27.04.1965
Neðri deild: 73. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. 1. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. til l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna til umræðu og athugunar. Það er í upphafi flutt sem stjórnarfrv. af hæstv. dómsmrh. og hafði hann um það framsögu. Ekki hefur í n. náðst fullt samkomulag um endanlega afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með einni breytingu og varðar hún eignarhluta íslenzkra ríkisborgara í hlutafélögum. Við hv. 1. þm. Norðurl. v. höfum leyft okkur að flytja brtt. við frv. á þskj. 506 og gerum grein fyrir þeim brtt. í nál okkar á þskj. 505. Vil ég nú fara nokkrum orðum um afstöðu okkar til þessa máls.

Um eignarrétt og afnotarétt fasteigna hafa gilt í okkar landi lög frá 1919 og það er ekki nema að vonum, að sú löggjöf sé ekki nú í sem fyllstu samræmi við breyttar aðstæður, sem eiga fyrir sér væntanlega að breytast þó enn hraðar og meir á komandi tímum. Það eru því flestir sammála um nauðsyn þess, að sett verði ákveðnari og strangari lagaákvæði í þessum efnum. Núgildandi löggjöf um eignarrétt og afnotarétt fasteigna er byggð fyrst og fremst á þeirri höfuðreglu, að heimilisfastir aðilar geti án sérstaks leyfis öðlazt eignarrétt og afnotarétt af fasteignum. En engin sérstök krafa er í l. gerð um þegnrétt eða búsetu tiltekið tímabil. Líku máli gegnir um félög eða stofnanir. Fullnægi aðili ekki þessu skilyrði, svo rúmt sem það nú er, getur ráðh. samt sem áður veitt honum leyfi til eignar- og afnotaréttinda. Að því er bezt verður séð, er þessi heimild ráðh. til undanþáguveitingar nær ótakmörkuð. Af þessu er ljóst, að l. frá 1919 eru á engan hátt sú vörn gegn hugsanlegri ásælni af hálfu erlendra aðila til fasteignaréttinda og afnota hér á landi, sem telja verður þó nauðsynlega. Fram til þessa tíma hefur að vísu ekki, svo að vitað sé, komið til teljandi ásóknar í þessum málum, en eins og ég gat um lítillega áður, eru og geta orðið nokkuð breyttar aðstæður. Nú eru t.d. mjög aukin viðskipti okkar við aðrar þjóðir og mjög er aukinn kunnugleiki útlendinga á landsgæðum hér og margvíslegri hagnýtri aðstöðu og þessi atriði gera auðvitað að verkum, að það er mun brýnni þörf, en áður á að skapa sem öruggast aðhald og setja strangar og svo afdráttarlausar réttarreglur um fasteignaréttindi útlendinga hér í landi sem auðið er.

Á Alþingi 1962–63 báru fjórir framsóknarmenn fram þáltill. í sameinuðu þingi, sem fjal]aði um endurskoðun l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Till. þessi hlaut ekki afgreiðslu á því þingi og hún var enn borin fram á þinginu 1963–1964 og flutt af sömu þm. Úrslit till. og málsins urðu þá þau, að málinu var vísað til ríkisstj. Dómsmrh. hefur svo síðan haft forgöngu um athugun þessa máls alls og fengið sér til aðstoðar sérfræðinga.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru gerðar breytingar á núgildandi löggjöf með nokkurri hliðsjón af því, sem ég hef getið hér um og nauðsynlegt var að hafa til viðmiðunar. Breytingar frv. eru aðallega tvær frá núgildandi lagareglum. Í fyrsta lagi er krafizt íslenzks ríkisfangs í stað heimilisfangs sem skilyrðis fyrir því að öðlast réttindi yfir fasteignum. Þessi breyting er að sjálfsögðu hin eðlilegasta, enda í fullu samræmi við löggjöf hinna annarra Norðurlandaþjóða flestra. Í öðru lagi er í frv. ákveðið, að meiri hl. hlutafjár, þegar um félög með takmarkaða ábyrgð ræðir, skuli vera í eign íslenzkra ríkisborgara og íslenzkir ríkisborgarar fara með meiri hl. atkvæða á hluthafafundum. Þetta er nokkuð veigamikil breyting frá því, sem er nú í lögum. Og þetta eru meginbreytingarnar, sem frv. gerir á núgildandi l. um fasteignaréttindi.

