10.05.1965
Efri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2331)

122. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um þá málsmeðferð, sem hér er greinilegt að á að viðhafa, þ.e.a.s. að knýja það í gegn, að geysilegur lagabálkur verði afgreiddur hér á örstuttri stundu. Rétt áðan barst mér fundarboð um fund í samgmn., sem mun eiga að fjalla um þetta, og það var tekið sérstaklega fram að væri aðeins sem snöggvast. Það virðist þess vegna ekki vera svo, sem hæstv. ráðh. lét þó í ljós, að honum þætti mjög leiðinlegt að misbjóða þm., því að ef þetta er ekki að gera það, veit ég ekki, hvað það er. Enda þótt ráðh. drægi það í efa, að þm. hefðu lesið frv., ætlast hann samt til, að það verði afgreitt núna á stundinni. Ég held, að ef hæstv. ráðh. hefði metið, svo sem hann sagðist þó gera, þá samvinnulipurð, sem við hér í stjórnarandstöðunni höfum sýnt hér í þingi og hér í hv. d. alveg sérstaklega, vil ég segja, hefði honum verið sæmst að standa hér upp og taka aftur kröfur sínar um það, að málið verði afgreitt núna með skyndingu, í stað þess að segja aðeins, að það yrði á mati hvers eins þm., hvort þeir greiddu málinu atkv. eða ekki. Það er auðvitað greinilegt af þeim orðum, að hann ætlast til þess, að menn afgreiði málið án þess að hafa kynnt sér það. Ég hef alltaf litið svo á, að þm. bæri engin sérstök skylda til þess að athuga mál gaumgæfilega, fyrr en það kæmi a.m.k. til d. og nefndum ekki fyrr, en því hefði verið vísað til þeirra. Ég verð að segja fyrir mitt leyti og játa það alveg hispurslaust, að ég hef ekki lesið stafkrók í þessu frv. og ég leiði því alveg minn hest hjá því að taka nokkurn þátt í afgreiðslu málsins eða gjalda samþykki mitt við þá málsmeðferð, sem hér hefur verið höfð á málinu.