17.12.1964
Neðri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls óskaði hæstv. sjútvmrh. eftir því, að reynt yrði að flýta frv. gegnum þingið, og hefur sjútvn. d. reynt að verða við þeim tilmælum, og vil ég þakka meðnm. mínum fyrir þeirra þátt í því.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 183, mælir n. með því, að frv. verði samþ., þó þannig, að tveir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma, og einn nm. skrifar undir með fyrirvara, og hafði hann raunar við 1. umr. gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins og í hverju sá fyrirvari felst.

En til viðbótar því, sem fram kemur í frv., hefur orðið samkomulag um það í sjútvn. að flytja eina brtt. við lögin um verðlagsráð sjávarútvegsins. Sú brtt. er á þskj. 184, og hún er un: það, að aftan við 11. gr. 1. bætist nýr málsl., svo hljóðandi: „Frá 1. janúar 1966 greiðist þessi kostnaður úr ríkissjóði.“ Þarna er átt við kostnað af störfum verðlagsráðs, sem samkv. núgildandi ákvæði í 11. gr. l. greiðist úr fiskimálasjóði.

Till. um þessa breytingu var fram borin í sjútvn. af hv. 7. landsk. þm., og varð samkomulag um það í n. að flytja hana í því formi, sem hún liggur fyrir, með hliðsjón af því, að fjárlög fyrir árið 1965 eru nú komin á lokastig, þannig að till. felur það í sér, að kostnaðurinn við störf verðlagsráðs skuli frá ársbyrjun 1966 greiðast úr ríkissjóði í stað þess, sem nú er, að hann er greiddur úr fiskimálasjóði.

Eins og fram kemur í nál., mætti herra framkvstj. Sveinn Finnsson á fundi n. og gaf upplýsingar um störf og starfsvenjur verðlagsráðs í sambandi við verðákvörðun á sjávarafurðum, og að gefnu tilefni upplýsti hann það, að þegar fjallað er um einstaka liði í kostnaðar- eða rekstraráætlun þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, eru þeir liðir jafnan afgreiddir ýmist með meiri hl. atkv. eða þá með samkomulagi allra. Þess er einnig getið í nál., að sjútvn. bárust mótmæli gegn frv. Þau mótmæli eru í bréfi frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem dags. er 16. þ.m., og þar sem þau mótmæli eru fram komin, tel ég rétt að lesa þau upp, enda þótt það hafi verið fram tekið af hæstv. sjútvmrh. við 1. umr. þessa máls, að um frv. væri ekki samkomulag milli fiskkaupenda annars vegar og fiskseljenda hins vegar, en Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er í flokki þeirra fyrrnefndu. Bréfið er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af frv. til l. um breyt. á l. nr. 97 18. des. 1961, um verðlagsráð sjávarútvegsins, sem nú liggur fyrir Alþingi, samþykkir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eftirfarandi ályktun:

Vér leyfum oss að mótmæla fyrirhugaðri breytingu og leggjum eindregið til, að l. standi áfram óbreytt. Við ákvarðanir verðlagsráðs og þegar komið hefur til kasta yfirnefndar við ákvörðun á lágmarksverði sjávarafurða að undanförnu hafa þessir aðilar reynt að starfa samkv. anda l. um verðlagsráð sjávarútvegsins og miða verðákvarðanir við markaðsverð og vinnslukostnað fiskkaupenda á hverjum tíma. Með tilliti til erfiðrar rekstrarafkomu bátaflotans. hefur þó verið teflt á tæpasta vað við verðlagsákvarðanir, þannig að greiðslugetu marga fiskkaupenda hefur verið ofboðið. Síendurteknar, stórfelldar kauphækkanir, sem leiða af sér hækkanir á öllum kostnaðarliðum framleiðslunnar, hafa síðan stórlega raskað umsömdum verðlagsgrundvelli, þannig að einungis þeir tiltölulega fáu, sem bezta aðstöðu hafa, fá undir risið. Fyrirsjáanlegt er, að þrátt fyrir það, þótt fiskverðið yrði óbreytt á næsta ári, þurfa fiskkaupendur að leita til stjórnvalda um aðstoð í einni eða annarri mynd, ef vinnsla sjávarafurða á að hefjast með eðlilegum hætti í byrjun næstu vertíðar. Við fáum ekki séð, að umrædd breyting í l. um verðlagsráð stuðli á nokkurn hátt að því að leysa þann vanda, sem sjávarútvegurinn er nú í vegna verðbólguþróunar hér innanlands. Þvert á móti teljum vér, að þessi mál yrðu öll vandleystari og fyrirhuguð breyting hefði óheppileg áhrif á þróun efnahagsmálanna, eins og ávallt, þegar vara og þjónusta á að greiðast með hærra verði en markaðurinn þolir.

Virðingarfyllst,

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna,

Elías Þorsteinsson.“

Ég taldi rétt að lesa þetta bréf upp, úr því að það kom fram, meðan n. hafði málið til meðferðar, en eins og nál, ber með sér, hefur n. ekki fallizt á þau sjónarmið, sem fram koma í þessu bréfi, þar sem n. mælir með því, að breytingarnar á l. um verðlagsráð sjávarútvegsins nái fram að ganga.

Eins og hv. þdm. hafa sjálfsagt kynnt sér, felst breytingin frá gildandi l. aðallega í því, að í 7. gr. 1. er tekið fram til viðbótar því, sem nú stendur þar, — þ.e. að höfð skuli hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum við ákvarðanir verðlagsráðsins, —

skuli einnig hafa hliðsjón af framleiðslukostnaði þeirra, þ.e.a.s. af útgerðarkostnaðinum. Um þessa aðalbreytingu er enginn ágreiningur í sjútvn. og ekki heldur um hina breytinguna, sem felst í 2. gr., sem er þess efnis, að í stað þess, að oddamaður í yfirnefnd skuli tilnefndur af hæstarétti, svo sem verið hefur, verði það ákveðinn embættismaður, þ.e.a.s. forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans. Þessum tveim meginbreytingum og þeirri brtt., sem sjútvn. flytur, mælum við með og leggjum til, að frv. verði samþ. þannig breytt og því verði síðan vísað til 3. umr.