27.04.1965
Neðri deild: 73. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

131. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Lög nr. 63 frá 1919, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, eru löngu orðin úrelt, eins og flestir munu viðurkenna og vissulega þörf á mikilvægum breytingum. Sérstaklega er nauðsynlegt að kveða nokkru skýrar á um rétt erlendra manna til að eignast fasteignir á Íslandi. Frsm. meiri hl. og 1. minni hl. allshn. hafa nú gert nokkra grein fyrir því, í hverju þessar breytingar eru fólgnar, sem frv. gerir ráð fyrir, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það.

Meginstefna Alþb. í þessu efni hefur oft komið fram og mun flestum vera kunnug. Alþb. telur farsælast að hafa það viðhorf að leiðarljósi, að fasteignir og náttúruauðæfi hér á landi skuli Íslendingar einir eiga. Þó telur Alþb. eðlilegt að gera undantekningu í nokkrum einstökum tilvikum. Ráðh. ætti t.d. að vera heimilt að veita erlendum mönnum leyfi til að eignast fasteignir á Íslandi, sem þeir öðlast við hjúskap og erfðir. Einnig kæmi til greina að leyfa erlendum mönnum, búsettum hér, að eignast íbúðir til eigin afnota. Sjálfsagt væri í samræmi við alþjóðavenjur að leyfa erlendum sendiráðum að eiga hér húseignir og hið sama gildir raunar um fasteignir í eigu alþjóðlegra stofnana, sem Ísland er aðili að og ætlaðar eru til afnota fyrir menningar- og heilbrigðisstarfsemi. Við teljum hins vegar að, að öðru leyti beri ekki að víkja frá þessari sjálfsögðu meginstefnu, nema alveg sérstök ástæða sé til og þá verði Alþingi að íhuga það hverju sinni, hvort ástæða sé til að gera slíka undantekningu. Sé það álít manna, að fjárfesting hinna erlendu manna sé óveruleg eða e.t.v. þess eðlis, að hún gæti talizt hættulaus, ber að sjálfsögðu að samþykkja um það lagafrv. hverju sinni. Sem dæmi um slíka málsmeðferð mætti nefna l. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sem voru samþykkt á s.l. ári hér í þinginu. Þar var einmitt gert ráð fyrir óverulegri hlutafjáreign erlendra manna, en íslenzka ríkið átti að eiga meiri hl. hlutafjár og sveitarfélög áttu einnig að eiga þess kost að taka þátt í þessu hlutafélagi. Þar sem hér var um mjög óverulegt atriði að ræða, mælti Alþb. ekki sérstaklega gegn þessari tilhögun.

Í allshn. varð enginn ágreiningur um meginefni frv. sjálfs, að ríkisborgararéttur verði að vera skilyrði fyrir eignarrétti og afnotarétti fasteigna í staðinn fyrir búsetu, sem áður var. Þessi tilhögun, að binda skilyrðið við ríkisborgararétt, hefur um árabil verið bæði í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og á enn frekar við hér á Íslandi. Hins vegar urðu nm. ekki á eitt sáttir um það atriði, sem í frv. segir, að allt að 49% hlutafjár í hlutafélögum geti verið í eigu erlendra ríkisborgara, ef um takmarkaða ábyrgð er að ræða. Ég flutti till. um það í n., að allt hlutaféð skyldi vera í eigu íslenzkra ríkisborgara og þyrfti þá sérstaka lagasetningu hverju sinni, ef út af ætti að bregða. Ég benti á og vil enn benda á það, að nú má ekki selja nokkra jörð úr eigu ríkisins, hvorki stórbú né örreytiskot í útkjálkabyggð, án þess að um það sé fjallað við 6 umr. á Alþ. Tæpast væri ástæða til minni varkárni, þegar hleypa á erlendum auðmönnum inn í íslenzk hlutafélög og því virðist sjálfsagt, að Alþ. fjalli um það hverju sinni, ef undantekningu á að gera.