Okkur í 1. minni hl. sýnist, að hér sé, að því er varðar hlutafélögin, gengið of skammt. Við teljum tvímælalaust rétt að herða enn betur að um hlutafjáreign erlendra aðila, þannig að íslenzkir ríkisborgarar eigi a.m.k. hverju sinni, að því er varðar hlutafélög, 3/4 hlutafjár og fari með minnst 60% eða 3/5 atkv. á hluthafafundum.

Samkv. því, sem upplýst er um réttarstöðu útlendinga á hinum Norðurlöndunum, að því er varðar sams konar efni, sýnist þetta koma í ljós: Í Danmörku virðast reglurnar vera nokkuð rúmar og ekki ósvipaðar því, sem er að okkar núgildandi lögum. Aftur á móti í Noregi er það skilyrði, þegar hlutafélag á hlut að máli, að 80% hlutafjár sé norskt og stjórn félagsins öll norsk. Í Finnlandi er það skilyrði að eigi minna en 4/5 hlutafjár séu eign finnskra ríkisborgara og 4/4 atkv. á hluthafafundum séu á hendi finnskra ríkisborgara. Í Svíþjóð er það skilyrði, að minna en ýmist 2/5 eða 1/5 hlutafjár eða atkvæðamagns megi vera í höndum útlendinga.

Þegar litið er á þessi lagaákvæði um efnið hjá frændþjóðum okkar, sjáum við, að ekki á minna að duga eða rýmri skorður vera settar af okkar hálfu. Við verðum líka að líta til þess, að það hlýtur að vera almennt viðurkennt, að við Íslendingar þurfum að hafa uppi nauðsynlega varðstöðu af okkar hálfu um fasteignaréttindi útlendinga hér á land, og þegar litið er til þess og okkar sérstöðu að ýmsu öðru leyti, sýnist þessi hlutafjáreign af hálfu íslenzkra í sambandi við hlutafélög vera eðlilegt mark.

Ég hef ekki séð álit frá 2. minni hl., það var ekki komið á borðið hjá mér, áður en ég fór hér upp í ræðustólinn og ekki hef ég heldur séð þær brtt., sem hans nál. væntanlega fjallar um, þannig að ég get ekki komið inn á þau atriði að svo stöddu. En ég reikna með því, að 2. minni hl. vilji enn þrengri skorður reisa við hlutafjáreign erlendra aðila, hvað sem er um önnur atriði þessa máls.

Þannig fjallar önnur af tveimur höfuðbreytingum, sem við viljum gera á frv. í 1. minni hl., um það, að Íslendingar eigi allténd 3/4 eða 75% af hlutafé í hlutafélagi. Nú hefur meiri hl. allshn. komið fram með brtt. við frv., þannig að 60% af hlutafé skuli vera minnst á hendi íslenzkra ríkisborgara. En í frv. er um það getið eða krafa gerð um, að það sé yfir 50% eða meiri hl. hlutafjár, þannig að meiri hl. hefur aðeins þrengt hlutafjáreign erlendra aðila.

