11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég lagði í að lesa þetta frv., þó að langt væri, annars reikna ég yfirleitt með því, um stjfrv., að þau séu viturlega samin og vel orðuð.

Það, sem ég rak fyrst augun í var, að það var mikið um endurtekningar í þessu frv. Ég hygg, að það væri óhætt að hafa það þrisvar sinnum styttra en það er og það yrði þá held ég minna af vitleysum og endurtekningum í því heldur en er.

Það má líkja þessu þjóðfélagi okkar við eitt heimili og æðsti húsbóndi þar er vitanlega forsrh. Vitanlega er ekki hægt fyrir húsbændurna að vinna öll verkin, en þeir þurfa að hafa yfirsýn yfir þau og bera siðferðilega séð óbeint ábyrgð á þeim. Þótt þeir geti ekki unnið öll verkin, verða þeir að kippa í spottann, ef á þarf að halda og segja þeim, sem fyrir þá vinna, að vinna betur og ég álít, að það þurfi í þessu tilfelli. Við vitum það allir um hæstv. forsrh., að hann skrifar allra manna bezt mál, er yfirleitt ekki með óþarfa orðalengingar, hvorki í ræðu né riti og ég er því sannfærður um, að hæstv. forsrh. hefði getað komið þessu efni í svona tvisvar — þrisvar minna mál og haft það miklu viturlegra en er. Mín skoðun er því, að hann eigi að segja viðkomandi aðilum að vinna betur.

Ég ætla ekki að fara að rekja allt efni þessa frv., það er ekki tími til þess, en höfuðsyndirnar eru hjá ungmennum og börnum, þau mega ekki drekka, ekki nota eiturlyf, ekki nota deyfilyf, ekki vera lauslát, ekki elska hvert annað, eins og maður gæti orðað það, eða annað siðleysi, sem kallað er og svo fremja refsivert athæfi, sem er vafalaust þjófnaður og eitthvað slíkt. Þetta er nú það, sem á að banna blessuðum börnunum hvað syndir snertir og það er búið að lengja þetta upp í 18 ára aldur. Það eru kölluð ungmenni, sem þarf að líta eftir. Og í 31. gr. segir: „Ef ungmenni eldra en 16 ára er haldið annmörkum þeim, er í 28. gr. getur, skal barnaverndarnefnd reyna að bæta hegðun og framferði þess með leiðbeiningum og áminningum, viðræðum við venzlafólk, húsbændur, kennara, meistara o.s.frv.“ Ég held það þurfi að ræða við gróflega marga, ef það má ekkert gera af þessu, sem talið er upp, til 18 ára aldurs. Svo má nú enginn taka ungmenni í fóstur, nema fá samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi hans, það er sama hvað góður maður það er. Svo eru alls konar nefndir og ráð, sem eiga að koma. Þær kosta nú allar peninga.

En þetta er nú allt saman tiltölulega meinlaust, þar til kemur aftur í 41. greinina. Þá fer nú að verða erfiðara að hlýða lögunum, þó að það væri gerlegt með þau atriði, sem ég minntist á áðan. Eigi má ráða barn yngra en 15 ára, til að vinna í verksmiðjum og við uppskipanir. Út á þetta hef ég í raun og veru ekkert að segja. En það, sem mér virðist með þessa menn, sem hafa samið þetta frv. er, að þeir taki ekki nægjanlegt tillit til aðstæðna okkar hér á landi. Við erum eiginlega ekki iðnaðarþjóð og iðnaður sá, sem við höfum, er mest viðvíkjandi hráefnisvinnslu. Við höfum ekki stáliðnað, og börnin vinna yfirleitt ekki og unglingar mikið í verksmiðjum.

Það var sannarlega þörf á ströngum lögum viðvíkjandi því í Bretlandi á sínum tíma, þegar börnin voru látin vinna í miklu lengri tíma, en nokkurt vit var í, inni í verksmiðjum í óhollu lofti og á allan hátt við slæman aðbúnað, af því að þau fengust fyrir lægra gjald, en fullorðna fólkið. En þessu er bara ekki þannig varið hér á landi og það verður alltaf að taka tillit til aðstæðnanna.

