11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Út af ábendingu hv. 5. þm. Norðurl. e. (IG) um, að ég hefði talað gegn þessu frv., þá sé ég ástæðu til að gera grein hér fyrir atkvæði mínu. Ég held, að hann hafi hlotið að misskilja mín orð í sambandi við frv. Ég tók það fram, að ég teldi mörg ákvæði þess og þá sérstaklega ákvæðið um takmörkun vinnu barna vera mjög til bóta og vera nauðsynlegt í okkar löggjöf. Mín ábending var um það eitt, að ég taldi, að hv. Ed., þegar frv. kæmi þangað, bæri að skoða betur 41. gr., hvort ekki væri hægt að komast fram úr þeim ákvæðum, sem þar eru, á þann veg, að ekki væri hætta á, að lögin yrðu ekki virt, eftir að Alþingi væri búið að afgreiða þau hér og gefa þau út. Þetta var mín ábending í sambandi við þetta frv. Ég hafði alltaf haft í hyggju að greiða því atkvæði hér. Vildi ég koma þessu að, áður en það væri komið út úr deildinni og ég segi já við frumvarpinu.