17.12.1964
Neðri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Jón Skaflason:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu síðasta hv. ræðumanns og eins og nál. það, sem hér liggur fyrir, ber með sér, mælum við fulltrúar Framsfl. í sjútvn. þessarar deildar með samþykkt þessa frv., en áskiljum okkur hins vegar rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

Erindi mitt í ræðustólinn núna er að mæla fyrir einni brtt., sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. flytjum við 2. umr. En þar sem brtt. er of seint fram komin og skriflega flutt, verður að leita fyrir henni afbrigða. Brtt. okkar tvímenninga er við 2, gr. frv. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„a. Fyrir orðin „og oddamanni, sem er forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans“ í niðurlagi 1. efnismgr. komi: og oddamanni, sem verðlagsráð kemur sér saman um.

b. Aftan við mgr. bætist ný mgr., svo hljóðandi: Nú nær verðlagsráð ekki einróma samkomulagi um skipan oddamanns í yfirnefndina innan tveggja sólarhringa, frá því að ákvörðun var tekin um vísun ágreinings til yfirnefndar, og tekur þá forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans sæti oddamanns.“

Eins og suma þm. rekur e.t.v. minni til frá umr., sem hér urðu í desembermánuði 1961, þegar frv. um verðlagsráð sjávarútvegsins var þá til fyrstu meðferðar í hv. d., kom það fram í ræðum, að ég held allflestra ræðumanna, og í þeim tóku þátt talsmenn allra flokka, að þeir töldu frv. þessu fyrst og fremst til gildis, að það væri byggt á mjög víðtæku samkomulagi, sem náðst hefði í umr. á milli fulltrúa fiskseljenda annars vegar og fiskkaupenda hins vegar. Voru allir ræðumenn á einu máli um það þá, að sjálfsagt væri, að Alþingi lögleiddi þá skipan, sem á þessu samkomulagi byggðist.

Frv. um verðlagsráð sjávarútvegsins, sem þá var til meðferðar, var samið af 9 manna nefnd, sem skipuð var af hæstv. sjútvmrh. 9. nóv. 1961. Í n. þessari voru 4 menn tilnefndir af samtökum fiskkaupenda og 4 menn tilnefndir af samtökum fiskseljenda. N. þessi starfaði aðeins um rúman hálfan mánuð, en að þeim tíma liðnum skilaði hún í hendur hæstv. ráðh. fullbúnu frv., sem að meginstofni eru lög þau óbreytt um verðlagsráð sjávarútvegsins, sem nú eru í gildi. Einn af þessum 8 mönnum, sem undirbjuggu frv. um verðlagsráð sjávarútvegsins, hafði þó sérstöðu um tvö atriði, og vil ég litillega minnast á annað þeirra hér, af því að það skiptir máli í sambandi við það frv., sem nú er verið að ræða hér og væntanlega stendur til að samþykkja. Það var Tryggvi Helgason, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, sem vildi hafa nokkuð annan hátt á um skipun yfirnefndar og störf yfirnefndar í sambandi við verðákvarðanir á fiski, ef ekki næðist um það samkomulag í sjálfu verðlagsráðinu.

Lögin um verðlagsráð sjávarútvegsins byggjast á mjög víðtæku samkomulagi, sem m.a. var í því fólgið, að eðlilegt væri, að ef á annað borð starfaði yfirnefnd, skyldi reyna með samkomulagi aðila í verðlagsráðinu að koma sér saman um oddamann yfirnefndar. Frv. það, sem nú er verið að ræða, gerir hins vegar ráð fyrir því að fella þetta samkomulagsatriði niður og að fastur, lögskipaður oddamaður, sem á að vera forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans, skuli undir öllum kringumstæðum vera formaður yfirnefndarinnar. Við flm. þessarar brtt. teljum óheppilegt að girða fyrir þann möguleika, að tekizt geti samkomulag í verðlagsráðinu um skipan oddamanns, og viljum því taka inn í frv. þá breytingu, sem ég var áðan að mæla fyrir. Við erum þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að reyna eins lengi og frekast er unnt að byggja verðákvörðun um fiskverðið á sem víðtækustu samkomulagi þeirra manna, er að því starfa, og við höldum, að sá möguleiki sé fyrir hendi í verðlagsráðinu á hverjum tíma, að þar geti tekizt samkomulag um oddamann, og eigi að halda þeim möguleika opnum, en ekki loka fyrir hann, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa brtt. Hún er ljós og gengur út á það, að það fyrirkomulag, sem er í l. um það, að oddamaður skuli skipaður samkv. samkomulagi fulltrúa í verðlagsráði, ef það er fyrir hendi, skuli haldast áfram.