Og hér kemur um vinnuverndun blessaðra barnann, og það hljóðar þannig: „Alger hámarksvinnutími barna undir 14 árum er hálf áratala aldurs þeirra, þ.e. 6–7 stundir á dag. 8 stunda vinnutímabil skulu jafnan annast 2 vinnuhópar barna, þ.e. 4 stundir hvor hópur og 10 stunda vinnutímabil fullorðinna 2 vinnuhópar barna, þ.e. 5 stundir hvor.“ Og svo kemur hér: „Alger hámarksvinnutími barna 14–16 ára skal vera 8 stundir án undantekninga.“ Það er nefnilega, að þó að líf liggi við, má blessað barnið ekkert hjálpa foreldrum sínum eða neinum, ef það er orðin meira, en 8 stunda vinna, hvað mikið sem liggur á, samkv. þessum lögum.

„Stefna skal að því, að börn stundi ekki vinnu, frá því að þau hefja skólagöngu að hausti og þar til skólagöngu lýkur að vori.“ Svo mörg eru þau orð. Það á að vera ákaflega óhollt fyrir barnið að snerta á einhverju nytsömu verki, ef á liggur, allan þennan langa skólatíma. Nú er það þannig með barnaskóla, ætli þetta taki ekki 6 ár hér eða eitthvað slíkt og börnin eru látin sitja 7 mánuði við. Einu sinni fékk ég dreng héðan úr Reykjavík, — og við höfum ekki nema 2–3 mánaða skólatíma í sveitinni, — hann sagði mér, að hann hefði lært eins mikið á þessum 2–3 mánuðum uppi í sveit og á 2-3 árum hér í Reykjavík. Og þegar námið er ekki erfiðara eða meira en þetta, þá skil ég ekki, að það sé ákaflega hættulegt, að þau geri eitthvað. Hitt gæti ég vel fallizt á, að það mætti ekki ráða börnin í fasta vinnu. Það er allt annað. En þótt þau gripu í verk, ef á lægi, þessir unglingar, þá ætti það ekki að spilla fyrir heilsu þeirra eða siðferði. En það er sem sagt algerlega bannaður meira en 8 stunda vinnutími upp að 16 ára aldri, hvað mikið sem liggur við.

Nú vitum við, að það, sem unglingar vinna aðallega við hér, það er t.d. síldarsöltun og annað, sem börnin hjálpa mæðrum sinum við að sumrinu og það er heyvinna. Í öðrum stað er tekið fram í þessari sömu grein: „Þá skal einnig setja ákvæði, er sporni við,” — sporna við er leiðinlegt mál og ætti að segja frekar hindra eða takmarka, það væri þó skárra, „er sporni við yfirvinnu, næturvinnu, helgidagavinnu barna og ungmenna.” Þar kemur það aftur. Yfirvinna á vafalaust að vera eftir kl. 5 skv. þeim reglum, sem gilda hér á landi. Nú er það þannig með okkur í sveitinni t.d., að heyið er að þorna fram eftir deginum og við lofum börnunum að sofa út á morgnana eins og þau vilja, svo þegar við förum að taka saman, þurfum við að fá blessuð börnin til að hjálpa okkur. En skv. þessu á algerlega að banna það. Eins er með síldarvinnu, skipin koma siglandi gjarnan um 5-leytið að deginum. Eftir þessu á algerlega að banna blessuðum börnunum að hjálpa t.d. mæðrum sínum að salta. Þetta gera þau ákaflega oft og flýta fyrir. 14–16 ára drengir eru í mörgum tilfellum farnir að hafa allt að því fullkomna krafta. Ef á að hindra þá í að vinna t.d. við síldarsöltun og aðra fiskvinnu eða eitthvað slíkt, ef klukkan er orðin 5, þá held ég séu hafðar anzi miklar tekjur af þessum unglingum. Og meira en það, nú mega blessuð börnin ekkert vinna, en þau mega ekki heldur syndga. Þetta á að ákveða nánar með reglugerð. Þá verður hæstv. ráðh., sem hefur með þetta að gera, að vera meiri en drottinn, því að hann gat ekki ráðið við það, — hann gat ekki ráðið við það að láta fólkið ekki syndga og haft það iðjulaust. Ég hygg, að ef þessi hæstv. ríkisstj. getur þetta, bannað blessuðum börnunum að vinna, — því að ef þau mega ekki hjálpa okkur að taka saman eftir kl. 5 að deginum og ekki vinna við síldarsöltun eða neitt, þá hafa þau ekkert að gera í mörgum tilfellum, — bannað börnunum að vinna og bannað þeim alls konar syndir, þangað til þau eru orðin 18 ára gömul, ekki að elskast og ekki að drekka vín eða haga sér á neinn hátt illa, — ef hæstv. ríkisstj. getur þetta, er hún meiri en guð almáttugur hefur verið, því að hann sá, að það var ráðlegast að lofa mönnum að vinna til þess að halda andlegri heilbrigði, og hefur þó ekki tekizt að hafa mennina syndlausa þrátt fyrir það.