Þá kem ég að hinni meginbreytingu okkar í 1. minni hl. Frv. gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu um það, að ráðh. hafi nánast ótakmarkaðan rétt til þess að veita undanþágur frá þeim skilyrðum, sem frv. gerir ráð fyrir í 1.–4. tölul. 1. gr. frv. Það er sem sagt engin breyting frá því, sem nú er, að ráðh. virðist eiga að vera það í sjálfsvald sett að leyfa undanþágur frá þessum skilyrðum. Þessi leyfi ráðh. hafa sjálfsagt hingað til ekki komið að neinni sök, hafi þau verið veitt, a.m.k. ekki svo að ég viti til. En okkur í 1. minni hl. finnst það meira en varhugavert að láta ráðh. hafa heimild til að veita þær undanþágur, sem hér um ræðir, frá öllum þessum skilyrðum, ef verkast vill, þ.e.a.s. ríkisborgararéttindaskilyrðinu, skilyrðinu um hámarkshlutafjáreign útlendinga o.s.frv. Við teljum, að þessi óhefta heimild ráðh. til undanþágu sé í raun og veru fráleit, því að með henni getur hann hvenær sem er vikið frá þessum skilyrðum, sem löggjafinn hlýtur þó að telja mjög mikilvæg og að yfir leitt séu fyrir hendi. Við í 1. minni hl. hljótum að álíta, að löggjafinn telji rétt að leggja á það þunga áherzlu, að þessi skilyrði séu fyrir hendi og framkvæmdavaldinu að því leyti markaður sem þrengstur bás. Og ég tel, að fyrir ráðh. sé það í raun og veru ekki illt að þola að þurfa að leita til Alþingis með undanþágur, ef með þarf. Að taka ákvörðun í ýmsum slíkum málum, sem upp kunna að koma, getur orðið æði erfitt fyrir ráðh. og ætti hann því að vera sæmilega ánægður með það að þurfa ekki að hafa fyrir því að veita undanþágur frá skilyrðum. Mörg mál slík geta komið upp, að honum þætti það betra en ekki. Og þó að hinar Norðurlandaþjóðirnar hafi eitthvað rýmri heimildir um undanþágur úr hendi ráðh., þegar lögmælt skilyrði eru ekki til staðar, teljum við í 1. minni hl., að við Íslendingar getum engan veginn fylgt þeirra fordæmi vegna margvíslegrar sérstöðu okkar. Auk þess er það ekki komið í ljós, hvernig leyfisreglur að þessu leyti eða undanþágur af hálfu ráðh. á hinum Norðurlöndunum eru framkvæmdar. Það má vel vera, að það séu svo þröngar skorður í framkvæmd um þessi ráðherraleyfi, að það jafngildi nánast því, að þau séu bönnuð. En um þetta veit ég ekki svo, en okkur í 1. minni hl. þykir rétt að vera ekki að hafa neina tæpitungu um þetta, heldur að leitað sé til löggjafans yfirleitt, en ráðh. veiti ekki undanþágur frá skilyrðum nema í mjög takmörkuðum efnum. Og það er þegar þannig stendur á, að um erfðagóss er að ræða eða eign í sambandi við hjúskap eða í þriðja lagi, að aðili hafi öðlazt fasteignaréttindi fyrir gildistöku l. Þá getur ráðh., ef hann sér ástæðu til, veitt undanþágu frá þeim skilyrðum, sem getur í 1. gr. frv.

Ég vil geta þess, ef sérstaklega stendur á um aðila, t.d. erlendan einstakling og okkur sé mikið í mun að halda honum hér og hann hafi nauðsynleg eignarréttindi og afnota af fasteignum, að þá er leið til og nokkuð skjót eftir atvikum og það er, að viðkomandi einstaklingur fái hreinlega ríkisborgararétt, þannig að þetta ætti ekki að verða mjög þungt í vöfum um framkvæmd, þó að ráðh. hefði ekki heimild að veita leyfin, en löggjafinn héldi vandlega þeim rétti í sinni hendi.

Þetta eru þá tvær meginbrtt. okkar í 1. minni hl. við þetta frv. Það er annars vegar hinn aukni meiri hl. um hlutabréfaeign á hendi íslenzkra ríkisborgara, upp í 75% og hins vegar að hefta heimild ráðh. til þess að veita leyfi til undanþágu frá skilyrðunum í 1. gr. Aðrar till. okkar eru til samræmis þessum höfuðbrtt. og orðalagsbreyting á einum eða tveim stöðum. Að öðru leyti fylgjum við að sjálfsögðu frv.

Ég vil svo að lokum geta þess, að í frv. er ekki fjallað um atvinnurekstrarréttindi útlendinga og réttarstöðu þeirra í því sambandi. Það mun þykja betur fara á því og sennilega er það eðlilegt, að þær réttarreglur verði sérstaklega athugaðar. En víst er um það, að brýna nauðsyn ber til að semja og setja heildarlöggjöf um atvinnurekstrarréttindi útlendinga hér á landi og það verði gert sem allra fyrst.