Fulltrúar Framsfl. í n. tóku sér stöðu miðja vegu á milli þessara tveggja sjónarmiða og lögðu til, að ekki minna en 75% yrðu að vera í eigu íslenzkra ríkisborgara og af stjórnarmönnum yrði hið fæsta 60% að hafa ríkisborgararétt. Ég tel það athyglisvert, að bæði fulltrúar Framsfl. og stjórnarflokkanna vilja ganga skemur, en gert er í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, en þar er, eins og kunnugt er og kom einmitt fram í þessum umr., yfirleitt miðað við það, að meira en 80% atkv. á hluthafafundum tilheyri ríkisborgurum viðkomandi lands í hlutafélagi, ef ekki á að þurfa að sækja um sérstakt leyfi. Verður þó að segjast, að það hlýtur að vera miklu meiri ástæða til varkárni á Íslandi heldur en hjá frændum okkar á Norðurlöndum, sem eru 20–40 sinnum fjölmennari og eiga auðvitað ólíkt hægara með að hafa í fullu tré við erlenda fjármagnseigendur. Ekkert samkomulag varð um þetta atriði í n., eins og fram hefur komið, en áður en umr. lauk í n., gerðu fulltrúar stjórnarflokkanna till. um að hækka lágmarkshlutafjáreign íslenzkra ríkisborgara í 60%. Að þessu leyti skilar því n. þrenns konar álíti, þar sem fulltrúar stjórnarflokkanna miða við 60% hlutafjáreign íslenzkra ríkisborgara hið minnsta í hlutafélögum, fulltrúar Framsfl. miða við 75% og ég geri aftur till., að allt hlutaféð sé í eigu íslenzkra ríkisborgara.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að ráðh. hafi ótakmarkaða heimild til að veita erlendum mönnum leyfi til að eiga og nota íslenzkar fasteignir, ef honum þóknast svo og þvert ofan í önnur ákvæði frv. Með þessu eru takmörk frv. fyrir eignarrétti útlendinga nánast að engu gerð að mínu álíti. Ráðherrar eru misjafnir, eins og við vitum. Þeir koma og fara, sumir eru varkárir og aðrir eru ístöðulitlir. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna voru sammála um að gagnrýna þetta ákvæði mjög harðlega og töldu það óhæfu, að ráðherra gæti vikið skilyrðum laganna til hliðar, töldu sem sagt sjálfsagt og eðlilegt, að leitað yrði til Alþingis, ef bregða ætti út frá ákvæðunum. Framsóknarmennirnir, hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Sunnl., hafa flutt tillögu um þetta atriði, brtt., sem ég styð eindregið, en samkvæmt henni er ráðh. því aðeins heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum laganna, að um það sé að ræða, að erlendir menn hafi komizt yfir fasteignir við hjúskap eða erfðir.

Þessa dagana hafa stjórnarflokkarnir í undirbúningi að leyfa erlendum mönnum að reisa stóriðjuver á Íslandi og ýmsir sérfræðingar ríkisstj. fara alls ekki dult með það, að þetta risafyrirtæki eigi að ryðja brautina fyrir erlenda auðmenn í íslenzkum atvinnuvegum. Íslenzkir fjármagnseigendur láta ósjaldan stjórnast af þröngsýnum gróðahagsmunum og sérsjónarmiðum, eins og við vitum. En þeir eru ríkisborgarar þessa lands og þeir hafa beinan og óbeinan hag af vexti og viðgangi íslenzkra atvinnuvega. Íslenzkir hagsmunir eru yfirleitt þeirra hagsmunir, bæði af fjárhagslegum, siðferðilegum og oft tilfinningalegum ástæðum. Hins vegar er alþjóðlegt auðmagn varhugavert, vegna þess að það spyr aldrei um íslenzka hagsmuni, hag þjóðarinnar. Og íslenzkir atvinnurekendur verða að sjálfsögðu ekki þjóðlegri í hugsun eða athöfn við það að blanda blóði við erlent auðmagn í íslenzkum atvinnuvegum. Réttur útlendinga til þátttöku í íslenzkum hlutafélögum og ótakmörkuð heimild ráðh. til að veita undanþágu samrýmist illa íslenzkum hagsmunum að mínu áliti. Í báðum þessum tilfellum verður Alþingi að hafa rétt til eftirlits og úrslitaákvörðunar um það, hvort og að hve miklu leyti erlendu fjármagni skuli hleypt inn í landið. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt., sem hefur víst ekki verið prentuð og er ekki búið að útbýta, en hljóðar svo, með leyfi forseta, það er brtt. við 4. tölul. 1. gr.: „Ef félag er, þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins eða stofnun, þá skal félagið eða stofnunin eiga hér heimilisfang og varnarþing og allir félagar, hluthafar eða aðilar vera íslenzkir ríkisborgarar.“

Um hitt atriðið, þ.e.a.s. heimild ráðh. til að veita undanþágur, er það að segja, eins og ég sagði áðan, að ég styð eindregið þær brtt., sem fulltrúar Framsfl. hafa þegar lagt fram. Ég sá ekki ástæðu til að fara að leggja fram eigin tillögur, sem yrðu í aðalatriðum mjög svipaðar, og vil aðeins lýsa stuðningi mínum við þessar till. á þskj. 506, að undanteknu þessu atriði, sem ég nefndi áðan og ég flyt sjálfur brtt. um.

Umr. frestað, en frv. var ekki á dagskrá tekið framar.