Og svo er hérna: „Enn fremur skal setja ákvæði í reglugerð, er sporni við vinnu barna og ungmenna með tækjum, er sérstök slysahætta stafar af.“ Jú, það er náttúrlega ágætt. En það er bara hér um bil ekkert tæki, sem ekki getur orðið slys við, ákaflega fá a.m.k. Og þetta á að vera ungmenni líka, þannig að þetta á að ná upp að 18 ára aldri. Nú vitum við það t.d., að vinna með dráttarvél, með ýmis heyvinnutæki og annað slíkt, það getur stafað hætta af því alveg eins fyrir fullorðna og börn og satt að segja er sennilega á aldrinum frá 14–18 ára hvað minnst slysahætta vegna þess, hve eftirtekt unglinga er næm. Hitt gæti ég fallizt á fyrir mitt leyti, að takmarka aldurinn, hafa eitthvert lágmark að vinna með ýmsum tækjum eins og t.d. dráttarvélum, t.d. 12 ár. Ég álít, að það séu allt of ungir sumir krakkar, sem byrja að vinna með þessum tækjum.

Við uppskipunarvinnu og slíkt get ég vel fallizt á, að unglingum sé ekki leyft að vinna upp að a.m.k. 16 ára aldri og eins að fastráða sig ekki. Það nær t.d. engri átt að fastráða unglinga eða börn í verksmiðju, meðan þau eru að læra, meira að segja ekki tíma úr deginum, en að þeim sé algerlega bannað að gera neitt, það er allt annað.

Svo kemur hérna: „Brot gegn ákvæðum greinar þessarar, svo og brot gegn ákvæðum reglugerða, er settar eru samkv. henni, varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Auk refsingar má svipta mannréttindum samkv. almennum hegningarlögum, ef miklar sektir eru.“ Ekki eru nú viðurlögin lítil. Svo eru þessi refsiákvæði endurtekin grein eftir grein og það ekki út af stórum hlutum.

