13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

180. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til, að lögfest verði gagnger breyting á allri iðnfræðslu í landinu.

Ég hygg, að allir séu sammála um það, að fá verkefni séu nú brýnni eða stærri í íslenzkum fræðslumálum, en að bæta tæknimenntun landsmanna mjög verulega frá því, sem verið hefur. Aukin velmegun á Íslandi er sannarlega undir fáu meir komin, en einmitt því, að merk menning og tæknimenntun þjóðarinnar taki sem allra mestum og stærstum framförum á næstu árum.

Fyrir nokkrum árum samþykkti hið háa Alþ. samhljóða löggjöf um stofnun Tækniskóla Íslands, en tækniskólanum er einmitt ætlað það verkefni að bæta úr mjög brýnni þörf hér fyrir tæknifræðinga. En samhliða því er nauðsynlegt að stórbæta nám iðnaðarmanna frá því, sem verið hefur, en því hefur að ýmsu leyti verið talsvert ábótavant. Í raun og veru hafði ég gert ráð fyrir því, að lagasetning um tækniskóla, sem fjallaði um hina æðri tæknimenntun og lagasetning um nýskipan iðnfræðslunnar gætu orðið nokkuð samferða. Raunin varð sú, að tækniskólamálið varð tilbúið til meðferðar á hinu háa Alþ. nokkru fyrr, enda reyndust hv. alþm. á einu máli um að hraða gangi þess gegnum Alþ.

Nú er svo komið, að fulllokið er undirbúningi undir algera nýskipun iðnfræðslunnar og felast till. um það í því frv., sem hér liggur fyrir. En upphaf þessa máls er það, að 31. okt. 1961 skipaði ég 5 manna n. til að endurskoða öll gildandi lög um iðnskóla og iðnfræðslu. Í n. voru skipaðir formaður Landssambands iðnaðarmanna, Guðmundur Halldórsson, formaður iðnfræðsluráðs, Óskar Hallgrímsson, skólastjóri iðnskólans í Reykjavík, Þór Sandholt, formaður iðnsveinaráðs Alþýðusambandsins, Snorri Jónsson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins og síðan skipaði ég sem formann nefndarinnar Sigurð Ingimundarson efnafræðing og alþm. N. lauk störfum á s.l. hausti og ég hika ekki við að segja, að n. vann gagnmerkt starf, sem ég sé sérstaka ástæðu til að færa henni þakkir fyrir.

Verkefni n. var fyrst og fremst að rannsaka, hvort unnt væri að samræma og sameina verknámsskóla gagnfræðastigsins og forskóla fyrir væntanlega iðnnema og þá með hvaða hætti. Og í því sambandi skyldi hún sérstaklega athuga, hver nú sé þörfin fyrir skólabyggingar vegna verknámsins annars vegar og slíks forskóla hins vegar og hver sé líkleg þróun þessara mála í næstu framtíð. Þá átti n. að rannsaka og gera till. um, hvaða breytingar væru æskilegar á núverandi tilhögun iðnfræðslunnar, bæði að því er tæki til verklega námsins og iðnskólanna og hafa þá hliðsjón af þeim breytingum í þessum efnum, sem átt hafa sér stað í nálægum löndum. N. var sérstaklega falið að athuga, að hversu miklu leyti æskilegt væri að auka verklegt nám í iðnskólunum sjálfum og þá í hvaða greinum, og enn fremur, hvort hagkvæmt væri að kenna einhverjar iðngreinar að öllu leyti í skólum og þá hvaða iðngreinar. Þá var þess óskað, að n. gerði sér grein fyrir hugsanlegum fjölda iðnnema á næstu árum, þannig að fá megi nokkra hugmynd um þörfina fyrir nauðsynlegar verkstæðisbyggingar, staðsetningu þeirra og annað, sem máli skipti í því sambandi. Að síðustu óskaði ráðuneytið svo þess, að n. gerði till. um framkvæmdaatriði á grundvelli álits og till. þeirrar n., sem starfað hafði áður og falið hafði verið að gera till. um meistaranám og rannsakaði, hvaða námskeið væri æskilegt að halda að staðaldri við iðnskólana fyrir starfandi iðnaðarmenn og e.t.v. aðra í þeim tilgangi, að þeim gæfist kostur á að fylgjast sem bezt með tæknilegum framförum.

Eins og ég sagði áðan, hóf n. þegar mjög rækilegt og ýtarlegt starf og leitaði álíts og samstarfs við alla þá aðila, sem gera mátti ráð fyrir að mál þessi snertu, þ.e.a.s. við meistarafélögin, við sveinafélögin, við iðnskólana, við Vinnuveitendasamband Íslands, við Alþýðusamband Íslands, við Landssamband iðnaðarmanna, við Iðnnemasamband Íslands og við Verkfræðingafélag Íslands. Ég sé ekki ástæðu til að rekja störf n. að því leyti, hvað hver einstakur aðili af þessum, sem rækilegt samstarf var haft við, lagði til málanna, en þó er unnt að draga saman meginniðurstöðuna, sem varð af þessum viðræðum n. við alla þessa aðila. Það virtist vera sameiginleg skoðun allrar n. og allra aðila, sem um þetta mál fjölluðu, að auka bæri verklega kennslu í iðnskólunum, sér í lagi kennslu í undirstöðuatriðum iðngreinanna. Þá virtust yfirleitt allir telja, að undirbúningsmenntun iðnnema væri nokkuð ábótavant, sérstaklega vegna þess, hve stór hópur kæmi beint af skyldunámsstigi í iðnskólana og hefði því nokkru lélegri undirbúning, en að var raunverulega stefnt með iðnskólalöggjöfinni frá 1955. Þá virtust allir aðilar vera sammála um það, að allt of mikill tími iðnskólanna færi til þess að kenna almennar námsgreinar, sem nemendur ættu í raun og veru að læra á miðskólastigi og af þessum sökum væri ekki unnt að koma við þeirri bóklegu fagkennslu, sem iðnaðurinn þarfnaðist. Enn fremur voru menn þeirrar skoðunar, að það væri of tilviljanakennt, hvað nemarnir lærðu á vinnustöðum og ekki samræmi í því frá einum vinnustað til annars. Stafaði þetta að sjálfsögðu m.a. af sérhæfðum verkefnum einstakra verktaka og mismunandi aðstæðum og getu til þess að láta í té fullnægjandi verklega kennslu.

