11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls kvaddi hv. 5. þm. Norðurl. e. sér hljóðs og fann að því við hv. menntmn., að hún flytti ekki brtt. við frv. þess efnis, að eftirlit verði með kvikmyndasýningum frá Keflavíkursjónvarpinu. Ég er hv. þm. sammála um, að það er að sjálfsögðu eins mikil þörf á því að hafa eftirlit með kvikmyndum frá sjónvarpi og kvikmyndahúsum og reyndar meiri þörf, þar sem á sjónvarp horfa börn daglega, miklu oftar en þau fara í kvikmyndahús og enn er þörfin meiri fyrir það, að Keflavíkursjónvarp sýnir myndir, sem eru bannaðar börnum.

Á síðasta fundi nefndarinnar, þar sem gengið var endanlega frá till. um 59. gr. frv., var ég ekki viðstaddur, þar sem ég var utanbæjar, en þar var samþykkt till. um sjónvarp frá ríkisútvarpi Íslands. Ég er að vísu ekkert andvígur þeirri till. út af fyrir sig, þó að ég hafi enga afstöðu tekið til hennar. Till. er meinlaus og gagnslaus, meðan ekkert sjónvarp er til íslenzkt og nægur tími að ákveða um eftirlit með kvikmyndasýningum þaðan, þegar að því kemur að stofna það. En ég hef ekki heldur flutt neina brtt. í þá átt, sem hv. þm. nefndi um eftirlit með kvikmyndum frá Keflavíkursjónvarpinu og það er af þeirri einföldu ástæðu, að Keflavikursjónvarp er undir sama eftirliti og kvikmyndahúsin í Reykjavík og annars staðar á landinu. 59. gr. þessa frv. byrjar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Enga kvikmynd má sýna börnum innan 16 ára aldurs, nema að undangenginni athugun, sem framkvæmd sé af þar til hæfum mönnum“ o.s.frv. Á þessu er engin undantekning nema sú ein, sem snertir sjónvarp hjá ríkisútvarpinu. Þetta eftirlit á því að framkvæma samkv. þessari gr. frv. og þarf því ekki á neinni brtt. að halda.