Hér er t.d. í 42. gr., það er með vegabréfin. Nú eiga blessuð börnin og unglingarnir eða ungmennin að fara að bera á sér vegabréf. Það er eins og var í lögregluríkjunum oft áður, með júðana, að þeir urðu að bera merki á sér til þess að þekkjast frá öðru fólki. En mér hefur nú skilizt á hæstv. menntmrh., að þessu muni verða breytt og þess vegna þarf ekki að fjölyrða mikið um það. En það er ákaflega hlægilegt, ef á að láta 12–18 ára unglinga bera á sér einhverja svokallaða passa eða vegabréf um aldur þeirra og til þess að hindra, að þeir fái vín, því að vitanlega er ekkert auðveldara fyrir þessi ungmenni en segja: Ja, ég er eldri en 18 ára, og ég hef ekki nokkurt vegabréf. Ég þarf ekki að hafa það. — Og með því gætu þeir villt heimildir. Má vera, að viðkomandi aðilar séu búnir að sjá, að þetta er ekki rétt leið, því að ef á að hindra þetta, þyrftu þeir einmitt að hafa vegabréfin, sem mættu fá vínið, en ekki þeir, sem mættu ekki fá það, því að það er hægt að skrökva, þannig að enginn fengi vín án þess að hafa passa eða vegabréf. Það er nú ekki ástæða að fjölyrða um þetta. En við broti gegn þessu alvarlega ákvæði á að vera 10 þús. kr. sekt. Ekki veit ég, hvort börnunum er ætlað að borga það eða aðstandendunum, því að það er ekki talað um það. En ef 12–14 ára krakkar eiga að borga 10 þús. kr., gæti ég vel hugsað, að það yrði einhver dráttur á innheimtu á því. Þau eiga ekki öll svo mikið.

Í 45. gr. er talað um það að banna stúlkum innan 18 ára að vinna á veitingastöðum eða skemmtistöðum, þar sem það getur haft slæm áhrif á siðferði þeirra. Þetta er eftirsótt af ungum stúlkum, sem eru í skóla að vetrinum, að fá að vinna á hótelum að sumrinu úti á landi, þannig að það má fara dálítið varlega í því að takmarka það um of.

Í einum stað stendur hérna: „Ef forstöðumaður brýtur gegn reglum, sem honum eru settar samkv. ákvæðum þessarar gr., varðar það sektum eða varðhaldi allt að 4 mánuðum, nema þyngri refsing liggi við að lögum.“ Ég veit nú ekki, hvað það er, þessi þyngri refsing, hvort það á að vera líflátsdómur yfir mannaumingjanum eða hvað. Þetta er yfirleitt hér í annarri hverri og hverri gr., þessar ægilegu heitingar, ef brotið er út af þessu og þetta eru bara smávægileg afbrot í þessari gr.

Þá er það 46. gr. Það er ákaflega vandlifað samkv. henni. „Ef maður viðhefur í návist barns eða ungmennis ósiðlegt, ruddalegt eða ósæmilegt orðbragð eða athæfi, ertir það eða dregur dár að því eða særir það á ósæmilegan hátt,“ þá á að refsa honum, „þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum.“ Ekkí er það nú minna. Sem sagt, það er ekki hægt að neita því, að ruddalegt og ósæmilegt orðbragð geti verið t.d. blótsyrði. Og ef einhverjum verður á að blóta í návist barns, þá er hægt að stinga kauða inn allt að 3 árum, einnig ef hann ertir barn eða dregur dár að því, — ertir, það er að stríða barninu, það er ekki hægt að neita því. Ef einhver er hyskinn t.d. við vinnu og sagt er: Þú hefur nú staðið þig vel núna, drengur minn, — eða eitthvað slíkt, þá er það vitanlega að draga dár að því. Ég held, að það sé afar erfitt að særa aldrei krakka, sem eru viðkvæmir. En það er þá bara þetta, það er allt að 3 ára tugthús, þegar einhverjum verður á að blóta. Ég segi fyrir mig, að ég treysti mér ekki til þess að vanda þannig umgengni við börn, að þetta gæti aldrei skeð, að ég stríði krakka eða geri smávegis grín að honum, ég treysti mér ekki til þess. Það yrði að byrja á því að ala mig upp.

