15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Örfá orð. Ég er sammála því, að þær breytingar, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., muni verða til bóta. En ég held, að það sé ekki til neins, hvorki þessar breytingar né aðrar á þessu frv., ef sá skilningur á að ríkja á niðurlagi 9. gr., sem hér hefur verið túlkaður af hæstv. ráðh. Menn rekur minni til, þegar þessi atburður gerðist, hvernig honum var tekið af bæði sjómönnum og einnig útgerðarmönnum. Það er alveg augljóst, að ef slíkir hlutir koma fyrir aftur, að ég tali nú ekki um, að þetta verði hefð, þá eru þessi lög ekki til neins, þá halda þau ekki. Og ég held t.d. , að a.m.k. þeir, sem telja þessa leið, þ. e. gerðardómsleiðina, það eina færa til að ákveða fiskverð, ættu að leggja sig fram um annaðhvort að túlka 1. eins og ég vildi skilja þau, á sama hátt og hv. síðasti ræðumaður, annaðhvort túlka þau á þann hátt eða þá að það séu tekin af öll tvímæli í l. sjálfum. Þetta held ég, að sé algerlega nauðsynlegt, enda fæ ég ekki séð, hvers vegna slíkur dómur getur ekki komizt að niðurstöðu, þótt ekki sé lagður í hendur eins manns úrskurðarrétturinn. Þessi dómur byggist ekki á ákvörðun um eitt atriði, heldur mörg. Endanleg verðákvörðun byggist á atkvgr. um mörg atriði, og það er þá alveg eins dómsforsetans eða formanns dómsins að fikra sig að öðrum hvorum til þess að reyna að tryggja niðurstöðu, eins og hitt, að ætla sér sjálfur og einn að ákveða niðurstöðuna. — Ég vil aðeins undirstrika, að ég tel, að enda þótt þessar breytingar horfi til bóta, þá séu þær ekki til neins, ef þessi skilningur á að ríkja á l. og vera framkvæmdur.