Nefndin lét að sjálfsögðu ekki við það sitja að hafa mjög náið samstarf við alla þá innlendu aðila, sem ég nefndi áðan og taka tillit til umsagna þeirra og óska, heldur leitaði n. sér einnig víðtækra upplýsinga um tilhögun þessara mála í nágrannalöndum, einkum þar sem aðstæður eru svipaðar því, sem hér á sér stað og þó fyrst og fremst í Noregi, og miðaði við það í tillögugerð sinni.

Sökum þess að ég hef látið prenta með frv. sem fskj. skýrslu iðnfræðslunefndarinnar í heild, sé ég ekki ástæðu til að rekja öll þau atriði, sem þar koma fram, heldur læt nægja að greina í stuttu máli frá helztu breytingunum, sem þetta frv. mundi hafa í för með sér á iðnfræðslunni, ef frv. næði fram að ganga. Helztu breytingarnar eru þessar: Að iðnfræðslukerfið taki ekki einvörðungu til náms í löggiltum iðngreinum, heldur og til starfsþjálfunar vegna annarra greina iðnaðarins, þar sem kennd verði undirstöðuatriði iðnaðarstarf, og er þetta atriði í raun og veru kjarni og aðalatriði þeirrar nýskipunar iðnfræðslunnar, sem hér er um að ræða. Að stofnað verði til skipulegrar kennslu fyrir verðandi iðnmeistara, þ.e.a.s. að stofnað verði til meistaraskóla. Í frv. er lagt til, að starfræktur verði einn iðnfræðsluskóli í hverju núverandi kjördæmi landsins. Að öll iðnfræðsla lúti yfirstjórn menntmrh. og menntmrn. Að komið verði upp samræmdri yfirstjórn og framkvæmd iðnfræðslunnar, iðnfræðsluskrifstofu, sem iðnfræðslustjóri veiti forstöðu. Að fjölgað verði í iðnfræðsluráði úr 5 í 7 og fá Félag ísl. iðnrekenda og Samband iðnskóla þar fulltrúa. Að komið verði á fót fræðslunefnd innan hverrar iðngreinar, sem geri till. um námsefni, bæði að því er varðar verklegt og bóklegt nám. Að reynslutími samkv. iðnnámssamningi lengist úr 3 mánuðum í 6 mánuði. Og að síðustu, að sú heimild, sem nú er í iðnfræðslul., að veita megi viðtöku í iðnskóla nemendum, sem hafa ekki lokið miðskólaprófi, verði takmörkuð við nemendur, sem eru fullra 18 ára, þegar þeir hefja iðnnám og enn fremur, að slík undanþága verði því aðeins veitt, að fyrir liggi samþykki viðkomandi iðngreinar. Þetta eru aðalatriði þessa frv. og meginbreytingarnar, sem taka mundu gildi, ef það næði fram að ganga.

Ég lét þess getið í upphafi, í samráði við hvaða aðila þetta frv. er samið af þeirri n., sem er höfundur þess. Þegar n. hafði lokið störfum sínum og samið skýrslu sína, var þessi skýrsla send til allra þeirra aðila, sem upphaflega hafði verið leitað til og samstarf haft við og sömuleiðis, þegar lokið hafði verið af sérfróðum mönnum við að semja lagafrv. á grundveili álíts iðnfræðslun., var það lagafrv. einnig sent til allra þeirra aðila, sem talið var að áhuga mundu hafa á málinu eða kynnu að vilja koma aths. sínum á framfæri. Og allir þessir aðilar hafa látið í té umsögn sína og eru umsagnirnar prentaðar sem fskj., en þessar umsagnir eru frá Alþýðusambandi Íslands, frá iðnfræðsluráði, frá Landssambandi iðnaðarmanna, frá Félagi ísl. iðnrekenda, frá Sambandi iðnskóla og skólanefnd iðnskólans í Reykjavík. Allir þessir aðilar hafa lýst samþykki sínu við þá meginstefnu, sem fram kemur í frv. og lýst fylgi sínu við það, að frv. nái fram að ganga. Samband iðnskóla hefur gert nokkrar minni háttar aths., fyrst og fremst við orðalag á einstaka gr. frv., sem ég vona að hv. menntmn. taki til athugunar við meðferð málsins. Ég hygg því, að óhætt sé að segja, að þetta frv. hafi hlotið mjög rækilegan og að ýmsu leyti nokkuð óvenjulegan undirbúning að því leyti, að þeir aðilar, sem venja er að nefndir leiti umsagnar hjá, hafi þegar ýmist verið með í samningu frv. eða fengið aðstöðu til að fjalla um það, eftir að samningu þess var lokið. Og ég tel óhætt að fullyrða, að það sé ánægjuefni, að fullt samkomulag skuli hafa náðst milli forustumanna iðnskólanna annars vegar og forustumanna iðnaðarmanna hins vegar um þá stefnubreytingu í iðnfræðslumálum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta gefur mér ástæðu til að vænta, að þetta frv. fái góða afgreiðslu hjá hinu háa Alþ. og eigi greiðan gang gegnum þingið.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.