmöguleika barnaverndarnefnda, sem eiga að líta eftir þessum störfum og öðrum og það þurfi einnig að búa betur í haginn í ýmsum félagslegum efnum fyrir þessi ungmenni frá því, sem nú er. Ég hefði að vísu einnig viljað fá ákvæði inn í þessa till. frá menntmn. um vinnutíma barna og unglinga, sem hefði lagt blátt bann við allri eftir- og næturvinnu unglinganna, því að mér er það ekki nóg, að það sé ákveðið, að börn á þessum aldri megi ekkí vinna lengur en 6–7 tíma eða 8 tíma mest. Ég álít, að það eigi ekki að sjást lengur, að börn á þessum aldri séu á vinnustöðum í næturvinnu, eins og nú þekkist mjög víða. Slík ákvæði hefðu átt að koma þarna inn líka.

Þá tel ég, að betur hefði farið á því hjá hv. menntmn. að herða nokkuð orðalagið frá því, sem hún hefur það varðandi ákvæðin um vinnu barna, á meðan þau eru í skóla. En í þeim efnum hefur menntmn. kosið að hafa það orðalag á að segja, að stefna skuli að því, að börn stundi ekki vinnu þann tíma, sem þau eiga að vera í skóla. Þetta þykir mér mjög lint til orða tekið. Þarna held ég, að hefði ekki síður verið ástæða til þess að segja, að það sé hreinlega bannað að láta börn stunda vinnu, á meðan þau eru í skóla, því að eins og hér var sagt af frsm. n., verður að telja, að barn, sem stundar sitt nám með eðlilegum hætti í skólum landsins nú, hafi fullan vinnudag og er engin ástæða til þess, að slíkt barn sæki vinnumarkað á sama tíma. Ég held því, að það hefði átt að herða á þessu orðalagi talsvert mikið frá því, sem það er í till. n.

Svo eru það aðeins örfá orð út af því, sem hér hefur fram komið varðandi eftirlit með kvikmyndum og eftirlit með sjónvarpi.

Ég geri ráð fyrir því, að það séu allir fyllilega sammála um, að það verði meira að segja að herða nokkuð á kvikmyndaeftirlitinu frá því, sem verið hefur og það beri að sjálfsögðu að taka upp eftirlit með sjónvarpsútsendingum íslenzka sjónvarpsins. En ég held líka, að það sé alveg útilokað að grafa hausinn þannig í sandinn í sambandi við það vandamál, sem við stöndum frammi fyrir nú, að það er vitanlega nákvæmlega sams konar hætta í sambandi við uppeldi barna í landinu nú, sem fylgir sjónvarpsútsendingum frá Keflavíkurflugvelli eins og sjónvarpsútsendingum frá íslenzku sjónvarpi. Og það mun enginn taka það mjög alvarlega í framkvæmd að ætla að beíta skörpu eftirliti á útsendingum íslenzks sjónvarps, ef ósæmilegar útsendingar frá sjónvarpsstöðinni í Keflavík verða látnar óátaldar. Ég álít því, að það þýði ekki að víkja sér undan þessum vanda og það sé alveg óhjákvæmilegt, þegar einmitt þessi mál eru hér rædd, að grípa þá á þessu vandamáli og rétt íslenzk stjórnarvöld skerist þarna í leikinn og láti stöðva þær útsendingar frá sjónvarpinu í Keflavík, sem geta ekki að eðlilegum hætti smogið gegnum eftirlit með sjónvarpsútsendingum. Mér er það auðvitað ljóst, að ef ætti að fara að beita slíkum ákvæðum við sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli, mundi það þýða í raun og veru fyrir þá, sem þetta sjónvarp á nú aðallega að þjóna, sama og að loka því, því að þeim þætti heldur lítið púður í útsendingum sjónvarpsins, ef það ætti að vera háð eftirliti einhvers barnaverndarráðs. En þá eru menn aftur komnir að því, að það er vitanlega óhjákvæmilegt að sjá um það, að þetta sjónvarp hafi ekki aðstöðu til þess að ryðjast inn á hvert heimili í landinu svo að segja. Það verður að leggja hömlur á það með einhverjum hætti, að þessar útsendingar geti átt sér stað. Það verður að gera þetta sjónvarp, ef menn vilja endilega hafa það, að sjónvarpi eingöngu fyrir þá aðila, sem það átti að vera fyrir.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar hér að þessu sinni. Mér sýnist hins vegar, að mjög margt af því, sem kemur hér fram frá hálfu menntmn., sé mjög til bóta á frv. og að hún hafi þar hreyft við tímabærum verkefnum, og ég lýsi yfir fylgi mínu við þessar till. í öllum aðalatriðum.