Hér kemur í 47. gr.: „Ef maður leiðir barn eða ungmenni allt að 18 ára á siðferðilega glapstigu, varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum " Það er nú ekki talað um þyngri refsingu þarna. Ég held, að það verði ákaflega vandlifað. Þeir ætla að sjá um það, að allar stúlkur landsins verði hreinar meyjar 18 ára gamlar. Það er ekki lítið, sem forsrh. okkar tekur að sér á þessum tímum. (Forseti hringir.) Ég hef ekki sagt nokkurt ljótt orð, herra forseti. Þetta stendur allt í frv. En svo er nú ekki nóg með þetta. Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi, ef maður verður áskynja um brot samkv. 1. mgr., en lætur ógert að afstýra því, ef honum er það fært eða gera hlutaðeigandi löggæzlumanni eða barnaverndarnefnd viðvart. Það er sem sagt ekki nóg með það, að þeir, sem syndga, séu tukthúsmenn allt að 4 árum, heldur einnig þeir, sem þegja yfir syndunum. Ég held, að það verði nú vandlifað hér. Ef ég ætti að þegja yfir öllum syndum ungmenna innan 18 ára, sem ég sæi eða yrði var við á einhvern hátt, yrði ég ekki lengi utan Steinsins. Það verður meira fyrirmyndarríkið, þegar þetta er orðið að lögum og allir breyta eftir þeim lögum.

Svo kemur hér 49. gr.: „Hver, sem verður þess vís, að foreldrar, forráðamenn, kennari, meistari eða aðrir þeir, sem forsjá barns eða ungmennis er falin, leiða það á siðferðilega glapstigu, misbjóða því eða vanrækja á annan hátt uppeldi þess svo mjög, að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé hætta búin, skal skyldur að tilkynna það barnaverndarnefnd, þar sem barnið er. Vanræksla í þessu efni,“ sem sagt að klaga nábúa sinn, ef eitthvað er að hjá honum, „varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.“ Ekki er talað um þyngri refsingu í þessu tilfelli. Ef t.d. er sóðaskapur á heimili, það er mjög vont fyrir barn, eitthvað slíkt, það getur nú skeð, að húsmæður hafi mikið að gera og þurfi að vinna úti, sé ekki alltaf hægt að hugsa um börnin eins og þyrfti þess vegna og margt komi til greina og þá er það bara fangelsi fyrir að vanrækja að skýra frá þessu.

Þetta eru smápunktar, sem ég hef tekið upp úr þessu frv. Það er hérna miðparturinn. Það er eins og skipti um andann í frv., þegar kemur að 41. gr., þá koma þessar geysilegu refsingaheitingar. En endirinn og upphafið er tiltölulega meinlaust, óþarflega langdregið, væri hægt að stytta það mikið og laga. En ég get ekki séð, að samkv. þessum lögum geti menn komizt hjá því að brjóta lögin, mér er ómögulegt að sjá það. Það er í mörgum tilfellum, að það er komið í veg fyrir vinnu unglinga og barna með þessu móti og kannske miklu fleiri tilfellum en hinum við þær aðstæður, sem íslenzka þjóðin býr við. Og svo eru þessar geysilegu kröfur til siðferðisins og þær miklu refsingar, sem lagðar eru við brotunum. Og svo eru harðar refsingar við að þegja yfir afbrotum unglinganna. Ég get ekki séð, að ef á að framfylgja þessu, verði þeir margir, sem þyrfti ekki annaðhvort að sekta eða setja í Steininn um það er lyki. En ef ríkisstj. treystir sér til þess að framkvæma þessi lög, þá hún um það. Fyrir mitt leyti hélt ég, að það væri ráð að setja ekki önnur lög en þau, sem væru einhverjir möguleikar á að halda. Ef menn fara að setja lög, sem gersamlega er ómögulegt að framkvæma, hætta menn að virða lögin. Og það er eitt það vitlausasta og versta, sem löggjafinn getur gert, það er að setja lög, sem eru óframkvæmanleg og fólkið þverbrýtur. Mitt álít er, að í þessu tilfelli verði þessi lög algerlega hunzuð og þverbrotin og það er gersamlega útilokað annað en gera það, beint eða óbeint.