27.04.1965
Neðri deild: 73. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur á nokkrum fundum sínum athugað og rætt frv. til l. um eignarrétt og afnotarétt á fasteignum, en hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþykkt með þeirri aðalbreytingu, að í hlutafélögum, sem eiga eða hafa afnot af fasteignum hér á landi, skuli a.m.k. 60% hlutafjárins vera í eign íslenzkra ríkisborgara, nema sérstakt leyfi ráðh. komi til, í stað einfalds meiri hl., eins og frv. gerir ráð fyrir. Minni hl. n. vill hins vegar ganga lengra en meiri hl. telur nauðsynlegt í takmörkun á eignahlutum erlendra manna í hlutafélögum, sem eiga eða hafa afnot af fasteignum hér á landi og einnig vill minni hl. n. takmarka mjög eða fella niður með öllu þá helmild, sem í frv. er áskilin atvmrh. til að veita undanþágu frá 1.–4. tölul. 1. gr. frv. fyrir því, að menn megi eiga eða hafa afnot af fasteignum hér á landi. Telur meiri hl. n. ekki ástæðu til niðurfellingar eða takmörkunar á slíkri leyfisheimild ráðh., enda eru sams konar leyfisheimildir til handa ráðh. eða þjóðhöfðingja í hliðstæðum lögum allra hinna Norðurlandanna og ekki er til þess vitað, að slík leyfisheimild hafi hingað til komið að sök hér á landi, en í íslenzkum lögum hefur hún verið a.m.k. frá árinu 1919.

Frv. þessu, ef að l. verður, er annars ætlað að koma í stað gildandi l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna hér á landi, en þau eru nr. 63 frá 1919. Felast í frv. þessu aðallega þær breytingar frá núgildandi löggjöf, að tekin eru upp í því ákvæði, sem miða við ríkisfang sem skilyrði fyrir réttindum yfir fasteign í stað heimilisfangs samkv. gildandi lögum. Jafnframt er ákvæði í frv., að meiri hl. hlutafjár í hlutafélögum skuli vera eign íslenzkra ríkisborgara, ef félögin eiga eða geta án ráðherraleyfis átt fasteignir hér á landi. Er það ákvæði nýmæli miðað við núgildandi lög.

Við 1. umr. þessa máls blönduðust inn í það nokkrar umr. um rétt útlendinga til að stunda atvinnurekstur hér á landi og þá sérstaklega fiskvinnslu og fiskverkun. Þótt þetta atriði snerti ekki beinlínis það efni, sem frv. þetta fjallar um, þótti þó meiri hl. n. rétt að láta prenta sem fskj. með nál. lauslegt yfirlit yfir gildandi lagaákvæði um rétt útlendinga til að stunda atvinnurekstur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Sýnir þetta yfirlit, að í þessum löndum gilda að flestu leyti svipuð ákvæði um þessi efni og hér á landi og þó að sumu leyti rýmri ákvæði í hinum löndunum, en hér á landi og þó sérstaklega í Svíþjóð, eftir því sem mér sýnist í fljótu bragði.

Eins og ég áður tók fram, herra forseti, leggur meiri hl. allshn. til að frv. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna verði samþ. með þeim breytingum, sem meiri hl. n. gerir till. um í nál.